Í Flóanum

11.09.2010 07:34

Réttir

Reykjaréttir á Skeiðum eru í dag. Í gær fór ég ásamt Stefáni Ágúst frænda mínum ríðandi á móti safninu og fylgdum við því svo eftir síðasta spölinn niður í réttir.

Þetta var ágætis útreiðatúr. Við vorum samferða megnið af leiðinni fleira af góðu fólki héðan úr Flóanum sem voru í sömu erindagjörðum og við.  Þetta er drjúgur spölur héðan neðan úr Flóa og upp öll Skeiðin en við mættum fjallsafninu á Sandlækjarholtinu.

Hrossin stóði sig ágætlega en skemmtilegra hefði verið ef þau hefðu  verið  í meiri þjálfun. Hrosssóttin hefur svolítið spilað inn í útreiðar í sumar hjá okkur. Þau hross sem við höðum til fara í gær hafa lítið verið notuð undanfarnar vikur vegna hósta sem hrjáðu þau á tímabili í sumar en þau eru nú óðum að ná sér á strik aftur.

Hrossin sem Jón í Lyngholti fór á fjall með voru hinsvegar í góðu standi enda virtist hann vera í góðum málum þegar við hittum hann með safninu í gær. Jón  fór hér af stað á þriðjudagmorguninn en þá keyrði ég hann og hrossin upp í réttir þaðan sem riðið var inn á afrétt.

Í dag er svo meiningin að ríða heim  úr réttunum. Hugsanlega verður einhversstaðar stoppað í kjötsúpu á leiðinni.emoticon

07.09.2010 07:48

Að byggja skóla...

Fræðsla grunnskólabarna er eitt af lögbundnum verkefnum sveitarfélaga. Þeim ber skylda til þess að sjá til þess að öll börn á grunnskólaaldri í sveitarfélaginu stundi grunnskólanám.

Til þess að uppfylla þessar skyldur þurfa sveitarfélög  annað hvort að reka grunnskóla eða fela einhverjum öðrum að sinna þessu verkefni gegn greiðslu. Kostnaður við hvern nemanda er alltaf greiddur af því sveitarfélagi sem nemandinn  á lögheimili í.

Lengst af hefur Flóahreppur  farið báðar þessar leiðir. Flóaskóli var rekinn fyrir 1. til 7. bekk en 8.,9.og 10. bekkur var keyrður á Selfoss og Sveitarfélaginu Árborg greitt fyrir að kenna þeim.

Til þess að reka skóla þarf húsnæði og aðstöðu.  Þó ég sé nú þeirrar skoðunnar að gæði skólastarfs fari nú aðalega eftir hæfni, kunnáttu og getu kennaranna sem sinna skólastarfinu er ljós að sú aðstaða sem boðið er upp á skiptir líka miklu máli. Góð aðstaða  stuðlar líka að því að halda í og fá til starfa hæfileikaríkt starfslið með metnað fyrir þvi sem það er að gera.

Sum sveitarfélög hafa komist að þeirri niðurstöðu að skynsamlegt sé að eiga ekki skólahúsnæðið sem þau reka skólana í,  heldur leiga það frekar frá fasteignafélögum. Mikilvægt er þó að átta sig á því að rekstur skólahúsnæðisins og byggingakostnaður þess er alltaf á endanum greiddur af þeirri starfsemi sem fram fer í húsinu.

Þegar ljóst var orðið að Flóaskóli var að verða of lítill fyrir þá starfsemi sem þar fór fram var ákveðið að skoða þessi mál í heild hjá sveitarfélaginu og marka skýra stefnu um það hvert ætti að stefna í þessum málum.

Strax kom í ljós að vaxandi áhugi var meðal íbúa sveitarfélagsins að efla enn frekar skólastarfið í Flóaskóla með því að stækka hann í heildstæðan gunnskóla fyrir alla tíu bekkina. Ég held að tvær megin ástæður hafi  verið fyrir þessum aukna áhuga á að bæta þremur elstu bekkjunum við Flóaskóla og hætta að senda þá á Selfoss.

Í fyrsta lagi hefur börnum fjölgað  í öllum árgöngum á undanförnum árum. Til þess að reka skóla fyrir unglinga er lykilatriði að nemendurnir  séu ekki of fáir svo dæmið gangi upp bæði félagslega og rekstarlega.

Hin meginástæðan fyrir þessum aukna áhuga á stækkun Flóaskóla er að mjög vel hefur tekist til með skólastarfið frá  því að skólinn var stofnaður og hann nýtur mikils trausts hér í samfélaginu. Sjálfur hef ég lengi verið þeirra skoðunnar að stefna ætti að þessari stækkun.

Til þess að meta möguleika Flóahrepps á að fara í þessar breytingar var settur á stofn stýrihópur í byrjun sumars 2008 sem hafði það verkefni að gera úttekt og vinna tillögur að staðsetningu og fyrirkomulagi  við uppbyggingu skólamála í sveitarfélaginu.  

