Í Flóanum

07.09.2010 07:48

Að byggja skóla...

Fræðsla grunnskólabarna er eitt af lögbundnum verkefnum sveitarfélaga. Þeim ber skylda til þess að sjá til þess að öll börn á grunnskólaaldri í sveitarfélaginu stundi grunnskólanám.

Til þess að uppfylla þessar skyldur þurfa sveitarfélög  annað hvort að reka grunnskóla eða fela einhverjum öðrum að sinna þessu verkefni gegn greiðslu. Kostnaður við hvern nemanda er alltaf greiddur af því sveitarfélagi sem nemandinn  á lögheimili í.

Lengst af hefur Flóahreppur  farið báðar þessar leiðir. Flóaskóli var rekinn fyrir 1. til 7. bekk en 8.,9.og 10. bekkur var keyrður á Selfoss og Sveitarfélaginu Árborg greitt fyrir að kenna þeim.

Til þess að reka skóla þarf húsnæði og aðstöðu.  Þó ég sé nú þeirrar skoðunnar að gæði skólastarfs fari nú aðalega eftir hæfni, kunnáttu og getu kennaranna sem sinna skólastarfinu er ljós að sú aðstaða sem boðið er upp á skiptir líka miklu máli. Góð aðstaða  stuðlar líka að því að halda í og fá til starfa hæfileikaríkt starfslið með metnað fyrir þvi sem það er að gera.

Sum sveitarfélög hafa komist að þeirri niðurstöðu að skynsamlegt sé að eiga ekki skólahúsnæðið sem þau reka skólana í,  heldur leiga það frekar frá fasteignafélögum. Mikilvægt er þó að átta sig á því að rekstur skólahúsnæðisins og byggingakostnaður þess er alltaf á endanum greiddur af þeirri starfsemi sem fram fer í húsinu.

Þegar ljóst var orðið að Flóaskóli var að verða of lítill fyrir þá starfsemi sem þar fór fram var ákveðið að skoða þessi mál í heild hjá sveitarfélaginu og marka skýra stefnu um það hvert ætti að stefna í þessum málum.

Strax kom í ljós að vaxandi áhugi var meðal íbúa sveitarfélagsins að efla enn frekar skólastarfið í Flóaskóla með því að stækka hann í heildstæðan gunnskóla fyrir alla tíu bekkina. Ég held að tvær megin ástæður hafi  verið fyrir þessum aukna áhuga á að bæta þremur elstu bekkjunum við Flóaskóla og hætta að senda þá á Selfoss.

Í fyrsta lagi hefur börnum fjölgað  í öllum árgöngum á undanförnum árum. Til þess að reka skóla fyrir unglinga er lykilatriði að nemendurnir  séu ekki of fáir svo dæmið gangi upp bæði félagslega og rekstarlega.

Hin meginástæðan fyrir þessum aukna áhuga á stækkun Flóaskóla er að mjög vel hefur tekist til með skólastarfið frá  því að skólinn var stofnaður og hann nýtur mikils trausts hér í samfélaginu. Sjálfur hef ég lengi verið þeirra skoðunnar að stefna ætti að þessari stækkun.

Til þess að meta möguleika Flóahrepps á að fara í þessar breytingar var settur á stofn stýrihópur í byrjun sumars 2008 sem hafði það verkefni að gera úttekt og vinna tillögur að staðsetningu og fyrirkomulagi  við uppbyggingu skólamála í sveitarfélaginu.  

Það fólk sem skipaði þennan stýrihóp gerði sér strax grein fyrir því að til þess að dæmið gæti gengið upp varð að taka tillit til tveggja lykilatriða. Fjármagn til uppbyggingar og reksturs er takmarkandi þáttur. Það getur aldrei gengið að skólastarf hér í sveit  sé dýrara en gengur og gerist annarsstaðar.

Hitt atriðið sem líka þarf  að vera fyrir hendi ef hér á að reka heilstæðan grunnskóla af fullum metnaði er að húsnæði og öll önnur aðstaða sem þarf til þess sé til staðar. Unnin var þarfagreining á því heildarhúsnæði sem þyrfti fyrir alla grunnskólabekkina í Flóaskóla.

