Í Flóanum

22.08.2012 07:12

Á söguslóðum Eyrbyggju

Ég gekk Berserkjagötu í Berserkjahrauni í Helgafellssveit á sunnudaginn með góðu fólki. Við Kolbrún skruppum vestur á Snæfellsnes núna um síðustu helgi og það var eitt af mörgu sem við tókum okkur fyrir hendur að fara þessa götu. Við nutum leiðsagnar Eybergs og Laugu á Hraunhálsi.



Þetta er sögusvið Eyrbyggju og vorum við uppfrædd um það og bent á þau örnefni sem sögunni tengast á leiðinni.

Berserkir voru tveir ofstopa Svíar sem virðast þrátt fyrir afl og hreysti víða hafa verið til vandræða. Allavega sá Noregskonungur sér leik á borði og sendi þá með Vermundi hinum mjóva þegar hann fór til Ísland. Vermundur bjó í Bjarnarhöfn en bróðir hans Viga-Styrr bjó á Hrauni. Hraunið sem nú heitir Berserkjahaun er þar á milli bæjanna.

Það fór þannig að þegar Vermundur hafði ekki orðið nóg fyrir berserkina, en þeir hétu Halli og Leikni, að gera voru þeir ævinlega til einhverra vandræða og fékk hann þá bróðir sinn á Hrauni til að taka við þeim. Víga-Styrr tók við þeim óviljugur en hafði þá þó til aðstoðar við að vega menn.

En þegar Halli fer síðan að fá áhuga á Ásdísi dóttur Styrrs og og fer fram á að fá hana fyrir konu líst Víga-Styrr nú ekki á blikuna. Eftir að hafa ráðfært sig við Snorra goða á Helgafelli lofar hann honum samt að gefa honum Ásdísi en fyrst verða þeir Halli og Leikni að leysa þrjár þrautir.

Þeir áttu að leggja veg yfir úfið hraunir á milli bæjanna Bjarnarhöfn og Hrauns en það var einmitt gatan sem við gengum á sunnudaginn.



Þeir áttu einnig að hlaða garð í hrauninun á milli bæjanna. Þessi garður stendur þarna enn og gengur í sjó fram. Þriðja þrautin sem þeir áttu að framkvæma var að hlaða fjárrétt. 

 

Þessa rétt sem heitir Krossrétt  sáum við einnig þegar við gengum hraunkantinn upp að eyðibýlinu Berserkjahrauni (Hraun) þegar við komum til baka af Berserkjagötunni. Það mun hafa runnið á þá Halla og Leikni berserksgangur og luku þeir við gerð þessa mannvirkja á skömmum tíma.

En á meðan hafði Styrr látið grafa baðhús í jörð og bauð nú berserkjunum að ganga þangað að loknu verki enda móðir og þreyttir. Þá lét Styrr bera grjót á hlemmin yfir innganginn og helti síðan sjóðandi vatni inn á þá. Þó mikið væri nú af berserkunum dregið tókst þeim samt að brjóta hlemmin yfir útgönguleiðinni en detta þá á blautri nautshúð sem Styrr hafði komið þar fyrir og voru þeir þar drepnir.

Þeir voru síðan dysjaðir við Berserkjagötuna og það er einmitt við dysina sem við stöndum hér á fyrstu myndinni. Snorri á Helgafelli fær síðan Ásdísi fyrir konu.

Það er ótrúlega skemmtilegt að fara um með kunnugum í svona gönguferðum. Auk þess að fræða okkur um þessa sögu úr Eyrbyggju sagði Eyberg okkur frá ýmsu öðru úr seinni tíma sögu staðháttum og landslagi á þessu svæði.

Þetta var ekki eina áhugaveðra sem við gerðum á meðan við vorum fyrir vestan. M.a. fórum við í magnaða siglingu með Ástu og Guðjóni á Borgarlandi út í Brokey. Ég segi ykkur kannski frá því seinna en það var ekki síður skemmtilegt. Einmitt ekki síst vegna þess að við vorum í för með fólki sem þekkti vel til og sagði okkur vel frá.
 



Flettingar í dag: 126
Gestir í dag: 16
Flettingar í gær: 328
Gestir í gær: 55
Samtals flettingar: 190766
Samtals gestir: 33867
Tölur uppfærðar: 3.4.2025 08:35:36
clockhere

Í Flóanum

Nafn:

Aðalsteinn Sveinsson

Farsími:

8607714

Heimilisfang:

Kolsholti I

Staðsetning:

Flóahreppur

Heimasími:

4863304

Tenglar