Það fólk sem skipaði þennan stýrihóp gerði sér strax grein fyrir því að til þess að dæmið gæti gengið upp varð að taka tillit til tveggja lykilatriða. Fjármagn til uppbyggingar og reksturs er takmarkandi þáttur. Það getur aldrei gengið að skólastarf hér í sveit  sé dýrara en gengur og gerist annarsstaðar.

Hitt atriðið sem líka þarf  að vera fyrir hendi ef hér á að reka heilstæðan grunnskóla af fullum metnaði er að húsnæði og öll önnur aðstaða sem þarf til þess sé til staðar. Unnin var þarfagreining á því heildarhúsnæði sem þyrfti fyrir alla grunnskólabekkina í Flóaskóla.

Stýrihópurinn lét gera úttekt á þeim byggingum sem fyrir er á svæðinu með tillit til þess hvernig þær gætu nýst sem best í framtíðinni. Sérstaklega var horft til þess hvort það gæti borgað sig að breyta eldri byggingum á einhvern hátt m.a.elsta skólahúsnæðinu og  félagsheimilinu Þjórsárveri svo þær byggingar nýttust betur fyrir skólastarfið.

Niðurstaðan úr þeirri vinnu var að væntanlega væri hagkvæmast og best að nýta eldri byggingarnar nánast óbreittar en leggja áherslu á að byggja við það sem upp á vantar.  Allri kennslu yrði hætt í elsta skólahúsnæðinu og það nýtt fyrir skrifstofur og vinnuaðstöðu kennara auk þess sem þar væri hægt að hafa geymslur.  Mötuneyti skólans yrði áfram í Þjórsárveri.

Vegna aðstæðna á svæðinu og með framtíðarnýtingu þess í huga fyrir skóla- og íþróttastarfsemi var lagt til að reisa viðbyggingu á tveimur hæðum við skólann. Viðbyggingin sem þyrfti að vera u.þ.b. 1000 fermetrara af gólffleti innhéldi fyrst og fremst  skólastofur til kennslu. M.a. sérgreinastofur eins og  t.d. fyrir heimilsfræði, smíðar, myndmennt, textílmennt og tölvuver.

Sveitarstjórn Flóahrepps lét í framhaldi af þessari vinnu frumhanna viðbyggingu og óskaði síðan eftir verðhugmyndum í byggingu hennar frá verktökum. Byggingin var hönnuð sérstaklega með það fyrir augum að hún gæti verið bæði ódýr í byggingu og rekstri.

Þegar óskað var eftir verðhugmyndum frá verktökum var m.a.sérstaklega verið að leita eftir hugmyndum og tillögum þeirra um byggingarefni með það að leiðarjósi hvað væri hagstæðast í dag bæði með tillit til kostnaðar og endingu.

Á grundvelli allrar þessarar vinnu ákvað sveitarstjórn Flóahrepps svo að fara í þessar framkvæmdir.  Áætlun gerði ráð fyrir að hægt væri að fullklára þessa viðbyggingu fyrir umtalsvert lægri upphæð en nefnt var í upphafi.  Ekki var talin þörf á að auka skuldir sveitarfélgsins vegna þessara framkvæmda.

Framkvæmdir við bygginguna sjálfa hófust í ágúst á síðast liðnu ári og eru nú á lokastigi. Byggingin hefur verið tekin í notkun og nú í vetur stunda nám í skólanum 9 bekkir gunnskólans. 8.bekk var bætt við síðast liðið haust og 9. bekk núna þegar skóli hófst í haust. Búið er að taka ákvörðun um að 10. bekkurinn bætist svo við næsta haust.

Heildar kostnaður við framkvæmdir er enn sem komið undir þeim kostnaðaráætlunum sem gerðar voru. Þeir tímarammar sem unnið var eftir hafa að mestu staðist og byggingin er þegar komin í notkunn eins og að var stefnt.

Allir sem að þessum framkvæmdum hafa komið hafa lagt sig fram um að verkið gæti gengið upp.  Ég vil þakka þeim öllum fyrir frábæra vinnu og íbúum Flóahrepps óska ég til hamingju með glæsilegan skóla.

29.08.2010 07:36

Höfuðdagur

Höfuðdagurinn er í dag. Oft hefur verið rætt um að á þessum degi verði veðrabrigði og má það til sanns vegar færa í mörgum tilfellum.

Þar sem sumarið hefur verið bæði hlýtt og þurrviðrasamt má ætla að nú fari hann að leggjast í kalsa rigningar. Það hefur reyndar nokkurn vegin verið raunveruleikin síðustu ár. Hvort sú verði raunin í ár kemur í ljós. Þessa stundina er veðrið allavega hið besta þó hann hafi reyndar svolítið þykknað upp í nótt.

