Í Flóanum

31.03.2018 12:06

Lífshlaup langömmu.

Langamma mín hét Kristín Jónsdóttir. Hún fæddist á Kotungsstöðum í Fnjóskadal í Suður-Þingeyjarsýslu árið 1869 þar sem foreldrar hennar voru í húsmensku. Faðir hennar var Jón Guðlaugsson ( 1834-1928) ættaður úr Fnjóskadal og Mývatnssveit. Móðir hennar var Helga Sigurðardóttir ( 1836-1908) úr Fnjóskadal.

Kristín langamma mín elst upp í Fnjóskadalnum en um 1890 er hún komin norður í Þistilfjörð.  Árið 1892 giftist hún Vigfúsi Hjartarsyni. Hann var fæddur í Geitareyjum á Breiðafirði 1863 en er kominn austur í Vopnafjörð 1890. Er vinnumaður þar og í Þistifirði næstu árin. Þau eru bæði á Svalbarði í Þistilfirði þegar þau giftast og þar fæðast fyrstu 3 börn þeirra árin 1893, 1894 og 1896. Árið 1899 eru þau komin á Þórshöfn.

Í apríl 1899 deyr Vigfús af slysförum. Hann sker sig illa á handlegg þannig að slagæð fer í sundur og honum blæðir út. Kristín er þá ófrísk af þeirra fjórða barni. Hún er í Hvammi í Þistilfirði þegar barnið fæðist 8 mánuðum eftir að Vigfús deyr.


Árið 1901 giftist Kristín svo langafa mínum Páli Eiríki Pálssyni. Af forfeðrum mínum. ()  Þau hefja búskap í Krossavík í Þistilfirði það ár og afi minn Aðalsteinn Jóhann Eiríksson (1901-1990) fæðist. Næstelsta barn Kristínar, Ragnheiður Regína (1894-1933) verður eftir í Hvammi sem fósturbarn og elst þar upp.

Í Krossavík eignast þau Kristín og Eiríkur sitt annað barn, stúlku,1903 en hún lést rétt mánaðar gömul. Aðra stúlku eignast þau 1904 en hún lést einnig rúmlega ársgömul, Þá eru þau reyndar farin frá Krossavík og kominn á Þórshöfn. Á Þórshöfn eignast þau svo 4 stráka, fædda 1905, 1908, 1910 og 1913 sem komust allir upp.

Árið sem yngsti sonur þeirra fæðist 1913 verða þeir atburðir i Hvammi í Þistilfirði, þar sem Ragnheiður dóttir Kristínar hefur alist upp, að hún hröklast frá bænum og fer til Þórshafanar. Frá þessu er sagt itarlega í Alþýðublaðinu í mars 1939. Frásögnin er birt í þremur tölublöðum sem framhaldsgrein og eru þær lýsingar hreint út sagt ótúlegar.

 http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=63910&lang=da

Þarna virðist um að ræða einhverja stórkostlega reimleika sem virðast með einhverju móti tengjast Ragnheiði hálfsystir afa míns. Ragnheiður sem er 18 ára þarna fer til Þórshafnar. Bróðir hennar Guðlaugur Helgi kemur einnnig við sögu í þessari frásögn og er sagður til heimilis í Laxárdal en hann er 16 ára þegar þessir atburðir eiga sér stað.

Þetta sama ár 1913 byggja þau Kristján Þórarinsson frá Laxárdal og Ingiríður Árnadóttir frá Gunnarsstöðum nýbýlið Holt í Þistifirði. Þangað er afa mínum komið í fóstur þá á 12 ári. Yngsti bróðir hans sem er fæddur þetta örlagaríka ár 1913 er einnig komið í fóstur. Þannig að heimilisaðstæður Kristínar og Eiríks, langömmu og langafa míns, hafa sennilega verið nokkuð bágbornar þegar þarna er komið sögu.

Ég hef engar heimildir um hvað á daga þeirra hefur drifið síðar en Kristín lést  8 árum seinna þá 52 ára gömul. Eiríkur lést 1930 þá 57 ára gamall






15.02.2018 09:22

Þorrablót

Í tilefni þess að nú er styttist í Þorraþræll og Þorrablótið í Þjórsárveri ætla ég að rita þessa sögu. Hún gerðist fyrir löngu síðan. Það er svo langt síðan að ég man ekki hvað er satt og logið í henni, en læt það mér engu skipta.


Við Kolbrún höfum verið saman í búskap í nær 40 ár. Allan þann tíma höfum við ekki svo oft farið saman út að skemmta okkur. Ein er sú skemmtun sem við látum þó aldrei fram hjá okkur fara en það er Þorrablótið í Þjórsárveri. Þar höfum við mætt á hverju ári og skemmt okkur vel.


Stundum hefur það nú verið harðsótt. Það hefur komið fyrir að það hefur rekist á við eitthvað annað. En alltaf hefur tekist að greiða úr því þannig að við höfum komist á Þorrablótið.


Einhverra hluta vegna hefur það æxlast þannig í gegnum tíðina að ég hef þvælt mér í allslagt félagsstörf. Um skeið var ég mikið að starfa fyrir ungmennfélagið og í framhaldi af því fyrir Héraðsambandið Skarphéðin.(HSK). Það kom fyrir að Héraðsþing HSK var haldið sömu helgi og Þorrablótið. Í þá daga stóðu Héraðsþing HSK í tvo daga ( laugardag og sunnudag)


Þegar þessi saga gerðist stóð svo á að Héraðsþingið var haldið austur að Skógum laugardag og sunnudag og þessa sömu helgi var Þorrablótið í Þjórsárveri um laugardagskvöldið. Ég starfaði þá sem gjaldkeri HSK og þurfti því að mæta á Héraðsþingið.


Nú það var ekki annað í stöðunni en fara á laugardagsmorgninum austur að Skógum. Planið var svo, þegar þingstörfum lyki á laugardeginum að bruna heim aftur í Flóann og mæta á Þorrablótið. Þegar Þorrablótinu væri svo lokið undir morgun yrði brunað aftur austur að Skógum á Hérðasþingið. Á þessum árum var maður ungur og kippti sér ekkert upp við það þó svefntíminn væri ekki alltaf reglulegur.


Sem gjaldkeri lagði ég fram tillögu að fjárhagsáætlun fyrir sambandið á þinginu. Seinnipartinn á laugardeginum tók fjárhagsnefnd þingsins til starfa. Ég átti í smá vandræðum með að fá fjárhagsáætluna samþykkta frá nefndinni þannig að mér finndist ásættanlegt. Umræður drógust á langinn og loks þegar niðurstað fékkst sem allir gátu sætt sig við var klukkan farin að ganga átta.


Nú var ég að verða of seinn ætlaði ég að vera komin á Þorrablót í Þjórsárveri kl níu. Ég henntist út í bíl og brunaði af stað heim. Sem betur fer var bæði veður og færi gott. Ferðin gekk því vel en þegar ég var kominn lagnleiðina að Markafljóti birtist allt í einu hvítklædd vera í ljósunum frá bílnum á miðjum veginum. Ég snarhemlaði!


Ég hugsaði með mér að þetta gæti ekki verið annað en vofa. Þrátt fyrir að ég nauðhemlaði átti ég varla von á að bíllinn næði að stöðvast áður en hann kæmi að þessu fyrirbrigði. Ég gat búist við að hann myndi bara renna í gegnum þetta eins og reyk.


En sem betur fer stöðvaðist bíllinn rétt í þann mund sem framstuðarin kom að verunni. Ég stökk út úr bílnum til að kanna þetta betur. Þá sá ég reyndar að þetta var ung kona af holdi og blóði. Hún virtist vera ómeidd en var greinilega nokkuð ölvuð. Ekki veit ég enn þann daginn í dag hvernig stóð á veru hennar þarna á veginum í þessu ástandi á þessum tíma. Ég fékk ekki nokkur botn í hvað hún var að reyna að segja. Hún vildi helst bara syngja fyrir mig.


Ég mátti nú ekki vera að því að dvelja þarna lengi. Ekki gat ég heldur skilið konuna þarna eftir. Þetta var löngu fyrir tíma GSM símanna þannig að ég gat ekki haft samband við neinn út af þessu þarna á staðnum.


Ég gerði því það eina sem mér datt í hug í stöðunni. Ég kom konunni fyrir í framsætinu í bílnum hjá mér. Síðan hélt ég áfram leið minni og ætlaði að reyna að nota tímann til að komast að því hver þessi kona var og hvert hún ætlaði að fara.


En ég var ekki kominn langt þegar það rann upp fyrir mér að nú fyrst var ég kominn í vandræði. Um leið og konan var kominn inn í heitan bílinn hjá mér leið hún útaf og steinsofnaði. Ég fékk hvorki hósta né stunu upp úr henni. Aðeins bara hroturnar í henni þar sem hún sat eins og hrúald í framsætinu hjá mér.


Þetta gat ekki vísað á gott. Að koma seint heim, einmitt þegar ætlunin var að fara  út með Kolbrúnu að skemmta sér. Það var nú ekki svo oft sem það stóð til. Heldur þyrfti ég nú líka að útskýra hvað dauðadrukkin ókunnug kona var að gera í bílum hjá mér.


Sem betur fer leystist þetta nú. Þegar ég kom á Hvolsvöll sá ég þar á gangi mann sem ég þekkti. Ég renndi bílnum upp að honum og útskýrði fyrir honum vandræði mín.  Þegar hann sá konuna í bílnum hjá mér kannaðist hann strax við hana. Hann tók að sér að koma henni til sýns heima. Bíllinn hans var þarna skammt frá og færðum við hana nú yfir í hans bíl. Ég gat nú haldið áfram för minni laus úr þessum vandræðum.


Þegar ég kom heim var klukkan rétt að verða níu. Kolbrún var búinn í öllum verkum og hafa sig til á blótið. Þannig að um leið ég renndi í hlað heima kom hún út í bíl og við gátum nú farið beint upp í Þjórsárver á Þorrablótið.


Þegar við vorum á leiðinni þangað tek ég eftir að annar skór ungu konunnar hafði orðið eftir á gólfinu í bílnum hjá mér. Þar sem allt hafði nú gengið upp í þessari lýgilegu atburðarás fram að þessu, fór ég nú að hafa áhyggur af því hvernig ég ætti að útskýra þennan ókunna kvennmannsskó í bílnum.  Ég hef sennilega óttast að það hefði einhvar áhrif á stemmingu kvöldsins.


Ég tók það þá til ráðs um leið og við keyrðum fram hjá Vatnsenda að ég bendi svona heim að bænum og segji: "Er þetta ekki gamall Moskvits sem stendur þarna heima hlaði á Vatnsenda." Kolbrún fer að horfa heim að bænum og þá notaði ég tækifærið. Ég læði hendinni niður með fætinum á Kolbrúnu og kræki með vísifingri í hælbandið á skónum og dreg hann til mín. Hendi honum svo út um gluggann mín meginn um leið og við förum yfir brúna á Vantsendagilinu.


