Í Flóanum

Færslur: 2011 Apríl

30.04.2011 07:38

Suðurland...hvorki meira né minna.

Það er alveg ljóst að ef íslendingar ætla að vinna sig út úr þeirri kreppu sem nú herjar verður að nýta eitthvað af þeim tækifæri sem fyrir hendi eru til atvinnuuppbyggingar. Ef ætlunin er að minnka atvinnuleysi og auka tekjur í þjóðfélaginu aftur er lykilatriði að snúa sér að því verkefni. Þá er nauðsynlegt að halda sér við raunhæfar áætlanir og hugsa til einhverra framtíðar í þeim efnum

Hér á suðurlandi eru tækifærin mörg og margvísleg. Samband sveitarfélaga á Suðurlandi ásamt Atvinnuþróunnarfélagi Suðurlands og Markaðsstofu Suðurlands stóðu fyriri atvinnu- og orkumálaráðstefnu á Hótel Selfoss í gær. Ráðstefnan var haldinn undir heitinu "Suðurland - hvorki meira né minna- " Þar var reynt að draga fram eitthvað af þeim fjölmörgu tækifærum sem hér eru í aukinni atvinnuuppbyggingu.

Á ráðstefnunni var fjallað um málaflokkana; orkumál, ferðaþjónustu, skapandi greinar og matvælaframleiðslu. Fram kom, sem er mikilvægt að gera sér grein fyrir, að uppbygging í einni grein útlokar ekki annað og í mörgum tilfellum skapar uppbygging í einni frekar tækifæri í annarri grein. T.d. var á ráðstefnunni bent á að þau tækifæri sem helst blasa við í ferðaþjónustu tengjast þeirri fjölbreyttu matvælaframleiðslu sem er fyrir hendi og hægt að byggja hér upp.

Ferðaþjónustan á einnig möguleika í tengslum við lista og menningarlíf svæðisins en á ráðstefnunni var bent á nauðsyn þess að nýta betur þær fjárfestingar og þekkingu sem í ferðaþjónustunni er með aukinni vetrarstarfsemi.

Mjög áhugavert erindi var um ræktun á olíurepju. Á suðurlandi er til mikið af góðu ónotuðu ræktunnarlandi og það hlítur að vera eitt af okkar stóru tækifærum í framtíðinni að nýta það meira. Framleiðsla á olíu sem nýtt er sem eldsneyti er einn af þeim kostum sem eru í stöðunni.Sú ræktun stuðlar einnig að meiri fóðurframleiðsu sem nýtist til matvælaframleiðslu.

Á ráðstefnunni var gerð grein fyrir þeirri vinnu sem hefur verið í gangi á vegum rammaáætlunnar um vernd og nýtingu náttúrusvæða með tillit til virkjanakosta. Stór hluti af raforkuframleiðslu í landinu fer fram hér á suðurlandi og hestu áhugverðustu kostirnir til aukningar í þeim efnum virðast einnig vera hér. Það er mikilvægt ef farið verður í virkjanaframkvæmdir að nýta þá raforku sem allra best og þannig að það skili sem allra mestum tekjum og atvinnu. Að mínu mati á það að vera krafa númer eitt að íslenskt samfélag og þá ekki síður það samfélag sem næst slíkum virkjunum stendur hafi sem mestan hag af þeim.

24.04.2011 19:43

Sumarpáskar

Páskarnir hafa þá sérstöðu að þeir eru aldrei á sama tíma frá einu ári til annars. Yfirleitt eru þeir nú einhvern tíman í einmánuði. En svo kemur fyrir að þeir eru ekki fyrr en helgina eftir sumardaginn fyrsta eins og núna í ár. Þá eru sumarpáskar og skírdagur og sumardagurinn fyrsti bera upp á sama dag.

Þetta mun að jafnaði gerast á 15 ára fresti. Reyndar er misjafnt hvað líður langt á milli en eftir því sem ég hef lesið mér til um er styðsta bil á milli 3 ár en lengsta bilið 41 ár. Sumarpáskar voru síðast árið 2000. Það voru einnig sumarpáskar árin 1984 og 1973 en það var vorið sem ég fermdist.

Næst verða sumarpáskar ekki aftur fyrr árið 2038.

Svo getur það einnig komið fyrir að páskar séu á góu. Það er öllu sjaldgæfara en sú var raunin fyrir þremur árum 2008. Það mun ekki gerast aftur á þessari öld. Á síðustu öld voru góupáskar tvisvar árin 1913 og 1940.

