Í Flóanum

30.01.2011 21:50

Raforkuverðið

Eins og ýmislegt annað hér í okkar þjóðfélagi þá hafa skipulagsbreytingar á liðum árum í raforkusölumálum leitt af sér vaxandi ójöfnuð og komið illa niður á dreifbýli landsnins. Þegar ákveðið var að aðskilja raforkuframleiðslu og raforkudreyfingu var talað um að það væri gert fyrir neytendur. Markmiðið væri að koma á virkri samkeppni í raforkuframleiðslu sem átti að skila lægra raforkuverði

Ekki veit ég hvort einhverjir landsmenn hafi orðið var við þá hagræðingu sem út úr þessu kom. Hitt veit ég vel að við sem í dreyfbýli búum höfum síðan þá eingöngu þurft að búa við hækkandi raforkuverð og það svo um munar.

Þetta kemur sérstaklega illa niður á þeim svæðum þar sem treysta þarf á húshitun með rafmagni. Hátt raforkuverð kemur reyndar einnig niður á atvinnusköpun í dreyfbýli og eru dæmi um fyrirtæki sem hafa flutt sig héðan á höfuðborgarsvæðið vegna þessa.

Mér finnst þetta óþolandi aðstöðumunur og með öllu óásættanlegt.  Ef mönnum er einhver alvara með því að efla byggð í þessu landi þá verður að taka á svona málum. Það vita tilgangslaust að vera að setja eitthvað af almanna fé í byggðamál og til atvinnusköpunnar í dreifbýli ef sífellt er á sama tíma verið að auka kostnað hjá þessum sömu aðilum umfram það sem gerist annarstaðar.

25.01.2011 07:28

Viðhaldið

Það er gömul saga og ný að alltaf er nauðsynlegt  að sinna viðhaldinu vel.  Fjósið hér er byggt fyrir rúmlega 25 árum og þó að vandað hafi verið til verka í upphafi fer ekki hjá því að  kominn er tími á ýmis viðhaldverkefni. 

Eitt af því sem hefur verið að bila í fjósinu eru steinbitarnir í gólfinu. Borið hefur á því að steypan hefur sprungið frá járnunum í bitunum og þeir molnað. Þetta hefur valdið slysahættu í fjósinu og því nauðsynlegt að bregðast við á einhvern hátt.

Nú er svo komið að ekki duga lengur neinar bráðabirgða viðgerðir á bitunum. Nauðsynlegt er að skipta um gólfið í allstórum hluta af fjósinu. Hefur það verið eitt af okkar verkefnum  í vetur meðfram öðrum verkum sem verið er að sinna.  

Til þess að skipta um gólfið þarf að byrja á því að saga eldra gólfið upp og koma því út. Í það verk fjárfestum við í  gamalli steinsög. Við  fengum síðan lánaðann lítinn rafmagnslyftara sem  hægt er að læðast með inn um fjós.  Gömlu bitarnir voru síðan sagaðir í hæfilaga stóra búta sem lyftarinn gat ráðið við og þeir keyrðir út.

Keyptir voru nýjir steinbitar í fjósið. Þeir eru innfluttir frá Hollandi og eru í rúmlega 3 fermetra einingum og engin léttavara.  Þar sem ekki er nú einfalt að koma við stórvirkum verkfærum inn í fjósi og lofthæðin gefur ekki tilefni til þass að vinna með krana varð að grípa til annarra ráða við að koma bitunum á sinn stað.


Sigmar smíðaði því sérstakt flutningstæki úr gamalli brettatrillu, tveimur fólksbílahjólnáum, vatnsrörum, einum glussatjakk, lítilli vökvadælu og 4 metrum af stálvír.  

Þetta verkfæri dugði vel. Við sjáum nú fyrir endan á því að koma nýju bitunum fyrir í þessum áfanga sem við tókum fyrir í vetur. Þetta eru rúmlega  50 fermetrar sem við erum að skipta um núna. Stefnt er að því að taka  meira síðar á þessu ári.

 

23.01.2011 07:34

Þorrinn

Þorrinn byrjar með hlýindum og rigninu.  Mér finnst nú þannig veður í skammdeginu ekki neitt spennandi en góðu fréttirnar eru samt þær að jarðklakinn sem kominn er lætur undan og ekki þarf að eyða peningum almennings í snjómokstur á meðan hann ringnir. 