Ég man eftir rosasumrum þar sem ringdi nánast allt sumarið en á Höfuðdaginn eða þar um bil snérist hann í norðanátt og þurk. Þá stóð fyrsti sláttur fram í september og hirt í súgþurkun.

Eins og oft áður þá fer mestur hluti vinnudagsins hjá mér á þessum tíma í bókhald. Bókhaldsvinna er nauðsynlegur hlutir í öllum rekstri. VSK uppgjör tvisvar á ári þ.e.1. sept og 1, mars heldur manni við efnið í þessum málum. emoticon

Það er helst síðustu dagana fyrir þessar dagsetningar að manni dettur í hug að skynsamlegt gæti verið að vinna þetta jafnt og þétt yfir árið. Aðra hluta ársins hvarlar ekki að manni að fara pæla mikið í bókhaldinu þegar nóg annað áhugavert er hægt að taka sér fyrir hendur. emoticon

24.08.2010 07:48

Haust

Það má segja að haustið hafi komið með norðan áttinni nú um helgina. Verkefnum sumarsins er líka að ljúka og haustverkin taka við.

Heyskap er nú að mestu lokið hér á bæ. Það sem ekki var beitt starx að loknum fyrri slætti hefur verið slegið aftur. Ekki er samt allveg útséð með að ekki verði slegið meira gras á þessu sumri. Spretta hefur verið mikil og alls ekki ljóst hvort allt þetta gras sem eftir er nýtist allt til beitar. Jafnvel gæti verið nauðsynlegt að slá eitthvað í þriðja sinn.

Sigmar er byrjaður í kornslættinum en fyrsti akurinn í Flóanum á þessu hausti var sleginn í gær. Fleiri akrar eru tilbúnir til þreskingar en undanfarna daga hefur verið beðið eftir sýru en megnið af korninu sem ræktað er hér í Flóanum er verkað í sýru.

Afréttamálafundur verður haldinn nú fimmtudaginn kemur. Á fundinum verður skipað í leitir og fyrirkomulag smölunnar á afréttinum verður til umræðu. Reykjaréttir verða 11 sept n.k.

Flóaskóli verður settur í vikunni. Nú er verið að leggja lokahönd á frágang inna dyra í nýbyggingu skólans. Nýbyggingin verður tekin í notkunn núna strax og skóli hefst á fimmtudaginn kemur. Er um gerbreytingu á allri aðstöðu í skólanum að ræða. Í vetur verður 9. bekkur í fyrsta sinn í Flóaskóla. Ákvörður hefur verið tekin um það að 10. bekkur bætist svo við næsta haust.
 
Stjórn Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga vinnur nú að undirbúningi ársþings sambandsins en það veður haldið nú um miðjan sept. Stefnt er að þvi að á þinginu verði undirritaður samningur 13 sveitarfélaga á Suðurlandi um samstarf um þjónustusvæði vegna málefna fatlaðra, en sveitarfélögi eru að taka við málaflokkum úr hendi ríkisins nú um næst áramót. 

   

21.08.2010 07:24

Grillveisla

Fjölmenni var hér á sunnudaginn var. Þá hittumst við systkinin fjögur úr austurbænum í Kolsholti  ásamt foreldum okkar, mökum, börnum, tengdabörnum og barnabörum og grilluðum saman.  Þessi hópur telur orðið hátt í fjörutíu manns


Hallfríður hafði frumkvæði að því að kalla þenna hóp saman. Þetta er annað árið í röð sem hún gerir það. Í fyrra komum við saman í skógræktinni og hugmyndin er að hittast þar og grilla saman einu sinni á hverju sumri.

Þrátt fyrir alveg einmuna blíðu flesta daga í sumar leit ekki mjög vel út með veðrið þennan dag þegar hann fór að nálgast.  Þegar ljóst var orðið á laugardagskvöldið að veðurspáin var bæði rok og rigning tók Sigmar sig til og fór að taka til á verkstæðinu í hlöðunni.

Um hádegi á sunnudagin var búið að breyta hlöðuni í samkomusal og þau systkin sendu SMS á liðið um að samkoman yrði þar að þessu sinni.


 

Vel var mætt og áttum við þarna bæði góða og skemmtilega og einnig næringaríka stund saman.



Eins og í fyrra var efnt til keppni milli okkar systkinanna. Kepp er um farandgrip og sér Hallfríður um skipulag keppninnar og er yfirdómari. Í þessari keppni reynir bæði á  líkanlegt og andlegt atgerfi. Þarna skipir máli bæði styrkur, snerpa, greind og listrænir hæfileikar.



Við fáum að hafa með okkur í liði einn eða tvo af okkar afkomendum. Ég fékk Erlu til þess að vera með mér í lið að þessu sinni.


Við áttum að svara hinum ýmsu spurningum m.a. um afmælisdaga fjölskydumeðlima og fæðingar ár. Einnig áttum við að yrkja vísu og teikna mynd.