Nú er mér í sjálfu sér alveg sama hvenær ársins páskarnir eru. Það eru ekki endilaga svo mikill munur á s.k. frídögum og öðrum dögum í sveitinni. Samt er það nú svo að á stórhátíðum er gjarna notað tækifærið til þess að gera sér dagamun.

Hér var mikið fjölmenni í mat hjá okkur í dag. Má sega að ættbálkurinn minn hafi komið saman en það eru alltaf góðar stundir. Börnin, tengdabörnin, barnabörnin ásamt foreldrum mínum og Öldu systir með sín barnabörn voru hér. Alls voru þetta 19 manns og tókum við hraustlega til matar okkar ásamt því að spjalla og leika okkur saman. emoticon

Annað sem við létum eftir okkur þessa dagana var góður útreiðartúr á föstudaginn. Þá var hér blíðu veður. Við Jón lögðum hér af stað um hádegi og riðum upp í Egilsstaðakot. Þaðan riður þeir feðgar, Einar og Þorsteinn, með okkur áfram upp í gamla Hraungerðishreppin þar sem við stoppuðum í Hjálmholti. Þar hafði bæst við í hópinn  Óli á Hurðarbaki. Frá Hjálmholti riðum við að Hurðarbaki ásamt Ólafi í Hjálmholti. Að endingu var komið við í Vatnsholti á leiðinni hingað heim. Hingað  vorum við Jón komnir um miðnætti aftur.

Þetta var mjög góður túr. Hrossin höfðu mjög gott af þessu og ferðafélagarnir voru skemmtilegir. emoticon

19.04.2011 07:32

Er komið vor?...

Þó það séu engin ný sannindi og hefur komið fyrir áður, þá er veðrið búið að vera hálf leiðinlegt undanfarið. Það svo að maður hefur jafnvel sleppt þvi að fara á hestbak þó tækifæri hafi gefist. emoticon

Nú er það ekki  þannig að um einhvert óveður hafi verið að ræða. Hér hefur hvorki verið frosthörkur, snjóbilur eða hvassviðri.  Það er aftur á móti vestanáttin, sem hefur verið nokkuð ríkandi undanfarið, sem fer í taugarnar á mér. Henni  fylgir gjarnan éljagangur ýmist með hagléljum, snjókomu, slyddu eða rigingu ásamt vindbelgingi.

Þrátt fyrir þetta er jörðin tilbúin fyrir almennilegt vor. Jarðklaki er víðast hvar enginn og almennt farið að þorna um. Það er að verða fært að hefja jarðvinnslu að fullum krafti. Það er nokkuð fyrr en í flestum árum. emoticon

Farfuglarnir hafa verið að tínast til landsins undanfarnar vikur.  Þó mófuglarnir virðast nokkuð umkomulausir í snjófölinni sem hér er annað slagið þessa dagana þá fer ekki á milli mála að þeirra tími er framundan.

Ein er sú samkoma hér í sveit sem gjarna  er haldin um það leiti sem vetur er að renna sitt skeið og vorið að taka við en það er Árshátíð Flóaskóla. Þetta eru ávalt mjög skemmtilegar samkomur og svo var einnig í ár. Hátíðin var haldin í Þjórsárveri  s.l. föstudag. Nemendur skólans  höfðu æft upp heilmikla dagskrá og sýndu á tveimur sýningum. Húsrúm í Þjórsárveri tekur orðið ekki alla gesti á einni sýningu.

Það er mikil vinna að skipuleggja svona dagskrá þannig að vel fari. Með samstilltu átaki nemenda, sem allir með tölu eru þátttakendur  í verkefninu, og starfsmanna skólans verður útkoman stór glæsileg.

Það er ekkert sem virkar betur við að uppræta svartsýni en það að sjá allt þetta unga fólk sem hér býr spreyta sig á verkefni eins og þessu. Maður getur ekki annað en orðið bjartsýnn á framtíðina eftir að hafa séð sýninguna hjá þeim. Ég þakka kærlega fyrir skemmtunina. emoticon

13.04.2011 21:15

Ársreikningur

Nú eru sveitarfélög almennt að leggja fram ársreikninga sína og afgreiða þá. Hjá Flóahrepp var hann lagði fram til fyrri umræði í sveitarstjórn 16. mars s.l. og hann síðan samþykktur samhljóða og undirritaður af sveitarstjórn á sveitarstjórnarfundi 6. apríl.

