Í Flóanum

08.12.2015 21:11

Óveður

Það hefur verið bölvuð ótíð undanfarið sem er engan vegin til upplyftingar í svartasta skammdeginu. Það er svo sem ekki nýtt að tíðarfarið sé misjafn. Það hefur alltaf verið svo síðan ég man eftir mér og verður sjálfsagt áfram um ókomna framtíð. Leiðindar tíð kennir manni bara að meta betur góða verðrið þegar það er í boði.

Ég átti að mæta í rannsókn á Landspítalanum á föstudagsmorguninn s.l. Þar sem veðurspá var ótrygg og hér í Flóanum hafði kyngt niður snjó svo miklum að fátítt er eins, um áraraðir, tók ég þann kostinn að fara til Reykjavíkur á fimmtudagskvöldið. 

Ég vildi ekki hætta á það að komast ekki í þessa rannsókn. Bæði vegna þess að ég er búinn að bíða eftir því að komast að í þessa rannsókn síðan í febr. s.l. Einnig var ég búinn að taka einhvern ógeðsdrykk dagana fyrir, sem var undirbúningur fyrir rannsóknina og óþarfi að láta það fara til spillis. emoticon

Rannsóknin gekk vel. Hún reyndar gekk út að það að eftir að búið var að dæla í mig einhverjum (eitur...)efnum var tekin mynd, fyst kl 10 og svo aftur kl hálf tvö. Verkefni dagsins var því aðalega hvernig maður drepur tíman í rúma 3 klst. í Reykjavík. Ég er ekki góður í þessu og fannst mér tíminn lengi að líða. emoticon

Það væri vel þegið ef einhver, sem les þetta, gæti komið með ábendingar til mín um hvað hægt er að gera í Reykjavík í 3 tíma, ef ég skyldi lenda í þessu aftur. emoticon  

Í gærkvöldi og nótt gekk óveður yfir allt land með tilheyrandi látum og tjónum víða um land. Sem betur fer virðist ekki mannskaði hafa orðið og er það þakka vert. Lögregla og björgunnasveitir höfðu í nógu að snúast sem og starfsmenn ýmissa stofnanna eins og rafveitna, vegagerð o fl. 

Hér í Flóanum var veðrið aldrei svo slæmt að tjón hlytist af. Reyndar virðist suðaustan áttin sjaldan ná þeim styrk hér eins og annarstaðar hér alllt um kring. Þau hústjón sem ég man eftir að hafa orðið hér í roki eru í suðvestan átt.

Þó ekki hafi verið hússkaðaveður í Flóanum var fjandi hvasst á tímabili. Í fyrstu var ekki nein úrkoma og fjótlega varð allveg frostlaust. Einhvern tíman í nótt fór svo að rigna af krafti líka og heyrði ég í gegnum svefninn rokið og rigninguna dynja á húsinu. Þá var dyrabjöllunni hringt.....

Það var ekki aðeins óhuggulegt vegna þess að um miðja nótt var að ræða og úti var hávaða rok og lemjandi rigning. Það var ekki síður óhuggulegt vegna þess að þessari dyrabjöllu hafði ekki verið hringt í áraraðir og reyndar enginn dyrabjölluhnappur á húsinu. emoticon  

Þegar húsið var nýtt, fyrir rúmlega 30 árum, settum við upp dyrabjöllu. Hann vildi nú gjarnan bila hnappurinn við framdyrnar og entist ekki vel. Í leti minni hætti ég að nenna að gera við hann eða skipta um og var hann því oftast óvirkur. Þegar húsið var klætt að utan fyrir rúmum 4 árum var hnappurinn tekinn miður. 

Allt annað sem dyrabjöllu tilheyrir er svo sem til staðar í húsinu og var meiningin einhvern tíman að reyna til þrautar að fá hnapp við dyrnar sem þolir sunnlennskt veðurfar. Í slagveðrinu í nótt lögðust víraendarnir, þar sem þeir kíktu út úr klæðningunni við útidyrnar, saman eða að álklæðningunni á húsinu þannig að  það leiddi á milli þeirra. Dyrabjallan tók að hringja látlaust. emoticon

Ég varð að staulast fram úr kl þrjú í nótt og taka til við að aftengja dyrabjölluna svo við gætum haldið áfram að sofa til morguns. emoticon






25.11.2015 22:20

Mamma

Það eru fáir sem standa manni nær en móðirin sem fætt hefur mann inn í þennan heim. Móðirin sem siðan fórnar öllu öðru við að koma manni til manns. Er vakin og sofin yfir velferð manns. Og er manns stoð og stytta alla sína þroskagöngu.



Mamma er áttræð í dag. Hún hefur marga fjöruna sopið á sinni æfi og lætur sér ennþá fátt fyrir brjósti brenna. Þessa dagana nýtur hún sólar á Kanaríeyjum og sendi ég henni mínar bestu kveðjur héðan úr Flóanum út á alheimsnetið. 

Myndin er tekin hér í stofunni fyrir rúmum tveimur árum þegar hún Steinunn Lilja Kristinsdóttir (ein af fjölmörgum afkomendunum) var skýrð. emoticon

31.10.2015 21:43

Ungmennafélagið

Þegar ég var að alast hér upp í Flóanum fyrir (þó...) nokkrum árum síðan kom það eins og af sjálfu sér að þegar maður var orðin 12 ára gamall gekk maður í Ungmennafélagið. Ungmennafélagið Vaka var stofnað hér í gamla Villingaholtshreppnum 1936 og hefur síðan þá starfað af miklum þrótti og gerir enn í dag.

Ég minnist þess ekki að það hafi eitthvað vafist fyrir manni hvort eða hvað mikið maður ætlaði að starfa í þessu félagi þegar maður var unglingur. Ungmennafélagið var einfaldlega sjálfsagður hluti af veruleikanum hér og það var sá vettvangur, sem við unglingar sveitarinnar, höfðum, til þess að fá athafnaþrá okkar útrás. 