Á meðan ég var í mesta basli við að reyna að finna einhver tvö orð sem ríma til þess að nota í vísu þá vildi svo til að Erlu "datt í hug vísa" og málinu var bjargað hjá okkur.


Varðandi teikninguna þá skipum við með okkur liði. Erla teiknaði en ég sat fyrir. Reyndar átti að teikna "gamla konu með hund í bandi sem finnur 500 kr. seðil" en það reddaðist allveg.


Varðandi afmælisdagana þá hjálpaði það mikið að ég á svo mörg barnabörn í hópnum og afar muna gjarnan eftir slíkum afmælisdögum þó þeir gleymi öllum öðrum.

Leikar fóru svo þannig að við Erla sigruðum keppnina. Reyndar bara með einu stigu meira en Alda og Agnes. En eitt stig var líka allveg nóg.



Ég þakka ykkur öllum sem þarna voru fyrir skemmtilegan dag.


15.08.2010 07:40

Landeyjahöfn

Ég skrapp skottúr til Vestmannaeyja í gær. Það eru breyttar forsendur í samgöngum við Eyjar með tilkomu Landeyjarhafnar. Við fórum héðan um hádegi og vorum komin til Eyja um hálf þrjú. Stoppuðum þrjá tíma í Eyjum og en fórum þá aftur um borð í Herjólf sem sigldi síðan kl. 6 til lands.  

Samgöngur skipta miklu máli á landsbyggðinni. Það er ekki að efa að Landeyjarhöfn á eftir að hafa mikil áhrif hér á Suðurlandi. Tilkoma hennar tengir Vestmannaeyjabæ beint við önnur sveitarfélög á Suðurlandi.

Það skapar tækifæri á meira samstarfi og samvinnu á svæðinu. Það eykur einnig umferð og flæði fólks á svæðinu öllu. Það mun auka umsvif á ýmsum sviðum bæði í Eyjum og í landi. 

Landeyjarhöfn hefur áhrif á umferðina hér í Flóanum. Með tilkomu hennar er ennþá meiri nauðsyn á nýrri brú yfir Ölfusá við Selfoss. Tvöföldum Suðurlandsvegar (sérstaklega á leiðinni milli Hveragerðis og Selfoss að mínu mati) og ný brú á Ölfusá við Laugardæli er orðið bráð aðkallandi verkefni.

Ég óska Vestmannaeyingum sem og öllum öðrum sem njóta góðs af þessarri framkvæmd til hamingu með að Landeyjarhöfn skuli vera komin í gagnið. Vonandi á höfnin eftir að reynast sem best og siglingar um hana ganga vel.

10.08.2010 07:10

Vestfirðir

Á fimmtudaginn í síðustu viku var öllu slegið upp í kæruleysi. Við hjónin ákváðum að taka nokkra daga í ferðalag um Vestfirði. Helstu nauðsynjum var hlaðið í LandRóverinn og síðan keyrt af stað.

Það er alltaf áhugavert að ferðast um Ísland. Við fórum víða um Vestfirði og fengum mjög gott veður. Hittum ekki marga sem við þekktum en stoppuðum þó hjá Júlíu og Nóa á Ísafirði. og áttum þar góða stund. Á Patreksfirði hitttum við einnig, fyrir tilviljun, skólabróðir okkar frá því við vorum á Hvanneyri fyrir rúmlega þrjátíu árum.


Að fara um Vestfirði er öðruvísi en að fara á milli bæja í Flóanum. Við keyrðum víða í afskekktar byggðir (og eyðibyggðir) eins og út á Snæfjallströnd, út á Ingjaldssand, í Selárdal, í Kollsvík, Breiðuvík og Látravík.

Veðrið og útsýnið var víða stórkostlegt.





Í Selárdal voru sérstæðar byggingar og listaverk Samúels Jónssonar skoðuð. Það var ekki fyrr en ég sá þessa mynd að ég áttaði mig á hvað ég er í raun stór. emoticon



Á sunnudagmorguninn þegar við vorum á Látrabjargi var örlítil þoka. Ekki þó meira en svo að maður fann vel fyrir smæð sinni á bjargbrúninni. emoticon




Allslags munir og gripir eru til sýnis á byggðasafninu á Hnjóti í Örlygshöfn. Fyrir þá sem eru með söfnunaráráttu er tilvalið koma þar og skoða.




Ég verð að viðurkenna að mér var stundum starsýnt á túnin og þau ræktunarskilyrði sem vestfirskir bændur búa við. Um leið og ég dáist að þeirri þrautsegju og eljusemi sem túnrækt hlýtur að kalla á við þessar aðstæður þá sannfærðist ég betur um það hvað það er nú gott að búa í Flóanum.   



