Í Flóanum

Færslur: 2021 Desember

16.12.2021 10:26

Sagan af Matthíasi.

Sagan af Matthíasi

Gömul/gamalsdags jólasaga

 

Matthías var að flýta sér. Hann var kominn á nýja BMW-inum sínum niður í bæ og var að leita að bílastæði. Umferðin gekk hægt enda jólaösin í  algleymingi. Það úði og grúði af allskonar fólki og allskonar bílum um allt. Komið var fram á daginn og skuggsýnt orðið. Það var þungskýjað og örlítil snjókoma. Allir virtust vera að flýta sér. Matthíasi fannst hann ekkert komast áfram. Hann hafði aðeins ætlað að skreppa sem snöggvast niður í bæ og sjá hvort hann fyndi eitthvað sem hann gæti keypt til jólagjafa. Hann var nú ekki vanur að gefa margar jólagjafir, en hann vissi að sumir af hans nánustu myndu gefa honum eitthvað í jólagjöf. Hann hugsaði með sér að hann yrði að gefa þeim eitthvað á móti. Hann vissi ekkert að hverju hann var að leita. Þó nú væru aðeins nokkrir dagar til jóla, var hann ekkert búinn að láta sér detta neitt í hug til jólagjafa. Hann var búinn að vera upptekinn í vinnu síðustu vikur enda jólamánuðurinn mikilvægasti mánuðurinn í hans geira. Allur hans tími hafði farið í að tryggja nóg af vörum til landsins í tæka tíð fyrir jólaverslunina og koma þeim í verslanir. Allt hafði þetta gengið vel og jólaverslunin var með allra besta móti þetta árið og útlit fyrir góðan hagnað.

Þrátt fyrir það var Matthías ekki í góðu skapi. Honum leiddist  þetta jólagjafavesen og hann var fyrir löngu hættur að hlakka til jólanna. Honum fannst þetta eiginlega tilgangslaust streð. Hann mundi sjálfur ekkert hvað hann fékk í jólagjöf eða hvað hann sjálfur gaf í jólagjafir í fyrra.  Samt taldi hann það skyldu sína að gefa einhverjar jólagjafir.

Matthías gafst upp að finna bílastæði niður í bæ. Hann nennti heldur ekki að fara að ganga þar á milli verslana í þessari snjókomu. Hann var engan vegin búinn til þess. Hann keyrði því að Kringlunni og fann stæði þar.  Þegar hann kom þar inn ákvað hann að byrja á að fá sér kaffi. Hann var nýsestur með kaffimálið og búinn að fá sér einn sopa þegar hann kom auga á strákpeyja svona u.þ.b. 7 til 8 ára ráfa um einan, fram og til baka eins og hann væri að leita að einhverjum. Strákur kom nú að borðinu hjá Matthíasi og spurði skýrt og greinilega.

          - Hefur  þú séð hana mömmu mína?

          - Nei það hef ég ekki, svaraði Matthías: ertu búinn að týna mömmu þinni?        

  - Nei nei hún er hérna einhvers staðar ég veit bara ekki hvar, svaraði strákur sallarólegur.

          - Ef þú veist ekki hvar hún er, ert þú þá ekki búinn að týna henni? spurði Matthías.

          - Nei en kannski er hún búinn að týna mér, svaraði strákurinn og virtist alls ekki taka þetta nærri sér.

Strákurinn settist nú við borðið hjá Matthíasi og sagðist ætla að bíða þar til mamma hans kæmi að leita að honum.

          - Hlakkar þú til jólanna? spurði hann svo Matthías.

          - Hlakka ekki allir til jólanna? svaraði Matthías og hafði lúmst gaman að hvað strákur var ófeimin og rólegur í þessum aðstæðum. Matthías gerði sér samt grein fyrir því að hann gæti ekki farið frá þessu barni hér einu. Hann yrði að finna einhvern til að taka ábyrð á því ef móðirin kæmi ekki fljótlega að leita hans.

