Í Flóanum

06.07.2013 07:33

Fuglsö 1976

Sumarið 1976 var ég bæði ungur og efnilegur. Ég hafði tekið þátt í frjálsíþróttaæfngum með hópi unglinga á svæði HSK veturinn áður. Í byrjun júni var svo haldið til Danmerkur í æfingabúðir. Umsjón með þessum æfingum og þjálfari í æfingabúðunum var danski þjálfarinn Ole Schöler. 

Þessar æfingabúðir voru í Fuglsö á Jótlandi. Þátttakendur voru flestir af HSK svæðinu eða 26 en til viðbótar voru 7 frá HSÞ, 1 frá HSH, 1 frá KA og 1 frá ÍR..

Við dvöldum, að mig minnir, í þrjár vikur í Fuglsö við æfingar og keppni. Í lok ferðarinnar var svo haldið á danska Landsmótið sem haldið var í Esbjerg dagana 25, 26, 27  júní. þetta sumar.

Þessi ferð var bæðri skemmtileg og eftirminnanleg þeim sem í henni voru. Þær Áslaug Ívarsdóttir og Aðalbjörg Hafsteinsdóttir sem báður voru með á sínum tíma höfðu forgöngu um að kalla þennan hóp saman. Það var vel við hæfi að hittast nú á Selfossi í tengslum við Landsmót UMFÍ sem þar sendur nú yfir.

Góð mæting var. Meira að segja mætti Ole þjálfarinn okkar frá Danmöku. Það var skemmtilegt að hitta þetta fólk aftur og rifja upp gömul kynni. Suma hafði maður ekki séð í 37 ár. emoticon

27.06.2013 23:23

Vestur í Djúp

Í fyrramálið er hugmyndin að keyra vestur í Ísafjarðardjúp og dvelja þar um helgina. Tilefnið er ættarmót afkomenda afa míns og ömmu í móðurætt sem haldið verður  í Reykjanesi. 

Afi og amma voru Aðalsteinn Eiríksson ( f. 31.01.1901 - d. 27.01.1990 ) og Bjarnveig Ingimundardóttir ( 31.10.1902 - d. 27.04.1992 ). Þau voru m.a. á langri æfi skólastjórahjón í Reykjanesi frá árinu 1934 til ársins 1944. 



Ég hef ekki tölu á fjölda afkomenda þeirra en þeir eru allavega fjölmargir. Það stefnir í góða mætingu  emoticon

23.06.2013 07:41

Heyskapur

Heyskapur er nú víða kominn af stað hér í Flóanum. Hér á bæ var byrjað að slá á fimmtudagskvöldið. Við slóum u.þ.b. 10 ha og nú er það allt komið í rúllur. Það er ennþá brakandi blíða svo senilega hefði maður átt að slá meira. Samkvæmt veðurspá er ekki víst að gefi til heyskapar í næstu viku.



Eitt mikilvægasta atriðið í heyskap er að þær vélar sem verið sé að nota, bili nú ekki þessa fáu daga á ári sem á reynir.  Það eru líka takmörk fyrir hvað hægt er að liggja  með nýjar og dýrar vélar á meðan notkunn er ekki meiri en raun ber vitni á venjulegu búi. Við létum nú verða af því samt fyrir þennan heyskap að kaupa nýlega rakstrarvél.

Reynt verður að slíta meira út úr öðrum heyvinnuvélakosti búsins að sinni. emoticon

16.06.2013 08:00

Tengdapabbi

Í dag eru 101 ár síðan hann tengdafaðir minn heitinn (Júlíus Sigmar Stefánsson bóndi og verkamaður 1912-1989 ) fæddist. Í tilefni þess set ég hér inn þessa mynd af honum. Ég hef ekki hugmynd um hver teiknaði hana en hún hangir hér upp á vegg.í stofunni.