Þegar við komum heim á sunnudagskvöldið var verið að slá há á fullu og ekki seinna vænna en að koma sér að verki heima hjá sé aftur. emoticon 


31.07.2010 07:22

Stjórnsýslan og opinberar stofnanir

Sveitarfélögin eru hluti af stjórnvöldum í landinu. Þau gegna mikilvægu hlutverki í stjórnsýslunni. Lögbundin verkefni þeirra eru margvísleg og fjölbreytt.

Mikilvægt er að verkaskipting milli ríkisvaldsins og sveitarfélaga séu skýr. Eitt af þeim markmiðum sem unnið er að með flutningi verkefna frá ríki til sveitarfélaga er einmitt að gera stjórnsýsluna einfaldari og þá einnig skilvirkari.

Það má reyndar allveg velta því fyrir sér hvort ekki geti einnig átt við að flytja verkefni frá sveitarfélögum til ríkisins í einhverjum tilfellum.

Við framkvæmd ýmissa verkefni sem unnið er að að hálfu stjórnvalda er þörf á aðkomu margra stofnanna sem heyra ýmist undir ríki eða sveitarfélög. Þegar svo er verða stofnanir að vinni vel saman og þeir enbættismenn sem að verkinu koma varða að tala saman. 

Stundum finnst manni of mikill tími fara í að vísa málum á milli stofnanna. Það þarf að einbeita sér í að leysa verkefnin. Það á að vera megin markmið í allri vinnu. Til þess að það gangi vel þarf að vera ljóst hver á að taka þær ákvarðanir sem þarf að taka hverju sinni.

20.07.2010 07:28

Vatnsveitan og blíðan

Það er búið að vera hér allveg einmuna blíða undanfarna daga. Um helgina var sól og hiti alla dagana. Í svona sumarveðri fjölgar mikið í sveitinni. Öll sumarhús eru full af fólki, tjaldsvæðin eru full og eyðibýlin fyllast af fólki.


Vatnsveita Flóahrepps nær yfir allt sveitarfélagið og markmið hennar er að geta þjónustað alla notendur á svæðinu sem þess óska um neysluvatn. Það eru ekki mörg sveitarfélög í dreyfbýli sem reka vatnsveitu með þetta að markmiði. (ég veit ekki um neitt annað)


Það verður nú samt að segja eins og er að þetta hefur verið mjög strembið á síðustu árum vegna mikilla þurka á sumrin og stóraukinni vatnsnotkunn. Unnið hefur verið að varanlegri lausn á þessu og eru framkvæmdir hafnar í því sambandi.


Á heitum sumardögum þegar fólkið er flest í sveitinni eykst vatnsnotkunn svo um munar. Þá er vökvað sem aldrei fyrr, það er látið renna í öllum hestahólfum, bílar og hús eru þvegin,  fólk fer í sturtu jafnvel oft á dag og ýmislegt annað sem eykur álag á vatnsveituna.


Stundum eykst vatnsnotkunn svo að það vakna grumsemdir um að leki sé komin á veituna. Starfsmenn veitunnar fara þá þegar í stað á stúfana til þess að kanna það, því mikilvægt er að ekki fari vatn til spillist svo ekki verði hreinlega vatnslaust þegar mest álagið er. Það er heilmikið mál að kanna hvort leki sé á veituna en lagnalengdir skipta tugum kílómetra.


Á tólftatímanum á laugardagskvöldið s.l. var komið í ljós að vatnsnotkunn var það mikil að stefndi í vandræði.


Ég hafði varið kvöldinu í að fara ríðandi til þess að sækja eina tvílembu sem við áttum hér sunnan við veg. Í leiðinni skoðaði ég kornakurinn og rak kindur sem nágranni minn átti hér til sín heima.


Þegar því var lokið bárust fréttir af yfirvofandi vatsskorti og lagði ég því á aftur og reið með stofnlögninni sem liggur hér í gegnum landið hjá okkur og í gengum land Saurbæjar að mörkum Hamars til þess að fullvissa okkur um að ekki væri komið gat á leiðsluna.


Enginn leki var á þessarri leið. Það tókst að afstýra vatnsleysi með aukinni miðlun milli vatnslinda og meiri dælingu. Ég fékk hinsvegar góðan útreiðatúr út úr þessi í frábæru veðri. Það var ekki leiðinlegt 




Sólin á þessum tíma sest hér tvisvar á hverju kvöldi. Fyrst á bak við Ingólfsfjallið síðan kemur hún aftur fram við norðurenda fjallsins og sest þar rétt sunna við Botnsúlur héðan í frá séð. Hún fer nú samt ekki langt því roðinn á himninum nánast fylgir henni þar til hún kemur aftur upp.

15.07.2010 07:40

Fótbolti

Þótt ég hafi tekið virkan þátt í ýmsum störfum fyrir ungmenna-og íþróttahreyfinguna í gegnum tíðina hef ég lítið lagt mig niður við það að horfa á íþróttaviðburði. Ég t.d. horfi aldrei á íþróttaþætti í sjónvarpi.


