Nú er sauðburður hér á bæ langt kominn og hefur bara gengið nokkuð vel. Langflestar eru tvílembdar en það er einmitt óskastaðan. Vandræði er með einn gemling sem ekki vill annað lambið sitt og eitt móðurlaust lamb sitjum við uppi með.

Hún Aldís Tanja í Jaðarkoti hefur verið áhugasöm við að fylgjast með sauðburðinum. Dagana áður en hann byrjaði var hún mætt í fjárhúsið um leið og hún kom heim úr skólanum. Hún hélt þar uppi vökulu eftirliti. Síðan þegar ærnar fóru að bera lét hún mig vita um leið og hún var vör við að einhver ærin var að byrja.

Það var svo í gær að hún Öskubuska 10-361 bar en það er kindin hennar Aldísar. Hún kom með tvo svarta hrúta.

Það er nú gaman að geta verið stoltur fjáreigandi.