Júlíus er einn af eftirminnanlegustu einstaklingum sem ég hef kynnst. Hann var af þeirri kynslóð, sem tókst á við lífsbaráttuna af ærðuleysi og vinnusemi, sem lagði grunn að því velmegunnarþjóðfélagi sem við í dag búum við. Hann upplifði einar mestu tækniframfarir og þjóðfélagsbreytingar sem ein kynslóð hefur sennilega upplifað. Hann lét það nú lítið raska sinni ró og gerði litlar kröfur um hlutdeild í velsældinni.

Í fyrra á hundrað ára árstíð hans komu niðjar hans og tengdamönnu ( Guðfinna Björg Þorsteinsdóttir 1916-1984 ) saman á ættarmóti í Helgafellssveitinni.  Júllarar. () Þar var fjölmenni samankomið sem skemmti sér vel,  emoticon

12.06.2013 22:55

12. júní

Í dag er bóndinn í Jaðarkoti, hann Sigmar Örn  þrítugur. emoticon  Ég er nú búinn að þekkja hann í öll þessi þrátíu ár enda var ég viðstaddur fæðingu hans. Hann fæddist reyndar sama dag og við foreldrar hans áttum eins árs brúðkaupsafmæli.

Eins og allir sem þekkja Sigmar vita er hann, og hefur alltaf verið, einstaklega þægilegur í allri umgengni. Það er ekki hægt að segja annað en hann hafi verið vandræða lítill í uppeldi. Það breytir ekki þeirri staðreynd að hann hefur alltaf viljað fara sínar eigin leiðir á sínum forsendum. 

Hann hafði strax á barnsaldri einstakt lag á að komast upp með ýmislegt sem fáum öðrum  hefði getað tekist. Sennilega hefur það orðið til þess að hann er ennþá jafn sérvitur og hann hefur alltaf verið. Í dag erum við samstarfsfélagar og mér líkar það vel.  emoticon  

Eins og ég sagði áðan þá fæddist Sigmar sama dag að við Kolbún eigum brúðkaupsafmæli. Ég rakst á þessa mynd um daginn sem tekin var fyrir 31 ári síðan í brúðkaupsveislu í Þjórsárveri. Fyrir þá sem ekki átta síg á hvaða fólk þetta er þá eru þarna auk okkar brúðhjónanna, tengdaforeldrar mína, þau Guðfinna Björg Þorsteinsdóttir (1916 - 1984 ) og Júlíus Sigmar Stefánsson (1912 - 1989 ) og okkar elsta barn hún Hallfríður Ósk.



Mér finnst hún Halla hafa elst svakalega mikið......emoticon    Hvað finnst ykkur?  



09.06.2013 07:12

40 ára ferming

Tvær fyrrverandi skólasystur mínar þær Þórdís og Inga höfðu samband við mig nú um daginn og bentu mér á að nú fer að koma að þeim degi að það eru fjörutíu ár liðin frá því við fermdumst saman. Sú hátíðlega athöfn mun hafa farið fram 11. júní 1973.
 
Við vorum 7 sem fermdumst þenna dag í Villingaholtskirkju. Það þykir nú nokkuð stór hópur í þessari sókn. 

Ég er nú ekkert sérstaklega minnugur á svona stundir, man þó að veðrið var gott og hér kom fjöldinn allur af gestum. Það sem ég man helst, úr þessari ágætu veislu, var þegar ég fór með hluta af veislugestunum fram á Bjalla að sýna þeim þrílembuna mína. 

Á þessum tíma var ekki mikið um þrílemdur en ég var mjög stoltur af þessari fjáreign minni. Ég held að ég hafi átt orðið 7 ær þarna fermingarvorið mitt.og þær skilað 15 lömbum það vorið. Þrílembuna hafði ég heima í túni allt sumarið. Hún var með þrjár gimbrar sem allar voru svo settar á um haustið.

Í tilefni þess að nú eru 40 ár liðin stungu þær Þórdís og Inga upp á að við myndum hittast og rifja upp gömul kynni. Það verður bara skemmtilegt. Vona bara að sem flestir geti mætt.

