Í Flóanum

Færslur: 2016 Febrúar

18.02.2016 13:58

Hvanndalir

Hvanndalir voru um aldir eitt afskektasta byggða ból á Íslandi. Það rifjaðist upp fyrir mér fyrr í vetur, þegar ég las frétt um að Siglfirðingar hefðu sótt þangað kindur, að ég hafði heyrt af því, að tengdaforeldrar mínir hefðu einhverju sinni verið þar við heyskap.

Hvanndalir eru á milli Héðinsfjarðar og Ólafsfjarðar handan Víkurbyrðu í Héðinsfirði sem er 890 m hátt fjall. Til að komast í Hvanndali úr Héðinsfirði þarf annað hvort að fara yfir "Byrðuna" eða um Hvanndalaskriður. Frá Ólafsfirði Í Hvanndali er gengið fyrst í Fossdal og áfram upp úr Fossdalsbotni yfir í Hvanndali. 

Í Hvanndölum er talað um þrjá dali, Yst er Hvanndalur og sunnan úr honum er lítið dalhvolf er heitir Selskál. Syðst er Sýrdalur sem er grynnstur og aðeins slakki á bak Hvanndalabjörgum. Hvanndalabjörg (755m) ganga í sjófram sunnan við Hvanndali og norðan vjð Fossdal.

Ég tek það fram að ég haf aldrei komið þarna eða farið þessar leiðir. Þetta eru aðeins leiðir og staðhættir sem ég hef lesið mér til um á netinu. En gaman væri nú að fara þetta einhvern tímann ef/og þegar maður hefur heilsu til.

Mér skilst að byggð í Hvanndölum hafi í gegnum aldir verið stopul vegna einangrunnar. Landkostir voru þar samt taldir miklir að ýmsu leiti og grösugt. Ódáinsakur er í Hvanndölum og stóð þar bær. Þar uxu lífgrös og sá er þeirra neytti gat ekki dáið. Fór svo að þessi bær lagðist í auðn vegna þesss að enginn taldi sig geta búið við slík örlög.

Síðast var búið í Hvanndölum 1896. Þá keypi sveitarfélaið jörðina gagngert til þess að setja hana í eyði. U.þ.b.10 árum seinna var jörðin seld bónda í Ólafsfirði og muni Ólafsfirðingar hafa haft hana eitthvað til heyskapar á fyrri hluta síðustu aldar.Tengdaforeldrar mínir, Júlíus Sigmar Stefánsson (f.1912, d 1989) Tengdapabbi () og Guðfinna Björg Þorsteinsdóttir (f.1916, d. 1984) hófu sinn búskap á Kleifum í Ólafsfirði um miðjan fjórða ártug síðustu aldar. Óli mágur minn  ( Ólafur Júlíusson f. 1936 ) sagði mér frá því að hann mundi eftir því að eitt sumarið fór hann með foreldrum sínum í Hvanndali til heyskapar. Hann var þá sennilega 6 eða 7 ára ganall.

Þau fóru gangandi frá Kleifunum. Július bar á bakinu koffort með vistum og öðru sem til þurfti til viku dvalar. Guðfinna bar tjald og annan viðlegubúnað og leiddi strákinn. Auk þess báru þau með sér heyvinnuamboðin, kaðla og allt annað sem þurfti til heyskapar. 

Þau voru svo í Hvanndölum í viku tíma og unnu alla daga að heyskapnum. Óli hefur sjálfsagt verin látinn hjálpa til eins og hann hafði getu til. Hann sagði mér þó að honum væri minnistæðast þegar hann lék sér með svartbaksungunum þennan tíma í Hvanndölum. Þau voru heppin með veður allan tíman þetta sumar

Að viku liðinni kom svo bátur frá Ólafsfirði og lagðist út frá ströndinni. Heyið var allt bundið í bagga og nú var böggunum velt fyrir klettabjörgin niður í fjöru. Það var komið á árabát frá bátnum frá Ólafsfirði. Böggunum var síðan komið út í árbátinn og róið með þá út í bátinn fyrir utan. Þegar búið var að koma öllu heyinum með þessum hætti út í bátinn, sigldi hann með það, fyrir þau, til Ólafsfjarðar.

Ungu hjónin með elsta son sinn tóku nú saman föggur sínar og héldu heim á leið.

08.02.2016 20:43

Kvótakerfi

Undan farnar vikur hefur verið unnið að nýjum búvörusamningum. Í viðræðum milli fulltrúa bænda og fulltrúa landbúaðarráðuneytisins (f.h. ríkisins) hefur verið stefnt að taksverðum breytingum, þegar næsti samningur tekur gildi um næstu áramót. Þetta á allavega við um starfskilyrði mjólkurframleiðslunnar.