- Heyrði vinur, sagði hann: ég er að flýta mér og má því ekki vera að þessu slóri. Eigum við ekki að finna einhvern sem getur hjálpað þér að finna hana móður þína?

- Hún kemur örugglaga rétt bráðum. Hún finnur mig fljótar ef ég er kyrr á sama stað, frekar en að vera að hlaupa um allt. Þá fer okkur bara á mis við hvort annað, sagði strákur sallarólegur og dinglaði fótunum  þar sem hann sat sem fastast við borðið hjá Matthíasi.

- En afhverju ert þú að flýta þér svona mikið? bætti hann svo við

Matthías ætlaði að fara að útskýra fyrir stráksa afhverju hann væri að flýta sér en uppgvötaði þá að hann hafði ekki hugmynd afhverju hann var að flýta sér svona mikið. Hann þurfti ekkert að flýta sér. Hann var ekki búinn að ráðgera neitt sérstak það sem eftir var dagsins. Hann bjó einn og það var enginn sem beið eftir honum.  Það lá s.s ekkert annað fyrir en að koma sér heim og finna sér eitthvað að borða, horfa á sjónvarpið eða eitthvað annað sem engu máli skipti. Matthías hafði unnið  mikið síðustu vikur og vinnudagurinn oft verið langur að  undanförnu. Nú var orðið svo stutt til jóla og allt hafði gengið vel hjá honum varðandi jólaverslunina. Hann gat nú allveg farið aðeins að hægja á. Hann var bara orðin svo vanur að djöflast áfram og vera alltaf á hlaupum að hann var hættur að kunna annað. Hugsanlega var hann að blekkja sjálfan sig á því að hann hefði ekki tíma fyrir þessa jólagjafaleit. En það var eitthvað í fari þessa stráks sem fékk hann til þess að hugsa sig aðeins um.

          - Heldur þú að þú fáir einhverjar jólagjafir? spurði Matthías

          - Já já svarði strákurinn:  ég fæ örugglega jólagjafir. Allveg fullt, bætti hann við.

          - Hvað langar þér helst í jólagjöf. Kannski flottan bíl með ljósum og fjarstýringu? spurði Matthías en eitt af mörgu sem hann hefur staðið að innflutningi á voru leikföng.

          - Nei ég á fullt af bílum. Nú í ár langar mig mest í svolítið annað en leikföng, svaraði strákur og það fór ekki á milli mála að hann vissi vel hvað hann langaði mest í jólagjöf þetta árið.

- Þarna kemur mamma - bless bless.

Strákur stökk á fætur og hlóp á móti mömmu sinni sem kom stormandi út úr mannfjöldanum með áhyggusvip en létti augljóslega þegar hún kom auga á son sinn.  Þau hurfu síðan strax í mannfjöldann.

Matthías sat eftir og nú fór hann að velta fyrir sér hvað gæti það verið sem 7 - 8 ára strákur óskaði sér meira í jólagjöf en ný leikföng.  Matthías var enn að hugsa um þetta þegar hann kom heim til sín. Hann braut heilan um þetta allt kvödið og eftir að hann var kominn upp í rúm var hann enn að velta þessu fyrir sér. Svo stíft sótti þessi spurning að honum að hann gat ekki sofnað. Hann lá andvaka. Í fyrstu velti hann fyrir sér þessum strák. Hann var honum á einhvern hátt mjög minnisstæður. Hvaða strákur á hans reki vill ekki ný leikföng í jólagjöf?  Matthías var búinn að standa að innflutningi m.a. á allslags leikföngum í mörg ár. Leikföngin seldust betur og betur á hverri jólaversluninni á fætur annari. Þau voru farin að skila Matthíasi góðum hagnaði í desember ár hvert. Gat verið að þau væru einfaldlega að detta úr tísku? Var eitthvað annað sem börn voru farin að vilja frekar í jólagjöf? Var þarna kannski viðskiptatækifæri?  Matthías fannst hann verða að finna þennan strák aftur. En hvernig átti hann að fara að því? Hann vissi ekki einu sinni hvað hann heitir. Hann varla tók eftir því hvernig mamma hans leit út og því síður vissi hann hvað hún heitir. Hvernig í ósköpunum átti hann að geta fundið hann aftur.