Þau sem fermdust hér fyrir 40 árum voru:

Aðalsteinn í Kolsholti
Anna Lísa í Selparti.
Elvar Ingi í Villingaholti
Inga í Vatnsholti
Guðm. Helgi í Villingaholtsskóla
Þóroddur í Villingaholsskóla
Þórdís á Egilsstöðum.



04.06.2013 22:52

Íslenski torfbærinn

Það rifjaðist upp fyrir mér, nú á föstudaginn var, að ég á í fórum mínum ljósmynd af málverki sem málað var af bæjarhúsunum í Kolsholti sennilega um eða stuttu eftir aldarmótin 1900. Þessa ljósmynd gaf mér fullorðinn maður sem hingað kom einu sinni. Það eru sennilega u.þ.b. 30 ár siðan.

Þegar hann kom hér bað hann mig um að sýna sér hvar bærinn hafi staðið áður fyrr og taldi ég mig getað sýnt honum það. Hann þakkaði fyrir sig með því að gefa mér þessa ljósmynd. 



Ef ég man rétt þá sagðist hann vera fæddur hér í Kolsholti (eða uppalin að einhverju leiti) og að hann ætti þetta málverk af bænum.

Ástæða þess að þetta fór að rifjast upp fyrir mér núna var að þegar hátíðin "Fjör í Flóa" var sett hér í Flóahreppi á föstudaginn við hátíðlega athöfn notaði sveitarstjórnin tækifærið og afhenti styrki til menningarmála. Meðal styrkhafa var Hannes Lárusson í Austur-Meðalholtum. 

Hannes og Kristín Magnúsdóttir hafa af miklu metnaði unnið að því að koma upp fræðasetri um íslenska torfbæinn í Austur-Meðalholtum. Nú er unnið að lokaframkvæmdum hjá þeim. Styrkurinn frá Flóahreppi er veittur til ljúka rannsóknum og setja upp sýningu um torfbyggingar í sveitarfélaginu. Verkið er unnið þannig að gagna er aflað, grunnmyndir teiknaðar, myndir fundnar og talað vð tugi eldra fólks. 

Það er mikilvægt gera þessari menningararfleyfð góð skil og það eru þau svo sannarlega að gera í Austur-Meðalholtum. 

31.05.2013 07:29

Vor

Vorið er skemmtilegur en annasamur tími. Þetta vorið hef ég lítið bloggað. Það ekki vegna þess að mér hafi fundist tilveran lítið áhugvert. Vorið er alltaf fullt af áhugverðum atvikum. 

Kornakrarnir voru hér unnir um mánaðarmótin aprí/maí. Bygginu var sáð 3. maí. 10 dögum síðar voru akranir að byrja að grænka og eru nú orðnir iðjagrænir yfir að líta.

Annars hefur verið frekar kalt og hefur grasspretta, fram að þessu, verið mun seinni en undanfarin ár. Ekki er samt hægt að tala um einhver harðindi og nú tvo síðustu daga hefur grasið bæði á túnumm og útjörð þotið upp. Það styttist í slátt. emoticon

Búið er að bera á ölll tún. Skítur var feldur niður í megnið að túnunum eins og undanfarin ár. Eftir er að vinna flög sem ætlunin er að sá í grasfræi í sumar.

Sauðburði er nú að ljúka og hefur að mestu gengið vel. Helmingurinn af gemlingunum er að vísu geldur. Verður það sennilega að skrifast á annan kynbótahrútinn sem settur var á í haust og, eins og alltaf, miklar vonir voru bundar við. Óvíst er um framtíð hans í þessum bransa. emoticon

24.04.2013 07:16

Ráðgefandi skoðanakönnun

Það var sameiginleg niðurstaða á vinnufundi fræðslunefndar og sveitarstjórnar Flóahrepps 3. apríl s.l. að efna til ráðgefandi skoðanakönnunnar, samhliða Alþingiskosningunum n.k. laugardag, um framtíðarstaðsetningum leikskólans hér í sveit. 