Kolbrún varð ekki vör við neitt. Nú ökum við upp hlað í Þjórsárveri. Klukkan er akkúrat níu. Ég snarast út úr bínum en það virðist eitthvað hik vera á Kolbrúnu. Ég geng því kringum bílinn og opna fyrir henni hurðina. Enn er eitthvað hik á Kolbrúnu. Svo lítur hún á mig, þar sem ég stend fyrir utan bílinn og held upp hurðinni fyrir hana, og segir við mig:


" Heyrðu Steini, ég skil ekkert i því hvað orðið hefur um annan skóinn minn"

 

 

 

28.01.2018 08:53

Tungumálaörðuleikar

Ég hef aldrei verið góður í tungumálum og má segja að það jaðri við fötlun. Þegar ég var í skóla voru mínar einkunnir lægstar í ensku og dönsku. Eftir að ég hættti skólagöngu hefur það ekki batnað og ég á í erfileikum með að skilja bæði talað og ritað mál t.d. bara á ensku.

Ég verð hinsvegar var við það að börn í dag læra ensku svo til samhliða móðurmálinu sínu. Ég hef getað leiað til barnabarna minnar ef ég er í erfileikum með að skilja eða tjá mig á ensku. Þau, sum hver bara ný byrjuð í grunnskóla, eru ekki í erfileikum með hvorki að skilja eða tala ensku ef á reynir.

Það er frábært og mun án efa gagnast þeim í framtíðinni. Hins vegar er ég alveg búinn að átta mig á því að ef ekki er unnið markvist og meðvitað í því að varðveita íslenska tungu sem lifandi tungumál mun hún láta undan og hverfa á tiltölulega skömmum tíma.

Mér finndist það nú menningarlegur skaði fyrir heimsbyggðina ef það gerist og ég held að fleiri séu mér sammála um það. Það væri hinsvegar kannski praktískara að allir töluðu sama tungumálið sem gæti t.d. heitið "alheimska". Allir myndu skilja alla og allir tungumálaörðuleikar úr sögunni.

Það hefur sjáfsagt lengi fylgt manninum allskonar erfileikar með að skilja framandi þjóðir Eins að koma einhverju á framfæri við aðra sem erfitt er að skilja. Allslags miskilningur og vandræði er hægt að rekja til tungumálaerfileika öldum saman

Tveir menn hér í Flóanum, þeir Valdi kjaftur í Efri-Gróf (Þorvaldur Gunnlaugsson 1762-eftir 1835) og Markús í Traustholtshólma (Markús Þorvaldsson 1754-1821) lentu heldur betur í vandræðum einhverntíman seint á 18. öld. Þá hugðust þeir vekja upp draug í gamla kirkjugarðinum í Villingaholti af sjóreknum manni sem átti að færa þeim auðæfi af hafsbotni.

Svo illa tókst til að upp kom danskur matsveinn af stríðsskipinu Gothenborg sem farist hafði á Hafnarskeiði árið 1718. Mannbjörg varð að mestu en skipverjum, sem voru um 170, var komið fyrir á bæjum bæði við Faxaflóa og á Suðurlandi. Þeir voru misjafnlega á sig komnir og lifðu sumir ekki lengi eftir volkið. Þessi danski matsveinn verslaðist upp og dó á einhverjum bæ hér í Flóanum og var jarðaður í Villingaholti.

Það var svo komð fyrir þeim félögum Valda kjaft og Markúsi eins og mér að þeir voru lélegir í dönsku. Þessi uppvakti danski matsveinn kunni heldur ekkert í íslenksku þannig að þeir skildu aldrei hvorn annan. Þeir gátu því enga stjórn náð á draugnum og varð nú Markús orðinn hræddur.

Tók hann á rás út úr kirkjugarðinum. Þegar hann var að fara út um sáluhliðið benti Valdi draugnum á eftir honum. Sagt er að þessi draugur hafi síðan fylgt Markúsi og afkomendum hans. Var síðar kenndur við Leirubakka á Landi en hann mun hafa fylgd dóttur Markúsar sem þar bjó.

Aðrar sögur segja reyndar að prestur hafi verið fengin til að kveða drauginn niður. Man ég vel eftir hellu einni sem Draugahella heitir á eða við hólinn þar sem gamli bærinn í Villingaholti og kirkjugarðurinn var forðum. Þar var mér sagt að Gothenborgardraugurinn hafi verið kveðinn niður og þessari hellu komið fyrir og vissara að hreyfa hana ekki.





30.12.2017 20:58

Bústærð

Það er kunnara en frá þurfi að segja að kúabúum hefur fækkað stórlega en aftur á móti stækkað. Þessi þróun hefur verið í gangi meira og minna í heila öld og ekkert sem bendir til annars en svo verði áfram.

Þegar afi minn Þórarinn Auðunsson (1892-1957)  og amma Elin Guðbjörg Sveinsdóttir (1898 -1993) Safn heimilda um ævi og störf ÞA og EGS hófu sinn búskap í Fagurhlíð austur í Landbroti árið 1921 tóku þau til við að byggja upp öll hús á jörðinni. M.a. byggðu þau þar fjós fyrir 2 kýr einhvertíman á árunum 1922 til 1930

Tuttugu árum seinna eða árið 1946 eru þau aftur tekin til við að bygga. Nú eru þau komin suður og fengið til ábúðar nýbýli úr landi Lágafells í Mosfellssveit. Þar voru stofnuð 8 nýbýli um 30 ha hvert. Á þessu tíma þótti það ákjósanleg stærð til rekstrar.

Nýbýlið fékk nafnið Lágahlíð og nú er byggt fjós fyrir 12 kýr ásamt hlöðu, litlu fjárhúsi, hæsnahúsi, vélageymslu og að sjálfsögðu íbúðarhúsi. 

En rúmum tuttugu árum seinna eða 1969 eftir að hafa rekið búskapinn í Láguhlíð frá því að afi féll frá 1957 flytja foreldrar mínir austur í Flóa. Þau kaupa jörðina Kolsholt 1 ásamt eyðijörðinni Jaðarkot og taka þar til við búrekstur. Nú eru básarinir í fjósinu orðnir 32.

Tæpum tuttugu árum seinna eða 1986 eftir að við Kolbrún erum kominn inn í búreksturinn er hér tekið í notkunn nýtt fjós og nú eru básarnir orðnir 70. Pabbi Sveinn Þórarinsson f. 6. sept. 1931 d. 11. nóv 2013 (langi) () sagði oft að veruleikinn væri sá að stækks þyrfti kúabúin um 1 kýr á ári að meðaltali til að halda í víð þróunina.

Nú segir þessi básafjöldi í þessum fjósum ekki alla söguna á bak við búskapinn. Um það leiti sem við erum að byggja núverandi fjós hér á jörðinni með 70 legubásum eru settar á allskonar stærðartakmarkanir á bústærðir til að bregðast við offramleiðslu.

Fyrst var reynt að takmarka fjármagn til uppbyggingar á hverri jörð til að sporna við stækkun búanna. Síðan tóku við framleiðslutakmarkanir sem voru bísna harkalegar á köflum.

Básarnir 70 hafa aldrei nýst allir fyrir mjólkurkýr enda var í upphafi alltaf reiknað með að þeir væru að hluta til fyrir kvígur í uppeldi. Síðan vegna framleiðslutakmarkanna í mjólk hefur hluti fjósins ávalt verið notaður í nautakjötsframleiðslu sem kannski ekki var gert ráð fyrir í upphafi

Í upphafi gerðum við ráð fyrir að framleiða 200.000 lítra af mjólk á ári í þessu fjósi og þótti það á þeim tíma allnokkuð. Það varð nú samt bið á að það takmark næðist. Vegna fyrrgreinda takmarkanna urðum við að minnka framleiðsluna þegar fjósið var tekið í notknn.

Í gamla fjósinu, sem var hér á jörðinni þegar við fluttum í Flóann komumst við hæðst í að framleiða eittkvað rúmlega 130.000 lítra, þarna um það leiti sem við vorum að undirbúa okkur í að byggja nýtt fjós. Það var svo nokkurn vegin það framleiðslu magn sem hér var búið með allt fram til ársins 2010.

Það var reyndar aðeins mismunur milli ára. Stundum varð að skera niður sérstaklega á fyrstu árunum í nýja fjósinu. Þá var engin heimild til að kaupa kvóta og varð að búa við þann kvóta úthlutað var.

Seinna voru heimiluð kaup og sala á kvótanum en þá vorum við komnir í gegnum stæðsta skuldaskaflinn eftir byggingaframkvæmdirnar. Verð á kvóta rauk strax upp úr öllu valdi þegar frjáls verslum með hann var heimiluð. Við höfðum lítinn áhuga á að skuldsetja okkur aftur og aðlöguðum búskapinn að þeim kvóta sem við höfðum.

Þegar kom fram á þess öld var nokkuð jafnvægi orðið í framleiðslu og sölu á mjólk og mjólkurvörum í landinu. Nú fór jafnvel aukast sala. Mjólkurkvótin jókst og stundum fékkst nokkuð greitt fyrir umframmjólk.  Við fórum, þó í smáum stíl, að auka framleiðslu á mjólk umfram kvóta í von um að eitthvað fengist fyrir hana. Árið 2012 og 2013 voru framleiddir hér á milli 170 og 180 þús lítrar.

Það kom svo að því að menn hugðu ekki að sér og það vantaði meiri mjólk til að bregðast við söluaukningu Það varð skortur á smjöri í árslok 2013 vegna þess að þegar kvóti var ákveðin fyrir árið gerðu menn ekki ráð fyrir þeirri söluaukningu sem náðist. Nú voru bændir sárbændir um að framleiða meira. Kvótinn var aukinn og að auki fullu verði lofað fyrir alla umframmjólk árin 2014 og 2015.

Árið 2014 er yngra fólk að koma hér inn í reksturinn og þá er tekin sú ákvörðun að vinna markvisst að því að auka frammleiðslu hér á mjólk til frambúðar. Það ár eru framleiddir hér 180.221 lítrar, árið eftir 2015 er framleiðslan komin í 228.598 og má sega að þá fyrst hafi því takmarki sem stefnt var að í upphafi (200.000 l ) verið náð og reyndar aðeins betur. Árið 2016 er framleiðslan komin í 235.706 lítra og á síðasta ári er framleiðsaln svo 266.464 lítrar.









20.11.2017 21:56

Rangur misskilningur

Ég er sennilega gjarn á að misskilja hlutina og hef ég áður bent á það hér á þessari síðu. Sérstaklega er mér hætt við að misskilja pólitíska umræður og stjórnmálamenn allmennt. Þó ég sé ekki mikið pólitískur hef ég áhuga á umræðum og rökræðum um ýmis mál er varaðar þjóðarhag. Enda er slík umræða alger forsenda fyrir lýðræðinu í landinu og sjálfstæði þjóðarinnar. emoticon

Ég t.d. stóð í þeirri meiningu að öll sú umræða er átt hefur sér stað í áraraðir um eflingi verk- og iðnmáms í landinu þýddi ekki bara það að auka þurfi framboð af slíku námi. Það hlyti líka að hanga á spítunni eitthvað um að fólk hefðu eitthvað bitastætt út úr því að stunda slíkt nám.

