Í Flóanum

Færslur: 2015 Ágúst

30.08.2015 20:27

Reiðvegir

Allt frá því að bílar fóru að fara um landið fyrir rúmlega 100 árum hafa menn gert sér grein fyrir því að umferð bíla og hesta fer illa saman. Þessi frétt birtist í blaðinu Suðurlandi fyrir rúmlega 101 ári síðan eða þann 26. júní 1914:

"Bifreiðar þjóta nú um alla vegu hér eystra. Þykir þó alldýrt að ferðast með þeim og ekki öðrum hent en þeim er eiga aura gnægð. Ekki er laust við óhug í sumum ef mörg verða slík farartæki á ferðinni hér í sumar þar sem lestaumferð er jafnmikil á vegunum hér, enda ekki hættulaust fyrir bifreiðarnar sjálfar, því hæpið er að smábrýr þær sem á vegunum eru séu nægilega traustar. Svo tryggt sé fyrir slysum, mun því bifreiðastjórum ekki vanþörf á fullkomnustu og ströngustu aðgæslu og nákvæmni ef vel á að fara. Slæmt að hafa ekki sérstaka vegi handa bifreiðunum svo þær geti notið sín til samgöngubóta"

Nokkurm vikum seinna kom svo þessi frétt í Suðurlandi eða þann 1. ágúst 1914:

"Í fyrri viku höfðu 3 bílar (með útlenda ferðamenn) ráðist upp á Skeiðaveg í fullu heimildarleysi - vegurinn of mjór fyrir bíl og vagn að mætast. Þetta tiltæki varð líka að slysi. Einum bílnum (frá  Bookless í Hafnarfirði) var keyrt mjög óvarlega og fótbraut hann reiðhross Runólfs bónda í Skáldabúðum, mesta metfé. Fær bílstjóri trúlega makleg málagjöld."

Eins og þessar aldagömlu fréttir bera með sér hafa samskipti bíla og hesta alltaf haft í för með sér slysahættu. Það hefur því löngum verið mikilvægt að takmarka notkunn þeirra á sömu vegum. Það er nú löngu hætt að ræða það að gera sérstaka vegi fyrir bíla. Nú snýst umræðan frekar um að gera sérstaka reiðvegi og færa umferð ríðandi manna frá akvegum.

Hestamenn hér í Flóanum hafa verið vel meðvitaðir um nauðsyn þess. Reiðveganefnd hestamannfélagsins Sleipnis hefur unnið að því að opna nýja reiðleið austur Flóann með það m.a. að markmiði að minnka þörf hestamanna að fara með þjóðvegi 1 í austur frá Selfossi.

Þetta hefur verið risaverkefni fyrir eitt hestamannfélag en reiðveganefndinni, með Einar í Egilsstaðakoti í broddi fylkinga, hefur tekist að fá fjölmarga að verkefninu, m.a. landeigendur, sveitarfélögin, vegagerð, reiðvegasjóð og síðast en ekki síst fjölda félagsmanna. 

Í gær var svo hátíðarstund en þá héldu félagsmenn Sleipnis upp á það að nú er verkinu að fullu lokið eftir nokkurra ára  framkvæmdir. 

 


Farin var hópreið frá Selfossi og komið austur að Vola eftir þessari nýju leið. Við gömlu brúna á Vola var stutt athöfn en síðan haldið heim að Hlíðarbrún. Þar voru grillaðar pylsur í mannskapinn áður en menn riðu aftur til baka eða þá eitthvert annað í góða veðrinu í Flóanum í gær.

25.08.2015 21:35

Sumarstörf

Það hefur löngum verið þannig að börn og unglingar sækjast eftir að komast í einhverja launavinnu á sumrin á meðan frí er í skólum. Ég er sannfærður um að það sé þeim bæði holt og gott og ekki síðri menntun sem þau fá í vinnu við sitt hæfi en sú sem þau fá í skólum.

Hún Aldís Tanja sonardóttir mín í Jaðarkoti er nú orðin tíu ára gömul. Hún taldi sig nú geta unnið sér inn peninga í sumar. Það varð að samkomulagi milli mín og foreldra hennar að hún kæmi til mín virka daga í sumar og ynni, með mér, að hinum ýmsu verkefnum sem til falla hér á bænum í u.þ.b 2 klst. í senn. 

Þau er margvísleg verkefnin sem við höfum tekið okkur fyrir hendur í sumar og bæði haft mikið gaman að.





