Ekki veit ég hvort þeir sem viðstaddir voru útför föður míns, Sveins Þórarinssonar, í Selfosskirkju í gær veittu því eftirtekt að á meðal blóma lá á kistunni einn pakki af grænum opal. Opalpakkin lá þarna allan tíman sem athöfnin fór fram og var borinn með kistunni út úr kirkjunni að athöfn lokinni.
Margt fallegt og gott er hægt að minnast á og segja frá um hann pabba. Það var gert í gær bæði í minnarorðum prestsins sem og í samtölum við fjölmarga að athöfn lokinni og í minnargreinum sem ritaðar voru. Ekkert fannst mér ofaukið af því sem sagt var. Allt þetta fannst okkur, nánustu ættingum, vel viðeigandi enda var verið að kveðja mann með stórt hjarta sem kunni á sinn hátt að láta sér finnast vænt um fólk.
Eitt af persónueinkennum pabba var hvað hann hafði mikið dálæti af börnum og lét sér velferð og hamingju þeirra sig varða. Þetta höfum við afkomendur hans fengið að njóta mann fram af manni í hverri kynslóð.
Nú hin seinni ár hafa það aðallega verið barnabarnabörnin hans sem þess hafa notið. Þau eru í dag orðin 14 talsins. Hann lagði sig fram um það að kynnast þeim hverju og einu og myndaði sérstök persónuleg tengst við hvert og eitt þeirra á þeim forsendum sem hentaði hverju fyrir sig.
Systkinin í Jaðarkoti hafa notið þess í ríku mæli þar sem þau búa í nálægð við langafa sinn og langömmu. Þau hafa gjarna skokkað yfir túnið og heimsótt "langa og löngu" . Yfirleitt fer þó aðeins eitt í einu og það passaði "langa" best. Þá gat hann einbeitt sér að gestinum. Og það var ekki slegið slöku við. Það var smíðað, lesið, spilað, spjallað saman eða hvað eina sem fundið var upp á. Og "langi" var óþrjótandi í því að finna verkefni sem voru til þess fallinn að styrkja tengslin og þroska barnið.
Þegar svona náinn einstakingur fellur svo frá er skarð fyrir skildi. Börnin sakna langafa sins og það eru margar spurningar sem þarf að svara. Við sem fullorðin eru reynum að vera þeim innan handa við að leysa úr flóknum spurningum og hughreysta þau og styrkja. En stundum snýst svo dæmið við og það eru börnin sem koma með einföldu lausnirnar og eru okkur ekki síður stoð og stytta.
Hann Arnór Leví sex ára sonarsonur minn í Jaðarkoti átti eins og öll hin barnabarnabörnin hans "langa" alveg sérstakt samband við langafa sinn. Þeir eru ófáir dagarnir sem þeir hafa brallað saman og báðir hafa haft af því ómælda ánægju. Þó það hafi ekki verið stíll "langa " að kaupa börnin með sælgæti þá átti hann oft í fórum sínum opalpakka sem hann fór sparlega með. Þessir opalpakkar voru m.a. geymdir þar sem útifötin voru geymd eða út í mjólkurhúsi og hugsanlega víðar.
Það var svo oftar en ekki þegar þeir félagar kvöddust, kannski eftir að hafa verið tveir saman að smíða eða gera eitthvað annað í einhverja klukkutíma, að opalpakkin var tekinn fram og Arnór fékk sér einn opalmola áður en hann fór heim.
Foreldrar langafa barnanna hans pabba fannst ekki rétt að leggja á þau að vera við alla útförina hans. Þess í stað komu þau í kirkjuna áður en útförin fór fram. Presturinn talaði við börnin og þau komu að kistunni og kvöddu langafa sinn í hinsta sinn.
Þegar fjölskyldan í Jaðarkoti var á leiðinni í kirkjuna í gærmorgun bað Arnór skyndilega um að það yrði stoppað í sjoppu. Það þyrfti nauðsynlega að kaupa einn pakka af opal. Það var gert og síðan var farið í kirkjuna. Þar voru samankomin flest (ekki þau allra yngstu) barnabarnbörnin hans pabba ásamt foreldrum sínum og prestinum.
Þarna kvöddu þau langafa sinn hvert með sínum hætti áður en útförin sjálf fór fram. Arnór var allveg með á hreinu hvernig hann ætlaði að bera sig að . Hann hlustaði á allt sem sagt var en þegar hann gekk svo að kistunni setti hann hljóður opalpakkan ofan á eitt hornið á kistunni.
Hann skeytti því engu hvað aðrir voru að gera eða hvernig þeir höguðu sér í þessari stuttu athöfn. Þetta var á milli hans og "langa". Hann skyldi vel að hann gat ekki talað við langafa sinn því hann var dáinn. En þetta var hans aðferð til að sýna hvað allar stundirnar sem þeir voru búnir að eiga saman voru dýrmætar og þetta var hans aðferð til þakka fyrir sig og kveðja langafa sinn.
Þess vegna var það ekki minna viðeigandi, en allt sem sagt var og hugsað, blómin, hátíðleikin, tónlistin og hvað eina í þessari útför, þessi græni opalpakki sem á kistunni lá