Það er nú orðið nokkuð langt síðan hér hefur komið alvöru jarðklaki. Í frostunum um daginn hér á auða jörð rifjaðist það upp fyrir mér hvernig vorverkin gengu fyrir sig (eða gengu ekki) þegar klakinn var ekki farinn úr jörðinni fyrr en komið var fram í júní eins og ég man dæmi um.

Maður er nú ekkert að rifja slíkar raunir upp á meðan það er 5 til 10 stiga hiti og rigning. Þá ergir maður sig mikið frekar á bleytunni og drullunni sem allstaðar veðst upp. Malarvegirnir í Flóahreppi, sem eru nú æði langir, eru nánast að verða ófærir í þessu tíðarfari. Einnig er vont að komast um til þess að gegna hrossum úti því allstaðar veðst jörð upp í bleytunni.

Þrátt fyrir það að nóg er af verkefnum til þess að fást við bæði hér heima og í sveitarstjórnarmálunum hef ég gefið mér nokkrum sinnum tíma til þess að fara á hestbak. Við járnuðuðum hér á milli jóla og nýárs og höfum síðan þá verið að skreppa á bak.

Eins og stundum vill verða með hestamenn þá er farið að velta fyrir sér hrossaviðskiptum. Frekar vill það nú verða til þess að hrossunum fjölgi. Um síðustu helgi fór ég með Jóni tengdasyni upp í Landsveit og sóttum við hest sem hann var þar að kaupa.

Við erum einnig að gera okkur vonir um að það komi hér folöld í vor en það hefur ekki fæðst hér folald síðan hún Þúfa fæddist sumarið 2003

16.01.2011 07:42

Uppskeruhátíð

Hrossaræktarfélögin í Flóahreppi héldu í gærkvöldi sameiginlega uppskeruhátíð. Mikil gróska er í hrossarækt í sveitarfélaginu og félagslegur uppgangur í hrossaræktarfélögunum. Það eru þrjú hrossaræktarfélög starfandi í Flóahreppi. Öll eru þau með öflugt félagsstarf hvert um sig en eru nú að auka samstarf sín á milli.

Á hátíðinni sem fram fór í Félagslundi voru m.a. afhent verðlaun fyrir hrossarækt í sveitarfélaginu. Hvert félag fyrir sig veitti verðlaun fyrir árangur sinna félagsmanna í hrossarækt. Síðan voru einnig afhent í gærkvöldi í fyrsta skipti verðlaunagripir sem Flóahreppur gefur fyrir hæðst dæmdu hryssu og hæðst dæmda stóðhest á síðasta ári í sveitarfélaginu. Gripir þessir eru farandgripir sem veittir verða árlega. Markmið sveitarfélagsins með því að gefa þessa gripi er að hvetja til áframhaldandi ræktunnarstarfs í sveitinni og ekki síður að hvetja til öflugs félagsstarfs um hrossrækt.

Eitt þessa þriggja félaga er Hrossaræktarfélag Villingaholtshrepps. Það hefur nú nýlega haldið aðalfund sinn en mikil fjölgun félagsmanna hefur nú orðið í félaginu. Þessi fjölgun kemur í kjölfar þess að ný stjórn sem tók við félaginu á síðastra ári hefur unnið ötullega að því að fá fólk til liðs við félagið. Í fyrra varð stefnubreyting hjá félaginu þegar félagsmenn sjálfir stöðvuðu áform þáverandi stjórnar í áframhaldandi málarekstur gegn sveitarfélaginu. 

Í kjölfar þess tók ný stjórn við og hefur félagið nú snúið sér að fullum krafti að því að efla félagsstarfsemi um hrossarækt í Villingahotshreppi hinum forna. Ég óska félaginu til hamingju með þennan árangur og vona að þrátt fyrir það tjón sem vissulega hefur orðið, þá setji menn nú fortíðina aftur fyrir sig og stefni ótrauðir fram á veginn. emoticon 

08.01.2011 07:33

Vegatollar

Innanríkisráðherra boðaði til sín sveitarstjórnarmenn úr Suðurkjördæmi ásamt samgöngunefnd Alþingis á þrettándadegi jóla. Fundarefnið var að ræða stöðu framkvæmda við stofnbrautir á Suðvesturlandi og veggjöld sem hafa verið í umræðunni að undanförnu.