Það hafa ófáar skýrslur verið gerðar um nauðsyn þesss og efla og strykja slíkt nám. Síðast liðinn vetur benti Ríkisendurskoðun á að nemendum fækkar ár frá ári í þessum greinum. Atvinnulífið vantar samt starfsfólk með slíka menntun og kunnáttu.

Mér finnst augljóst að tilgangslaust er að auka framboð af slíku námi ef nemendur leita ekki í það. En hvers vegna velja sífellt fleiri að sniðganga sílkt nám?

Mér hefur reyndar fundist lengi lítil virðing borin fyrir verk- og iðnmámi í þjóðfélaginu og með fullri virðingu fyrir öllu háskólanámi þá er rík tilhneiging að snobbað fyrir því. Stundum finnst mér stjórnvöld og ýmsar opinberar stofnanir fara þar í fylkignarbrjósti.

Í fyrra var lögum um útlendinga breytt á Alþingi. Þá gerði Alþingi m.a. þær breytingar á lögum um útlendinga að einungis mán á háskólastigi veitti rétt til dvalarleyfi hér á landi. Allt annað nám s.s allt iðnmám dugði ekki lengur til þess að fá dvalarleyfi. Nemi sem hér hefur stundað nám og unnið baki brotnu við það að afla sér réttinda undanfarin ár er nú allt í einu gert að hætta og drífa sig úr landi. Ef umræddur nemi hefði hins vegar verið í einhverskonar háskólanámi, í hvaða námsgrein sem er, hefði ekkert mál verið að fá dvalarleyfið áfram.

Í nýlegum búvörusamningum var samið um það að taka hluta af stuðningi ríkisins við landbúnaðinn í að veita styrki til nýliðunnar í landbúnaði. Í samningum stendur aðeins að MAST (Matvælastofnun) sé falið að ráðstafa þeim fjármunum sem í þetta eiga að fara með það að markmiði að aðstoða nýliða við að hefja búskap og auðvelda ættliðaskipti.

Í reglugerðinni sem Sjávar- og landbúnaðarráðuneytið gefur svo út um almennan stuðning í landbúnaði er MAST veitt heimild til að forgangsraða umsóknum um nýliðunnarstyrki með tillit til þrigga þátta þ.e. menntunnar umsækanda, jafnréttissjónarmiða og hversu stór eignarhluti nýliða er í búrekstri sem fjárfest er í.

Nú er sett upp puntakerfi til þess að vinna eftir við forgangsröðun umsókna. Varðandi menntun fær sá sem lokið hefur framhaldsnám í háskóla 10 punta, sá sem lokið hefur Bs eða Ba prófi í háskóla fær 8 punta, búfræði próf 7 punta og annað nám sem nýtist í landbúnaði 3-7 punta. Síðan fá umsækendur einnig punta varðandi jafnréttissjónarmiða og eignarhluta í sínum rekstri. Sambýisfólk eða hjón teljast sem einn aðili. og teljast puntar hjá þeim aðila sem fleiri punta fær. Puntar teljast aldrei hjá báðum aðilum.

Samkvæmt frétt frá MAST í Bændablaðinu frá 2 nóv s.l. fengu alllar umsóknir sem fengu 18 punta eða fleira styrki. Þeir sem voru með færri punta fengu engan styrk þó þeir uppfylltu almenn skilyrði fyrir því að fá nýliðunnarstyrk.

Gefum okkur tilbúið dæmi um tvö hjón sem bæði eru að byrja búskap og sækja um nýliðunnarstyrk. Bæði eru með jafn stóran eignarhluta í sínum rekstri og bæði eru af gagnstræðu kyni, þannig að varðandi þesssi atriði standa þau jafnt að vígi. Hjá öðrum þessara hjóna er annar aðilinn með enga menntun en hinn aðilinn hefur lokið framhaldnámi frá virtum Háskóla í t.d. kynbótafræði sem klárlega nýtist í búrekstrinum. Þessi umsókn fær væntanlega 10 punta vegna menntunnar. Hjá hinum hjónunum er annar aðilinn með búvísindapróf frá Hvanneyri auk þess að hafa lokið námi í húsasmíði og hinn aðilinn er með búfræðipróf frá Hvanneyri ásamt meistara réttindum sem bifvélavirki og einnig í vélsmíði. Þessi umsókn fær 8 punta vegna menntunnar umsækanda.

Þarna getur svo skilið á milli þegar peningum er ráðstafað. Umsókn þeirra sem hafa einungis eitt sérhæft háskólapróf og enga aðra menntun gæti fengið fullan styrk en hin umsóknin engan. Hjá hvoru þessara hjóna sem eru að byrja búskap er saman komin meiri og betri menntun til þess að takast á við verkefnið? Þeim sem fékk styrkinn eða þeim sem engan styrk fá.?

Sjálfum finnst mér augljóst hjá hvoru meiri menntun er til að takast á við hefðbundin búskap. Mér finnst reyndar varla hægt með skýrari hætti að drulla yfir allt verk- og iðnám ef opinberu fé er útdeilt með þessum hætti. Eru forystumenn bændasamtakanna sáttir við þessa aðferð? Nú vil ég taka fram að ég er alls ekki á móti því að fólk með sérhæfða háskólamenntun stundi búskap eða fái styk til þess. Það getur vissulega verið fengur að því fyrir bæði bændastéttina og þjóðfélagið allt og vissulega er það ágætt að reyna að stuðla að aukinni menntun meðal bænda. En það á þá ekki að gera með úreldum hugsanagangi hvað menntun er.












24.10.2017 09:07

Flóamannabók og ættartengsl.

Fyrsta vetrardag s.l. var efnt til veislu í Þingborg hér í sveit. Hér var um að ræða. kótilettukvöld á vegum rítnefndar Flóamannabókar og er fjáröflun fyrir það verkafni. Flóamannabók er stórt og metnaðarfullt verkefni.sem felst í ritun byggðasögu svæðisins sem nú heitir Flóahreppur.

Í Flóamannbók verður gerð gein fyrir öllum ábúendum á svæðinu frá árinu 1800 til dagsins í dag.eða í rúm 200 ár. Reiknað er með að gefa verkið út í 6 bindum í stóru broti með talsvert af ljósmyndum.

Unnið er hörðum höndum að efnissöfnun og ritum bókarinnar en það er Jón M. Ívarsson sagmfræðingur frá Vorsabæjarhól sem skrifar. Nú er áætlað að fyrstu tvö bindin komi út að ári liðnu og fjalla þau um gamla Hraungerðishreppin. Næst verður svo tekist á vð gamla Villingaholtshreppin og síðan gamla Gaulverjabæjahreppinn.

Það var fjölmenni í Þingborg á laugardagskvöldið og fólk skemmti sér vel. Boðið var upp á fjölbreytta dagskrá, góðan mat og drykki.

Brynjólfur Ámundason frá Kambi var að sjálfsögðu þarna. Hann er einn af aðstandendum Flóamannabókar og hefur í mörg ár safnað heimildum og myndum um ábúendur og sögu svæðisins. Sérstaklega, held ég, hefur hann safnað heimildum um gamla Villingaholtshreppinn en hann gaf út ábúendatal Villingaholtshrepps 1800-1981 á sínum tíma.

Brynjólfur minnti mig á skyldleika okkar. Þetta varð tilefni þess að ég fór að rifja þetta betur upp með aðstoð íslendingabókar og fyrrnefndu ábúendatali Brynjólfar. Við Brynjólfur erum nefnilega skyldir í fjórða og fimmtalið.  Langalangamma mín  Formæður mínar ()  var systir langafa Brynjólfs.

Langalangamma mín hét Sigríður Jóhannsdótti ( f.1836 ). Foreldrar hennar voru Jóhann Einarsson ( f. 1791 ) og Guðríður Jónsdóttir ( f.1794 ) Jóhann var úr Flóanum en Guðríður úr Hrunamannahrepp. Þau búa í Efra-Langholti.

Þau eignast 10 börn og var Sigríður formóðir mín þeirra yngst. Einar (f. 1884) bróðir hennar  bjó í Hellisholtum og var faðir Maríu (f. 1872) sem bjó í Forsæti gift Kristjáni Jónssyni (f. 1866). Þau voru foreldrar þeirra systkina sem lengi búa hér í sveit; Einars í Vatnsholti, Sigurjón í Forsæti , Oddnýar í Ferjunesi og Gests í Forsæti.

Annar bróðir Sigríðar langalangömmu minnar var Sigmundur Jóhannsson  (f. 1825). Kona hans var Þorbjörg Ámundadóttir (f. 1836), dóttir Ámunda Oddssonar (f.1794) frá Vatnsholti og Jódísar Vigfúsdóttir (f. 1799) frá Fjalli á Skeiðum.

Ámundi og Jódís búa fyrst í Vatnsholti og síðan í Súluholti.  Eftir að Jódís fellur frá kemur Ámundi að Kambi og er bóndi þar í þrjú ár (1862-1865). Þá taka tengdasonur hans og dóttir  Sigmundur og Þorbjörg við búskapnum í Kambi.

Þeirra sonur var Ámundi Sigmundsson (f. 1864) sem tók við búskap í Kambi af föður sínum árið 1890. Hans kona var Ingibjörg Pálsdóttir (f. 1864) ættuð af Rangárvöllunum. Þau eignast 11 börn sem reyndar ekki komast öll á legg.

Meðal þeirra barna var Ámundi Ámundason (f. 1899) bóndi í Kambi 1929-1970, Ingveldur Ámundadóttir (f. 1903) sem m.a bjó í Súluholtshjáleigu 1944-1956 og Sigmundur Ámundason (f. 1906) sem bjó  í Kambi 1926-1931, í Túni 1935-1943, að Laugum 1943-1956 og í Hraungerði 1956-1976.

Ámundi Ámundason var faðir Brynjólfs frá Kambi og Ingveldur Ámundadóttir var móðir Guðrúnar í Súluholti. Þó mínar rætur séu ekki héðan á ég þó nokkur skyldmenni í Flóanum þegar komið er í fjórða og fimmta lið. emoticon






05.09.2017 23:28

Ekki er happi að hrósa fyrr en hlotið er.

Um daginn fékk ég hringingu. Þegar ég svaraði var kona í símanum sem kynnti sig og sagðist vera frá markaðsdeild Stöð2. Það eru margir mánuðir ef ekki nokkur ár, síðan við sögðum upp áskrift af Stöð2. Okkur fannst það alltof dýrt að vera að borga af þessu, og ég get ekki sagt að ég hafi saknað þess nokkurn hlut að vera án þess.  

 

Ég setti mig því strax í þær stellingar að afþakka allt sem þessi kona ætlaði á bjóða mér, en henni tóks nú samt að slá mig út af laginu. Eftir að hafa kynnt sig sagði hún strax:

 

Hún: " Þú ert Aðalsteinn er það ekki? "   

Ég: " Jú ég kannast við það. "

Hún: " Já við erum nú í sérstöku markaðsátaki og í tilefni þess langar okkur að bjóða þér fría áskrift af Stöð2 og fleiri stöðvum hjá okkur í hálfan mánuð "

Ég: " Ha....? "

Hún: " Já.....þetta er þér allveg að kostnaðarlausu  Þú er með myndlykil er það ekki."