Eitt af mikilvægum verkefnum sem við höfum haft með höndum er að ganga frá plastendunum á rúllunum. Einnig höfum við svolítið verið í eftirliti og viðhaldi á girðingum, tínt rusl, þrifið inn í fjósi og ýmislegt fleira. Ég var ánægður með að hafa svona duglegan vinnukraft með mér í sumar.

Hann Arnór Leví bróðir Aldísar sótti fast að komast í vinnu líka. En þar sem hann er tveimur og hálfu ári yngri þótti það ekki sanngjarnt að hann  fengi strax vinnu. Honum því sagt að hann yrði að bíða þar til hann væri orðinn 10 ára eins og systir sín.

Hann hafði nú lag á að spila úr því. Í byrjun sumars fjárfesti hann í gömlu reiðhjóli á bílsskúrssölu hér í sveit og var óðar kominn með hjólið í verktöku. Hann náði sínum fyrsta verktakasamningi við ömmu sína. Hann tók að sér að fara á hjólinu á hverjum degi út að póstkassa og koma með póstinn inn í bæ.



Það voru fleiri sem sóttu fast að komast hér í vinnu. Þegar Kolbrún Katla, Hallfríður og Jón í Lyngholti fóru á heimsmeistaramót ísl. hestsins í Danmörku í byrjun ágúst dvöldu þau Hjalti Geir og Ásta Björg hér hjá okkur. 

Hjalti var óþreitandi að minna mig á að hann hafði lofað því að vera duglegur að hjálpa til þennan tíma. Hann vildi ólmur fá að gera eitthvað og tók m.a. að sér að moka höfrunum í nautin.



Þeir frændur Hjalti og Arnór voru segir að ná sér í hin ýmsu verkefni og lágu þá ekki á liði sínu.



Nú í dag var Flóaskóli settur. Sumarfríð í skólanum er því á enda og námsbækurnar taka nú við.



07.08.2015 21:29

Sumar

Þó ég vilji nú ekki kannast við að sumarið sé að verða búið þá verð ég samt að viðurkenna að nokkuð gengur á það. Leikskólinn hér í sveit er nú aftur tekinn til starfa eftir sumarfrí síðustu 6 vikur. Þeim leiddist það ekkert, yngstu barnabörnunum mínum, ( Ásta Björg í Lyngholti, Hrafnkell Hilmar í Jaðarkoti og Steinunn Lilja í Gamla bænum í Kolsholti) að mæta aftur í leikskólann.

Ekki svo að skilja að þau hafi verið í einhverrju reiðileysi síðustu vikur. Það hafa þau sannarlega ekki verið. Það hefur verið endarlaust nóg að gera og ýmislegt verið stundað úti í góðaveðrinu sem hér hefur verið í sumar.

Það hefur verið mikið hjólað.


Hrafnkell hugar reiðhjóli sínu. (ég held að hann sé að gera við)


Ásta Björg telur ekki eftir sér að hjóla á milli bæja hér í Kolsholtshverfinu.


Steinunn Lilja og Kolbrún Katla á góðri stund í sumar

Steinunn Lilja hefur notið þeirra forréttnda að hafa hana stóru frænku sína í Lyngholti, Kolbrúnu Kötlu, alveg útaf fyrir sig. Kolbrún hefur haft það sem sumarstarf að koma hér á morgnana og passa frænku sína á meðan foreldrar hennar eru í vinnu.

Kolbrún Katla lætur sér nú ekki allt fyrir brjósti brenna. Hún hefur átt það til að koma hér upp úr átta á morgnanna hjólandi og stundum ríðandi. Þá er hún áður búinn að ná sér í hest út í haga heima hjá sér og leggja á og ríða þessa 4 km sem hér eru á milli. Þegar hingað er komið stingur hún hestinum inn í hesthús og gefur honum.

Svo þegar hún hefur lokið hér störfum um kl 3 á daginn leggur hún á og ríður heim til sín aftur.

  • 1
Flettingar í dag: 176
Gestir í dag: 33
Flettingar í gær: 836
Gestir í gær: 166
Samtals flettingar: 190488
Samtals gestir: 33829
Tölur uppfærðar: 2.4.2025 08:23:53
clockhere

Í Flóanum

Nafn:

Aðalsteinn Sveinsson

Farsími:

8607714

Heimilisfang:

Kolsholti I

Staðsetning:

Flóahreppur

Heimasími:

4863304

Tenglar