Nokkuð hefur borið á því í þessarri umræðu að fólk virðist oft á tíðum alls ekki vera að ræða sama hlutinn. Ýmist er verið að ræða það að skipta um tekjustofn ríkisins sem fer til vegamála. Í annan stað er verið að ræða það að leggja á sérstakann skatt, eða eins og ráðherran orðaði það "afnotagjöld", á þá sem fara um stofnbrautir út frá höfuðborgarsvæðinu til viðbótar við þau gjöld sem nú þegar eru innheimt af eldsneyti og fer beint til vegamála.

Það eru u.þ.b. 15 til 16 milljarðar sem innheimtist á ári með eldsneytigjaldi og fer það til vegagerðar í landinu öllu.  Þetta gjald er eingöngu innheimt af bensíni og díselolíu sem selt er á bíla. Ýmsir hafa haft af því áhyggur að þeir sem keyra á öðru eldsneyti eins og metan, rafmagni eða einhverju öðru sleppi við að taka þátt í kostnaði við uppbyggingu vegakerfisins. Þar sem stefna er að auka notkunn á öðru eldsneyti  sem mengar minna og draga úr notkunn á bensíni og olíu virðist sem þessi tekjustofn sé að verða ónýtur. 

Því er það að nú um einhvert skeið hafa menn verið að velta fyrir sér að taka í staðinn upp gjaldheimtu af bifreiðaeigendum sem tekur mið af notkunn þeirra á þjóðvegunum. Hugmyndin er að þetta verði mælt með sérstökum búnaði í bílunum sem styðst við GPS gerfihnattakerfið. Þeir sem tala fyrir þessari breytingu benda einnig á að með þessu kerfi er hægt að vera með allslags afslætti og kjör sem ekki er hægt með eldsneytisgjaldinu. Þar borga menn bara í réttu hlutfalli við keypt magn af eldsneyti en með nýju kerfi væri t.d. hægt að veita þeim afslátt sem þurfa að keyra mikið vegna vinnu eða náms og eins þeim sem fara um sérstaka slæma vegi. Mér sýnist það reyndar geta þá átt við um marga vegi hér í Flóahreppi.emoticon

Þetta er ekki það sem nú er verið að ræða í sambandi við framkvæmdir við tvöföldum á vegum út frá Reykjavík. Þar eru menn að tala um að það verði innheimt sérstakt gjald eingöngu af þeim sem fara um þessa vegi og það í viðbót við það sem þeir borga nú þegar í eldsneytisgjöldum. Það hefur reyndar komið skýrt fram hjá ráðherra að ekki verði farið í þessar framkvæmdir nema að hægt verði að fjármagna þær sérstaklega.

Margir hafa sett fram mótmæli við þessu m.a. margar sveitarstjórnir og þ.á.m. sveitarstjórn Flóahrepps og einnig stjórn SASS. Það er útilokað að réttlæta það að þeir vegfarendur sem nota þessa vegi eigi einir að greiða tvöfallt gjald til vegagerðar en aðrir ekki.  Ef að það á að auka skattheimtu til vegagerðar er grundvallaratriði að sú viðbót komi sem jafnast á alla sem nota vegina.

Ég geri mér allveg grein fyrir því að ríkissjóður er févana og það hefur áhrif á getu til þess að fara í miklar vegaframkvæmdir.  Nú fyrst staðan er þannig getur verið nauðsynlegt að endurmeta stöðuna. Nú þegar hefur t.d. verið ákveðið í sambandi vð suðurlandsveginn að minka þá framkvæmd frá því sem stefn var að og notast við svo kallaðan 2+1 veg um Svínahraun og Hellisheiði. Það getur líka verið nauðsynlegt að áfangaskipa verkinu meira. Það á auðvita þá líka við um allar aðrar vegaframkvæmdir í landinu.

01.01.2011 07:34

2011

Á þessum rólega nýársmorgni vil ég byrja á því að óska ykkur gleðilegs árs. Ég þakka góð samskipti og allt samstarf á gamla árinu. Nýtt ár er aldrei annað en ný tækifæri eins og framtíðin ávalt er og því ber að fagna. emoticon 
Hér í Kolsholtshverfinu er áratugahefð fyrir því að vera með sameginlega áramótabrennu á Bjallanum. Frá þvi að ég kom hér fyrst í Flóann fyrir rúmlega fjörutíu árum hefur þetta verið árviss atburður og á því var engin breyting í gærkvöldi.