Ég hef áhuga á því að fylgast með hvernig íþróttafólk úr Flóanum er að standa sig og leita eftir því í þeim íþróttafréttum sem ég les. Minn íþróttaáhugi hefur aðalega gengið út á að ungt fólk hafi tækifæri til þess að taka þátt í íþróttum sjálfum sér og samfélaginu til góða

Þrátt fyrir þetta hefur það ekki farið fram hjá mér að margir hafa töluverðan áhuga á að horfa á fótboltaleiki. Það var t.d. einhvert fótboltamót haldið nú sumar í S-Afríku sem hinir ólíklegusta aðilar fylgdust spenntir með í margar vikur. Ég þekkti engann sem þar keppti og veit ekki neitt um þetta mót meira. emoticon

Á mánudgakvöldið s.l. fór það nú samt svo að ég fór á knæpu eina hér á Suðurlandi gagngert til þess að fylgjast með fótbolta. Það var reyndar konan mín sem stakk upp á því að við færum að fylgjast með þessum leik. Ég man ekki eftir að hún hafi komið með síka uppástungi fyrr.

Leikurinn sem við fórum að horfa á var leikur í áttaliða úrslitum í Vísa bikarkeppni karla. Þar áttust við 2. deildar lið Víkings í Ólafsvík og úrvalsdeildarlið Stjörnunnar í Garðabæ. Í liði Víkings í Ólafsvík er ungur maður frá Grundafirði sem við þekkum vel og allt hans fólk.

Fjölskylda hans var í hópferðalagi hér á Suðurlandi þegar leikurinn fór fram. Hópurinn  fylgst með beinni útsendingu af leikum á stóru tjaldi á "Kanslaranum" á Hellu. Þarna kom saman hátt í þrjátíu mans á öllum aldri, allt tengt þessum eina leikmanni úr Grundafirði.

Leikurinn var stór skemmtilegur og dramtískur með afbrigðum. Þrátt fyrir að Víkingur væri með tveggja marka forskot þegar aðeins örfáar mínútur voru eftir ef venjulegum leiktíma tókst Stjörnunni að jafna. Að lokinni framlenginu höfðu bæði lið bætt við einu marki og var því enn jafnt.

Þá var farið í vítaspyrnukeppni og þegar komið var í bráðabana náði markmaður Víkings að verja. Nú var komið að okkar manni í liði Víkings og tryggði hann sínum mönnum sigur með öruggu marki.

Það var mikil stemming í hópnum þarna á Hellu allan tímann sem leikurinn stóð yfir. Þegar lokamarkið kom svo loksins brutust út gífurleg fagnaðarlæti. Ég hefði aldrei getað trúað því hvað maður getur orðið eftir sig eftir að horfa á einn fótboltaleik.

Ég vil þakka bæði Víkingum og Stjörnumönnum fyrir þessa skemmtun. Ég óska Ólafsvíkingum, eða Ólsurum eins og þeir eru alltaf kallaðir í mín eyru þegar ég kem á Snæfellsnesið, til hamingu með glæsilegan árangur. emoticon

11.07.2010 07:37

Jöfnunarsjóður sveitarfélaga

Stór hluti tekna Flóahrepps hefur komið í gegnum Jöfnunarsjóð sveitarfélaga. Umfang Jöfunnarsjóðsins hefur stóraukist á undanförnum árum en um hann fara u.þ.b. 20 milljarðar á þessu ári. 

Regluverk jöfnunnarsjóðsins eru nokkuð flókið og hann er að greiða til sveitarfélaganna framlög á ýmsum forsendum. Í grófum dráttum er hægt að skipta framlögum úr sjóðnum til Flóahrepps í þrennt.


Í fyrsta lagi var Flóahreppur í síðasta kjörtímabili að fá sérstök framlög vegna sameiningarinnar sem varð 2006 þegar sveitarfélagið var stofnað. Þessi framlög voru tímabundin og koma aðeins á fyrsta kjörtímabili nýs sveitarfélags.


Í öðru lagi eru bæði útsvarstekjur og fasteingaskattar hér eins og víða annarstaðar í dreifbýli tiltölulega lágar og er Flóahreppur að fá talsvert í svokallað tekjujöfnunnarframlag.

 

Í þriðja lagi er um framlög að ræði vegna ýmissa útgjalda s.s reksturs grunnskólans, skólaaksturs og fleira.


Frá því í ársbyrjun 2009 hefur verið starfandi starfshópur á vegum Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra um heildarendurskoðun á regluverki sjóðsins. Þessi starfshópur kynnti á dögunum tillögur sínar.


Starfshópurinn leggur til að tekjujöfnunarframlagið  verði lagt niður í núverandi mynd og tekið upp nýtt fyrirkomulag útgjaldajöfnunar. Breytingarnar á að gera í áföngum.