Þegar ég var svo kominn í þá stöðu, nánast ennþá unglingur, að vera farinn að ala upp mín eigin börn hér í Flóanum, áttaði maður sig á því hvað þessi félagsskapur og þátttaka í honum var í raun mikilvægur þáttur í menntun og þroska manns. Mér fannst mikilvægt að börnin mín hefðu sama tækifæri og maður sjálfur að starfa í virku ungmennafélagi.

Það viðhorf varð svo til þess að ég starfaði í mörg ár á þessum vettfangi og hafði allan tíman mjög gaman af. Eftir að hafa verið almennur félagsmaður í Umf. Vöku og setið í hinum ýmsu nefndum félagsins mörg ár settist ég í stjórn félagsins, fyrst gjaldkeri og síðan formaður. Í framhaldi af því sat ég í stjórn Hérðasambansins (HSK) í nokkur ár og starfaði þar m.a. sem gjaldkeri. Einnig tók ég þátt í stofnun frjálsíþróttaráðs HSK og var þar reyndar fyrsti formaður. 

Þetta var oft á tíðum krefjandi starf en allan tíman skemmtilegt. Ég starfaði með og kynntist fjöldan allan af fólki og þetta gaf manni mikið. Ég er enn þeirra skoðunnar að öflugt ungmennafélag sé hverju samfélagi nauðsyn.

Ég tel að þegar Villingaholtshreppur, Hraungerðishreppur og Gaulverjabæjarhreppur ákváðu að sameina grunnskóla sína í einn skóla, Flóaskóla, árið 2004  og í framhaldi af því sameina sveitarfélögin í eitt sveitarfélag, Flóahrepp 2006 hafi samfélagið hér á margan hátt styrkst. Það gerðist einnig þegar hætt var að keyra elstu árganga grunnskólans á Selfoss og Flóaskóli var gerður að heilstæðum grunnskóla fyrir 1. til 10. bekk.

Eðlilega hafa þessar breytingar haft áhrif inn í ungmennafélögin. Hér eru starfandi þrjú öflug og virk ungmennafélög, eitt í hverjum gömlu hreppanna. Um nokkuð skeið hafa menn velt fyrir sér hvort skynsamlegt væri að sameina þessi félög. Börnin sem nú eru að alast upp hér í Flóanum átta sig varla á því afhverju það á að vera í þessu ungmennafélagi en ekki einhverju hinna. 

Ungmennafélögin öll þrjú hafa tekið mjög skynsamlega á þessari umræðu og leitt hana af mikilli yfirvegun. Á aðalfundum allra félaganna, fyrir tæpu ári síðan, var samþykkt að vinna að stofnun ungmennafélags sem hefði allan Flóahreppinn að félagssvæði. Það var skipuð sameiginleg nefnd allra félaganna til þess að undirbúa og vinna að þessu markmiði.

Á kynningarfundi sem ungmennafélögin boðuðu til um málefnið í síðustu viku, kom fram að fyrirhugað er að boða til stofnun nýs ungmennafélags hér í sveit á næstu vikum. Einnig er fyrirhugað að leggja síðan til á aðalfundum allra gömlu ungmennafélaganna í janúar  n.k að þau leggi allar sínar eigur til nýja félagsins og þau síðan hætti starfsemi. Öllum félagsmönnum gömlu félaganna verður boðið að gerast félagsmenn í hinu nýja ungmennafélagi.

Þetta er niðurstaða af mjög vandaðri umræðu í félögunum og meðal ungs fólks í sveitarfélaginu. Ýmis atriði hafa verið borin upp beint við nemendur Flóaskóla. Ég er ekki í neinum vafa um að niðurstaðan er hin eina rétta. Þegar unnið er málefnalega og hlustað er sérstaklega eftir sjónarmiðum þeirra sem helst eiga hagsmuna að gæta (unga fólkið í sveitinni) er ekki ástæða til að efast.

Ég vil því lýsa yfir fullum stuðningi við þessi áform. Ég hefði að vísu seint trúað því að ég myndi leggja blessun mína yfir að leggja ungmennafélagið Vöku niður, Félag sem ég hef miklar taugar til og hefur gefið mér mikið. Aðalatriði er að sjálfsögðu að hér í sveit sé áfram öflugur félagslegur vettvangur fyrir ungt fólk á öllum aldri. 

Ef þessi áform um eitt öflugt ungmennafélag í Flóahreppnum verður að veruleika nú í vetur skulum við öll sameinast um það og styðja það með ráðum og dáð. Arfleifð ungmennafélaganna þriggja (Umf. Baldur, Umf. Vaka og Umf. Samhygð) sem hér hafa starfað, sum í meira en 100 ár, er gert mest undir höfði og sýndur mestur sómi með því að leggja þau inn í sameinað félag. Ég lít svo á að saga þeirra verði jafnframt hluti af sögu hins nýja félags








19.10.2015 21:01

Rakel Ýr

Hún fékk það gullfallega nafn Rakel Ýr, hún litla sonardóttir mín Sigmarsdóttir. Það var hátíð í Jaðarkoti í gær þegar skýrnarathöfin fór fram. Viðstaddur var hópur fólks af hennar nánasta frændfólki og vina. Einnig fylgdust nokkrir með í beinni útsendingu á netinu norður á Akureyri.



Það var hann séra Sveinn Valgeirsson sem skýrði og skýrnarvottar voru þær frænkur hennar Rakelar Ýr, Kolbrún Katla í Lyngholti og Margrét Ósk Hildur. 


18.09.2015 09:16

Hópurinn minn stækkar

Í síðasta mánuði sagði ég frá því, hér á síðunni, hvað barnabörnin mín hefðu m.a.tekið sér fyrir hendu í sumar. Sumar ()  og Sumarstörf ()  Það er líf og för á bæjum þar mörg börn eru og aldrei mein logmolla. Við Kolbrún njótum þeirra forréttinda hafa allan hópinn okkar hér í kringum okkur. Það er ekki leiðinlegt.