Það skíðlogar reyndar enn í brennunni en kveikt var í henni kl hálf sjö í gærkvöldi. Þar kom saman nokkur fjöldi fólks á öllum aldri af báðum bæjum. Sumir ekki lengur hér heimilsfastir en hafa alist upp við þetta og mæta nú með sína fjölskyldu og taka þátt í gleðinni.



26.12.2010 22:34

Ásta Björg og Hrafnkell Hilmar

Hér var bæði fjölmennt og góðmennt í dag. Hér komu saman nánustu ættingar yngstu barnabarnanna okkar. Alls voru hér saman komin tæplega fimmtíu manns.

Börnin voru skírð. Þau heita nú orðið Ásta Björg Jónsdóttir og Hrafnkell Hilmar Sigmarsson. Það var sr. Sveinn Valgeirsson sem skírði.





Myndir frá deginum eru í myndaalbúmi

26.12.2010 07:52

jól

Þeim sem finnst jólalegra að hafa snjó á jörð um jólin varð að ósk sinni. Í gær var hér alhvít jörð. Nú er suðaustan átt og rigning og allur snjór horfinn. Það kemur nú ekki í veg fyrir það enn eru jól.

Það báru tvær kýr í fjósinu hér á jóladagsmorgun og sú þriðja bar nú í nótt. Allt voru þetta stórir og stæðilegir kálfar. Ekki hefur komið nýr kálfur hér í þrjár vikur svo það var nú orðið alveg tímabært. Alls höfum við nú fengið 25 lifandi kálfa í haust. Af því eru 12 kvígur og er ég mjög sáttur við það. 

Á þorláksmessu fórum við Jón tengdasonur út í haga og sóttum hluta af reiðhestunum. Nú er hér átta hestar á húsi. Það er alltaf gaman að gegna í hesthúsinu og nú er farið að velta fyrir sér hvort ekki eigi að að fara að járna fljótlega. emoticon

Í dag stendur mikið til. Tvö yngstu barnabörnin okkar Kolbrúnar verða skírð hér í stofunni. Von er á fjölda gesta. Bíða menn spenntir að heyra hvað börin eiga að heita. Það er ekki hægt að hugsa sér áhugaverðara verkefni en að standa að svona fagnaði um jólin.

Gleðilega jólarest.  

24.12.2010 07:19

Jólakveðja

Ég óska öllum gleðilegra jóla. Ég vænti þess að þið öll finnið hinn sanna jólaanda um hátíðirnar og njótið þess að vera með þeim sem ykkur stendur næst.


Sonardóttir mín hún Aldís Tanja í Jaðarkoti á jólunum í fyrra

Talað er um að Jólin séu hátíð barnanna. Þau eru þá ekki síður hátíð tengdabarnanna og barnabarnanna. Ég ætla allavega að líta svo á og mun haga mér í samræmi við það.



22.12.2010 07:26

Vetrarsólstöður

Í dag tekur daginn aftur að lengja. Mér finnst það mun áhugaverðara ástand en það sem boðið hefur verið upp á undanfarið. Það er engan veginn upplífgandi veruleiki þegar sólinn sífellt drattast seinna á lappir og sekkur svo í Atlandshafið örfáum tímum seinna.



Nú er það ekki svo að ég hafi verið farinn neitt að örvænta. Allt frá því að ég man eftir mér hefur þetta verið árviss viðburður. Ég er löngu farinn að treysta því að áður en sólin hættir alveg að koma upp þá tekur daginn aftur að lengja á þessum árstíma. Hann lengist svo smátt og smátt. Örlítið í fyrstu en síðan jafnt og þétt allt fram að því að bjart er orðið allan sólarhringinn.

Hrútastofn landsins er í önnum þessa dagana. Það á einnig við um hrútana hér á bæ en nú eru þeir í óða önn að leggja drög að sauðburði næsta vors. Í ár var sú stefna tekinn hér að sleppa öllum sæðingum og treysta hrútunum allveg fyrir verkefninu.

Hér hefur talsvert verið treyst á sæðingar til kynbóta í áratugi. Fárstofnin er samt það lítill að það hefur komið betur út að sæða annað eða þriðja hvert ár. Reyna þá að sæða nokkuð stórann hluta stofnsins og hafa þá úr einhverju að velja til lífs.

Í fyrra voru sæðingar notaðar og í haust voru sett á bæði gimbrar og hrútar undan sæðingahrútum. Lambhrútarnir hafa undanfarna dag verið að spreyta sig og það gengið ágætlega. Nú er hinsvegar veturgamli hrúturinn að mestu tekinn við.