Ég:" Jú reyndar en hann hefur ekki verið notaður lengi og er á nafni konunnar."

Hún: " Hver er kennitalan hennar?"

Ég: "190361-4036

Hún: " Allt í lagi þú setur bara myndlykilinn í samband og þá á þetta að vera tilbúið"

Ég "  Og á ég þá ekkert að borga? "

Hún: " Nei þetta er þér allveg að kostnaðarlausu. Þú getur nú notið þess að geta horft á allar okkar stöðvar í hálfan mánuð en svo dettur þetta sjálfkrafa út.

Ég: " Nú þá bara þakka ég fyrir. "

 

Ég var nú svo sem ekkert að hlaupa upp til handa og fóta yfir þessu en seint um kvöldið þennan sama dag mundi ég eftir þessu símtali og sagði Kolbrúnu frá þessu. Við vorum nú sammála um að rétt væri að tengja þennan myndlykil við tækifæri og sjá upp á hvað verið var að bjóða.

 

Morgunin eftir fór ég að skoða myndlykilinn og reyna að tengja hann. Ég komst nú að því, að síðan hann var í notkunn síðast, vorum við bæði búinn að breyta um loftent og sjónvarp og eitthvað vafðist þetta fyrir mér að tengja hann.

 

Þegar ég fór svo að leita ráða hjá mér færari í svona tæknimálum var mér sagt að við þyrftum ekki svona myndlykil við þetta sjónvarp. Það væri innbyggður móttaki í tækinu, við þyrftum aðeins að fá sérstak kort í tækið til að geta séð ákriftarstöðvar.

 

Ég tók því myndlykilinn og fór með hann á Selfoss til þeirra sem þjónusta þetta kerfi. Við afgreiðluborðið sat maður og horfði fast á tölvuskjá. Ég beið bara rólegur eftir því að hann mætti vera að afgreiða mig. Svo leit hann frá tölvuskjánum á mig.

 

Ég: " Ég er hérna með myndlykil sem ég fæ ekki til að virka. Hann hefur reyndar ekki verið í notkunn lengi og síðan ég notaði hann síðast er ég búinn að skipta bæði um loftnet og sjónvarpstæki. Nú er mér sagt að ég þurfi ekki svona myndlykil við nýja sjónvarpið "

Afgreiðslumaður: " Hver er kennitalan? "

Ég: " Myndlykillinn er á nafni konunnar og hennar kennitala  er 190361-4036 "

 

Afgreiðslumaðurinn pikkar stanslaust á lykjaborðið fyrir fram sig í smá tíma, svo hættir hann og horfir á skjáinn í drykk langa stund.  Ég er ekki allveg viss hvort hann er búinn að gleyma mér eða hvað gerist næst. En svo allt í einu lítur hann á mig og segir

 

Afgreiðslumaður: " Allt í fína þetta er komið. Ég er buinn að afskrá þennan myndlykil"

Ég: "Og hvað svo, þarf ég ekki eitthvert kort eða eitthvað í staðinn? "

Afgreiðslumaður: " Þú meinar að þú viljir geta horft á Stöð2 í sjónvarpinu? "

Ég: "  Já þess vegna er ég nú kominn hingað "

 

Nú stendur maðurinn upp og stekkur til og sækir lítinn kassa. Sest svo aftur niður við tölvuna.

 

Afgreiðslumaður: " Hver er kennitalan? "

Ég: " Við höfum þetta áfram á nafni konunnar og kennitalan er 190361-4036. "

 

Enn á ný pikkar hann á fullu á lyklaborðið og svo situr hann góða stund og horfir á skjáinn. Aftur er ég ekki viss um hvort hann sé enn að afgreiða mig eða farinn að fylgjast með einhverju allt öðru á tölvuskjánum. Hann tautar eitthvað og ég er engan vegin viss hvort hann er að tala við mig eða ekki. Ég fer að skoða eyrun á manninum til athuga hvort hann sé með síma á eyranu og sé kannski farinn að afgreiða næsta mann í gegnum síman. Ég get nú ekki séð að svo sé.

 

Nú allt í einu stekkur hann upp frá tölvunni og sækir sér blað og penna og fer að skrifa á blaðið. Spyr svo snögglega:

 

Afgreiðslumaður: "Hver er kannitalan? "

Ég: " Þetta er á nafni konunnar og kennitalan er 190361-4036. "

Afgreiðslumaður: " Hvað er símanúmerð hjá þér? "

Ég: " Síminn minn 860 7714 "

 

Hann réttir mér nú litla kassan og segir:

" Talvan er eitthvað voðalega hæggeng núna. Ég hringi bara í þig þegar ég er búinn að skrá þetta. Þá getur þú bara stungið þessu í tækið hjá þér og allt er klárt. "

 

Ég þakkaði bara fyrir og fór heim með litla kassan. Þetta var fyrir hádegi en svo líður nú dagurinn og aldrei hringir maðurinn aftur. Þar sem þetta var á föstudegi fer ég að hugsa að ef ég heyri nú ekki í manninum fyrir lokun í dag þá nýtist mér ekki þetta frábæra tilboð frá Stöð2 fyrr en eftir helgi. Það væri nú farið að saxast á þessa 14 daga sem tilboðið gilti.

 

Ég tek því upp síman og hringi í þjónustuaðilann.

 

Ég: " Ég kom til ykkar í morgun með gamlan myndlykil og skipti á honum og korti til að setja í sjónvarpið. Það gekk eitthvað illa að skrá þetta kort. Mig langar að vita hvort það hafi ekki tekist ennþá?......Kannastu ekki við þetta ? "

 

Maður í símanum: "Hver er kennitalan? "

Ég: " Þetta er á nafni konunnar og kennitalan er 190361-4036. "

 

Ég heyri að það er pikkað á fullri ferð á lyklaborðið.

 

Maður í símanum: ( eftir svolitla sund ) "Heyrðu!...hinkraðu aðeins. Ég þarf að hringja eitt símtal út  af þessu. Ég hringi svo bara aftur í þig."

Ég: "Allt í lagi ég verð með símann."

 

Það líður ekki langur tími er hann hringir aftur.

 

Maður í símanum: "Heyrðu!.. þetta kort er eitthvað bilað. Þú getur ekki notað það.

Ég: "Er það eitthvað bilað??... Hvernig getur þú vitað það ?..... Ég var að fá það hjá ykkur og það er enn í kassanum.

Maður í símanum: "Já það er alltaf verið að endurnýta þessi kort. Kortið sem þú ert með er bilað. Ég læt þig bara fá annað."

 

Ég fór nú að velt því fyrir mér að hætta þessu veseni, mig langaði svo sem ekkert að horfa á Stöð2. En þar sem þetta verður nú að teljast happafengur, að fá þetta ókeypis í hálfan mánuð, fór Kolbrún ein í fjósið að sinna kvöldmjöltun en ég brenndi á Selfoss til þess að fá annað kort í sjónvarpið.

 

Þegar ég kom þangað var annar maður við afgreiðluna en ég hitti um morguninn. Ég rétti honum litla kassan með kortinu og sagði honum að mér hefði verið sagt áðan að þetta kort væri bilað og ekki hægt að nota það.

 

Afgreiðslumaður: "Hver er kennitalan? "

Ég: " Þetta er á nafni konunnar og kennitalan er 190361-4036. "

 

Hann pikkar eitthvað á lyklaborðið fyrir framan sig.

 

Afgreiðslumaður: " Það er ekki skrítið að þetta kort virki ekki það er ekki búið að skrá það. "

Ég: "Ha......ég hringdi áðan til þessa að athuga með það hvort búið væri að skrá það. Mér var þá sagt að kortið væri bilað. "

Afgreiðslumaður: " Ég er búinn að skrá þetta núna. Þú getur bara farið og stungið þessu í sjónvarpið hjá þér og þetta á allt að vera klárt. " 

 

Þegar ég ætlaði svo að fara aftur heim með litla kassan bætti hann við.

 

Afgreiðslumaður: " Þú verður svo að kaupa áskrift af Stöð2 til að geta horft á stöðvarnar hjá þeim. "

Ég: " Þeir hringdu í mig um daginn og buðu mér ókeypir áskrift í hálfan mánauð. Þess vegna er ég nú að þessu basli. "

Afgreiðslumaður: " Já!...gott hjá þeim. Til hamingu með það. Ég held nú samt að þú ættir að hringja í þá og láta þá vita af því að þú sért kominn með nýjan myndlykil"

Ég: " þú ert sem sagt ekki búinn að því "

Afgreiðslumaður: " Nei ég var bara að skrá hann hér hjá okkur "

Ég: " Okei ég hringi þá í þá þegar ég er búinn að stinga þessu í samband. "

 

Þegar ég kom heim henti ég litla kassanum með kortinu inn á eldhúborð og fór út í fjós að hjálpa Kolbrúnu með mjaltirnar og önnur kvöldverk. Seinna um kvöldið þegar ég var kominn inn aftur tók ég upp litla kassan og setti kortið í sjónvarpið. Það fylgdu nákvæmar leibeiningar un hvernig ætti að fara að og fylgdi ég þeim í smáatriðum.

 

Það breytti svo sem engu þó kortið væri komið í sjónvarpið. Ekki gat ég horft á Stöð2 eða neina aðrar sjónvarpsstöðvar en RUV og INN eins og ég var vanur. Það var komið langt fram á kvöld og lítið hægt að gera meira þennan daginn í þessu máli.

Daginn eftir hringdi ég svo í þjónustuverið hjá Stöð2.

 

Ég: "Góðan dag. Ég vil tilkynna ykkur að ég var að skipta um myndlykil hjá mér."

Kona sem svaraði í símann: " Hver er kennitalan? "

 Ég: " Þetta er á nafni konunnar og kennitalan er 190361-4036. "

 

Ég heyri að pikkað er á lyklaborð í gríð og erg.

 

Kona sem svaraði í símann: " Og þetta á að fara á hvaða kennitölu? "

Ég: " Það á ekkert að breyta kennitölunni. Ég er bara að tilkynna ykkur að ég fór með gamla myndlykilinn og fékk kort í staðinn sem passar í nýja sjónvarpið mitt. Ég er búinn að  setja kortið í en ég get ekki séð Stöð2 eða neina aðra sónvarpstöð frá ykkur þrátt fyrir það."

Kona sem svaraði í símann: " Ég skal athuga þetta. Bíddu bara í 15 til 20 mínútur og þá ætti þetta að vera komið í lag."

Ég: " Takk fyrir það "

 

Ég bíð í rúmar 20 mínútur og athuga svo hvort Stöð2 sé kominn inn en það gerist ekki. Ég var nú farinn að vera hálf leiður á þessu og fór nú bara út. Ég átti ýmislegt ógert  úti og dvaldi við það fram eftir degi, Þegar ég kem svo aftur inn, kveiki ég á sjónvarpinu en það er engin breyting. Mér fannst ég nú samt búinn að eyða það miklum tíma í þetta að það væri vont að gefast upp núna, svo ég hringi aftur í þjónustuverið hjá Stöð2.

