Í Flóanum |
||
26.03.2012 21:51Lýðræðishalli...?Landsþing Sambands Íslenskra sveitarfélaga var haldið í Reykjavík á föstudaginn var. Þar var til umræðu það sem efst er á baugi hjá sveitarfélögunum um þessar mundir. M.a. var sérstaklega tekið til umfjöllunar hvernig sveitarstjórnir geta unnið betur með íbúum í sveitarfélaginu og hvernig hægt væri að efla sveitarstjórnarstigið frá því sem nú er. Ýmislegt í þessari umræðu finnst mér þversagnakennt. Margt af því sem nefnt er í þessu sambandi vill nefnilega bíta illilega í skottið á sér. Lýðræðið er nefnilega engan vegin einfalt í framkvæmd. Það er stefna sveitarfélaganna og ríkisvaldsins almennt að efla sveitarstjórnarstigið með flutningi verkefna frá ríki til sveitarfélaga. Með því móti er verið að færa ákvarðanatöku nær fólkinu. En til þess að sveitarfélögin hafi bolmagn til þess að taka við þessum verkefnum eru þau flest of lítil þannig að það þarf helst að byrja á því að sameina þau. Og þarna virðast ekki duga neinar litlar sameiningar eins og gert var hér í Flóanum. Það er jafnvel verið að tala um að sveitarfélög þurfi helst að vera ekki minni en 10- 20 þús. íbúar til þess að geta ein og sér ráðið við öll verkefni sem talað er um. Mér sýnist það nú því vera þannig fyrir flest sveitarfélög að í raun er verið að færa ákvarðatökur fjær fólkinu en ekki nær ef þessi vegferð verður farin. Annað er það sem líka fylgir þegar verkefni eru færð til sveitarfélaga er að til að tryggja jafnræði í landinu, setur ríkisvaldið reglur og kröfur um þá þjónustu sem sveitarfélögin eiga að veita. Í raun eru flestar ákvarðanir varðandi málefnin því teknar á vettvangi ríkisins. Síðan þarf ríkisvaldið að hafa eftirlit með því að sveitarfélögin standi sig og að íbúar hafi kost á þeirri þjónustu sem lög mæla fyrir um. Það kostar líkast til eitthvað. Nú er það ekki svo að ég sé því mótfallin að sveitarfélög taki við fleiri verkefnum frá ríkinu. Það hefur sýnt sig í mörgum tilfellum að betur er farið með opinbert fé í rekstri málaflokka hjá sveitarfélögum en ríkinu. Sveitarfélög hafa leyst ágætlega úr mörgum verkefnum sem þau hafa á sinni könnu m.a. með samvinnu sín á milli t.d. í byggðasamlögum, samstarfssamningum eða á vettvangi héraðsnefndar eða landshlutasamtaka. Þessi samvinna veldur sumum spekingnum áhyggjum. Það er talað um lýðræðishalla því þessum samstarfsverkefnum er ekki beint stjórnað af fólki sem kosið er í almennri kosningu. Ég velti því fyrir mér hvort er lýðræðislegra fyrir íbúa hér í sveit að vera hluti af 10 til 20 þús. manna sveitarfélagi sem geti tekið að sér hin flóknustu verkefni eða búa áfram í 600+ íbúa sveitarfélagi sem leysir hluta af verkefnunum í samstarfi við önnur sveitarfélög. Á Landsþinginu á föstudaginn var einnig í þessu sambandi rætt um íbúakosningar og persónukjör. Mikilvægt er að menn átti sig á þeim göllum sem geta verið við framkvæmd slíkra kosninga og spurning hvort þetta er í raun til þess fallið að auka lýðræðið. Vandasamt getur verið að taka út einstakar ákvarðanir og efna til kosninga um. Gæta verður þess að slíta ekki hlutina úr samhengi og að íbúakosning setji ekki málin bara í pattstöðu. Hugsanlega eru mál þannig að hægt er að fella í íbúakosningu allar færar leiðir og samfélagið sitji uppi með versta kostinn að ekkert er hægt að aðhafast í málinu. Persónukjör er ekki svo óþekkt fyrirbrigði í mörgum smærri sveitarfélögum enda virka þær best við slíkar aðstæður. Mér finnst þó hæpið að telja óbundnar kosningar lýðræðislegri en listakosningar þar sem einfaldur meirihluti kjósenda getur í raun ráðið öllum sætum sem kosið er í. Talsvert hefur verið rætt um það að koma á kosningafyrirkomulagi sem er sambland af listakosningum og perónukjöri. Ýmsar leiðir eru færar í því sambandi og eru við lýði víða um heim. Hér á landi hefur mönnum ekki tekist að koma sér saman um neitt slíkt ennþá. Umræða um þetta rís þó alltaf upp rétt fyrir kosningar en aldrei tekist að gera neinar breytingar. Það sem mér finnst þó mikilvægast í þessum málum er að það eigi sér einhverjar samræður í hverju samfélagi um sem flest málefni og að kjörnir fulltrúar gefi því bæði tíma og gaum hvað íbúar hafa að segja. Það stendur þá líka svolítið upp á íbúana að taka þátt í þessari umræðu og koma sínun sjónarmiðum á framfæri. Þetta þíðir samt ekki að engar ákvarðanir megi taka nema alllir hafi samþykkt hana. Kjörnir fulltrúar verða síðan að hafa kjark til þess að taka sínar ákvarðanir út frá heildarhagsmunum fram yfir sérhagsmuni og langtímahagsmunum fram yfir skammtímahagsmuni. Þeir standa svo eða falla með sínun ákvörðunum í næstu kosningum. Skrifað af as Flettingar í dag: 126 Gestir í dag: 16 Flettingar í gær: 328 Gestir í gær: 55 Samtals flettingar: 190766 Samtals gestir: 33867 Tölur uppfærðar: 3.4.2025 08:35:36 |
clockhere Eldra efni
Í Flóanum Nafn: Aðalsteinn SveinssonFarsími: 8607714Tölvupóstfang: kolsholt@islandia.isHeimilisfang: Kolsholti IStaðsetning: FlóahreppurHeimasími: 4863304Tenglar |
© 2025 123.is | Nýskrá 123.is síðu | Stjórnkerfi 123.is