Sá veturgamli er morbotnóttur og heitir Seifur. Hann er undan Laxa frá Laxárdal í Þistilfirði. Laxi var keyptur hingað lamb haustið 2007 að noðan. Sennilega hefur enginn einstaki hrútur haft meiri áhrif hér í ræktuninni en hann. Hann sjálfur er nú fallinn en töluvert er orðið til undan honum.    

17.12.2010 20:40

Skólaskrifstofan

Sveitarfélagið Árborg hefur kynnt fyrir samstarfsaðilum sínum áform sín um að segja sig úr Skólaskrifstofu Suðurlands. Forsvarsmenn Árborgar fullyrða að með því náist umtalsverð hagræðing fyrir þá.

Sveitarstjórn Árborgar glímir við mjög erfiðan rekstur m.a. vegna mikilla skulda sem á sveitarfélaginu hvílir. Víða er nú skorið niður í rekstri sveitarfélagsins og skipulagsbreytingar eru boðaðar.

Sveitarstjórnin í Árborg hefur nú komist að þeirri niðurstöðu að þá þjónustu sem þeir fá frá skólaskrifstofunni geti þeir leyst með ódýrari hætti og hafa því virðað þá hugmynd að hætta þátttöku í rekstri hennar. Ekki liggur nákvæmlega fyrir hvernig þeir reikna þetta út. Skiptar skoðanir eru um það hvort allt sé tekið með í þann reikning.

Ef af áformum þessum verður þíðir það verulegar breytingar á rekstri skólaskrifstofunnar og í raun getur það haft áhrif á allt samstarf sveitarfélaga á Suðurlandi. Því er nauðsynlegt bæði fyrir Árborg og öll hin sveitarfélögin að skoða dæmið vel og gera sér fulla grein fyrir því hvaða áhrif þetta mun hafa

Ég er þeirra skoðunnar að skólaskrifstofan sé nokkuð vel rekin. Ég dreg í efa að það geti verið hagkvæmara fyrir sveitarfélögin að leysa verkefnin sem hún er að sinna með einhverjum öðrum hætti en að standa saman.

Það er með stofnanir eins og skólaskrifstofuna að það er kannski ekki alltaf keppikefli að nota hana frá ári til árs sem allra mest. Hinsvegar er nauðsynlegt fyrir alla sem standa í reksri skóla og/eða leikskóla að geta ávalt tekist á við þau verkefni sem upp koma. Verkefnin geta verið misjöfn milli ára og í öllum skólum koma upp æði krefjandi verkefni.

Það er með samstarf sveitarfélaga eins og annað samstarf að allir aðilar samstarfsins þurfa að sjá hag sinn í samstarfinu. Ef Árborg getur ekki komið auga á sinn hag í því að viðhalda þessu samstarfi  við flest önnur sveitarfélög á Suðurlandi er ljóst að upp úr samstarfinu hlítur að rakna.

10.12.2010 16:45

6. barnabarnið

Maður hefur varla við að telja barnabörnin núna þessa dagana. Í gærkvöldi fæddist þeim Söndru og Sigmari í Jaðarkoti strákur. Hann er 6. barnabarnið okkar Kolbrúnar.



Það vita það aðeins þeir sem reynt hafa að þegar maður er orðin afi og það sexfaldur afi eins og ég þá finnst manni maður fyrst hafa þroskast eitthvað. Framundan eru líka bæði áhugaverðir og skemmtilegir tímar. Það er ekkert sem mun jafnast á við það að fylgjast með þessum hóp vaxa og dafna.  Ég hlakka bara til 

04.12.2010 07:33

Fjárhagsáætlun 2011

Á fundi sveitarstjórnar Flóahrepps á miðvikudaginn s.l. var lögð fram til fyrri umræðu tillaga að fjárhagsáætlun fyrir árið 2011. Tillagan gerið ekki ráð breytingum á álagningu gjalda hjá íbúum sveitarfélagsins. Áætlaður hagnaður er  tæpar 13 milljónir

Tekjusamdrætti er mætt með aðhaldsemi í rekstri. Á næsta ári er ekki gert ráð fyrir neinum nýjum stórframkvæmdum hjá sveitarfélaginu og öllum viðhaldsverkefnum er haldið í lágmarki. Þær framkvæmdir sem hafa verið í gangi verður lokið á næsta ári. Þar á ég við skólabygginguna sem nánast er nú þegar búin og vatnsveituframkvæmdirnar.


