Í Flóanum

Færslur: 2012 Janúar

31.01.2012 07:25

Þorrablót

Það er varla til svo aum sveit á Íslandi að þar sé ekki er haldið að minnstakosti eitt þorrablót á hverjum vetri. Hér í Flóahreppi eru þau reyndar 3 á hverjum Þorra og veitir ekkert af því. 

Um síðustu helgi voru þorrablót haldin bæði í Þingborg og Félagslundi. Þorrabótsgestir voru vel á annað hundrað á hvoru fyrir sig og fólk skemmti sér vel. Eins og á alvöru þorrablótum var boðið upp á íslenskan þorramat eins og hver gat í sig látið og heimatilbúinn skemmtiatriði.

Nú n.k. laugardagskvöld (4. febr.) er svo þorrablót í Þjósrárveri. Það er hlutskipti okkar sem búum við Kolsholtsvegin að hafa veg og vanda af því þetta árið. Undirbúningur stendur nú sem hæðst. Ég á ekki von á öðru en vel muni til takst eins og alltaf er þegar fólk leggur saman krafta sína í einhvert verkefni.

Nú er verið að taka við pöntunum á miðum á þorrablotið. Það er ástæða til að benda fólki á að panta tímalega en húsrúm er ekki ótakmarkað. Ég hef enga ástæðu til annars en lofa góðri skemmtun. Það hefur aldrei klikkað....emoticon   

27.01.2012 07:16

Að moka meiri snjó

Í svona tíðafari eins og nú er, snýst tilveran að stórum hluta um snjómokstur. Þjóðfélagið allt er meira og minna háð því að samgöngur séu greiðar. Eftir allmarga nánast snjólausa vetra hér í Flóanum er verkefnið í ár allt í einu að glíma við snjóavetur.Það eru núna að verða kominn tvegga mánaða snjóakafli og má sega að baráttan við snjóinn hafi staðið, með stuttum hléum, allan tíman. Sveitarfélagið í samvinnu við Vegagerðina stendur að snjómokstri á vegunum. Auk þess þurfa margir að glíma við snjómoksur heima hjá sér m.a. vegna gegninga og ýmissa annarra atriða. Eins og bara að komast með bílinn út á veg eða koma mjólkurbílnum að fjósinu o.þ.h.

Það er talsverð vinna að skipuleggja snjómokstur svo vel sé. Verkefnið kostar mikið og gæta þarf þess að verkið nýtist sem flestum. Það er því alltaf spurning hvenær tímabært er að moka. Það er ekki mjög físilegt að standa í mokstri þegar skefur jafnharðan aftur. Það kemur líka að takmörkuðu gagni að opna seint að degi eða að kvöldi ef allt er orðið ófært aftur að morgni.

Vegakerfið í Flóanum er bísna langt og að hluta lélegir og illa uppbyggðir vegir. Þó Flóinn sé ekki svo ýkja stór að flatarmáli getur snjóað misjafnt á svæðinu í svona tíðarfari og því ekki alltaf einfalt að meta stöðuna frá einum stað. Sveitarstjórinn í Flóahreppi ásamt verkstjórum Vegagerðarinnar standa því í ströngu nú flesta dagana. Bæði við að meta þörf á mokstri og koma vertökum að verki. Einnig við að veita upplýsingar til íbúa og svara fyrirspurnum þeirra um hvort og hvenær verði mokað. emoticon

Kröfur og þörf fólks er nokkuð misjöfn um þessa þjónustu. Fólk er misjafnlega háð því að komst leiðar sinnar og það er á misjöfnum faratækjum til þess. Sumir eru reyndar ekki síður háðir því að fólk komist til þeirra t.d. þeir sem eru með ferðaþjóustu og/eða selja aðra þjónustu heima hjá sér. Einnig eru margir í rekstri sem þurfa á aðföngum að halda og að koma afurðum frá sér.Sjálfur var ég við snjómokstur stóran hluta úr deginum í gær. Ég byrjaði á því fyrir hádegi að moka frá fjósinu þannig að sláturhúsbíllin kæmist að. Einar hjá SS á Selfossi hafði samband í gærmorgun en vegna ófærðar um allt suður- og vesturland varð hann að breyta áætlunum sínum. Í stað þess að senda bílana einhvert lengra út í ófærðina taldi hann skynsamlegra að reyna að ná í sáturgripi hér nær sér. Við áttum pantað fyrir nokkra kýr í slátrun í næstu viku og var gripið til þess að taka þær frekar.