Þrátt fyrir samdrátt í rauntekjum og miklar kostnaðarhækkanir á síðasta ári gekk rekstur Flóahrepps vel á síðasta ári. Það hjálpaði til að tekjusamdráttur varð minni en áætlað var. Fjárhagsáætlun stóðst í aðalatriðum mjög vel. Má segja að einu liðirnir sem fóru fram úr áætlun voru skatttekjur og einnig launakostnður lítilega sem má rekja til hækkunnar á tryggingagjaldi.

Það er ekki sjálfgefið að það takist að reka sveitarfélagið með jafn góðri rekstrarniðurstöðu og raunin varð. Hér hafa allir tekið höndum saman bæðið kjörnir fulltrúar og starfsmenn sveitarfélagsins og stofnanna þess. Fólk hefur lagt sig fram við það að ná þessum glæsilega árangri. Vil ég þakka öllum sem að þessum rekstri koma fyrir gott starf og góðan árangur. 

Eins og fram kemur á heimasíðu Flóahrepps www.floahreppur.is voru heildartekjur tæpar 400 millj. Rekstrarniðurstaða var jákvæð um 37 milljónir. Bókfærð eign er upp á rúmar 558 millj og heildarskuldir eru tæpar 139 millj.  

Miðað við stærð og tekur er fjárhagsstaða Flóahrepps sterk. Skuldir í hlutfalli við heildartekjur eru mjög litlar og fjármagnskostnður er sáralítill. Það er mikilvægt að verja þess stöðu og en hún gefur okkur tækifæri á að halda áfram uppbyggingu á innviðum samfélgsins hér. Það er bæði áhugavert og spennandi verkefni.  emoticon   

05.04.2011 07:41

Félagsþjónustan

Þó félagsþjónustan sé ekki hlutfallslega stór málaflokkur hjá sveitarfélaginu er um afskaplegan mikilvægan málaflokk að ræða.  Það er mikilvægt að öll félagsleg aðstoð sé markviss og að henni sé unnið á faglegan hátt. Hún á að standa þeim til boða sem hennar þarfnast en öðrum ekki. Hún þarf alltaf að vara til staðar hvernig sem árar.

Frá því að Flóahreppur varð til fyrir tæplega fimm  árum hefur  markvisst verið unnið að því að efla samstarf við önnur sveitarfélög  um þessi mál. Í fyrstu var reynt að efna til samstarfs með Sveitarfélaginu  Árborg á grundvelli samnings sem gömlu hrepparnir höfðu gert árið 2005 við þáverandi sveitarstjórn Árborgar.  

Það samstarf gekk hinsvegar ekki upp þar sem Árborg  treysti sér ekki til þess að standa við þann hluta samkomulagsins  sem kvað á um að gerður yrði þjónustusamningur sem tryggði  Flóahrepp aðgang  að sérfræðingum fjölskyldumiðstöðvar Árborgar í málefnum íbúa Flóahrepps.  Það var lykilatriði fyrir Flóahrepp í samstarfinu og var því þessu samstarfi slitið og leitað annað.

Frá því seint á árinu 2007 hefur Flóahreppur verið í samstarfi við uppsveitir Árnessýslu um þennan málaflokk. Sveitarfélögin sem eru fimm talsins hafa verið með sameiginlegan Félagsmálastjóra sem sinnt hefur þessum málum á öllu svæðinu.

Þetta samstarf hefur gengið mjög vel og skipti að mínu mati alveg sköpum hér í þvi að efla faglega vinnu við þessi mál. Það má hinsvegar alltaf gera betur og nú í vetur hefur verið í gangi vinna við að skoða möguleika á enn meira samstarfi við fleiri sveitarfélög. Markmiðið er að efla og styrkja félagsþjónustuna á svæðinu öllu.

Undanfarnar vikur hafa sveitarfélögin í Ölfusi og í Hveragerði verið í viðræðum við okkur um þetta. Bæði í Þorlákshöfn og í Hveragerði eru Félagsmálastjórar sem sinna þessum málum í sínum sveitarfélögum.  Nú er verið að skoða hagkvæmni þess að sameina þessi þrjú embætti í eitt en vera með fleiri félagsráðgjafa sem sinna verkefnum á hverjum stað. Markmiðið er að geta sinnt skjólstæðingum þjónustunnar á svæðinu öllu betur.

  • 1
Flettingar í dag: 176
Gestir í dag: 33
Flettingar í gær: 836
Gestir í gær: 166
Samtals flettingar: 190488
Samtals gestir: 33829
Tölur uppfærðar: 2.4.2025 08:23:53
clockhere

Í Flóanum

Nafn:

Aðalsteinn Sveinsson

Farsími:

8607714

Heimilisfang:

Kolsholti I

Staðsetning:

Flóahreppur

Heimasími:

4863304

Tenglar