Það er ekki sjálfgefið að hægt sé að reka sveitarfélagið á næsta ári með óbreyttum álögum og óskertri þjónustu eins og fjárhagsáætlum gerir ráð fyrir. Þar skiptir miklu máli rekstur þess hefur jafnan verið í góðu jafnvægi og sveitarfélagið er lítið skuldsett.

29.11.2010 07:38

Kosningar

Ég get nú ekki sagt að léleg kosningaþátttaka á laugardaginn hafi komið mér á óvart. Sjálfur hef ég ekki miklar væntingar til þessa stjórnlagaþings sem kosið var til. Það er ekki þar með sagt að ég sé á móti því að endurskoða stjórnarskrána og vafalaust er margt í henni sem betur má fara.

Mér finnst það samt ekki vera forgangsverkefni í því efnahagsástandi sem nú ríkir. Efnahagshrunið var ekki stjórnarskránni að kenna og þau mistök sem vissulaga voru gerð í stjórn þessa lands voru ekki heldur stjórnarskránni að kenna.

Ég hef líka efasemdir um að það að breyta stjórnarskránni hjálpi mikið til við að byggja upp "hið nýja Ísland" sem talað er um. Vonandi hef ég rangt fyrir mér í því efni.

Þessi tilraun sem gerð var með persónukjör finnst mér gjörsamlega hafa mistekist. Útilokað var fyrir kjósendur að kynna sér til hlítar skoðanir og stefni allra frambjóðenda. Málefnaumræða var sáralítil.  Frambjóðendur höfðu lítil tækifæri til þess að koma sínum sjónamiðum að.

Persónukjör eins og þetta verður varla lýðræðislegar en listakosningar. Niðurstaða úr svona kosningu getur orðið bísna einsleit og í raun getur einfaldur meirihluti kjósenda fyrir einhverri niðurstöðu ráðið öllum sætunum sem komast að.  Ég er helst á því að það sé fyrst og fremst hending en ekki einhver vilji þjóðarinnar sem ráði niðurstöðu úr svona kosningu.

Skýringin á þessari afstöðu minni er sjálfsagt bara sú að ég er bæði svartsýnn og geðstirður.emoticon   Það er allavega vonandi að öllu því fjármagni sem hefur verið varið í þessar kosningar og síðan í stjórnlagaþingið í vetur skili sér í áhugaverði tillögu að nýrri stjórnarskrá sem þjóðin geti sameinast um.

Þrátt fyrir allt þetta tók ég þessar kosningar hátíðlega eins að allar aðrar kosningar. Ég reyndi að fremsta megni að lesa allt sem ég komst yfir um frambjóðendurnar.  Ég verð að viðurkenna að þá sem ég þekkti eitthvað til fyrir var auðveldara að átta sig á.  Ég var engu nær um fjölmarga frambjóðendur og gat því alls ekki kosið þá. Ég gat að endingu pikkað út nokkur nöfn sem ég treysti mér til þess að kjósa.  

.........eða eins og maðurinn sagði einhvers staðar "Guð blessi Ísland"!!

 

26.11.2010 07:32

Heimareykt hangikjöt

Þessa dagana er ég að fást við að reykja jólahangikjötið.  Það er orðin hefð hjá mér að reykja kjöt í aðdraganda  aðventunnar. Þetta er auðvita bara vesen og yfirlega að vera að fást við svona verkefni.  En þegar öllu er á botninn hvolt getur það bæði verið skemmtilegra og áhugaverðugra  að þurfa að hafa eitthvað fyrir hlutunum.    



Þorsteinn Logi Í Egilsstaðakoti  kom hér í síðustu viku og rúði féð. Það er nú allt komið á gjöf og það styttist í fengitíma.  Ég fæ ekki betur séð en vel fari um kindurnar á hálminum í flatgryfjunni. 

Flettingar í dag: 349
Gestir í dag: 12
Flettingar í gær: 609
Gestir í gær: 42
Samtals flettingar: 144781
Samtals gestir: 25702
Tölur uppfærðar: 18.5.2024 06:20:01
clockhere

Í Flóanum

Nafn:

Aðalsteinn Sveinsson

Farsími:

8607714

Heimilisfang:

Kolsholti I

Staðsetning:

Flóahreppur

Heimasími:

4863304

Tenglar