 

Ég: " Fyrir nokkrum dögum var hringt í mig frá markaðsdeildinni hjá ykkur og mér boðin ókeypis áskrift að sjónvarpstöðvunum ykkar. Nú er ég búinn að fá nýjan myndlykil af því að ég gat ekki notað gamla myndlykilinn við nýja sjónvarpið mitt. En ég næ ekki þessum stöðvum ykkar."

 

Maður í símanum: "Já.. ert þú Aðalsteinn ? "

Ég: " Ha..já" ....og bæti svo við til öryggis....." En þetta er á nafni konunnar og kennitalan er 190361-4036. "

Maður í símanum: " Hefurðu prófað að taka kortið úr og stinga því aftur í"

Ég: "Nei... á ég að gera það? "

Maður í símanum: "Prófaðu það "

 

Ég geri það en ekkert breytist.

 

Maður í símanum: " Prófaðu að bíða í 15 til 20 mín og taktu svo kortið úr og stingdu því svo aftur inn. Þá ætti þetta að vera orðið klárt."

Ég: " Allt í lagi ég prófa það "

 

Eftir nákvæmlaga 20 mínútur geri ég svo eins og fyrir mig var lagt en ekkert gerist. Það eru bara RUV og INN sem hægt er að sjá í sjónvarpinu. Það er sama hvað ég læt sjónvarpið leita að stöðvum. Engin sjónvarpsstöð frá Stöð2 eru inni. Ég hringi eina ferðina enn í þjónustuverið hjá Stöð2.

 

Ég : " Ég hringdi áðan í ykkur til að tilkynna að ég get ekki séð sjónvarpsstöðvarnar frá ykkur þrátt fyrir að mér hafi verið lofað ókeypis áskrift af þeim næsta hálfan mánuð. "

 

Maður í símanum: "Hver er kennitalan? "

Ég: " Þetta er á nafni konunnar og kennitalan er 190361-4036. "

Maður í símanum: (eftir smá stund ) " Það er búið að keyra upp hér allar áskrifir fyrir þig þannig að þetta er í lagi hér hjá okkur. Þú verður að tala við þjónustuverið hjá þeim sem sjá um dreyfinguna. Ég get gefið þér samband þangað "

Ég: " Já takk "

Annar maður í símanum: " Hvað get ég gert fyrir þig "

Ég: " Ég er  í vandræðum með nýjan myndlykil sem ég var að fá frá ykkur. Þetta er svona kort sem ég sting í sjónvarpið. Ég fæ þetta bara ekki til að virka. "

Annar maður í símanum: " Hver er kennialan? "

Ég: " Þetta er á nafni konunnar og kennitalan er 190361-4036. "

Annar maður í símanum:  " Hefurðu prófað að taka sjónvarpið úr sambandi við rafmagn og setja það í samband aftur"

Ég:  "Ha......á ég að gera það? "

Annar maður í símanum: "Já prófaðu það "

 

Ég geri það en ekkert breytist.

 

Annar maður í símanum: " Heyrðu!... bíddu í svona 15 til 20 mínútur og taktu þá kortið úr og sjónvarpið úr sambandi og settu svo kortið aftur í og stingdu aftur í samband. Þá ætti þetta að vera í lagi. "

 

Nú fer ég alvarlega að hugsa um hvort verið sé að atast í mér. Er ég kannski í földu myndavélinni?...... Ég lít í kringum mig í stofunni heima hjá mér til að athuga hvort ég sjái einhver merki um falda myndavél. Ekki sé ég nein merki þess og að 20 mínútum liðnum geri ég eins og fyrir mig var lagt. Verð þó að viðurkenna að það var með hálfum huga.

 

Mig langaði ekkert í Stöð2 og hafði aldrei langað. Ég hafði líka enga trú á að þetta myndi núna fara að virka. Enda reyndist það svo. Þegar ég var búinn að þessu og kveikja á sjónvarpinu var allveg sama sagan. Það var bara RUV og INN sem hægt var að horfa á. Ég var líka svo sem alveg sáttur við það og hafði alltaf verið.

 

Enn svo skeður það daginn eftir að það er kveikt á sjónvarpinu, þá verð ég var við það að Stöð2 er inni sem og allslags aðrar stöðvar eins og Stöð2 bío, Stöð2 krakkar og Stöð3 ásamt nokkrum Stöð2 sportrásum.


Kannski horfi ég á eitthvað af þessu á meðan það er í lagi.............eða ekki?

 

 

 

 

 

26.08.2017 20:58

Mannlýsing

Ég hef stundum gaman af að lesa vel skrifaðar mannlýsingar jafnvel að fólki sem ég þekki ekkert og löngu dáið. Ég reikna samt alltaf með að lýsingin lýsi e.t.v. betur þeim sem skrifar en þeim sem skrifað er um. Fólk hefur misjafnar skoðanir á öðru fólki. Þeim sem einum finnst mikils veður getur öðrum fundist einskis verður.

Fyrr í sumar rakst ég á í bók sagt frá langafa mínum Auðunni Þórarinssyni, fæddur 1858 á Eystra-Hrauni í Landbroti V-Skaft og dáinn 1938. Hann lést 21 ári áður en ég fæðist þannig að ég kynnist honum aldrei.

Það er bróðursonur Auðuns, Þórarinn Helgason í Þykkvabæ sem lýsir honum þannig:

"Hann var gildur á vöxt, dökkur yfirlitun, rösklegur í hreyfingum og lotinn snemma. Hugmaður var hann og vel að manni. Minni hafði hann svo gott, að hann gat haft upp orðræður manna námkvæmlega og jafnvel langar ræður."

Auðunn var af þeirri manngerð að vilja ætíð sjá fótum sínum forráð. Hann skuldaði aldrei neinum neitt og hélt eyðslunni í föstum skorðum, svo að tekjur og gjöld héldust í hendur. Stórframkvæmdamaður var hann ekki, en gerði þó umbætur á jörð sinni eftir því sem efni stóðu til. Bú hans var traust og skepnurnar þokkalega fóðraðar og heyleysi aldrei.

Auðunn var hestamaður sem þeir bræður allir og átti góða hesta og fallega.

Óhætt er að fullyrða að Auðunn var kirkjuræknastur sinna sveitunga þá tíð, sem ég man og mannfundi alla sótti hann af áhuga.

Auðunn var um skeið í hreppsnefnd.

Hann var maður sérlaga vinsæll, enda gætti hann þess ætíð vel að styggja engann að ástæðulausu. Vera má, að hann hafi stundum játað fleiru en sannfæringin þekktist til að halda friðinn, en hitt er og víst að hann skorti ekki dirfsku til að halda fram skoðun sinni, ef í odda skarst og honum þótti máli skipta. Og Auðunn var vel að kominn vinsældum sinum, því að velviljaðri mann og öfundarlausari hef ég naumast þekkt.

Góða tíð ræddi hann aldrei um frá eiginhagsmunasemi, heldur vegna "almennings". Að "almenningur komist vel af, er allra nauðsyn mest" sagði hann oft. Eða " ef kognarnir fara allir á sveitina, þyngist fyrir þeim efnaðri. "  Auðunn var svo dásamlega laus við þá illkvittni, er suma menn þjáir, að líta allt öfundaraugum í annars garði. Aftur á móti leyndi sér ekki gleði hans, er hann hafði þau tíðindi að segja, að einhverjum vegnaði vel.

Hestfær var Auðunn til síðustu stundar og það svo að hann var nýstiginn af hestbaki, er hann snogglega andaðist, þá rúmlega áttræður að aldri, nýkominn heim frá guðsþjónustu í þykkvabæ, en þá var oft messað í skólahúsinu þar.






27.07.2017 08:43

Skemmtiferðin

Það er auðvita nokkuð misjafnt hvernig fólk tekst á við áföll og mótlæti í lífinu. Öll þurfum við að fást við slíkt í einhverri mynd. Enginn kemst áfallalaust í gegnum lífið. Það er engin ein leið sem gildir þegar glíma þarf við slík verkefni enda ekkert verkefnið heldur eins og enginn tveir einstaklingar eru eins.

Ég veit um marga sem hafa þurft að takast á við ýmsa erfileika og áföll með undraverðum árangri. Sumir hafa neyðst til þess að endurskoða allt sitt líf og framtíðarplön m.a. vegna sjúkdóma eða slysa sem yfirleitt eru nú ekki tekin með í reikningin þegar framtíðarplön eru gerð.

Svo er til fólk sem er alltaf afreksfólk í flestu sem þau gera. Það á við um vin minn Snorra Má Snorrason fyrrverandi formann Parkinsonsamtakana. Hann hefur undanfarin sex sumur farið um landið á reiðhjóli undir kjöroðunum  "þIn hreyfin - þinn styrkur." .Verkefnið nefnir hann Skemmtiferðina. 

https://www.facebook.com/skemmtiferdin/




Snorri hefur bent á hversu mikilvægt það er fyrir alla að vera í góðu líkamlegu formi. Hann sjálfur stundar markvissa líkamsþjálfun í baráttu sinni við Parkinsonsjúkdóminn sem hann greindist með fyrir 13 árum þá aðeins fertugur að aldri.

Það dugar Snorra ekki að mæta bara reglulega í ræktina. Hann notar hjólreiðar mikið í sinni þálfum og svo storkar hann sjálfum sér með æfintýralegum ferðalögum  um allt okkar fallega land  á hverju sumri. Fjölskylda Snorra og vinir hans hafa lagt honum lið í þessu verkefni. Hún Kristrún eiginkona hans fylgir honum um allt land á hverju sumri og er hans stoð og stytta.

Skemmtiferðin er ekki bara hugsuð sem verkefni fyrir athafnaþrá og ástríðu Snorra. Hún er hugsuð sem hvatning til allra um hreyfingu og áskorun um að vera í góðu formi. Þatta á við alla bæði heilbrigða og sjúka.

Þegar ég á útmánuðum 2015 var að átta mig á breyttum forsendum í mínu lífi Parkinsonveiki () og fór ég að lesa mér til, bæði um sjúkdóminn sjálfan og hvernig líf ég ætti nú í vændum framundan var margt af því nú ekki upplífgandi. Það var svo þegar ég las um " skemmtiferðina " hans Snorra ( Ég þekkti Snorra ekki þá ) sem mér fannst ég rekast á etthvað áhugavert.

Það hjálpaði mikið til. Einnig eftir að ég kynnist Snorra og hans vðhorfum og fleiru góðu fólki hjá Parkinsonsamtökunum.

Þannig er með Snorra eins og aðra afreksmenn að hann er bæði hvatning og fyrirmynd annarra. Það er einmitt miklvægasta hlutverk allra afreksíþrótta






23.06.2017 21:44

Sjáumst í sundi (SÍS )

Að undanförnu er ég farinn að stunda það að fara í sund, jafnvel oft í viku. Fátt finnst  mér betra fyrir skrokkinn á mér. Það er sama hvort ég er að brepast í verkjum og stirðleika eða sprækur sem lækur, ég er alltaf betri eftir að hafa farið í sund.