Þegar ég var búinn að afgreiða kýrnar á sláturhúsbílinn fór ég að moka frá hinni hliðinni á fjósinu svo mjólkurbíllinn kæmist að. Að því loknu var mokað frá fjárhúsdyrunum svo hægt væri að komast inn með rúllu fyrir féð.Þegar því var lokið mokaði ég LandRoverinn út en hann var innikróaður upp á hlaði við íbúðarhúsið. Við komum heim í fyrrakvöldi um hálf ellefu og þá var ekki mikill snjór á hlaðinu. Þegar ég fór svo út í fjós morguninn eftir var skaflinn í hliðinu vel á annan meter á hæð og náði langt fram á veg.

Nú virðist hann vera að byrja að snjóa aftur. Reyndar er verið að spá hláku þegar kemur fram á daginn.
       

21.01.2012 07:45

iðnaðarsalt og iðnaðarbrjóst

Það hefur töluvert verið fjallað um salt í fjölmiðlun að undanförnu. Ástæðan er að hér á landi hefur verið selt salt til matvælaframleiðslu sem ekki er ætlað til slíkra nota. Þó þetta salt hafi verið hér á boðstólum svo árum skipti og rannsókn sýni að lítill sem enginn munur er á þessu salti og salti því sem sem ætlað er fyrir malvæli er það að sjálfsögðu ekki ásættanlegt.

Íslendingar hafa verið og eru að byggja upp mikinn eftirlitsiðnað með öllu mögulegu og ómögulegu.  Það er ekki alltaf sem maður skilur áherslurnar í þessu eftirliti öllu. Skýringarnar sem maður helst fær að verið sé að innleiða reglur frá evrópusambandinu. 

Þessi uppákoma með saltið og einnig varðandi áburðinn sem hér var seldur og ekki stóðst skoðun, sýnir kannski á hvaða leið við erum. Grandaleysi gagnvart því sem flutt er inn er algert á meðan fjöldi manna er að telja vaska og blöndunartæki, athuga hvort hundurinn eða kötturinn fer ínn í fjós og annað í þeim dúr hjá innlendum framleiðslufyrirtækjum.

Fjölmiðar hafa, í þessu máli eins og mörgum öðrum, ekki endilega kappkostað að vera upplýsandi um málið. Það er farið hamförum í hverjum fréttatímanum á eftir öðrum án þess að manni virðist að þeir viti almennilega um hvað verið er að fjalla. Iðnaðarsalt getur orðið að götusalti og enginn svo sem veit eða reynir að upplýsa hvað verið er að tala um.

Mér finnst stundum eins og það sé verið að segja sömu fréttina bara aftur og aftur. Þetta átti m.a. við um, ekki síður alvarlegra mál, silikonbrjóstapúðana sem hér hafa verið notaðir. Þegar búið var að segja okkur stanslaust frá þessum 440 konum sem fengið hafa slíka púða í á aðra viku í öllum fréttatímum var ég alveg hættur að fylgjast með. Í hvert sinn sem ég ætlaði að fara að hlusta á fréttir var ég óðara farinn að sjá fyrir mér 880 iðnaðarbrjóst.

Það getur nú bara verið nokkuð yfirþyrmandi. emoticon  
 

  

14.01.2012 07:05

Að vera settur í einangrun

Í þessari viku hefur hér verið unnið í að einangra og klæða hlöðuveggini að utan. Þetta er liður í þeim framkvæmdum sem þeir Sigmar og Kristinn hafa unnið að en þeir eru að setja upp verkstæði í austur hlutanum af hlöðunni.

Þetta er reyndar viðameira verkefni en það þar sem til stendur að einangra og klæða alla veggina á hlöðunni. Auk verkstæðisins eru í hlöðunni geymslur, kornstía, fjárhús, og hesthús. Auk þess sem þar er aðstaða sem nýtist við gjafir inn í fjós.Á þessum árstíma er gjarnan boðið upp á fjölbreytt veðurskilyrði við verklegar framkvædir utanhúss og þannig hefur það verið síðustu daga. Hér hefur t.d. verið bæði frost, snjóbilur, sumarblíða og slagveður og allt það sem rúmast getur þar á milli í þessari viku. Verkið tosast nú samt áfram en áfram verður unnið í þessu næstu daga.Þegar ég kom að þessu með strákunum einn daginn var ég settur í að koma steinullinni fyrir á norðurveggnum áður en byrjað var að klæða hann með bárujárninu. Má sega að þennan dagpart hafi ég því verið settur í einangrun. emoticon

08.01.2012 23:10

Landbúnaðarland

Í Flóahreppi sem er tæplega 290 km2 að stærð er ekkert þéttbýli. Í aðalskipulögunum sem í gildi eru í sveitarfélaginu er svo til allt land skilgreint sem landbúnaðarland ef frá eru talin nokkur skilgreind sumarhúsasvæði og svæði sem eru skilgreind sem blanda íbúabyggðar og landbúnaðarsvæðis.