Stýrihópurinn lét gera úttekt á þeim byggingum sem fyrir er á svæðinu með tillit til þess hvernig þær gætu nýst sem best í framtíðinni. Sérstaklega var horft til þess hvort það gæti borgað sig að breyta eldri byggingum á einhvern hátt m.a.elsta skólahúsnæðinu og  félagsheimilinu Þjórsárveri svo þær byggingar nýttust betur fyrir skólastarfið.

Niðurstaðan úr þeirri vinnu var að væntanlega væri hagkvæmast og best að nýta eldri byggingarnar nánast óbreittar en leggja áherslu á að byggja við það sem upp á vantar.  Allri kennslu yrði hætt í elsta skólahúsnæðinu og það nýtt fyrir skrifstofur og vinnuaðstöðu kennara auk þess sem þar væri hægt að hafa geymslur.  Mötuneyti skólans yrði áfram í Þjórsárveri.

Vegna aðstæðna á svæðinu og með framtíðarnýtingu þess í huga fyrir skóla- og íþróttastarfsemi var lagt til að reisa viðbyggingu á tveimur hæðum við skólann. Viðbyggingin sem þyrfti að vera u.þ.b. 1000 fermetrara af gólffleti innhéldi fyrst og fremst  skólastofur til kennslu. M.a. sérgreinastofur eins og  t.d. fyrir heimilsfræði, smíðar, myndmennt, textílmennt og tölvuver.

Sveitarstjórn Flóahrepps lét í framhaldi af þessari vinnu frumhanna viðbyggingu og óskaði síðan eftir verðhugmyndum í byggingu hennar frá verktökum. Byggingin var hönnuð sérstaklega með það fyrir augum að hún gæti verið bæði ódýr í byggingu og rekstri.

Þegar óskað var eftir verðhugmyndum frá verktökum var m.a.sérstaklega verið að leita eftir hugmyndum og tillögum þeirra um byggingarefni með það að leiðarjósi hvað væri hagstæðast í dag bæði með tillit til kostnaðar og endingu.

Á grundvelli allrar þessarar vinnu ákvað sveitarstjórn Flóahrepps svo að fara í þessar framkvæmdir.  Áætlun gerði ráð fyrir að hægt væri að fullklára þessa viðbyggingu fyrir umtalsvert lægri upphæð en nefnt var í upphafi.  Ekki var talin þörf á að auka skuldir sveitarfélgsins vegna þessara framkvæmda.

Framkvæmdir við bygginguna sjálfa hófust í ágúst á síðast liðnu ári og eru nú á lokastigi. Byggingin hefur verið tekin í notkun og nú í vetur stunda nám í skólanum 9 bekkir gunnskólans. 8.bekk var bætt við síðast liðið haust og 9. bekk núna þegar skóli hófst í haust. Búið er að taka ákvörðun um að 10. bekkurinn bætist svo við næsta haust.

Heildar kostnaður við framkvæmdir er enn sem komið undir þeim kostnaðaráætlunum sem gerðar voru. Þeir tímarammar sem unnið var eftir hafa að mestu staðist og byggingin er þegar komin í notkunn eins og að var stefnt.

Allir sem að þessum framkvæmdum hafa komið hafa lagt sig fram um að verkið gæti gengið upp.  Ég vil þakka þeim öllum fyrir frábæra vinnu og íbúum Flóahrepps óska ég til hamingju með glæsilegan skóla.

Flettingar í dag: 63
Gestir í dag: 22
Flettingar í gær: 201
Gestir í gær: 62
Samtals flettingar: 131440
Samtals gestir: 24084
Tölur uppfærðar: 26.4.2024 07:40:14
clockhere

Í Flóanum

Nafn:

Aðalsteinn Sveinsson

Farsími:

8607714

Heimilisfang:

Kolsholti I

Staðsetning:

Flóahreppur

Heimasími:

4863304

Tenglar