Hann var enn að brjóta heilan um þetta þegar hann vaknði undir hádegi daginn eftir. Þetta átti orðið hug hans allan þó hann vissi ekkert hvernig hann gæti leist gátuna. Hann byrjaði á að reyna að "gúggla" allskonar orð í von um að það myndi leiða til einhvers.  Hvað gat það verið sem börn vildu í jólagjöf annað en ný leikföng? Hann hringdi í alla foreldra sem hann þekkti og áttu börn á þessum aldri og spurði þau hvort þau vissu hvað þetta gæti verið. Engin kannaðist við það.  Hann fór út og spurði alla krakka sem hann mætti hvað þau vildu helst í jólagjöf. Öll vildu þau einhverskonar leikföng. Gat verið að hann hafði misskilið strákinn eða misheyrt hvað hann sagði? Hann varð að reyna að finna strákinn aftur. Matthías fór nú í Kringuna og settist aftur á sama stað og hann hafði drukkið kaffið sitt daginn áður. Hann sat þar í þrjá tíma í von um að strákurinn myndi birtast aftur. Ekki sá hann strákinn. Matthías var orðin dauðþreyttur á að fylgast með öllum sem gengu framhjá honum.  Hann vissi ekki hvernig í ósköpunum hann gæti fundið þennan strák aftur. Þegar Matthías kom heim aftur settist hann við tölvuna og setti inn auglýsinu inn á alla samfélagsmiðla og heimasíður sem hann hafði aðgang að, jafnvel sem "commet"  á fréttasíður. Hann auglýsti að hann vildi hafa aftur tal af stráknum sem settist hjá honum í Kringunni í gær. Hann birti með mynd af sér til þess að reyna að vekja meiri eftirtekt. Þetta skilaði ekki neinum árangri.

Dagarnir liðu og fyrr en varði voru komin jól. Matthías var enn að hugsa um þetta. Hvar sem hann fór var hann alltaf að horfa í kringum sig eftir þessum ókunna strák. Hann var sannfærður um að þessi strákur vissi leyndarmálið um það hvað börnum langaði mest í jólagjöf þegar leikföng væru kominn úr tísku. Ef hann kæmist að þessu gæti það orðið besta viðskiptatækifærið sem hann kæmist nokkurn tíman yfir. En jólin liðu og svo leið veturinn líka. Alldrei rakst Matthías á strákinn. Fyrr en varði var komið vor og svo sumar. Matthías var fyrir löngu farin að  undirbúa næstu jólaverslun. Nú brá svo við að hann var óöruggur með sig. Hann var ekki viss hvort hann ætti að leggja jafn mikla áherslu á leikföngin eins undan farin ár. Hann vissi bara ekki hvað ætti að koma í staðin.

Svo var það einn daginn, seint um haustið, að Matthías  var á leiðinni heim til sín eftir langan vinnudag, á BMW-inum sínum. Þá sér hann lítinn hóp af krökkum bíða eftir strætó. Um leið og hann keyrir framhjá sér hann ekki betur en þessi strákur, sem hann hefur verið að leita að, er þarna í hópnum. Matthías, sem var á nokkurri ferð, snarhemlar BMW-inum og ætlar að fara að snúa við. Ekki vildi betur til en það að bílstjórinn í bílnum fyrir aftan hann var alls ekki viðbúinn svo snöggri hraðabreytingu og keyrir aftan á BMW-inn hans Matthíasar.  Þetta var nú ekki harður árekstur, en það brotnuðu einhvar ljós á báðum bílunum og einhverjar smá beyglur. Matthías stekkur samstundis út úr bílnum. Ekki til þess að athuga með bílinn eða hvað af fólki væri í hinum bílnum. Hann var fyrst og fremst að horfa til baka og sjá hvort krakkarnir væru enn við biðskýlið.  Hann sá að þau voru að stíga inn í strætisvagn. Hann reyndi að kalla til þeirra og hljóp síðan af stað á eftir vagninum. En hann var of langt frá. Krakkarnir hurfu öll inn í vagninn og hann keyrði burt. Matthías hljóp nú aftur að BMW-inum. Maðurinn sem keyrði bílinn sem lenti aftan á honum stóð þar hjá. Hann starði forviða á Matthías.

