Í Flóanum

17.11.2014 23:22

Pólitík

Ég hitti einn ágætan sveitunga minn um daginn og eins og alltaf þegar við hittumst ræðum við stjórnmál. Ástæða þess að við ræðum alltaf stjórnmál er að hann hefur mikinn áhuga á stjórnmálum og er einstaklega klár í þeim fræðum. Hann hefur að vísu aldrei tekið þátt sjálfur í starfi stjórnmálaflokks eða verið í framboði nokkursstaðar. En hann hefur sterkar skoðanir á öllu sem þar er sagt og gert. (eða ekki gert)

 

Ég hinsvegar hef tilhneigingu til að misskilja hlutina og kem ekki alltaf auga á samsærið og plottið sem liggur yfirleitt að baki. Ef ég myndi ekki hitta þennan ágæta sveitunga minn sem upplýsir mig reglulega um svik og klæki stjórnmálamanna er næsta víst að ég væri sannfærður um að flest það fólk sem gefur kost á sér í vinnu við stjórnsýslu landsins væri að vinna að heilindum og eftir sinni bestu getu og sínum hugsjónum.

 

Ég minnist þess að rétt fyrir síðustu kosningar trúði þessi ágæti sveitungi  minn mér fyrir því að nú ætlaði hann að kjósa Framsóknarflokkinn. Mér fannst það nú nokkur tíðindi og ég er nokkuð sannfærður um að það hefur hann aldrei gert áður. En nú var komið að því að Framsóknarflokkurinn var hans eina von.

 

Hann upplýsti mig um það hvernig þáverandi ríkisstjórn hefði svikið allt sem lofað var. Hvernig skjaldborgin um heimilin hefði snúist eingöngu um að verja bankana fyrir tjóni og hlaða undir þá sem steyptu sér í skuldafen í einhverju skuldafyllerí og vitleysu.

 

Ég reyndi nú að malda í móinn við hann. Ég þekkti nú reyndar lítið til þeirra úrræða sem þá voru í gangi en stóð þó í  þeirri meiningu að málið snérist aðallega um að reyna ef kostur væri að koma í veg fyrir að fólk tapaði húsnæði sínu.

 

Ég skulda ekki lengur neitt í mínu húsnæði og því ekki í sérstökum vandræðum með það. En ég var minnugur þess hvernig lífsbaráttan var á óðaverðbólgu árunum um og eftir 1980 þegar ég var koma mér upp húsnæði og börnunum mínum á legg.

 

Mér fannst það því vel geta verið bæði skynsamlegt og réttlætanlegt að ríkisvaldið kæmi að aðstoð við  þennan hóp í ljósi þeirra aðstæðna sem sköpuðust við hrunið. Annars finnst mér ríkið eigi fyrst og fremst að sinna þeim verkefnum sem að hefur tekið að sér eins og að reka heilbrigiskerfið, menntakerfið og samgöngukerfi og annað í þeim dúr.

 

Sveitunga mínu, sem er á aldur við mig og býr einnig í skuldlausu húsi, þótti ekki réttlátt hvernig þáverandi ríkistjórn stóð að þessu. Hann sagði ekkert réttlæti í  því að þeir sem syndguðu mest fengju alltaf mest fyrirgefið. !?  Og hann spurði hvers ættu hinar stritandistéttir að gjalda ?

 

Eins og ég sagði í upphafi hitti ég hann svo aftur nú um daginn. Ríkisstjórnin var þá nýbúinn að kynna leiðréttingu verðtryggðra húsnæðislána og átti ég ekki von á öðru en nú væri minn maður kátur.  En annað kom á daginn. Ég sem stóð í þeirri  meinigu að nú væri ríkisstjórnin akkúrat að hrinda í framkvæmd því sem hún lofaði og var kosin til að gera.

 

Þessi sveitungi minn, sem hafði kosið Framsóknarflokkinn í síðustu koningum, upplýsti mig um að hér væri enn og aftur um að ræða tóm svik og pretti. Þessi aðgerð snúi fyrst og fremt um að tryggja bönkunum sitt og að tekjuháir einstaklingar sleppi við að borga skuldinrnar sínar.  Hann var búinn að sjá í gegnum þetta allt saman.

 

Nú er bara spurningin hvaða flokk ætlar þessi ágæti sveitungi minn að kjósa næst.?

Flettingar í dag: 126
Gestir í dag: 16
Flettingar í gær: 328
Gestir í gær: 55
Samtals flettingar: 190766
Samtals gestir: 33867
Tölur uppfærðar: 3.4.2025 08:35:36
clockhere

Í Flóanum

Nafn:

Aðalsteinn Sveinsson

Farsími:

8607714

Heimilisfang:

Kolsholti I

Staðsetning:

Flóahreppur

Heimasími:

4863304

Tenglar