Nú í vikunni bættist svo í hópinn. Það fæddist litil stúlka. Hún er fjórða barn Söndru og Sgmars í Jaðarkoti,



Hún var rétt sólarhrings gömul þegar hún var kominn heim í Flóann og búinn að heilsa upp á afa sinn. Við eigum örugglega eftir að bralla margt saman í komandi framtíð.  emoticon

30.08.2015 20:27

Reiðvegir

Allt frá því að bílar fóru að fara um landið fyrir rúmlega 100 árum hafa menn gert sér grein fyrir því að umferð bíla og hesta fer illa saman. Þessi frétt birtist í blaðinu Suðurlandi fyrir rúmlega 101 ári síðan eða þann 26. júní 1914:

"Bifreiðar þjóta nú um alla vegu hér eystra. Þykir þó alldýrt að ferðast með þeim og ekki öðrum hent en þeim er eiga aura gnægð. Ekki er laust við óhug í sumum ef mörg verða slík farartæki á ferðinni hér í sumar þar sem lestaumferð er jafnmikil á vegunum hér, enda ekki hættulaust fyrir bifreiðarnar sjálfar, því hæpið er að smábrýr þær sem á vegunum eru séu nægilega traustar. Svo tryggt sé fyrir slysum, mun því bifreiðastjórum ekki vanþörf á fullkomnustu og ströngustu aðgæslu og nákvæmni ef vel á að fara. Slæmt að hafa ekki sérstaka vegi handa bifreiðunum svo þær geti notið sín til samgöngubóta"

Nokkurm vikum seinna kom svo þessi frétt í Suðurlandi eða þann 1. ágúst 1914:

"Í fyrri viku höfðu 3 bílar (með útlenda ferðamenn) ráðist upp á Skeiðaveg í fullu heimildarleysi - vegurinn of mjór fyrir bíl og vagn að mætast. Þetta tiltæki varð líka að slysi. Einum bílnum (frá  Bookless í Hafnarfirði) var keyrt mjög óvarlega og fótbraut hann reiðhross Runólfs bónda í Skáldabúðum, mesta metfé. Fær bílstjóri trúlega makleg málagjöld."

Eins og þessar aldagömlu fréttir bera með sér hafa samskipti bíla og hesta alltaf haft í för með sér slysahættu. Það hefur því löngum verið mikilvægt að takmarka notkunn þeirra á sömu vegum. Það er nú löngu hætt að ræða það að gera sérstaka vegi fyrir bíla. Nú snýst umræðan frekar um að gera sérstaka reiðvegi og færa umferð ríðandi manna frá akvegum.

Hestamenn hér í Flóanum hafa verið vel meðvitaðir um nauðsyn þess. Reiðveganefnd hestamannfélagsins Sleipnis hefur unnið að því að opna nýja reiðleið austur Flóann með það m.a. að markmiði að minnka þörf hestamanna að fara með þjóðvegi 1 í austur frá Selfossi.

Þetta hefur verið risaverkefni fyrir eitt hestamannfélag en reiðveganefndinni, með Einar í Egilsstaðakoti í broddi fylkinga, hefur tekist að fá fjölmarga að verkefninu, m.a. landeigendur, sveitarfélögin, vegagerð, reiðvegasjóð og síðast en ekki síst fjölda félagsmanna. 

Í gær var svo hátíðarstund en þá héldu félagsmenn Sleipnis upp á það að nú er verkinu að fullu lokið eftir nokkurra ára  framkvæmdir. 

 


Farin var hópreið frá Selfossi og komið austur að Vola eftir þessari nýju leið. Við gömlu brúna á Vola var stutt athöfn en síðan haldið heim að Hlíðarbrún. Þar voru grillaðar pylsur í mannskapinn áður en menn riðu aftur til baka eða þá eitthvert annað í góða veðrinu í Flóanum í gær.

25.08.2015 21:35

Sumarstörf

Það hefur löngum verið þannig að börn og unglingar sækjast eftir að komast í einhverja launavinnu á sumrin á meðan frí er í skólum. Ég er sannfærður um að það sé þeim bæði holt og gott og ekki síðri menntun sem þau fá í vinnu við sitt hæfi en sú sem þau fá í skólum.

Hún Aldís Tanja sonardóttir mín í Jaðarkoti er nú orðin tíu ára gömul. Hún taldi sig nú geta unnið sér inn peninga í sumar. Það varð að samkomulagi milli mín og foreldra hennar að hún kæmi til mín virka daga í sumar og ynni, með mér, að hinum ýmsu verkefnum sem til falla hér á bænum í u.þ.b 2 klst. í senn. 

Þau er margvísleg verkefnin sem við höfum tekið okkur fyrir hendur í sumar og bæði haft mikið gaman að.





Eitt af mikilvægum verkefnum sem við höfum haft með höndum er að ganga frá plastendunum á rúllunum. Einnig höfum við svolítið verið í eftirliti og viðhaldi á girðingum, tínt rusl, þrifið inn í fjósi og ýmislegt fleira. Ég var ánægður með að hafa svona duglegan vinnukraft með mér í sumar.

Hann Arnór Leví bróðir Aldísar sótti fast að komast í vinnu líka. En þar sem hann er tveimur og hálfu ári yngri þótti það ekki sanngjarnt að hann  fengi strax vinnu. Honum því sagt að hann yrði að bíða þar til hann væri orðinn 10 ára eins og systir sín.

Hann hafði nú lag á að spila úr því. Í byrjun sumars fjárfesti hann í gömlu reiðhjóli á bílsskúrssölu hér í sveit og var óðar kominn með hjólið í verktöku. Hann náði sínum fyrsta verktakasamningi við ömmu sína. Hann tók að sér að fara á hjólinu á hverjum degi út að póstkassa og koma með póstinn inn í bæ.



Það voru fleiri sem sóttu fast að komast hér í vinnu. Þegar Kolbrún Katla, Hallfríður og Jón í Lyngholti fóru á heimsmeistaramót ísl. hestsins í Danmörku í byrjun ágúst dvöldu þau Hjalti Geir og Ásta Björg hér hjá okkur. 

Hjalti var óþreitandi að minna mig á að hann hafði lofað því að vera duglegur að hjálpa til þennan tíma. Hann vildi ólmur fá að gera eitthvað og tók m.a. að sér að moka höfrunum í nautin.