          - Ég verð að flýta mér. Ég þarf lífsnauðsynlega að ná í strák sem fór með þessum strætó, sagði Matthías við manninn og leitaði í vösum sínum. Þar fann hann nafnspjald sitt og rétti manninum.

- Þú hefur bara samband við mig þegar þú ert búinn að láta gera við bílinn þinn. Ég skal borga enn ég verð að fara núna.

Að svo búnu stökk hann inn í BMW-inn. Hann snéri honum við og þaut af stað á eftir strætisvagninum. Matthías var ekki vanur að taka stætó og hann var ekki viss hvaða vagn þetta var eða á hvaða leið hann væri. Hann kom auga á vagn talsvert fyrir fram sig og ákvað að elta  hann.  Hann reyndi að komast nær vagninum og tókst það með  því að keyra BMW-inn eins hratt og hægt var án tillits til hvaða hámarkshraði gilti. Hann svínaði fyrir aðra vegfarendur allstaðar þar sem færi gafst. Matthías var nú farin að nálgast strætisvagninn. Hann sá að vagninn stoppaði og farþegar gengu frá borði m.a. nokkrir krakkar. Matthías stoppar BMW-inn  með það sama og stekkur út til þess að reyna að sjá hvort strákurinn væri þarna. Hann flýtir sér heldur mikið og rekur tærnar í og fellur fram fyrir sig beint ofan í stóran poll sem var þarna á götunni.

Það fór ekki fram hjá neinum sem þarna voru þegar þessi jakkafata klæddi maður steyptist beint á andlitið í pollinn. Hann saup hveljur og reyndi með bagslagangi að koma aftur fyrir sér fótunum. Þegar hann leit upp þar sem hann var á fjórum fótum í pollinum mætti hann augum stráksins sem hann var búinn að reyna að finna í bráðum heilt ár.

          - Hæ mannstu eftir mér? stundi Matthías upp við strákinn.

          - Neeei  það geri ég ekki. Á ég að gera það? svarði hann varfærnislega og horfði  stórum augum á Matthías í pollinum.

          - Já við hittumst í Kringunni rétt fyrir jól í fyrra manstu. Þú varst búinn að týna mömmu þinni.

          - Nei það var mamma sem var búinn að týna mér, svaraði strákur. Það var svolítið hik á honum.

- Ert þú maðurinn sem ég talaði við á meðan ég var að bíða eftir mömmu minni? spurði hann svo.

- Já akkúrat,

Matthías var nú staðinn á fætur upp úr pollinum. Það lak af honum vatnið og honum var orðið skítkalt. Hann var við það að fara að skjálfa. En þar sem ekkert annað virtist vera að honum og hann var í samræðum við strákinn fór fólkið að tínast í burtu sem þarna kom að þegar Matthías féll í pollinn.

- Hvað fékkstu í jólagjöf í fyrra? spurði hann strákinnn: fékkstu það sem þig langaði mest í?

Strákur horfði undrandi á Matthías.

          - Það er svo langt síðan jólin voru. Afhverju ert þú að spyrja að því? spurði hann svo

          - Hvað langar þér í jólagjöf núna á þessu ári" spurði Matthías sem var nú farinn að skjálfa.

          -  Það veit ég ekki. Það er ennþá svo langt til  jóla. Ætli ég vilji ekki bara nýjan bíl sem hægt er að keyra með fjarstýringu, svaraði strákur hugsi. Honum fannst þetta greinilega skrýtið samtal.

