Í Flóanum |
||
19.04.2011 07:32Er komið vor?...Þó það séu engin ný sannindi og hefur komið fyrir áður, þá er veðrið búið að vera hálf leiðinlegt undanfarið. Það svo að maður hefur jafnvel sleppt þvi að fara á hestbak þó tækifæri hafi gefist. Nú er það ekki þannig að um einhvert óveður hafi verið að ræða. Hér hefur hvorki verið frosthörkur, snjóbilur eða hvassviðri. Það er aftur á móti vestanáttin, sem hefur verið nokkuð ríkandi undanfarið, sem fer í taugarnar á mér. Henni fylgir gjarnan éljagangur ýmist með hagléljum, snjókomu, slyddu eða rigingu ásamt vindbelgingi. Þrátt fyrir þetta er jörðin tilbúin fyrir almennilegt vor. Jarðklaki er víðast hvar enginn og almennt farið að þorna um. Það er að verða fært að hefja jarðvinnslu að fullum krafti. Það er nokkuð fyrr en í flestum árum. Farfuglarnir hafa verið að tínast til landsins undanfarnar vikur. Þó mófuglarnir virðast nokkuð umkomulausir í snjófölinni sem hér er annað slagið þessa dagana þá fer ekki á milli mála að þeirra tími er framundan. Ein er sú samkoma hér í sveit sem gjarna er haldin um það leiti sem vetur er að renna sitt skeið og vorið að taka við en það er Árshátíð Flóaskóla. Þetta eru ávalt mjög skemmtilegar samkomur og svo var einnig í ár. Hátíðin var haldin í Þjórsárveri s.l. föstudag. Nemendur skólans höfðu æft upp heilmikla dagskrá og sýndu á tveimur sýningum. Húsrúm í Þjórsárveri tekur orðið ekki alla gesti á einni sýningu. Það er mikil vinna að skipuleggja svona dagskrá þannig að vel fari. Með samstilltu átaki nemenda, sem allir með tölu eru þátttakendur í verkefninu, og starfsmanna skólans verður útkoman stór glæsileg. Það er ekkert sem virkar betur við að uppræta svartsýni en það að sjá allt þetta unga fólk sem hér býr spreyta sig á verkefni eins og þessu. Maður getur ekki annað en orðið bjartsýnn á framtíðina eftir að hafa séð sýninguna hjá þeim. Ég þakka kærlega fyrir skemmtunina. Skrifað af as Flettingar í dag: 126 Gestir í dag: 16 Flettingar í gær: 328 Gestir í gær: 55 Samtals flettingar: 190766 Samtals gestir: 33867 Tölur uppfærðar: 3.4.2025 08:35:36 |
clockhere Eldra efni
Í Flóanum Nafn: Aðalsteinn SveinssonFarsími: 8607714Tölvupóstfang: kolsholt@islandia.isHeimilisfang: Kolsholti IStaðsetning: FlóahreppurHeimasími: 4863304Tenglar |
© 2025 123.is | Nýskrá 123.is síðu | Stjórnkerfi 123.is