Þeir frændur Hjalti og Arnór voru segir að ná sér í hin ýmsu verkefni og lágu þá ekki á liði sínu.



Nú í dag var Flóaskóli settur. Sumarfríð í skólanum er því á enda og námsbækurnar taka nú við.



07.08.2015 21:29

Sumar

Þó ég vilji nú ekki kannast við að sumarið sé að verða búið þá verð ég samt að viðurkenna að nokkuð gengur á það. Leikskólinn hér í sveit er nú aftur tekinn til starfa eftir sumarfrí síðustu 6 vikur. Þeim leiddist það ekkert, yngstu barnabörnunum mínum, ( Ásta Björg í Lyngholti, Hrafnkell Hilmar í Jaðarkoti og Steinunn Lilja í Gamla bænum í Kolsholti) að mæta aftur í leikskólann.

Ekki svo að skilja að þau hafi verið í einhverrju reiðileysi síðustu vikur. Það hafa þau sannarlega ekki verið. Það hefur verið endarlaust nóg að gera og ýmislegt verið stundað úti í góðaveðrinu sem hér hefur verið í sumar.

Það hefur verið mikið hjólað.


Hrafnkell hugar reiðhjóli sínu. (ég held að hann sé að gera við)


Ásta Björg telur ekki eftir sér að hjóla á milli bæja hér í Kolsholtshverfinu.


Steinunn Lilja og Kolbrún Katla á góðri stund í sumar

Steinunn Lilja hefur notið þeirra forréttnda að hafa hana stóru frænku sína í Lyngholti, Kolbrúnu Kötlu, alveg útaf fyrir sig. Kolbrún hefur haft það sem sumarstarf að koma hér á morgnana og passa frænku sína á meðan foreldrar hennar eru í vinnu.

Kolbrún Katla lætur sér nú ekki allt fyrir brjósti brenna. Hún hefur átt það til að koma hér upp úr átta á morgnanna hjólandi og stundum ríðandi. Þá er hún áður búinn að ná sér í hest út í haga heima hjá sér og leggja á og ríða þessa 4 km sem hér eru á milli. Þegar hingað er komið stingur hún hestinum inn í hesthús og gefur honum.

Svo þegar hún hefur lokið hér störfum um kl 3 á daginn leggur hún á og ríður heim til sín aftur.

30.07.2015 20:55

Skógræktin

Það mun hafa verið einhvern tímann á árunum milli 1950 til 1960 sem ábúendur hér í Kolsholti I girtu af u.þ.b. hektara svæði og hófu þar gróðursetningu á trjám. Þegar við komum hér vorið 1969 var þetta orðin myndarlegur skógarreitur með rúmlega mannhæðaháum grenitrjám og snotru birkikjarri ásamt einstaka reynihríslum og nokkrum ýmsum öðrum trjágróðri.

Foreldrar mínir sýndu þessum reit alltaf áhuga í búskapar tíð sinni og það höfum við Kolbrún einnig gert. Nokkuð hefur verið plantað þarna í viðbót í gegnum tíðina, girðingin verið stækkuð og gerð lítil grasflöt.

Þarna er í dag orðin myndarlegur skógur með margra metra háum trjám og er sannarlega sælureitur hér á jörðinni. Við höfum mjög gaman af að koma þar saman á sumrin og einnig að taka þar á móti gestum.

Nú er orðin nokkuð árvisst að leikskólinn hér í sveit kemur á hverju vori og grillar í skóginum, fer í leiki á grasflötinni og skoðar hellinn sem hér er. Þetta eru alltaf skemmtilegar heimsóknir.




Þessar myndir eru tekinn vorið 2014 þegar leikskólinn kom hér

Hér eru einnig stundum haldin hin ýmsu fjölskyldi mót.og samkomur og ef rignir eins og gerði allt síðasta sumar,þá er bara tjaldað. emoticon


Barnabörn foreldra minna og þeirra makar í útilegu í skógræktinni sumarið 2014

Hér var í sumar haldið brúðkaup. Þegar Ragnheiður og Stefán Ágúst frændi minn ákváðu stað og stund til að ganga í hjónaband datt þeim helst í hug um jónsmessu í skógræktinni í Kolsholti.  Ég get ekki verið meira sammála um að það sé varla hægt að finna meiri viðeigandi stund og stað til slíkra athafna. Mér þótti reyndar vænt um að þau völdu að vera hér en Stefán hélt einnig upp á útskrift úr Háskólanum  með miðnæturfagnaði hér um jónsmessu 2012.

 
Frá brúðkaupi 2015. Hún Kolbrún Katla í Lygnholti söng m.a. við athöfnina

Nú í góða veðrinu sem hér hefur verið í sumar förum við stundum, allt mitt fólk hér í Flóanum, á kvöldinn og grillum saman


Það var verið að grilla í gærkvöldi.



24.06.2015 23:14

Parkinsonveiki

Það veit svo sem enginn fyrirfram hvað hendir mann á lífsleiðinni og enginn veit sína æfi fyrr en öll er. Ég er nú þeirra skoðunnar að lífshamingja sé fyrst og fremst undir manni sjálfum komin og hvernig manni tekst að spila úr þeim aðstæðum sem forsjónin úthlutar manni. Það skiptast gjarnan á skin og skúrir sem er hin eðlilegasti hlutur. Heilt yfir hef ég talið mig gjæfumann í þessu lífi og tel mig enn.

Í vetur varð nokkur kúgvendin í mínu lífi en þá var ég greindur með parkinsonveiki. Ég hafði nokkrum misserum áður rætt það við minn heimilislækni að það væri ýmislegt sem mér finndist plaga mig líkamlega og ég ætti erfiðara en áður með ýmis verk og athafnir. 

Ég hafði sjálfur ekki miklar áhyggur ef þessu og vissi sem var að ég er farinn að eldast. Var samt að vona læknirinn gæti bent mér á einhver vitamín eða bætiefni sem myndu gagnast mér þannig að ég gæti áfram látið sem ég  væri ungur og hraustur.