          - En þú vildir engin ný leikföng í fyrra. Hvað var það sem þig langaði mest í, í fyrra? Fékkstu það sem þú óskaðir þér? spurði Matthías skjálfandi röddu.

Nú var smá þögn og strákurinn horfði niður á tærnar á sér og virtist vera að hugsa sig um. Svo leit hann upp og sagði brosandi:

          - Já ég fékk það og það var besta jólagjöf sem ég hef fengið.

          - Hvað var það? spurði Matthías allt að því  óþolumæðilega.

          - Ég óskaði þess að pabbi minn og litla systir mín gætu verið heima  með okkur mömmu á jólunum.

          - Nú hvar voru þau? Matthías var nú hættur að skjálfa og virtist algerlega hafa verið sleginn út af laginu með þessu svari hjá stráknum.

          - Þau voru á sjúkrahúsi út í Ameríku. Litla systir mín er búinn að vera veik frá því að hún fæddist og er búinn að vera á sjúkrahúsi hér um bil alla sína æfi. Pabbi og mamma hafa skipst á að vera hjá henni. Svo var hún send til Ameríku til að reyna að lækna hana. En það gekk ekki. Þegar mamma sagði mér það að ekki væri hægt að lækna hana vildi ég bara fá hana heim um jólin. svaraði strákurinn blátt áfram og yfirvegað:

- Og það rættist. Pabbi og litla systir komu heim rétt fyrir jól og við vorum öll saman á jólunum. Það voru sko bestu jólin mín.

Nú var Matthíasi farið að líða mjög illa. Hann áttaði sig á því að hann hafði allgerlega tekið vitlausan pól í hæðina. Honum leið eins og hann væri 7 ára og þessi lífreyndi strákur væri orðin fullorðin og læsi yfir honum til að kenna honum lífsreglurnar. Hann hafi í græðgi sinni haldið að allt snérist um viðskipatækifæri og gróða. Nú á augabragði fannst honum hann vera fífl og skammaðist sín

- En um mæstu jól, getið þið verið aftur öll saman þá? hvíslaði Matthías  hikandi.

          - Nei nú er það ekki hægt eins og var í fyrra. Litla systir er dáinn" svaraði strákurinn rólega. Svo andvarpaði hann svolítið og sagði:

- Ég þarf að fara heim núna, bless blesss.

Síðan rölti hann af stað og skyldi Matthías eftir skjálfandi

Þegar Matthías var kominn, rennblautir, inn í BMW-inn sinn, vissi hann varla hvort hann ætti að hlæja eða gráta. Honum fannst eins og þessi ungi drengur, sem hann var búinn að leita að svo lengi, hafi kennt honum meira en allt það sem hann lærði á háskólaárum sínum. Hann vissi ekki ennþá hvað drengurinn heitir eða hvar hann býr. Hvaðan kom hann og hvert fór hann? En þetta hafði varanlega áhrif á Matthías. Þegar fór að nálgast jól aftur hafði hann samband við alla sem hann bjóst við að myndu gefa sér jólagjöf og bað þau að styrkja frekar einhver málefni barna. Sjálfur gaf hann allan ágóða sem hann hafði af leikfangainnflutingi fyrir jólin til langveikra barna.

Hann hefur ekki hitt strákinn aftur, en gleymir aldrei þessum stuttu samskiptum sem þeir átti. Matthías hlakkar nú orðið aftur til jólanna eins og hann gerði þegar hann var barn.

 

Sögulok

 

  • 1
Flettingar í dag: 39
Gestir í dag: 4
Flettingar í gær: 82
Gestir í gær: 17
Samtals flettingar: 49695
Samtals gestir: 5988
Tölur uppfærðar: 6.2.2023 03:22:05
clockhere

Í Flóanum

Nafn:

Aðalsteinn Sveinsson

Farsími:

8607714

Heimilisfang:

Kolsholti I

Staðsetning:

Flóahreppur

Heimasími:

4863304

Tenglar