Ráðherra hefur þegar sagt að fyrsta skref væri að fela starfsmönnum ráðuneytisins að hefja innleiðingu breytinganna í reglur og viðeigandi lagafrumvörp svo hægt verði að taka fyrsta skrefið í þessum breytingum á næsta ári.


Breytingar á framlögum jöfnunnarsjóðsins getur haft töluverð áhrif á rekstur Flóahrepps. Niðurfelling á tekjujöfnunnarframlagi hefur veruleg áhrif en eftir er að sjá til hvernig til tekst með nýtt fyrirkomulag útgjaldajönunnar.


Ég hef efasemdir um að rétt sé að hætta með tekjujöfnunarframlag á meðan ekki hefur tekist að jafna aðstöðu sveitarfélaga með tillit til þeirra skattstofna sem þeim eru ætlaðir. Heildar fasteignamat er mjög mismunandi í sveitarfélögum. Eitt raforkuver getur t.d. margfaldað skattstofninn í því sveitarfélagi sem stöðvarhúsið stendur þótt virkjunin taki yfir fleiri sveitarfélög.    

06.07.2010 07:39

Skólabygging

Vinnuhópur um framkvæmdir við stækkun Flóaskóla hittist í gærmorgun. Allt kapp er nú lagt á að hnýta alla lausa enda varðandi bygginguna svo hægt verði að taka hana í notkun þegar skóli hefst í ágúst n.k.

Þrátt fyrir nokkrar ófyrirséðar uppákomur í framkvæmdinni er allar horfur á að verkið ætli að ganga vel upp. Verið er að ganga frá pöntunum á húsgögnum og ýmsum tækjum s.s tölvum, skjávörpum og heimilstækjum í heimilsfæðistofuna. Einnig er verið að semja um og afla tilboða í síðustu verkþættina bæði varðandi bygginguna sjálfa og umhverfi  hennar.


Það markmið sveitarstjórnar að byggja glæsilegann, rúmgóðan, traustan og velbyggðan en ódýran skóla er að ganga mjög vel upp. Þær áætlanir sem gerðar voru í upphafi ætla að standast. Allir sem komið hafa að þessarri framkvæmd hafa lagt sig fram og það er að skila góðum árangri.


Það verður virkilaga gaman að taka þessa byggingu í notkun nú í haust.

 

01.07.2010 07:42

Heyskapur

Það er alltaf skemmtilegt að standa í heyskap. Heyskapur er ekki svona  "þægileg inni vinna" eins og borgarstjórastaðan í Reykjavík er. Heyskap fylgir langir vinnudagar og stanslaus angist yfir að allt gangi nú upp sem lagt er undir.emoticon 

Afkoma búrekstursins næsta árið ræðst að stæðstum hluta af því hvernig til tekst með heyölfun.  Það sem helst getur farið úrskeiðis hjá manni er að það er ekki rétt veður og að vélarnar taki upp á því að bila.

Erfitt getur verið að reikan út veðrið. Það er nefnilega ekki hægt að teysta því að veðurspáin sé rétt. Það er ekki heldur hægt að teysta því að hún sé vitlaus. Það getur orðið talsvert tjón að slá mikið og fá svo rigningu ofan í flekkinn. Það verður einnig tjón að sleppa því að slá vegna þess að það spáir rigningu en missa svo af góðum þurki.

Heyskapur í dag er stundaður með stórvirkum vinnuvélum á örfáum dögum. Það er því mikið lagt undir í einu og eins gott að vélarnar virki þegar til á að taka. Ef eitthvað bilar þarf að geta brugðist hratt við. Annað hvort með því að gera við eða gera einhverjar aðrar ráðstafanir til þess að bjarga heyjunum.

Best er að geta gert við áður en vélin bilar. Góður vélamaður þarf að hafa tilfinningu fyrir vélinni sem hann er að vinna á. Það getur verið betra ef það fara að heyrast einhver aukahljóð eða vélin er ekki að haga sér eins og hún er vön að gera að stoppa og kanna hvað veldur og laga það áður en eitthvað brotnar.

Svo getur það líka verið skynsamlegast í stöðunni að hækka bara í útvarpinu og halda áfram að bjarga heyjunum.

Hér á bæ eru við búnin að koma öllu heyi af fyrsta slætti í rúllur. emoticon

 

26.06.2010 07:44

Fundir

Í gærmorgun var fyrsti fundur skipulagsnefndar uppsveita Árnessýslu og Flóahrepps á þessu kjörtímabili haldinn á Laugarvatni. Töluverðar breytingar hafa orðið á nefndinni eftir kosningarnar. Frá því að ég tók sæti í nefndinni fyrst 2007 eru allir hinir sem þá voru í nefndinni hættir og nýir fulltrúar tekið við.