Þegar þessar samningaviðræður hófust í haust láu fyrir ályktanir frá fundum kúabænda og sú afstaða forystumanna kúabænda að rétt gæti verið að fikra sig frá núverandi kvótakerfi. Það lá einnig fyrir að landbúnaðarráðherrra vildi afleggja þetta kvótakerfi. Helstu rökin sem nefnd voru að kvótakerfið væri greininni dýrt. Með framsalsrétti á kvótanum væri verið að sjúga úr greinni fjármagn sem nýttist þá ekki til þess að geta boðið lægra vöruverð.

Ég held að þetta sé alveg rétt. Ég hafði á sínum tíma miklar efasemdir um að verið væri að fara rétta leið þegar kvótasala varð leyfð. Í því sambandi  er gaman að rifja upp tillögu sem ég flutti á aðalfundi Félags kúabænda á Suðurlandi fyrir tæpum 20 árum Gömul tillaga () 

Mér fannst athyglisvert á sínum tíma að stjórnarmenn félagsins voru alfarið á móti þeim hluta tillögunnar sem fjallaði um mjólkurkvótann og framsal hans. Tillagan var samt sem áður samþykkt á fundinum með einhverjum meirihluta.

Þegar viðskipti voru gefin frjáls á sínum tíma með mjókurkvótann var verið að bregast við algerri stöðnun í greininni. Ég hafði fullan skilning á því á sínum tíma að það var nauðsynlegt að gera það með einhverjum hætti. Mér fannst hinsvegar varhugavert að líta allveg framhjá þeim göllum sem blasa við að taka upp verslun með framleiðslurétt. Á þetta var að vísu bent af ýmsum á sínum tíma en fékkst lítið rætt.

Nú í dag liggur það fyrir að kvótakaup er stór stofnkostnaðarliður á flestum búum. Kvótinn í mjólkurframleiðslunni er ekki bara fyrirfram hlutfallsleg skipting á markaðinum sem fyrir hendi er hverju sinni. Hann er einnig notaður til þess að deila út stuðningi ríkisins við mjókurframleiðsluna. Þessi stuðningur á að sjálfsögðu að vera fyrir neytendur og á að koma þeim til góða í lægra vöruverði.  

Eftir að verslun var gefin frjáls með þennan framleiðslurétt hefur stórhluti stuðning ríkisins farið í að fjárnagna þessi kvótakaup. Þannig liggur það fyrir að þeir fjálmunir sem eiga að fara í tryggja neytendum hagstætt verð á mjólk og mjólkurafurðum fer og hefur farið í staðin að stórum hluta mörg undanfarin ár í að viðhalda þessu kvótakerfi. Þessi staða veikir einnig samkeppnisstöðu íslenskra kúabænda við innfluttar mjólkurafurðir.

Það eru orðið nokkuð til í því að engin er að njóta góðs þessu og kerfið sjálft étur megnið af peningunum sem kemur frá ríkinu. Að vísu hefur verið bent á það að þetta kerfi tryggi bændum einhvert verð fyrir eignir sínar þegar þeir hætta búskap. 

Mér finnst samt mun vænlegra fyrir greinina í heild til lengri tíma að kúabúskapur hafi frekar bolmagn til þess að geta fjárfest í þeim atvinnutækjum sem til þarf til þess að stunda þennan búskap. þá á ég við jörð,ræktun byggingar og tæki. Eins og staðan er í dag hefur engin efni á því að kaupa jörð til kúabúskapar því fjármagnið fer fyrst og fremst í kvótakaup hjá þeim sem vilja hefja kúabúskap,

Það er eftir sem áður nauðsynlegt við þessa framleiðslu að taka upp einhverja aðra stýringu eða hafa einhver ráð til að stemma stigu við miklum framleiðslusveiflum sem orsaka miklar verðsveiflur. Mjólkuirframleiðslan þolir það ekki þar sem það tekur ekki nema hálfan dag að draga úr framleiðslu (slátra kúnum) en mörg ár að auka hana aftur.

Mér finnst því nauðsunlegt að standa við það markmið sem unnið hefur verið að, að vinna sig frá þessu kerfi. Það verður auðvita ekki gert á einni nóttu. En ég vona að bændur hafi það víðsýni og trú á framtíðinni að þeir hafi kjark í slíkar breytingar. Með því er verið að taka heildarhagsmuni og langtímahagsmuni greinarinnar fram yfir sérhagsmuni. 

Ég vona að það sé það sem bændur vilja hafa að leiðarljósi og staðan sé ekki orðin þannig að þeir telji sig fyrst og fremst vera kvótaeigendur og þurfi að verja þá stöðu.  

 


  • 1
Flettingar í dag: 20
Gestir í dag: 2
Flettingar í gær: 82
Gestir í gær: 17
Samtals flettingar: 49676
Samtals gestir: 5986
Tölur uppfærðar: 6.2.2023 03:00:38
clockhere

Í Flóanum

Nafn:

Aðalsteinn Sveinsson

Farsími:

8607714

Heimilisfang:

Kolsholti I

Staðsetning:

Flóahreppur

Heimasími:

4863304

Tenglar