Í Flóanum

29.09.2010 07:29

Hrútasýning

Hrútasýningar eru miklir menningarviðburðir.  Löng hefð er fyrir því í gamla Villingaholtshreppum að líta á hrútasýningadaginn sem sérstakan hátíðisdag.  Ég reikna með því að svo hafi einnig  verið í öðrum  sveitum

Hér áður fyrr voru þetta fjölmennar samkomur þar sem stór hluti fólks á öllum aldri úr sveitinni mætti með sína bestu kynbótahrúta.  Metnaður var mikill fyrir því að eiga besta hrútinn.emoticon 

Ég man eftir því að fljótlega eftir að ég fluttist í Flóann 10 ára gamall mætti  ég á hrútasýningar í Villingaholti en þar voru þær haldnar um árabil. Á árunum 1978 til 1985 að mig minnir voru þessar sýningar haldnar hér í hlöðunni.  Var þá fjölmenni hér og mikið fjör.

Sjálfu  hef ég  átt hrúta á þessum sýningum allt frá barnsaldri. Suma góða en aðra ekki eins góða.emoticon

Nú eru breyttir tímar en m.a. vegna smithættu og riðutilfella er hætt að safnast saman á einum stað með hrútana til að dæma þá.  Þess í stað fara ráðunautarnir á milli bæja með ómsjá og mæla og dæma  bæði lambgimbrar og lambhrúta og einnig veturgamla hrúta. Ekki þykir lengur ástæða til að dæma eldri og áður dæmda hrúta.

Þrátt fyrir þetta og að kindur eru ekki á öllu bæjum lengur er hrútasýningardagurinn samt alltaf sérstakur.  Hér í gamla Villingaholtshreppum á félagssvæði Sauðfjárræktarfélags Villingaholtshrepps  var hann á mánudaginn var.

Hér á bæ voru skoðaðir 2 veturgamlir hrútar 13 lambhrútar og 17 gimbrar.

Í lok dagsins var komið saman í glæsilegri aðstöðu á loftinu í fjárhúsinu hjá Þorsteini Loga frænda mínum í Egilsstaðakoti og sýningin gerð upp. Veðlaun voru veitt fyrir hæðst dæmdu gripina.

Reyndar voru verðlaun fyrir sýnignuna frá því fyrra einnig afhent þar sem ekki hafði unnist tími til þess þá.  Í fyrra var besti veturgamli hrúturinn og besti lambhrúturinn úr Syðri-Gróf en besta gimbrin var héðan. 


Kolbrún í Kolsholti og Bjarni í Syðri-Gróf með verðlunin vegna sýningarinnar 2009

Núna í ár var Skafti Raftson í Syðri-Gróf hæðst dæmdur af veturgömlu hrútunum en þeir bræður Seifur og Naggur Laxasynir  sem eru héðan voru næstir að stigum.  Skafti fékk 88,5 stig, Seifur 86 stig og Naggur 85 stig.

Þorsteinn Logi formaður Sauðfjárræktarfélagsins afhendir Bjarna í Syðri-Gróf hrútabikarinn
Þorsteinn Logi formaður sauðfjárræktarfélagsins afhendir Bjarna í Syðri-Gróf hrútabikarinn

Efsti lambhrúturinn var einnig úr Syðri-Gróf með 88,5 stig og besta gimbrin var frá vesturbænum í Kolsholti með 19 fyrir læri. Gimbur númer tvö var héðan en það var Prjónsdóttir með 18,5 fyrir læri.


Þorgils Kári í vesturbænum í Kolsholti tekur við gimbrabikarnum.

Nú er bara að velja ásetninginn úr þessum lömbum en við höfum yfirleitt sett á hverju ári á u.þ.b. 10 gimbrar og 2 til 3 lambhrúta.

 

Flettingar í dag: 126
Gestir í dag: 16
Flettingar í gær: 328
Gestir í gær: 55
Samtals flettingar: 190766
Samtals gestir: 33867
Tölur uppfærðar: 3.4.2025 08:35:36
clockhere

Í Flóanum

Nafn:

Aðalsteinn Sveinsson

Farsími:

8607714

Heimilisfang:

Kolsholti I

Staðsetning:

Flóahreppur

Heimasími:

4863304

Tenglar