Læknirinn skoðaði mig hátt og lágt og sendi mig í nokkrar rannsóknir sem hæfir körlum á mínum aldri. Ekkert bitastætt kom út úr því annað en ég virtist við hestaheilsu. Þrátt fyrir það fannst mér ég enn versna. Í fyrstu fannst mér ég fyrst og fremst vera klaufsur og stirður við einföldustu verk. Síðan fór líka að bera á skjálfta og verkjum. 

Heimilislækninum mínum þótti einboðið að ég þyrfti að komast að hjá heila- og taugasérfræðingi. Mér fannst það ekki vitlaus hugmynd en hafði samt engar áhyggur af þessu. Ég var í raun sannfærður um að ég þyrfti bara að fara vel með mig og ég yrði jafn góður aftur.

Ekki er einfalt að komast að hjá sérfræðingi á þessu sviði hér á landi í dag. Læknirinn hafði áhyggur af því að það væri nánast ómögulegt. Nokkum mánuðum eftir að ég var að ræða þetta við hann eða í byrjun okt.s.l. er hringt í mig og mér boðinn tími hjá heila- og taugasérfræðingi í byrjun ferbr. 

Þar sem það var nú æði langt þangað til datt mér fyrst í hug að afþakka þennan tíma. Ég hafði enn tröllatrú á að ég hlyti nú að vera orðinn góður á öllum þessum tíma. En svo hugsaði ég með mér að fyrst læknirinn minn hefði lagt það á sig að útvega þennan sérfræðing fyrir mig þá væri nú dónaskapur að þiggja það ekki. Það væri líka bara ágætt að reyna að útiloka það að þetta væri eitthvað alvarlegt sem væri að hrjá mig.

Ég mætti svo í viðtal til sérfræðingsins  á tilsettum tíma. Eftir tæplega hálftíma viðtal þar sem ég lýsti heilsu minni og hún ( sérfr,) spurði eftir hinum ýmsu einkennum, virtist hún vera komin að niðurstöðu. Það væri líkegast að ég væri með parkinsonveiki.

Þó  ég væri á þessum tíma orðinn nánast óvinnufær vegna verkja var ég ekki alveg kaupa það svona einn, tveir og þrír. Ég var ekki tilbúinn að fara að éta parkinsonlyf fyrr en þá, búið væri að ganga úr skugga um það fyrir víst að ég væri með parkinsonveiki. Sérfræðingurinn sendi beiðni um rannsóknir sem ég átti að fara í og við ákváðum að sjá hvað kæmi út úr því.

Fljótlega eftir þetta viðtal rann svo upp fyrir mér ljós. Ég var ekki að fá parkinsonveiki núna eða í fyrra. Og heldur ekki í hittifyrra. Þegar ég fór að velta fyrir mér þeim einkennum sem sérfræðingurinn spurði eftir og tímasetja ýmsa hvilla og vandræði sem ég hef átt í undanfarin ár rann það upp fyrir mér að þetta er búið að þróast í a.m.k. 6 til 8 ár. 

Það var ekki annað í stöðunni en að viðurkenna um parkinsonveiki væri að ræða og takst á við það. 

Þær rannsónir sem ég hef síðan farið í hafa fyrst og fremst verið til að útiloka að um eitthvað annað sé að ræða líka. Enn sem komið er ekkert sem bendir til þess fyrir utan slit/áverka á hrygg sem vitað var um.

Maður þarf að læra að lifa með parkinsonveiki eins og öðrum ólæknandi súkdómum. Þetta er ekki eitthvað sem maður ræðst gegn og hefur annað hvort betur eða ekki. Ég neita því ekki að mér finnst það stundum flókið. En þetta þurfa margir að fást víð og margir við erfiðari aðstæður en ég í þessu tilfelli.

Ég hef alla mína starfsæfi verið bóndi og þó í dag telji ég bændur varla vera í erfiðisvinnu, miðað við hvað áður var, þá er nauðsynlegt að hafa skrokkinn með sér. Það hefur veitt mér lífsfyllingu að taka til hendinni á mínu búi og gleðjast yfir góðu dagsverki. Sérstaklega á vorin þegar verkefnin eru óteljandi og afkoma ársins er öll undir.

Nú þarf ég að líta á málin allt öðrum augum. Það gengur ekki að berja höfðinu við steininn og rembast við að reyna að gera hluti sem maður ræður ekki við. Og lifa svo við viðvarandi verki og óþægindi. Þegar maður á orðið í vandræðum með að halda lambi til að marka það, áttar maður sig á því að maður er í raun ekki til þess að eiga við nokkra skepnu.

Nú er það svo, hér á bæ, sem betur fer, að búskapurinn stendur ekki og fellur með mér. Hér er mikill mannskapur sem hefur fullann áhuga á að halda honum áfram. Hér er unnið áfram í því að nýta það svigrúm sem nú er og auka framleiðsluna. 

Við höfum ákveðið við þessar aðstæður að sameina allan rekstur á bænum í eitt einkahlutafélag. Verkstæðið sem Kristinn hefur rekið og vélaútgerðin hjá Sigmari, ásamt búskapum er nú rekið undir einni kennitölu. Þau sjá orðið að mestu um þetta Sigmar, Kristinn og Kolbrún.



 




30.05.2015 15:40

Fjör í Flóa

Fyrir tíu árum síðan efndu þrjú félagsheimili í þremur sveitarfélögunum hér í Flóanum til samstarfs um fjölskyldu- og menningarhátíð í lok maí. Hátíðin hlaut nafnið " Fjör í Flóa" og hefur verið árlegur viðburður síðan.

Ýmislegt hefur breyst hér í Flóanum þessi tíu ár m.a.sameining þessa sveitarfélaga. Ég lít svo á að upphaf þessara hátíðar hafi verið einn af mörgum aðdragendum þess að Flóahreppur varð til. 

Hátíðn "Fjör í Flóa"  hefur vaxið og dafnað með hverju ári. Það hefur ávalt verið markmið hátíðarinnar kynna gestum eitt og annað sem þetta svæði hefur upp á bjóða auk þess sem heimamenn gera sér dagamun og skemmta sér og þeim gestum sækja þá heim.