Eins og margoft hefur hér komið fram ( Íbúafundur () og Að ná árangri í skólastarfi () ) þá hafa þessi mál verið til skoðunnar undanfarin misseri. Það hefur legið fyrir að kostirnir fyrir Flóahrepp eru aðallega tveir. Annarsvegar að stækka og breyta núverandi húsnæði leikskólans í Þingborg eða færa leikskólan í Villingaholt og reka hann í sama húsnæði og Flóaskóli er í. Þar er nægt húsrúm fyrir báða skólana í fermetrum talið.

Mikilvægt er að vanda vel til verka áður en sveitarstjórn tekur svona ákvörðun. Leitað hefur verið álits utanaðkomandi ráðgafa bæði á sviði húsnæðis og annari aðstöðu og skólastarfs. Það er einnig mikilvægt að samfélagið taki þátt í umræðunni. Haldnir hafa verið 3 íbúafundir um málefnir til að fá fram skoðanir og álit íbúanna og nú er efnt til ráðgefandi skoðanakönnunar meðal allra íbúa sveitarsfélagsins. 

Mér finnst rétt að taka fram að ég hef myndað mér ákveðnar skoðanir í þessu máli og þau sérfræðiálit sem fyrir liggja styðja þær skoðanir. Ég tel það einstakt tækifæri að efla skólastarf beggja skólastigana að færa þá saman í húsnæði. Það liggur fyrir að hægt er að skapa báðum skólunum góða aðstöðu í því húsnæði sem er fyrir í Flóaskóla með tiltölulega litlum framkvæmdum.

Það kallar á mun minni framkvæmdakostnað og rekstrarkostnað húsnæðis, sem gefur svigrúm og tækifæri til að nýta fjármuni meira í skólastarfið sjálft og annan búnað til skólastarfs en bara húsnæði. Ef að vel tekst til gefst einnig tækifæri til eflingar faglegs starfs í skólunum báðum sem er mikilvægt fyrir metnaðarfulla skólastarfsemi. Það stuðlar að því að halda í og laða að hæfileikaríkt starfsfólk í báða skólana.

Það verður athyglisvert að sjá á laugardaginn hvernig íbúar sveitarfélagsiins líta nú á málið. Ég er að vona að sem flestir kynni sér öll gögn sem liggja fyrir úr þessari vinnu og eru aðgengileg á heimasíðu Flóahrepps. Einnig er hægt að nálgast þau á skrifstofu sveitarfélagsins.

Ég er einnig að vona að fólk myndi sér skoðanir út frá heildar- og langtímahagsmunum sveitarfélagsins. Ef íbúar Flóahrepps vilja allment standa að rekstri samfélagsins að ráðdeild en metnaði þá erum við að ræða um áhugavert verkefni.  emoticon



18.04.2013 07:21

Íbúafundur

Í kvöld verður íbúafundur í Þingborg þar sem álitsgerð um starfsaðstöðu leikskólans Krakkaborgar í Flóahreppi verður kynnt. ( \files\Alitsgerd A4 (5).pdf )  Álitsgerð þessi er unnin af Trausta Þorsteinsssyni og Hólmfríði Árnadóttur. í henni er leitast við að svara spurningunni:  Er hagkvæmt, rekstrarlega og faglega, að færa leikskóla Flóahrepps, Krakkaborg, í húsnæði Flóaskóla grunnskóla Flóahrepps.

Ég vil eindregið hvetja alla íbúa Flóahrepps til mæta á fundinn í kvöld. Það er mjög mikilvægt að íbúar kynni sér þesssi mál vel og taki svo þátt í fyrirhugaðri skoðannakönnun sem fram fer samhliða Alþingiskosningunum 27. apríl n.k um framtíðarstaðsetnigu leikskólans. 

Eins og fram hefur komið hér á síðunni hafa þessi mál verið til skoðunnar hér í sveit undanfarin misseri.( Minnisblað um leikskóla () ). Það sem mér finnst áhugaverðast í þessari vinnu er að ítrekað hefur verið bent á það að gera megi ráð fyrir bæði rekstrarhagræðingu og faglegum ávinningi með flutningi Krakkaborgar í Flóaskóla.

