Í Flóanum

Færslur: 2018 Júní

29.06.2018 20:26

Fótboltasumar/rigningasumar

Ég hef aldrei haft mikinn áhuga á að horfa á fótboltaleiki í sjónvarpinu. Ég reyndar horfi yfirleitt ekki á íþróttir í sjónvarpi og hef aldrei gert. Ég er samt áhugamaður um íþróttir og er sannfærður um gildi þeirra. Ég fer heldur ekki á fótboltaleiki og ég á mér ekkert uppáhaldslið, hvorki hér á landi eða annarsstaðar í heiminum.

Arnór Leví sonarsonur minn er hinsvegar mikill áhugamaður um fótbolta. Hann æfir og spilar fótbolta með félögunum sínum á Selfossi. Hann getur spilað fótbolta einn með sjálfum sér  tímunum saman. Hann heldur með einhverjum liðum í flestum sterkustu deildum heims. Og hann þekkir með nafni fjölda leikmanna viðsvegar um heiminn.

Nú í sumar fara saman miklar rigningar hér sunnanlands og mikil umfjöllum um fótbolta. Þar kemur til þátttaka Íslenska landsliðsins á HM í Rússlandi. Og nú bregur svo við að ég er farinn að horfa á fótboltaleiki í sjónvarpinu. Ég hef meira að segja farið á völlinn að horfa á landsleik og nú er fyrirhugað að mæta á fjölmennt fótboltamót sem reyndar er haldið á Akureyri en ekki Rússlandi og stendur í fjóra daga.

Ástæður þessa sinnaskipta hjá mér eru ekki bara að ég nenni ekki út í rigninguna og horfi því bara á sjónvarpið alla daga. Atburðarásin var hinsvegar þessi.

Í vor gerðu Parinsonssamtökin þar sem ég er í stjórn og Knattspyrnusamband Íslands með sér samstarfssamning. Parkinsonsamtökunum gefst þar tækifæri að nýta sér þá miklu athygli sem Íslensk knattspyrna fær með þáttöku í lokakeppni HM. Samtökin nota þetta tækifæri til þess að vekja athygli á sjúkdómnum og eðli hans og einnig til þess að safna fé sem nýta á til þess að koma á laggirnar sérstöku Parkinsonsetri hér á landi.

Í upphafi síðasta landsleik karlalandsliðsins hér á landi, áður en liðið hélt til Rússlands á HM, var tækifærið notað til að vekja athygli á þessu. Ég var því mættur þarna á minn fyrsta landsleik og ég tók að sjálfsögðu Arnór sonarson minn með mér sem perónulegan sérfræðing í fótbolta. Þetta var reyndar hans fyrsti landsleikur líka en hann var ekki í nokkrum vafa hvernig menn haga sér á samkomum sem þessum. Við skemmtum okkur prýðilega báðum, þó leikurinn hafi reyndar tapast.

Þegar HM hófst svo í Rússlandi fylgdumst við báðir grant með. Arnór var óþreytandi að upplýsa mig um hinar ýmsu fótboltastjörnur og þeir voru ófáir leikirnir sem við horfðum á, að hluta til að minnsta kosti.

Nú í byrjun Júli er svo N1 mótið á Akureyri þar sem Arnór sjálfur ætlar að keppa. Pabbi hans ætlaði að fylgja honum þangað en vegna óþurrkanna í sumar er heyskapur ekki langt kominn hér á bæ. Í venjulegu árferði væri honum löngu lokið. Nú stefnir allt í að þessa daga sem mótið á Akureyri fer fram geti viðrað til heyskapar hér sunnanlands.

Það hefur því orðið að samkomulagi, til að þessir heyskapardagar nýtist nú vel, að ég fylgi sonarsyninum á fótboltamótið til Akureyrar en pabbi hans taki vaktina heima og reyni að ná sem mestum heyjum ef færi gefst.

Þannig að þetta rigningarsumar er sannkallað fótboltasumar hjá okkur Arnóri. VIð ætlum að skemmta okkur vel á Akureyri og njóta þess að eiga þessar stundir saman.  emoticon


  • 1
Flettingar í dag: 144
Gestir í dag: 4
Flettingar í gær: 82
Gestir í gær: 17
Samtals flettingar: 49800
Samtals gestir: 5988
Tölur uppfærðar: 6.2.2023 04:25:35
clockhere

Í Flóanum

Nafn:

Aðalsteinn Sveinsson

Farsími:

8607714

Heimilisfang:

Kolsholti I

Staðsetning:

Flóahreppur

Heimasími:

4863304

Tenglar