Ég er þeirra skoðunnar að þessi hátíð skipti máli fyrir gott mannlíf hér í Flóanum og virki vel bæði innávið og útávíð fyrir sveitarfélagið.

Nú um þessa helgi er hátíðn haldin í ár. Ég tók þátt í skemmtilegri gönguferð á Loftstaðahól og niður á Loftsstaðasand í gærkvöldi. Þessi kvöldganga var einn af liðum hátíðarinnar og var farin undir leiðsögn Sigmundar Stefánssonar frá Arabæ. 

Milli 70 og 80 manns tóku  þátt í göngunni í blíðskaparveðri og hlýddu á stórskemmtilegar frásagnir Sigmundar m.a. af Galdra-Ögmundi sem eitt sinn bjó á Loftstöðum, íþróttamótunum við Loftstaðahól og sjósókn frá Lofstaðasandi.

Í morgun mætti ég svo í sameiginlegan morgunverð í Þingborg sem var í boði Fjör í Flóa og fyrirtækja á Suðurlandi. Fleirihundruð manns komu í Þingborg í morgun og voru allir í hátíðarskapi. Ýmislegt er svo boðið upp á alla helgina, bæði í og við Þingborg og svo einnig um alla sveit.

Í kvöld er svo kvöldvaka í Félagslundi sem enginn ætti að vera svikin af.

 




26.04.2015 11:40

Vorboðar

Sumardagurinn fyrsti var á fimmtudaginn og ekki seinna vænta en að óska ykkur gleðilegs sumars. Vorboðarnir hafa hver á fætur öðrum birts hér undanfarnar vikur. emoticon

Farfuglarnir koma hér á hverju ári þegar sól fer að hækka á lofti. Þeir eru nú misjafnlega snemma á ferðinni eins og æfinlega og ýmsir hafa ekki enn látið sjá sig hér í Flóanum. Aðrir eru þegar önnum kafnir við hreiðurgerð og jafnvel búnir að verpa.



Árviss vorboði hér er þegar Ingjaldur  í Nesi kemur með áburðinn. Ingjaldur hefur nú í rétt tæp fimmtíu ár keyrt áburð til bænda í Flóanum. Hann mætti hér í síðustu viku og nú bíður áburðurinn hér tilbúinn að fara í flög og á tún.

Kuldakast í sumarbyrjun er kannski bara einn af vorboðunum. Alla vega er maður orðinn eldri en það að maður lætur það koma sér á óvart. Nú er frost og þó jarðklaki sé lítill eða enginn er yfirborðið frosið. Það hamlar því að hægt sé að hefja vorverkin að fullu. Eins og oft áður bíður maður óþreyjufullur eftir því að hlýni.



Hver hefur ekki lent í þessu?

19.04.2015 20:58

Lífsbarátta á 19. öld

Nafn langalangömmu minnar er ekki nefnt í frásögnum í þjóðsagnasafni JÁ um drauginn í Kverártungu ("Kverkártungubrestinn" eða "Tungubrestinn" eins og hann er nefndur fyrir austan).Draugagangur () Kemur hún þó þar talsvert við sögu.

Hún mun hafa heitið Helga Friðfinnsdóttir og var fædd  í Sleggjastaðasókn N-Múl 1839. Faðir hennar (Friðfinnur Eiríksson 1798-1873) var þingeyskrar ættar, fæddur í Laxárdal S-Þing en móðir hennar (Ingibjörg Ormsdóttir 1799-1865) var úr Sauðanessókn í N-Þing.

Hún elst upp hjá foreldrum sínum. Þau búa m.a. á Gunnarsstöðum í Skeggjastaðasókn N-Múl. 18 ára gömul giftist hún Páli Pálssynni sem þá er 39 ára gamall og á með honum barn (Hólmfríði Pálsdóttur 1857-1861) Tveimur árum seinna árið 1859 hefja þau búskap í Kverkártungu og eignast sitt annað barn (Guðríði Pálsdóttur 1860-1935) árið eftir. 

Páll var fæddur í Bægisársókn í Eyjafirði en foreldrar hans voru báðir Þingeyingar. Faðir hans (Páll Eiríksson 1782-1860) var úr Aðaldal S-Þing en móðir hans (Guðbjörg Þorkelsdóttir 1788-1862) var fædd í Draflastaðasókn S-Þing.

Páll elst upp hjá foreldrum sínum sem m.a. búa á Hraunhöfða í í Öxnadal 1822-1832. Árið 1829 hverfur Þorkell eldri bróðir Páls þá 17 ára gamall þar sem hann átti að sitja yfir kvíám Sigurðar Sigurðsonar sem þá bjó í Þverbrekku. Faðir hans Páll Eiríksson lét gera mikla leit en án árangurs. Síðar flutti Páll Eiríksson með sitt fólk austur á land.

Páll Pálsson er í vinnumensku austur á héraði á unglingsárum og fram yfir tvítugt. Árið 1842 á hann barn með Þorbjörgu Þorsteinsdóttur (Jóhanna Pálína Pálsdóttir 1842-1904) Árið 1845 er honum kennt barn sem hann synjar fyrir að eiga. Þá er hann í Papey.

Árið 1848 flytur hann í Vopnafjörð. Tekur hann nú m.a. að vinna fyrir sér sem bókbindari og er hann yfirleitt titlaður Páll Pálsson bókbindari í þeim heimildum sem ég hef um hann. Sama ár og hann kemur í Vopnafjörð á hann barn með Kristínu Pálsdóttur (Matthildur Pálsdóttir 1848-...?...)

Árið 1852 giftist hann svo Önnu Sæmundsdóttur en þá er hann sagður bókbindari í Viðvík í Skeggjastaðasókn. Hann missir konu sína sama ár frá barni (Stefán Pálsson (1852-....?...). 1857 giftist hann svo Helgu Friðfinnsdóttur langalangömmu minni eins fram hefur komið.

