Í Flóanum

Færslur: 2017 Ágúst

26.08.2017 20:58

Mannlýsing

Ég hef stundum gaman af að lesa vel skrifaðar mannlýsingar jafnvel að fólki sem ég þekki ekkert og löngu dáið. Ég reikna samt alltaf með að lýsingin lýsi e.t.v. betur þeim sem skrifar en þeim sem skrifað er um. Fólk hefur misjafnar skoðanir á öðru fólki. Þeim sem einum finnst mikils veður getur öðrum fundist einskis verður.

Fyrr í sumar rakst ég á í bók sagt frá langafa mínum Auðunni Þórarinssyni, fæddur 1858 á Eystra-Hrauni í Landbroti V-Skaft og dáinn 1938. Hann lést 21 ári áður en ég fæðist þannig að ég kynnist honum aldrei.

Það er bróðursonur Auðuns, Þórarinn Helgason í Þykkvabæ sem lýsir honum þannig:

"Hann var gildur á vöxt, dökkur yfirlitun, rösklegur í hreyfingum og lotinn snemma. Hugmaður var hann og vel að manni. Minni hafði hann svo gott, að hann gat haft upp orðræður manna námkvæmlega og jafnvel langar ræður."

Auðunn var af þeirri manngerð að vilja ætíð sjá fótum sínum forráð. Hann skuldaði aldrei neinum neitt og hélt eyðslunni í föstum skorðum, svo að tekjur og gjöld héldust í hendur. Stórframkvæmdamaður var hann ekki, en gerði þó umbætur á jörð sinni eftir því sem efni stóðu til. Bú hans var traust og skepnurnar þokkalega fóðraðar og heyleysi aldrei.

Auðunn var hestamaður sem þeir bræður allir og átti góða hesta og fallega.

Óhætt er að fullyrða að Auðunn var kirkjuræknastur sinna sveitunga þá tíð, sem ég man og mannfundi alla sótti hann af áhuga.

Auðunn var um skeið í hreppsnefnd.

Hann var maður sérlaga vinsæll, enda gætti hann þess ætíð vel að styggja engann að ástæðulausu. Vera má, að hann hafi stundum játað fleiru en sannfæringin þekktist til að halda friðinn, en hitt er og víst að hann skorti ekki dirfsku til að halda fram skoðun sinni, ef í odda skarst og honum þótti máli skipta. Og Auðunn var vel að kominn vinsældum sinum, því að velviljaðri mann og öfundarlausari hef ég naumast þekkt.

Góða tíð ræddi hann aldrei um frá eiginhagsmunasemi, heldur vegna "almennings". Að "almenningur komist vel af, er allra nauðsyn mest" sagði hann oft. Eða " ef kognarnir fara allir á sveitina, þyngist fyrir þeim efnaðri. "  Auðunn var svo dásamlega laus við þá illkvittni, er suma menn þjáir, að líta allt öfundaraugum í annars garði. Aftur á móti leyndi sér ekki gleði hans, er hann hafði þau tíðindi að segja, að einhverjum vegnaði vel.

Hestfær var Auðunn til síðustu stundar og það svo að hann var nýstiginn af hestbaki, er hann snogglega andaðist, þá rúmlega áttræður að aldri, nýkominn heim frá guðsþjónustu í þykkvabæ, en þá var oft messað í skólahúsinu þar.


  • 1
Flettingar í dag: 67
Gestir í dag: 4
Flettingar í gær: 82
Gestir í gær: 17
Samtals flettingar: 49723
Samtals gestir: 5988
Tölur uppfærðar: 6.2.2023 03:43:11
clockhere

Í Flóanum

Nafn:

Aðalsteinn Sveinsson

Farsími:

8607714

Heimilisfang:

Kolsholti I

Staðsetning:

Flóahreppur

Heimasími:

4863304

Tenglar