Það byggir auðvita á því að í Flóaskóla er nægt húsrúm fyrir báða skólana jafnvel þó nemendum fjölgi á næstu árum. Annað sem skiptir einnig höfuðmáli er, að ef farið verður í slíkar breytingar þá verði unnið að þeim þannig af fræðsluyfirvöldum í sveitinni, skólastjórnendum og öðrum starfsmönnum skólanna beggja að öll tækifæri til eflingar á skólastarfi og aukinni fagmensku verði nýtt til hins ítrasta.. 


13.04.2013 07:27

Akureyri

Ég skrapp til Akureyrar í gær en aðalfundur Auðhumlu svf. var þar haldinn. Við tókum flug rúmlega sjö og eftir 40 mín vorum við komin í snjóinn á norðurlandi. Fundurinn hófst ekki fyrr en kl 11 þannig að það gafst tími til skoða sig aðeins um áður. 




Við byrjuðum á að þiggja morgunverð í Kaffi Kú í Garði í Eyjafjarðasveit. Að því loknu heimsóttum við sláturhúsið og kjötvinnsluna hjá Norðlenska. Það var áhugavert að sjá flæðilínuna í kjötskurðinum hjá þeim.



Að því loknu var litið við í mjólkurbúinu hjá MS en þar standa yfir töluverðar framkvæmdir innandyra. Þessar framkvæmdir sem og heilmiklar framkvæmdir hjá MS á Selfossi eru liður í umfangsmiklum breytingu á skipulagi vinnslu hjá fyrirtækinu.


Á fundinum var farið yfir starfsemi fyrirtækisins á síðasta ári, ársreikningur 2012 afgreiddur og kosið í stjórn. Á deildarfundunum ( Auðhumla. () ) vítt og breytt um landið fyrr í vetur var búið að kynna helstu þætti í starfseminni og rekstrarniðurstöðu 2012. Fátt nýtt kom fram á fundinum í gær. Stjórn Auðhumlu var öll endurkjörin og varastjórn einnnig.

Flogið var suður aftur rúmlega sex og var ég komin hingað heim kl 8:00 í gærkvöldi. Þá var gott að láta ferða og fundarþreytuna líða úr sér með því að leggja á  reiðhestana aðeins og taka smá útreiðar í dagslok. emoticon    

07.04.2013 07:21

Að ná árangri í skólastarfi

Á fundi sveitarstjórnar Flóahrepps í síðustu viku var samþykkt að efna til ráðgefandi skoðanakönnunar, samhliða Alþingiskosningunum 27. apríl n.k., meðal íbúa Flóahrepps, um framtíðarstaðsetningu leikskólans. 

Eins og fram hefur komið hér á síðunni (Minnisblað um leikskóla () ) hafa húsnæðismál leikskólans verið til skoðunnar hér í sveit. Nú liggja  fyrir álit þess efnis að það geti verið bæði faglegur og rekstrarlegur ávinningur af því að flytja leikskólann frá Þingborg í Flóaskóla. Í Flóaskóla er nægt rými fyrir báða skólana jafnvel þó nemendum fjölgi eitthvað á næstu árum. 

Allar breytingar á skólastarfi þarf að taka af varfærni og að undangenginni umræðu í samfélaginu. Sveitarstjórn hefur lagt áherslu á það í þessari vinnu og fyrirhuguð skoðanakönnun er liður í því að fá umræðu og álit íbúa samfélagsins á málefninu. 

Íbúafundur verður haldinn í Þingborg 18. apríl n.k. kl:20:00 þar sem skýrsla um starfsaðstöðu leikskólans Krakkaborgar verður kynnt. Mikilvægt er að íbúar kynni sér málið vel og eins og alltaf þegar um málefni sveitarfélagsins er að ræða, þarf að meta heildarhagsmuni fram yfir sérhagsmunni og langtímahagsmuni fram yfir skammtímahagsmuni.