Árið 1861 er svo örlaga ár í lífi þeirra Páls og Helgu en þá eignast þau sitt þriðja barn (Pál Pálsson 1861-1937). Sama ár lést elsta barn þeirra. (Hólmfríður). Þetta er árið sem sagan segir að Páll hafi "bágra kringumstæða vegna látið konu sína á annan bæ og börnin." Trúlega hefur Helga verið á Gunnarsstöðum þar sem foreldar hennar voru.

Helga kom aftur að Kverkártungu til Páls en svo fer að lokum að hún fer þaðan aftur alfarin og er "Tungubresti" kennt þar um. Páll er í Kverkártungu til 1863 en hættir þá búskap. Draumur þeirra um sjálfstæðan búskap er þá úti og er Páll í vistun og húsmennsku í Skeggjastaðasókn og í Vopnafirði næsta áratuginn. Páli er lýst sem atgerfis- og gáfumanni. Hann lést árið 1873 55 ára gamall. Hann var þá í Vopnafirði og er jarðaður þar.

Þegar Páll deir eru þau Helga skilin og "voru um það að vera lögskilin". Þrátt fyrir það fæðir Helga yngsta barn þeirra 12 dögum eftir lát Páls. Hann var skírður Páll Eiríkur og var langafi minn.

Helga var í vinnumensku víða á þessum slóðum mest alla sína æfi. Hún er m.a. á Bakka í Skeggjastaðasókn 1870. Þegar Páll Eríkur fæðist 1873 er hún í Miðfjarðarnesi í Skeggastaðasókn Þremur árum seinna á hún barn (Helga Kristjánsdóttir 1876-1932) með Kristjáni Sigfússyni sem var bóndi í Miðfjarðarnesi.

Árið 1880 eru þau bæði, Helga og Kristján, í Kverkártungu. Kristján er þar í húsmennnsku en Helga er  með Pál Eirík með sér 7 ára gamlan en Helga yngri 4 ára er sem tökubarn að Ytri-Brekkum í Sauðanessókn. N-Þing.

Árið 1884 þegar Helga er 45 ára á hún seinna barn sitt (Stefán Ólafur Kristjánsson 1884-...?...) með Kristjáni Sigfússyni. Ekki veit ég hvar þau voru þá en 1890 koma þau bæði sem vinnufólk að Viðvík í Skeggastaðasókn. Nefnt er að Pálll Eiríkur hafi einnig komið að Viðvík árið 1891 þá 18 ára frá Ytri-Brekkum þar sem Helga yngri hálfsystir hans var tökubarn. Stefán Ólafur þá 6 ára er í Viðvík með foreldrum sínum.

Langafi minn Páll Eiríkur hefur búskap í Krossavík í Þistilfirði um aldarmótin. Árið 1901 er Helga móðir hans og Stefán Ólafur hálfbróðir hans (þá 16 ára) þar. Ekki veit ég örlög Kristjáns. Búskapur Páls Eiríks í Krossavík var ekki langur en hann fer þaðan 1905. 

Helga Friðfinnsdóttir lifir til sjötugs. Þegar hún lést árið 1909 er hún sögð hreppsómagi í Miðfjarðarnesi






16.04.2015 22:17

Draugagangur

Í þjóðsögunum má finna fjölda sagna um drauga og draugagang. Reimleikar ýmiskonar eða sagnir um slíka hluti, virðist löngum hafa riðið hér húsum og í öllum landshlutum.

Í þjóðsagnasafni Jóns Árnasonar er m.a. frásagnir um atburði sem áttu sér stað á árunum 1861-1862 í Kverkártungu á Langanesströnd í N-Múlasýslu. Það hafði verið tvíbýli í Kverkártungu en á þorra 1861 flosnaði annar bóndinn upp og er tekinn þaðan með öllu sínu. Á hinum bænum býr Páll Pálsson. Hann hafði nokkru áður látið konu sína og börn á annan bæ vegna bágra kringumstæða og var nú orðinn einn í Kverkártungu.

Á þorraþrælinn þegar Páll er í gegningum heyrir hann högg úti en þegar að var gætt fann hann enga skýringu á. Sama kvöld heyrir hann barið ofan í baðstofuna og upp frá því það sem eftir var vetrar heyrast barsmíðar og brestir af og til, nótt sem dag.

Af þessu fór svo að Páll varð svo hræddur að hann þorði varla eða ekki að sofa. Fékk hann þá sér mann af öðrum bæjum til að geta sofið eitthvað. Maður þessi var tvær eða þrjár nætur í senn hjá Páli og nokkuð hugarhress þó ýmislegt gengi á

Þegar líða fór fram á fór kona Páls smásaman að vera hjá honum. Voru nú brestirnir oftast nálægt henni og var Páll smeykur um að hún myndi verða of hrædd. Þorði hann aldrei að láta hana vera eina. 

Það fór svo þannig haustið eftir að kona Páls fer frá honum að Gunnarsstöðum í sömu sveit þar sem foreldar hennar voru. Páll hafðist áfrarm við í Kverkártungu. Nú þótti sem vofa þessi væri framar eða oftar hjá henni en honum. Í kringum hana heyrðust oft brestir en högg sjaldnar. 

Eitthvað greindi mönnum á hver orsök þess alls væri en Páll var þess fullviss að þetta væri sending honum ætluð.

Í því sambandi er þess getið að sama dag og Páll verður fyrst var við þetta fær hann bréf austan úr sveitum er sagði lát föður hans. Nóttina áður dreymdi pilt, sem var greindur og að öllu leyti vandaður, að til sín kæmi strákur sem sagðist ætla að finna Pál.

Faðir Páls sem hét Páll Eiríksson bjó eina tíð í Eyjafirði. Hann átti auk Páls annan son til, nokkum árum eldri. Þeir bræður voru til skiptist hjá Sigurði nokkrum við fjárgæslu um sumartíman, sína vikuna hvor. Einn sunnudag var bróðir Páls við fjárgæslu en átti von á að Páll kæmi og skipti við sig um kvöldið.