Ef ég er góður syndi ég gjarnan/jafnvel  nokkur hundruð metra. En ef ég er slæmur læt ég nægja að sitja í heitapottinum nokkra stund.

Frá því einhvern tíman fljótlega eftir áramót og þar til nú um síðustu mánaðarmót hef ég mætt tvisvar í viku í vatnsleikfimi hjá "Vatn og heilsu"  á Selfossi. Það hefur gert heilmikið fyrir mig og hjálpað mikið til við að halda mér í sem bestri þjálfun,

Ég er sannfærður um að það sé besta ráðið við að glíma við parkinsonveikina. Í dag er þessi sjúkdómur enn ólæknandi og góð líkamleg heilsa og hreifing kannski eina ráðið til að vinna gegn og seinka því hvað veikin herðir tökin með tímanum. (og hækkandi aldri)

Það er einn vandi sem ég á við að etja í þessum sundferðum mínum. Ég get alls ekki verið með gleraugun mín í lauginni. Það gerir það að verkum að ég á bágt með að þekkja fólk sem ég hitti í lauginni eða í heitapottinum vegna þess að ég sé svo illa gleraugnalaus.

Í dag kom það fyrir að fyrrum sveitungi minn kom í pottinn þar sem ég sat. Hún kinnkaði kolli til mín en þar sem ég bar ekki kennsl á hana tók ég ekki eftir því. Það var svo ekki fyrrr en ég fór upp úr að ég áttaði mig á hver þetta var..

Eflaust hefur þetta komið fyrir áður án þess að ég hafi áttað mig á því. Það er næsta víst að nú er orðinn nokkur stór hópur af fólki sem ég hef þekkt í gegnum tíðina sem hugsar: Það er naumast hvað hann Aðalsteinn Í Kolsholti er orðinn stór upp á sig

Ég vil nú gera tilraun með að biðja alla afsökunnar á þessu og vona að fólk sýni þessu skilning. Það er fjarri mér að vera með einhver merkilegheit, ég einfaldlega sé ekki betur.

En svo er sjaldan ein báran stök. Um daginn lennti ég í því þegar ég var að koma út úr Apótekinu að ég geng beint í flasið konu einni. Okkur bregður báðum og mér finnst ég strax kannst eitthvað við hana. Konan er líka hálf skrítinn á svipinn en við köstum kveðju á hvort annað og höldum áfram okkar leið.

Það er svo þegar ég er kominn inn í bíl að ég átta mig á því að þessi kona var með mér í vatsleikfiminni í vetur. Ég hafði alltaf séð hana gleraugnalaus í lauginni en nú ætlaði ég ekki að þekkja hana þegar ég var með gleraugun.

Ég sá þessa konu svo aftur á Selfossi í gær og fór þá til hennar og bað hana afsökunnar á þessu. Hún tók því vel en sagði sjálf hafa átt bágt með að þekkja mig " svona í fötum"  emoticonemoticon emoticon


30.05.2017 23:22

Frændgarðurinn

Þær eru kostulegar sumar sögurnar sem sagðar voru af Magnúsi "sálarháska" en hann var kunnur landshornaflakkari og letingi, fæddur 1771 og dáinn 1844.  Honum var samt lýst sem "atgervimanni bæði að greind og líkamsþroska og lagvirkni, en auðnumaður lítill og urðu honum rýr afnot atgervi sinna".

Magnús var Guðmundsson og ættaður úr Öxnadal en þvældist víða um land. Ungur maður ákvað hann að gerast útilegumaður og lagðist út á Hveravöllum. Hann mun hafa verið á Hveravöllum í þrjár vikur. Hann náði lambi sem hannn stal af afréttinum og ætlaði að sjóða það í hver. Lambið mun hafa soðnað í mauk í hvernum og nýttist Magnúsi ekkert nema lungun sem flutu upp og voru hálf hrá.

Magnús sagði svo síðar frá að fyrstu vikuna á Hveravöllum hefði hann lifað á hráum lambslungum, aðra vikuna á munnvatni sínu, og þriðju og síðustu á guðsblessun  "og það var versta vikan".

Margar sögur voru sagðar af Magnúsi sem lýstu honum sem afreks sláttumanni. En af leti gekk hann alltaf seint til verks en sló svo loks á stuttum tíma til jafns við það sem aðrir slóu á lengri tíma og eru lýsingar á því oft á tíðum nokkuð skrautlegar. (þjóðsögur Jóns Árnasonar).

Frændi Magnúsar sálarháska var Jón Magnússon (f. 1758 - d. 1840) en þeir voru bræðrasynir. Jón var eins og Magnús fæddur í Öxnadal en fór suður og austur í V-Skaftafellssýslu. Kona hans var Guðríður Oddsdóttir frá Seglbúðum. Þau búa á nokkrum stöðum í Landboti fyrst en svo 13 ár í Hlíð í Skaftártungum. Þaðan kemur hann að Kirkjubæjarklaustri þar sem býr til æfiloka.

Á Kirkjubæjarklaustri hefst hann til valda og virðingar.  Hann er héraðshöfningi og stórbóndi. Þau hjón eignast 10 börn auk þess sem Jón átti fyrir dóttur með Gróu Lýðsdóttur, sýslumanns í Vík. Frá þeim er kominn fjöldi afkomenda og margir Vestur-Skaftfellingar rekja ættir sínar til Jóns Magnússonar.

Þórarinn Helgason rithöfundur frá Þykkjabæ og einn af afkomendum Jóns sagði að "á ýmsu hafi gengið um það , hver heiður væri að vera kominn frá Jóni Magnússyni, en tilkomulítið hefur það aldrei þótt.

Sjálfur get ég rakið ættir mínar til tveggja barna Jóns Magnússonar á Kirkjubæjarklaustri.
Sigríður Jónsdóttir  (1799-1872) átti Guðríði Bjarnadóttur (1832-1909). Dóttir hennar var Sigríður Sigurðardóttir (1861-1901) langamma mín, móðir afa míns Þórarins Auðunssonar  (1892-1957)

Sonur Jóns Magnússonar á Kikjubæjarklaustri var Magnús Jónsson (1804-1835) Hans sonur var Þórarinn Magnússson (1831-1900) sem var faðir Auðuns Þórarinssonar (1858-1938) langafa míns.


11.04.2017 12:48

Að eiga erfiða tengdamóður

Ég hitti gamlan sveitunga  minn  um daginn. Við höfðum ekki hist lengi en áttum langt  tal saman að þessu sinni. Hann bauð upp á koníak og naut þess sjálfur að súpa á svo ég þyrfi nú ekki að drekka einn.

Eftir því sem lækkaði í koníaksflöskunni urðu samræður okkar persónulegri. Hann trúði mér fyrir því að tengdamamma sín  væri erfið. Hún hefði í fyrstu allveg verið að gera hann vitlausan með afskiptasemi og tilætlunnarsemi. Hann hefði nú fjótt lært að lifa við þetta og ekki látið það eyðileggja fjölskylduna sína.

Hann sagðist hafa áttað síg á því að vonlaust mál væri að fara í eitthvert stríð við tengdamömmu, Það væri fyrirfram tapað og myndi bara eyðileggja og sundra fjölskyldunni sem hann hafði miklar mætur á. Það eina í stöðunni væri að gera alltaf ráð fyrir tengdamömmu og vona svo bara að hún væri annað hvort í góðu skapi, eða eitthvað vant við látinn hverju sinni.

Hann trúði mér fyrir því að það væri dagamunur á tengdamömmu. Suma daga væri hann lítið sem ekkert var við hana og hún léti hann allveg í friði. Aðra daga hefði hún allt á hornum sér. Þá væri um að gera að láta hana ekki fara í taugarnar á sér. Reyna bara að halda sínu striki, samþykkja allt sem hægt væri af því sem tengamanna segði en humma fram af sér að svara hinu.

Svo væri um að gera að njóta þess vel þegar ekkert bólaði á tandamömmu eða þegar hún hún væri í góðu skapi. Þá væri fáránlegt að vera að pirra sig á því sem hún sagði eða gerði í gær. Það væri meira að segja ágætt að gantast við tengdamömmu þegar hún væri í góðu skapi.

Hann sagðist alltaf ætla tendamömmu stól í öllum fjölskylduboðum, Hann vonaði að vísu alltaf að hún kæmist ekki. En yfirleitt mætti hún nú en þá stundum í hinu best skapi og til lítilla leiðinda. Lykilatriði væri að hún hefði enga ástæðu til að ætla að hún væri ekki velkomin.

Þannig lét hann  dæluna ganga um sig og sína fjölskyldu í góðan tíma. Ég lagði nú ekki mikið til málanna en hlustaði á þennan fyrrum sveitunga minn og kinkaði kolli reglulega. Svo allt í einu stoppaði hann, leit í mig og sagði:

" Hvað er ég að rugla þetta endalaust. Ég ætti nú ekki að vera að kvarta þetta yfir þér.  Þú sem ert að með Parkinsonveiki.. Það hlítur að vera ömurlega leiðinlegt. og miklu erfiðara en það sem ég er að kvarta yfir . Hvernig gengur að takast á við það frá degi ril dags?."

Ég hugsaði mig um smá stund. en svaraði honum svo:  " það er bara nákvælega samskomar verkefni og þú ert að fást við. "
.
                                                                Skrifað niður á Parkinsondaginn 11. apríl 2017.
                                                                                   Aðalsteinn Sveinsson
                                                                    


 




28.03.2017 20:59

Bústofnstalning árið 1989

Ég sagði frá því hér á síðunni, fyrr í vetur, að fyrir tæplega  30 árum fórum við saman um gamla Villingaholtrherppinn, ég og Sigurður heitinn í Súluholti sem þá var hreppstjóri hér. Örnefni () Sigurður stundaði það talsvert að yrkja um menn og málefni líðandi stundar. Í þessari ferð okkar á útmánuðum árið 1989 setti hann saman fjölmargar vísum um hin ýmsu atvik sem hentu á okkar ferð. Hann skráði þetta allt saman valdlega ásamt greinagerð.. Til gamans hef ég ritað þessa greinagerð hans hér.

Margir sem þarna koma við sögu eru nú fallnir frá. Væntanlega hafa þeir sem til þekkja meira gaman af .þessum skáldskap Sigurðar.

   " Ég á að teljast hreppstjóri í minni sveit. Það embætti er nú orðið ekkert á móti því sem var fyrrum. Helstu verkefni hreppstjóra nú um stundir eru þau að vasast í óskilafénaði og birta stefnur, ef svoleiðis lagað fellur til.  Út af þessum rólegheitum bar nú í vetur, þegar landbúnaðarráðuneytið óskaði eftir ítarlegri talningu á bústofni landsmanna. Þá var dustað rykið af hreppstjórunum og má segja að annríki hafi verið hjá stéttinni allri núna undanfarið.