Reyndar er gert ráð fyrir þéttbýli í landi Laugardæla sem næst er Selfossi í aðalskipulagi en þar er ekkert farið að deiliskipuleggja og ekkert þéttbýli að myndast eins og staðan er í dag. Þrátt fyrir að ekki sé um neitt þétttbýli að ræða hefur byggðin í dreyfbýlinu þétts talsvert nú á seinni árum.

Skipt hefur verið út úr jörðum stökum íbúðarhúsalóðum og smábýlum. Þó vissulega sé heldur færra fólk á bæjum nú en áður fyrr hefur íbúum hér fjölgað lítilega nú á seinni árum eftir viðstöðulausa fækkun alla öldina sem leið

Það er í alla staði jákvætt fyrir sveitarfélagið að hér skuli nú fjölga fólki. Það er mun áhugaverðara verkefni að kljást við en ef hér væri áfram samdráttur eins og var hér áður og víða er í dag.

Margir hafa af því áhyggur að íslendingar séu að sóa góðu ræktunnarlandi með stjórnlausri þéttingu byggðar eða með sumarhúsabyggð um allar jarðir og jafnvel með skipulagslausri skógrækt hingað og þangað um landið. Ég er þeirra skoðunnar að full ástæða sé til þess að athuga sinn gang í þessum efnum.

Vandamálið er að jarðeigendur hafa fram að þessu getað ráðstafað sinni eign eftir eigin höfði. Árið 2007 og árunum þar á undan var t.d. töluvert um að heilu jarðirnar voru skipulagðar fyrir sumarhúsa- eða íbúðarbyggð. Þannig gátu jarðeigendur margfaldað verðmæti eignar sinnar.

Á þessum árum skipti engu hvort einhver markaður var fyrir þessarri byggð eða ekki. Með því að láta skipuleggja byggð var hægt að veðsetja landið fyrir margfald hærri uppphæð og lengra var nú ekki hugsað á þeim tíma.

Þarna skipti litlu máli hvernig þetta land var. Fyrst og fremst var það vilji landeigandans sem réð ferðinni og hagsmunir hans. Ekki var spurt hvort um einhverja aðra hagsmuni gæti verið að ræða. Ekki var heldur velt fyrir sér hverjir  væru heildarhagsmunir í þessu sambandi eða
langtímahagsmunir. 

Nú er það svo að land er misjafnt og sumt land hentar alls ekki til ræktunnar. Það er líka spurning hvaða ræktun er verið að tala um. Það er ekki sama hvort um akuryrku eða t.d. skógrækt er um að ræða.

Það verkfæri sem sveitarfélagið hefur til þess að hafa áhrif í þessu er með aðalskipulagi sínu. Til þess að það sé til einhvers gagn í þessu þurfa skilmálar að vera skýrir. Það er ekki næganlegt að skilgreina allt land, sem ekki er skilgreint eitthvað annað, bara sem landbúnaðarland.

Það þarf með einhverjum hætti að leggja betra mat á landgæði ef markmið í aðalskipulagi á að vera að vernda ræktunarland sérstaklega. Það þarf líka að gæta þess að skilmálar séu ekki þannig að þeir standi áframhaldandi uppbyggingu og vexti sveitarfélagsins fyrir þrifum.

Nú er framundan hjá sveitarstjórn Flóahrepps að endurskoða aðalskipulag sveitarfélagsins. Í dag eru í gildi þrjár aðalskipulagsáætlanir í sveitarfélaginu, hvert á sínu svæði eins og gömlu sveitarfélögin voru. Það er verkefnið framundan að sameina þessar áætlanir í eitt samræmt aðalskipulag og gera þær breytingar og viðbætur sem mönnum kann að þurfa og meirihluti er fyrir.

 


  • 1
Flettingar í dag: 144
Gestir í dag: 4
Flettingar í gær: 82
Gestir í gær: 17
Samtals flettingar: 49800
Samtals gestir: 5988
Tölur uppfærðar: 6.2.2023 04:25:35
clockhere

Í Flóanum

Nafn:

Aðalsteinn Sveinsson

Farsími:

8607714

Heimilisfang:

Kolsholti I

Staðsetning:

Flóahreppur

Heimasími:

4863304

Tenglar