Það er líflegt í mínum bæ þessa dagana. Hér dvelja öll börnin í Jaðarkoti í 10 daga á meðan foreldrar þeirra eru í brúðkaupsferð á Krít.
Og það er ekki setið auðum höndum. Þó skólinn sé kominn í sumarfrí eru enginn vandræði að finna sér eitthvað að gera í sveitinni. Í sumarblíðunni er verið úti frá morgni til kvölds og sofið vel á nóttinni.
Sá yngsti, hann Hrafnkell Hilmar, fylgir gjarnan ömmu sinni til mjalta á kvöldin. Þar liggur hann sko ekki á liði sínu og tekur til hendinni eins og honum finnst helst þurfa. T.d. þegar mjaltatækin eru þrifin í lok mjalta. Þá er betra að vera ekki fyrir þegar hann af mikilli atorku þrífur vélarnar hátt og lágt.