Það er ekkert layndarmál að þessi talning mæltist misjafnlega fyrir og ýmsar sögur af viðbrögðum manna hafa heyrst, hvað sem sannleiksgildið er.

Í minni sveit gekk þetta nú rólega fyrir sig og ekkert skeði þar bitastætt fyrir fjölmiðlamenn. Ekki er þó þar með sagt að ekkert hafi gerst. Ég taldi mér að minnstakosti skylt að hripa það helsta niður í gjörðabók, sem ég tók í brúk vegna þessa verks.

Fyrsta atriðið er hérna var bókuð athugasemd við, gerðist fyrsta talningadaginn og það hjá sjálfum mér. Þegar talið var í fjósinu stóð svo á að ein kýrin var að bera og  sáust klaufarnar. Samstarfsmaðurinn vildi bíða eftir kálfinum og telja hann með. Það vildi ég hinsvegar ekki því;
                 Halda sér við bókstaf ber,
                 bústofnstalning meinar
                 ekki kallast kálfur hér,
                 klaufirnar bara einar.

Nákvæmni var þó vissulega hjá okkur og vandlega talið, það sýnir þessi;
                 Í fjósi bónda fjölda sá
                 fyllt í hverja smugu.
                 Bættu við hann einni á,
                 - eldri skýrslur lugu.

Hann sagðist auðvita hafa heimt rolluna seint og það sögðu fleiri undir sömu kringumstæðum. Þetta er trúlega allt satt, því mikið er kvartað yfir lélegum smalamennskum.

Heilmikið mál var að telja hjá Finni bónda, en hann rekur hjá okkur hrossabú, býr sjálfur í fjarlægð og er ákaflega vandhittur maður. Enda fundum við manninn ekki, sem kom ekki að sök, því okkur bar ekki að telja hann heldur hrossin, sem við fundum mörg og á einum sex stöðum á landareigninni. Þar af tveir hestar bundnir inni. Litum líka í hlöðuna. Þetta var þar bókað;
                 Ekki gátum fundið Finn,
                 fola bundna sáum,
                 hungurmorða húsköttinn
                 og heldur fátt af stráum.

Mörg er búmannsraunin, segir máltækið. Þetta sannaðist núna líka. Góðir og farsælir gripir, sem bændur binda vonir við eiga ennþá til að misfarast;
                Villtir gera minkar mein
                á marga lund í Flóa,
                - núna taldist eftir ein
                önd í búi Jóa.

Sjálfur Ráðuneytisstjórinn í landbúnaðarráðuneytinu rekur hjá oss dágott hrossabú. Hann býr sjálfur í fjarlægð. Ekki vildum við láta undir höfuð leggjast að telja hjá honum, því frá hans ráðuneyti bárust fyrirmælin. Sá var þó hængur á að heimreið hans var bæði löng og torsótt, m.a. læst hlið nærri þjóðvegi. Hann sjálfan erfitt að hitta við gegningar. Varð því ráðið að tala við bónda í síma. Hann tók erindinu vel sem við reyndar vissum fyrir og gaf okkur tafarlaust upp töluna á bústofni sínum. Sagði hann okkur óhætt að treysta þessu, því síst sæti það á sér að lauma undan. Við vissum auðvita að þetta var satt - en samt ónáðaði samviskan. Vorum við ekki að svíkjast um í trúnaðarstarfi. Við áttum jú, sjálfir að telja nákvæmlega. Samviskan lét okkur ekki í friði, við horfðum þarna heim ef leið lá fram hjá. En;
                  Þriðja daginn gáfust góð
                  gullnu tækifærin,
                  ráðuneytisstjórastóð
                  stóð við landamærin.
og áður uppgefin tala passaði alveg nákvæmlega

Á einum stað var enginn heima, en þar sem langt var að aka þangað öðru sinni, ákváðum við að snuðra þar án leiðsagnar heimamanna og fórum í alla kofa;
                 Fólk í bænum fundum ei,
                 fullgild engin belja.
                 - Hænur þrjár og hanagrey
                 höfðum þar að telja.  

Fyrrverandi sveitungi okkar hélt eftir vænu landi við sölu jarðar sinnar. Hefur hann nú reist þar ágætt sumarhús undir hóli nokkrum. Þarna gefur hann hrossum úti í vetur. Sammæltum við okkur við hann þarna. Auðvita bauð hann okkur í bæinn, eins og áður var venja hans. Barst í tal að nauðsynlegt væri að koma nafni á staðinn, en þarna er fátt örnefna, nema áðurnefndir hólar, en;
               Þó að væri vetrarél
               og virðist fátt af skjólum.
               okkur gafst að una vel
               upp í Krækishólum.
Einhverjir verða að byrja að nota bæjarnöfnin, svo þau festist við staðinn.

Eirík á Gafli þekkja margir, hann er gamansamur náungi og lét það berast til okkar að hann leyfði okkur ekki inngöngu í nokkurt hús á laugardegi eða sunnudegi. Þá væru almennir frídagar í landinu. Við hikuðum því vegna þessara frétta;
                Seinna getum leitað lags
                að leik í veiku tafli,
                hunsum ekki helgidags
                húsfriðinn á Gafli.

Auðvitað fórum við til Eiríks á laugardegi seinna og þá viðbúnir að mæta honum með mótleik. Já, við sögðumst mega koma til hans í embættisnafni á laugardegi, nema ef  hann væri orðinn sjöunda dags aðventisti. Það var Eiríkur ekki. Við -
                Eyddum þarna öllum grun,
                áttum stoð í lögum,
                fengum skýrt að fullu mun
                á frí og helgidögum.

Annar gamansamur sveitungi trúði okkur fyrir því, að hefðu komið til hans utansveitarmenn eða borðalagðir rannsakendur, hefðu þeir mátt standað úti hjá sér, nema þá útbúnir með húsleitarheimild. " Það er annað með svona karla eins og ykkur, sem maður er nákunnugur"  Fyrir hans munn -
                   "Sæi ég bústna birtast hér
                   borðalagða fjanda,
                   illa líka mynda mér,
                   mættu þeir úti standa."

Seinna hittum við þennan sama bónda á förnum vegi. Hann kvaðst hafa tekið okkur óþarflega vel, nú væri hann búinn á sannfrétta úr öðrum héruðum allskonar varnaraðgerðir bænda, sem hann vissi ekki áður að mætti nota í svona tilfellum  Þessar fréttir segja ;
                    Teljararnir hafa haft
                    hrakning - ýmsir slá þá,
                    bændur líka brúka kjaft
                    og beita "smúlnum" á þá

                    Viðbrögð seint um síðir er
                    sannast illt að frétta
                    lengi taldi að lögin hér
                    leyfðu ekki þetta.

Það hendir að tveir góðbændur, sinn í hvorri sveitinni, ganga í eina sæng. Þá getur verið erfitt að hitta suma heima utan gegningatíma. Því var nauðsynlegt að mæla sér mót fyrirfram. Þar um segir:
                    Akstursleiðin öll á fót
                    upp til hæðstu brúna
                    stýrum hana á stefnumót
                    við Stefaníu núna.

Svona er háttað búskap á góðbýlinu Neistastöðum þessa dagana. Þarna gerðinn garðinn frægan um áratugi héraðskunnur Mývetningur, Sigurður Björgvinsson, frændi Þuru í Garði, landskunnrar skáldkonu. Sigurður er nú búsettur í Reykjavík, en þennan dag staddur á sínum gömlu slóðum. Bauð hann upp á kaffiveitingar;
                   Með Sigurði við sátum þar
                   sælir undir borðum.
                   - Þetta sami Siggi var
                   og Siggi hérna forðum.

Samkvæmt erindisbréfinu áttum við að telja refi, minka og kanínur líka. Einu sinni voru hér stór refabú í fullum gangi. Nú var hinsvegar svo komið að refir allir voru dauðir, en minkum hafði verið komið í fóstur utan sveitar;
                  Skelfa bænda skakkaföll
                  skuldir, óhöpp, sorgir,
                  refahúsin orðin öll
                  eins og draugaborgir

Ferjunesbændur hafa nokkra sérstöðu í minni sveit. Þar er ekki  amast við fuglum himinsins, sem sá ekki, en uppskera hinsvegar stundum lífsviðurværi sitt á ökrum bændanna. Þarna töldum við óbeðnir mörg hundruð álftir og gæsir, sem gengu sér til bjargar á túnum og garðlöndum;
                 Nóg af búfé núna er
                 í Nesi á tveimur fótum,
                 hundruð álfta og gæsager
                 gæðir sér á rótum.

Ekki hugsa allir upp á sama mátann. Það kemur fyrir að einhverjir þessir fuglar villist út úr friðlandinu, Þeim er nokkur vorkunn, því erfitt mun  þeim að afla sér þekkingar á hvar mörkin milli bæja liggja. Þær upplýsingar liggja ekki á glámbekk, því landamerkjabók Árnessýslu er geymd á Sýsluskrifstofunni á Selfossi. Þar er þeim meinaður aðgangur. Jæja, nágrannbóndi varð fyrir aðsókn fuglanna og vildi fæla þá út úr sínu landi með skothríð. Svo slyslega tókst til að þessi aðvörun dró einn fuglinn til bana. Bóndi útskýrði slysið fyrir okkur. Hann gat auðvita ekki öðru haldið fram en slysi, þegar hann sagði frá andláti alfriðaðs fugls;
                 Álftabrussa úti hlaut
                 ærið skjótan bana.
                 Vaskur Geiri vatnið skaut
                 - varla snerti hana.
Auðvita var þetta hreint slys. Geiri er ekki nokkur fuglaskytta. Hitta aldrei það sem hann miðar á.

Versti óvinur leitarmann og smala, - þokan, strýddi okkur líka. Það var þegar heimsækja þurfti stærsta stóðbónda sveitarinnar. Hann býr á víðáttumiklu kennileitalausu landi, þar sem peningur hans gengur jafnan. Treystum við okkur ekki þangað við slíkar aðstæður. Við myndum villast og ganga í hringi, telja suma gripina mörgum sinnum, en sjá aðra aldrei. Þar um segir;
               Leiða þokan lengi má
               leyna hófadýrum,
               voðalega verður þá
               villugjarnt á Mýrum.

Seinna gekk hann í norðrið með kulda, þá skein sól.
               Betra gerist veður vart
               á vorum heldur köldum,
               fjúklaust er og fjallabjart,
               - á fundinn Kidda höldum.

Þar var okkur tveimur höndum tekið og sýnt í hvern kofa og vísað á öll landamæri ríkisins, og við;
               Töldum kúa og kinda fans.
               - Kristinn ekkert felur.
               Betur eiga hrossin hans
               himnadrottinn telur.

                Kristinn fáka kóngurinn
                með klárahópa stóra,
                rekur báða á rassinn, Finn
                og ráðuneytisstjóra.

