Í Flóanum

22.12.2012 07:21

Brandajól... eða ekki.

Nú er sól tekin að hækka á lofti þennan veturinn, en vetrarsólhvörf munu hafa verið í gær. Nánar tiltekið rétt undir hádegi. Dagurinn í dag er því örlítið lengri en í gær. Það munar nú kannski ekki miklu fyrstu dagana, aðeins nokkrum sekúndum, en aðalatriðið er að það er í rétta átt.

Nú fara að koma jól og þannig stendur á þetta árið að það eru afskaplega fáið virkir dagar síðustu 10 daga ársins. Fara menn þá gjarnan að tala um hvort um sé að ræða "Brandajól". Ég held nú reyndar að svo sé ekki í ár. Eftir mínum heimildum var fyrst og fremst talað um brandajól þegar jóladag bar upp á mánudag.

Þegar þannig stóð á var aðfangadagur helgur dagur þar sem hann bar upp á sunnudag. Þannig voru komnir þrír helgir dagar í röð um jólin. (aðfangadagur, jóladagur og annar í jólum). Um áramót féll þá einnig helgur dagur (gamlársdagur) næst við nýársdag og fyrsti dagur eftir þrettándann var svo næsti sunnudagur þar á eftir. 

Árið 1770 mun jólahelgin hafa verið stytt og þá hætt að halda þriðja jóladag heilagan og eins þrettándann. Fyrir þann tíma var því talað um fjórheilagt um jólin þegar brandajól voru. 

Eftir 1770 var farið að tala um "Brandajól" einnig þegar jóladag bar upp á föstudag því þá fóru einnig saman þrír helgir dagar um jólin. Var þá gjarna talað um "litlu brandajól" þar sem helgidagar fóru þá ekki saman um áramót eins og um "stóru brandajól".

Annars er mér slétt sama hvað helgidagarnir eru margir um jólin og það breytir engu um mitt jólahald. Ég ætla þessi jól sem önnur fyrst og fremst að njóta þess að vera með mínu fólki. Hér er oft fjölment um jóladagana og ég hlakka bara til. Hefðbundin bústörf eru hinsvegar allaf eins hvort sem um helgidag sé að ræða eða ekki.

Gleðileg Jól.  emoticon


Flettingar í dag: 126
Gestir í dag: 16
Flettingar í gær: 328
Gestir í gær: 55
Samtals flettingar: 190766
Samtals gestir: 33867
Tölur uppfærðar: 3.4.2025 08:35:36
clockhere

Í Flóanum

Nafn:

Aðalsteinn Sveinsson

Farsími:

8607714

Heimilisfang:

Kolsholti I

Staðsetning:

Flóahreppur

Heimasími:

4863304

Tenglar