Þrátt fyrir kreppu hefur málafjöldi hjá nefndinni ekkert dregist saman en alls voru tekin fyrir 45 mál á fundinum í gær. Þar af voru þrjár fundagerðir afgreiðslufunda hjá embætti Byggingafulltrúa en á þeim fundum eru afgreiddar þær byggingaleyfisumsóknir sem uppfylla alla skipulagsskilmála sem í gildi eru sem og allar aðrar kröfur sem gerðar er til byggingaleyfisumsókna.

Ég fór beint af skipulagsnefndarfundinum á stjórnarfund hjá SASS á Selfossi. Þar voru ýmis áhugaverð mál til umfjöllunnar. m.a. kynntu fulltrúar frá Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu og Vegagerðinni vinnu sem er í gangi sem varðar stefnumörkun ráðuneytisins í almenningssamgöngum. Gífurlegum fjármunum af opinberu fé er varið í almennignssamgöngur af ýmsum toga. Má þar t.d. nefna sérleyfisakstur, ríkisstyrkt flug og  ferjusiglingar, strætisvagna, skólaakstur bæði fyrir grunnskóla og framhaldsskóla, ferðaþjónustu faltlaðra, og akstur með aldraða.  

Mjög misjafn er hvernig þessi þjónusta er að nýtast og það er full ástæða til þess að skoða hvort ekki sé hægt að nýta þessa fjármuni betur. Það er einmitt markmið  með þessari vinnu hjá ráðuneytinu. Dæmi er um þjónustu sem er niðurgreidd af opinberu fé en samt er fargjald sem farþegi þarf að greiða hærra en sem nemur beinum kostnaði við að fara sömu leið á einkabíl.

Á stjórnarfundinum var einnig kynnt minnisblað vegna skýrslu um endurskipulagningu sjúkrahúsaþjónustu á Suðvesturhorni landsins frá því í des s.l. Í þeirri skýrslu er verið að leggja til stórfeldan flutning á verkefnum frá sjúkrahúsunum á Selfossi, Suðurnesjum, Hafnafirði og Akranesi til LHS í Reykjavík. Í þessu minnisblaði sem kynnt var á fundinum í gær er sýnt fram á að alls ekki er ljóst hver ávinningur er af þessum flutningi og hann gæti allt eins aukið kostnað.

Stjórn SASS samþykkti að taka þátt í að senda heilbrigðisráðherra ásamt Sambandi sveitarfélaga á Suðurnesjum, Samtökum sveitarfélaga á Vesturlandi og Hafnafjarðarbæ erindi vegna málsins.

 

22.06.2010 07:48

Sumarsólstöður

Nú er bjartasti tími ársins. Nóttin er björt og veðrið undanfarna daga hefur einkennst að mikilli blíðu. Ég mæli með því að hluti af svona nóttum sé tekin í útreiðar. Ég held að tvegga tíma útreiðartúr á þessu  tíma jafnist á við fjögurra tíma svefn.

Þórarinn bróðir sem býr í Hafnafirði  kom hér í gærkvöldi og gerðum við það eina gáfulega í stöðunni. Við ásamt Jóni í Lyngholti lögðum á gæðingana og riðum út í kvöldblíðunni í Flóanum. 

Við létum auðvita besta og viljugasta hrossið undir gestinn.  Fyrir rúmlega þrjátíu árum þegar við Þórarinn vorum báðir ennþá yngri en við erum núna keyptum við sitt hvort merfolaldið frá Laugardælum. Þórarinn vann sem  fjósamaður í Laugardælum á sumrin þegar hann var í menntaskóla. Eitthvað fór hann á hestbak á þessum árum og fékk áhuga á að rækta hross. Með það í huga gekkst hann fyrir því að við keyptum þessi folöld haustið 1978.
 
Undan annarri þessarri meri hafa fæðst hér nokkur folöld í gegnum tíðina. Þessi hryssa sem Þórainn fékk svo  lánaða hér  í gærkvöldi er síðan út af henni komin og einnig grárri hryssu sem hann átti hér áður fyrr.  Það má því sega að nú fyrst hafi hann nýtt sér afrakstus þeirra rætkunnar sem hann lagði grunn að fyrir 32 árum síðan. 

Þó Þórarinn sé kannski ekki allveg í toppþjálfun sem knapi þessi misserin gaf hann okkur Jóni ekkert eftir í útreiðunum. Eftir rúmlega tvegga tíma útreiðatúr hvaddi hann okkur aftur og hélt endurnærður aftur í Hafnafjörðinn. Aðspurður sagðist hann ekki hafa neina trú á því að hann yrði með harðsperrur í dag.... emoticon

Flettingar í dag: 367
Gestir í dag: 21
Flettingar í gær: 609
Gestir í gær: 42
Samtals flettingar: 144799
Samtals gestir: 25711
Tölur uppfærðar: 18.5.2024 08:47:40
clockhere

Í Flóanum

Nafn:

Aðalsteinn Sveinsson

Farsími:

8607714

Heimilisfang:

Kolsholti I

Staðsetning:

Flóahreppur

Heimasími:

4863304

Tenglar