Eitt spursmál gátum við aldrei upplýst. Fyrrverandi sveitungi átti í vetur nokkur hross hérna í sveitinni. Ekki var þeim ætlað hús, en hey var lagt þeim til bjargræðis. Þau tolldu illa heima og þeirra varð víða vart. þegar hjarn var yfir öllu. Gengu þau milli góðbúanna, eins og sagt var einu sinni. Eftir þessum hrossum spurðum við mikið, en lítið gekk. Þar um þetta;
                 Lítið gengur undan oss,
                 þó eigi að heita vinna,
                 einhversstaðar Atla hross
                 ættum samt að finna.

Allt kom þó fyrir ekki, þó spurt væri og spurt og glápt til allra átta, síðast máttum við játa okkur  sigraða, því;
                   Hér er best að ljúka leit,
                   lúnum þyngir sporið,
                   þau hafa út úr okkar sveit
                   engavængir borið.

Þá er ekki fleira, sem festa þarf á blað viðvíkjandi talningarstarfinu. Svona aukreitis, - margir höfðu orð á kuldanum núna um sumarmálin;
                   Vori seinkar, - segja menn -
                   sunnan yfir hafið.
                   - Það er bara apríl enn
                  - eitthvað getur tafið.

                                                                                        Sig. Guðmundsson
                                                                                                      28. apríl 1989 "


 



21.02.2017 15:05

Örnefni

Fyrir u.þ.b. þrjátíu árum var ég forðagæslumaður hér í gamla Villingaholtshreppnum í nokkur ár  Það var einmitt á þeim árum sem Steingrímur J Sigfússon varð ráðherra í fyrsta sinn. Steingrímur var landbúnaðar- og samgönguráðherra í ríkisstjórn Steingríms Hermannsonar sem tók við í lok september 1988.

Steingrími var mjög í mun í sinni tíð sem landbúnaðarráðherra að búfjárfjöldi væri rétt skráður. Hann hafði einhverjar efasemdir um að svo væri. Hann fyrirskipaði því okkur forðagæslumönnum, í hverju sveitarfélagi fyrir sig að skrá búfjárfjölda aftur einn veturinn.

Forðagæslumenn, sem voru starfsmenn sveitarfélaganna í landinu, heimsótti alla bæi á hverju hausti og fylltu út skýrslur um fjölda búfjár og heyforða. Seinnipart vetrar voru svo allir bæir heimsóttir aftur og ástand gripa skoðað.

Nú vildi ráðherrann að við sérstaklega teldum aftur búfénaðinn á hverjum bæ í seinni ferðinni til að sannreyna fyrri skýrslur. Þar sem ráðherrann hafði nú ekki skipunnarvald yfir forðagæslumönnum fyrirskipaði hann hreppstjóranum í hverju sveitarfélagi að fara með forðagæslumanninum og aðstoða hann við verkefnið.

Sigurður Guðmundsson heitinn í Súluholti var hreppsstjóri í gamla Villingaholtshreppnum þegar þetta var. Þetta verkefni dæmdist því á okkur að sinna hér í sveit. Ég man að okkur þótti báðum verkefnið arfavitlaust og afurðin sem út úr því kæmi yrði aldrei annað en ein skýrslan enn sem engum myndi gagnast en tæki pláss í skúffum eða hillum.

Það kom samt aldrei annað til greina af okkar hálfu en að sinna þessu eftir bestu getu. Sigurður sinnti sínum embættisskyldum af mikilli samviskusemi. Því til viðbótar var hann skemmtilegur samferðamaður.

Auk þess að fylla út skýrlur um hvern bæ um búfjárfjölda skrifaði Sigurður heilmikla frásögn af þessari ferð okkar. Inn í þá frásögn orti hann fjöldan allan af vísum um menn og málefni sem bar á góma. Þessi för okkar á alla bæi í gamla Villingaholtshreppnum varð því bæði eftirminnanleg og skemmtileg.

Sigurður var hafsjór af fróðleik. Hann kunni óteljandi sögur um atburði sem gerðust hér í sveit í aldanarás. Hann fræddi mig um fjöldan allan af örnefnum um alla sveit. Hann útskýrði hvernig öll þessi örnefni höfðu tilgang í daglegu lífi fólks og gátu einfaldað lífsbaráttu fólks.

Sigurður sagði mér að hann gæti sagt jafn kunnugum manni til um það hvar hann hefði lagt frá sér brýni á þúfu út á engjum í Súluholti þannig að sá hinn sami gæti gengið að því. Það var grundvallaratriði að fólk lagði sig niður við að læra þessi örnefni og fara rétt með þannig að ekki varð um meinn rugling að ræða.

Í dag er öldin önnur. Að stórum hluta er hætt að nota mikið af örnenfum í daglegu lífi þannig að þau gleymast og ungt fólk lærir þau aldrei. Svo er annað að það er enginn metnaður í að nota þau örnefni sem enn eru algeng rétt. Fjölmiðlar landsins fara nú, að manni finnst, út og suður í lýsingum sínum á staðsetningu út frá örnenfum.

Í tengslu við ömurlegt sakamál í vetur tók t.d. hver fjölmiðillin upp eftir öðrum að Selvogsviti væri á Reykjanesi. Fyrr í vetur var sagt frá því á einni útvarpsstöðinni að hálka væri í uppsveitum Árnessýslu einknn fyrir austan Hvolsvöll. Í tenglum við fréttir um jarðskjálfta á síðasta ári var því haldið fram að Húsmúli væri á Hellisheiði. Ég hef líka heyrt í fölmiðlum að Svínahraun væri á Hellisheiði.

Annað sem hefur haft áhrif á hvernig örnefi eru orðin notuð rangt er póstnúmerakerfið og að heimilsfang er alltaf skrifað með staðsetningu pósthúss. Það er orðið sama hvar þú ritar nafn þitt þú þarft alltaf að gefa upp pósthúsið en ekki hvar í sveit þú býrð. Þannig er bóndi í Flóanum oft sagður vera bóndi á Selfossi, Það var vitnað í bónda sem ég hef haldið fram að þessu að byggi í Kelduhverfi um daginn í fjölmiðlum. Þar var hann sagður vera bóndi á Kópaskeri.

Ég geri mér allveg gein fyrir að örnefni verða ekki notuð eins og áður fyrr og þau munu halda áram að gleymast nema e.t.v. einhverjum dellu köllum og kellingum. En mér finnst allveg lágmarks krafa að þeir sem hafa það að atvinnu að tala eða skrifa í fjölmiðla landsins fari rétt með þegar þeir nota örnefni til að útkýra sitt mál.

Svo mörg voru þau orð.  emoticon





30.01.2017 21:55

Af forfeðrum mínum.

Langafi minn var Páll Eiríkur Pálsson. Hann fæddist í júlí 1873. Foreldrar hans voru Helga Friðfinnsdóttir. (f. 1839 - d. 1909) og Páll Pálson bókbindari  ( f.1819 - d. 1873 ) sem m.a.búa í Kverkártungu á Langanesströnd N-Múl. Draugagangur () og Lífsbarátta á 19. öld ()

Þegar Eiríkur langafi minn fæðist er Páll faðir hans látinn. Foreldrar hans höfðu reyndar fyrir löngu slitið samvistum. Faðir hans hafði verið í Vopnafirði en Helga móðir hans er í vinnumensku í Miðfjarðanesi Skeggastaðasókn þegar hann fæðist.

Mér hefur verið sögð sú saga af andláti Páls Pálssonar bókbindara að hann hafi verið á ferð milli bæja í Vopnafirði að kvöldi nýársdags 1873. Þá allt í einu finnst honum hann nú vera orðinn feigur. Hann ríður því heim að næsta bæ sem mér skilst að hafi verið Leiðarhöfn og knýr þar dyra. Hann spyr hvort hann megi ekki koma inn því nú styttist í að hann muni deyja. Hann kunni því illa að finnst dauður á milli bæja. Honum er boðið inn. Hann þiggur þar veitingar og situr að spjalli við húsráðendur langt fram á kvöld. Þá er honum boðið gisting og þiggur hann það, Morguninn eftir liggur hann látinn í rúmi sínu.

Eiríkur elst upp með móður sinni sem var í vinnumensku víða á þessum slóðum m.a. um tíma í Kverkártungu. En þar höfðu foreldrar Eiríks rúmum tíu árum áður en hann fæðist reynt fyrir sér með sjálfstæðan búskap. Þau áform gengu ekki upp eins og rakið hefur verið hér á síðunni. Draugagangur () og Lífsbarátta á 19. öld ()

Ekki hef ég heimildir fyrir því hvar Eiríkur langafi minn dvaldi eða gerði sem ungur maður en 1901 þegar hann er 28 ára gamall kvænist hann langömmu minni Kristínu Jónsdóttur ( f. 1869 - d. 1921 ) sem þá var ekkja með fjögur börn á aldrinum 2 til 8 ára. Kristín var ættuð úr S-þing en hafði búið í Þistilfirði með fyrri manni sínum.

Þau hefja búskap í Krossavík í Þistilfirði og þar er afi minn Aðalsteinn Eiríksson fæddur í okt 1901. Móðir Eiríks,  Helga Friðfinnsdóttir er þá hjá þeim í Krossavík. Þau búa í Krossvík í fjögur eða fimm ár en hætta þá búskap og flytja til Þórshafnar. Eiríkur og Kristín eingnast fjögur börn meðan þau búa í Krossvík en tvö þeirra deyja í frumbernsku. Eftir að þau koma á Þórshöfn eignast þau 3 í viiðbót. Eins og áður sagði átti Kristín fjögur börn fyrir með fyrri eiginmanni sínum.

Eftir að þau koma á Þórshöfn, virðist mér samkvæmt þeim heimilum sem ég hef ( eru reyndar afar litla ), Eiríkur aðallega stunda sjómensku. Heimilið er þungt í rekstri og tekjur litlar. Börnin eru mörg hver send í fóstur.

Í Laxárdal í Þistilfirði búa bræður Ólafur, Kristján og Þorsteinn Þórarinssynir. Þeir koma þangað með foreldrum sínum aldamótaárið 1900 og hefja svo sjálfstæðan búskap hver af örðum. Ólafur fyrst árið 1901, og svo Kristján og Þorsteinn árið 1907. Kona Kristjáns er Ingiríður Árnadóttir frá Gunnarsstöðum í Þistilfirði. Árið 1913 stofna þau nýbýlið Holt í Þistilfirði sem fær land bæði frá Gunnarsstöðum og þriðjapartinn úr Laxárdal.
 
Þessi ungu hjón taka afa minn í fóstur um það leiti sem þau byggja upp í Holti. Afi er þá 12 ára gamall og elst hann upp hjá þeim upp frá því. Í Holti er rekinn myndarbúskapur og það man ég að afi taldi það sína gæfu að hafa komið þar.






Flettingar í dag: 353
Gestir í dag: 13
Flettingar í gær: 609
Gestir í gær: 42
Samtals flettingar: 144785
Samtals gestir: 25703
Tölur uppfærðar: 18.5.2024 06:59:42
clockhere

Í Flóanum

Nafn:

Aðalsteinn Sveinsson

Farsími:

8607714

Heimilisfang:

Kolsholti I

Staðsetning:

Flóahreppur

Heimasími:

4863304

Tenglar