Það er krefjandi verkefni að reka skólastarfsemi hvort sem er á leikskólastigi eða grunnskólastigi. Það er lífsnauðsynlegt að vel takist til. Það hlítur að vera markmið að þau börn og unglingar sem hér ljúka námi séu sem allra best undirbúin fyrir frekara nám og að takast á við lífsbaráttuna sjálfa. Þessum markmiðum þarf að ná með þeim takmörkuðu fjármunum sem eru til ráðstöfunnar.

Skólastarfsemi hér í sveit þarf að standast samanburð við aðra skóla í landinu, bæði varðandi rekstur og árangur í starfi. Við viljum helst skipa okkur á bekk með þeim sem bestum árangri ná. Ég held að við höfum alla burði til þess. Við höfum mikið að öflugu og góðu starfsfólki í skólunum báðum sem eru tilbúin að takast á við verkefnið.

Ef við nýtum vel alla þá kosti sem eru í stöðunni hverju sinni hef ég fulla trú á því að vel geti tekist til. 



30.03.2013 07:22

Föstudagurinn langi

Eins og stundum áður, á Föstudaginn langa, var farið í góðan útreiðartúr hér um Flóann í gær. Verðrið var frábært. Reyndar biðum við af okkur él sem gerði þegar lagt var af stað en það sem eftir lifði dagsins var rjómablíða.

Héðan fóru af stað upp úr hádegi, Hallfríður og Jón í Lyngholti, Stefán Ágúst og ég. Hér eru níu hross á járnum og  voru þau öll tekin með. Þegar áð var við Yrpholt komu þau feðgin í Egilsstaðakoti Einar og Halla ríðandi. Einar hélt áfram með okkur en Halla kvaddi og reið aftur heim í Kot.

Í Skyggnisholti var tekið á móti okkur með kaffi og súkkulaði út á hlaði. Ekki var síður tekið vel á móti okkur í Hófgerði og Dalbæ. En á þessum bæjum riðum við heim á hlað og hittum húsráðendur og áttum gott spjall við heimilisfólk í blíðunni

Það var að byrja að skyggja þegar við komum síðan í Egilsstaðakot. Þá höfðum við riðið góðan hring í Flóanum. Í Kotinu var sprett af og farið í kvöldmat hjá ElluVeigu. Þar var reyndar stoppað í góða stund og spjallað saman.

Það var svo á ellefta tímanum í gærkvöldi sem við riðum hingað í Kolsholt aftur. Nokkuð skuggsýnt var orðið en þó var norðurhimininn heiður og þar sást blika í stjörnur og norðurljós. Ljósin á bæjunum sáust um allan Flóann. Engin umferð var á vegunum fyrir utan einn bíl ( Sveinn Orri á Löduni ) sem kom upp Egilsstaðveginn.

Hjóðbært var í kvöldkyrrðinni. Fyrir utan hófadynin heyrðist öðru hvoru í áftinni á Villingaholtsvatni en þar bíður hún nú í hundraðavís að komast í nýgræðininn þegar byrjar að grænka. Í fjarska heyrðist einnig niður í Atlandshafinu þar sem það lemur suðurströnd landsins.
 
Hrossin voru nú orðin slök en samt viljug að komast heim. Þau sem vildu streða og jafnvel slást í upphafi ferðar runnu nú ljúf með slakan taum og nánast öll í einum takti. Við vorum sammála um að þetta væri hápunturinn á annars mjög góðri og skemmtilegri ferð. emoticon






23.03.2013 07:22

Vorjafndægur

Á miðvikudag var jafndægur að vori. Með hækkandi sól og meiri og lengri dagsbirtu verður tilveran bæði áhugaverðari og skemmtilegri. Það er alltaf tilhlökkunarefni að geta farið að takast á við vorverkinemoticon

Í nýliðinni viku var víða komið við. Á mánudagsmorguninn s.l. heimsótti sveitarstjórn Flóahrepps ásamt atvinnu- og umhverfisnefnd sveitarfélagsins Íslenska Gámafélagið í gömlu Áburðarverksmiðuna í Gufunesi. Þar var okkkur kynnt starfsemi félagsins í endurvinnslu- og endurnýtingarmálum.


Í flokkunarskemmuni í Gufunesi

Samningur Ísl. Gámafélagsins og Flóahrepps um sorphirðu og móttöku og meðferð á endurnýtanlegum úrgangi rennur út nú í sumar. Stefnt er að áframhaldandi samstarfi með nýjum samningi.

Seinnipartinn á mánudaginn renndum við Kolbrún til Njaðvíkur og heimsóttum Óla og Hönnu. Áttum þar góða sund með þeim m.a. buðu þau okkur út að borða á Kaffi Duus í Keflavík. Eftir að hafa gist hjá þeim í Stapakoti fór Óli með okkur í skoðunnarferð á þriðjudagmorguninn. Fórum við út í Garð og að Garðskagavita,um Sandgerði, Hvalsnes, Stafnes, Hafnir og að Reykjanesvita.


Þennan Geirfugl (t.v.) hitti ég við Reykjanesvita.  

Á leiðini heim seinnipartinn á þriðjudag stoppuðum við hjá Bödda og Guju í Hafnafirði. Þau buðu okkur einnig út að borða á Aski í Reykjavík. Eftir góðan mat og gott spjall með þeim var síðan haldið heim. emoticon

Á miðvikudagskvöldið var hér í sveit haldinn íbúafundur um skóla og frístundastefnu sveitarfélagsins. Unnið hefur verið að þessari stefnu í vetur og er sú vinna nú langt komin og er stefnt að þvi að hún verðri lögð fyrir sveitarstjórn til afgreiðslu nú í vor.

Á fimmtudagsmorgun byrjaði ég daginn, á eftir morgunverkunum, á að mæta á skipulagsnefndarfund á Laugarvatni. Seinnipartinn var svo fundur hér í Þingborg um málefnni Skólaskrifstofu Suðurlands. Á þennan fund mættu aðilar frá þeim sveitarfélögum sem standa að Skólaskrifstofunni fyrir utan Árborg.

Eins og kunnugt er þá hefur Sveitarfélagið Árborg ákveðið að hætta þátttöku í rekstri skrifstofunnar frá og með næstu áramótum. Sveitarfélögin sem eftir standa þurfa nú að bregðast við breyttum aðstæðum í ljósi þessarra ákvörðunnar.   

17.03.2013 07:18

Landsþing

Sveitarfélögin í landinu héldu landsþing á föstudaginn var. Þar komu saman sveitarstjórnarmenn af öllu landinu og ræddu þau málefni sem helst brenna á. Fulltrúar voru mættir frá ölllum sveitarélögunum nema tveimur. Hátt á annað hundrað manns voru á þessu þingi sem hófst kl 9:30 og var lokið upp úr kl 16:00. Þá tók við snarpur aðalfundur Lánasjóðs sveitarfélaga ohf.  

Meðal umræðuefna voru vinnutímamál kennara, hagræðingaraðgerðir sveitarfélaga, rafræn stjórnsýsla og svæðasamvinna sveitarfélaga ásamt ýmsu fleira. Þetta mun hafa verið seinasta landsþing á þessu kjörtímabili en kosið verður til sveitarstjórna á næsta ári.

Nú líður senn að því að við verðum búinn að þreyja bæði þorrann og góuna þennan veturinn. Daginn er tekinn að lenga svo um munar og ekki laust við það að maður finnist vorið vera á næsta leiti. Í tilefni þess læt ég hér fylgja mynd sem Jón Karl Snorrason flugmaður og ljósmyndari tók hér yfir bænum um hásumar 2011.

Flettingar í dag: 367
Gestir í dag: 21
Flettingar í gær: 609
Gestir í gær: 42
Samtals flettingar: 144799
Samtals gestir: 25711
Tölur uppfærðar: 18.5.2024 08:47:40
clockhere

Í Flóanum

Nafn:

Aðalsteinn Sveinsson

Farsími:

8607714

Heimilisfang:

Kolsholti I

Staðsetning:

Flóahreppur

Heimasími:

4863304

Tenglar