En Páll mætti ekki og mátti hann  áfram sitja yfir ánum um nóttina. Hann var pirraður yfir hlutskipti sínu og hleypti ánum í nes eitt sem verja átti fyrir skepnum sem engi. Þegar Sigurður fréttir þetta fer hann við annan mann og segir sagan að hann hafi í bræði drepið piltinn. Allavega komu þeir báðir aftur en bróðir Páls hefur ekki sést síðan. Var hans þó leitað rækilega.

Sennilega hefur Páli þótt hann bera ábyrð á örlögum bróður síns. E.t.v. hefur honum einnig fundist faðir sinn kenna sér um hvernig fór. 

Samkvæmt íslendingabók var Páll Pálsson sem bjó í Kverkártungu 1859-1863 langalangafi  minn






28.03.2015 22:16

Strandaglópur í NewYork

Það fór nú þannig, að með tiltölulegum litlum fyrirvara, ákváðum við Kolbrún að taka okkur gott vetrarfrí. Skrokkurinn á mér og tíðarfarið lögðust á eitt að sannfæra okkur um að tímbært væri að eyða nokkrum vikum í sól og hita áður en vorið kemur í Flóann. Stefnan var sett á Fort Myers í Flórída.

Það er talsvert ferðalag að komst þangað en með góðri aðstoð reyndari ferðalangra tókst að finna og bóka flug alla leið á einum degi. Fljúga átti með Icelandair frá Keflavík til New York og þaðan áfram að kvöldi sama dags með bandríska flugfélaginum JetBlue beint til Fort Myers. Þetta var gott plan. emoticon

Flugið til NY gekk vel. Að vísu var vélin rétt lent þegar allt var gefið í botn aftur og flugvélin rifinn upp aftur. Okkur var sagt að eitthvað óvænt hafi verið á flugbrautinni og því orðið að hætta við lendingu á síðustu stundu. Vélin hóf aftur aðflug og lenti skömmu síðar. Þetta tafði okkur ekki meira en tæpan hálftíma. Þar sem við þurftum að ná flugi aftur varð maður aðeins órólegur en þetta átti nú alveg að geta gengið upp.

Þar sem við vorum að koma inn í Bandaríkinn var ekki hægt að bóka farangur alla leið. Nú fórum við í gegnum vegabréfaskoðun. Að því loknu urðum við að finna töskurnar okkar og fara í gegnum tollskoðun áður en við gátum innritað okkur og farangurinn í flug til Flórída.

Við biðum talsvert eftir töskunum og ekki laust við að maður óttaðist að lenda aftarlega í biðröð í tollskoðun. Þar sem við stóðum við færibandið og reyndum að koma auga á töskurnar okkar heyrðum við að nöfin okkar ásamt fleiri nöfnum eru kölluð upp í flugstöðinni. 

Þá er þar komin kona að fullvissa sig um að þeir sem komu með vélinni og þurftu að ná tengiflugi hefðu skilað sér. Hún leiðbeindi okkur framhjá biðröð við tollskoðunina og hvar við gætum innritað farangurinn aftur í flug og hvert við ættum svo að fara til að komast  í vél frá JetBlue til Flórída.

JFK flugvöllurinn í New York er risa stór. Allavega í augum Flóamannsins sem ekki hefur mikla ferðareynslu á heimsvísu. Flugstöðin sem við komum í er bara ein af mörgum við flugvöllinn. Nú þurfti að taka lest til næstu flugstöðvar til að komast um borð hjá JetBlue. Það gekk nú bara ágætlega hjá okkur. Það hjálpaði mjög hvað Kolbrún er fær í að tjá sig á ensku og gat spurt óhikað til vegar. 

Það gekk hingsvegar ekkert fyrir mig að tala við innfædda á góðri íslensku. Þeir eru mjög slakir í henni. emoticon

Þegar við vorum kominn á réttan stað (terminal 5) var farið í hefðbundna biðröð við vopnaleit og þegar því var lokið varð að komast að því við hvað hlið flugvélin færi. Þangað vorum við komin í tæka tíð miðað við þann flugtíma sem gefinn var upp.  En.....þá kemur í ljós að búið er að fella þetta flug niður. emoticon

Það var vetrarstormur með snjókomu og bil víða í Bandaríkunum sem setti allt innanlandsflug hjá JetBlue úr skorðun þennan dag. Í NY var skíta kuldi og snjór og slabb yfir öllu. 

Við tókum okkur strax stöðu við næsta afgreiðsluborð. Þar myndaðist á örstundu löng biðröð því greinilega höfðu fleiri ætlað með þessu flugi en við. Við vorum sem betur fer frekar framalega í röðinni. 

Næst á undan okkur var íslensk kona sem hafði komið með sömu vél og við frá Íslandi og ætlaði einnig til Fort Myers. Hún var veraldarvön og hafði ferðast um heim allan og reyndist okkur hin mesta hjálparhella að komast af í flugstöðvarbrjálæði stórborgarinnar. Þegar röðin kom að henni var henni boðið sæti í flugvél sem færi kl 1 daginn eftir til Fort Myers. 

Þegar röðin kom svo að okkur strax á eftir var ekkert laust sæti lengur til fyrr en eftir 3 daga. Það fannst okkur ill ásættanlegt og fengum svokallaðan hoppmiða í næsta flug sem áætlað var að færi í loftið kl 6 morgunin eftir. Það var búið að full bóka  í það flug en ef einhver forfallaðist áttum við að hafa forgang í þau sæti.

Okkur var samt gert að fara út af brottfararsvæði flugstöðvarinnar og sækja farangurinn okkar. Við gætum svo innritað okkur aftur þremur tímum fyrir brottför. Klukkan var nú farin að ganga 11 um kvöld að staðartíma. Vegna tímamunar voru nú komnir einir 22 klukkutímar frá því fórum á fætur og ekki laust við að við færum að verða þreytt.

Vinkona okkar sem fékk flugsætið daginn eftir fór nú í að finna sér hótelherbergi. Við hingvegar ætluðum ekki að missa af þeim möguleika að komast áfram í fyrramálið og hreiðruðum um okkur á stólum með farangurinn okkar fyrir framan innritunarborðin í flugstöðunni. 

Það kom svo reyndar í ljós að hvergi var hægt að fá hótelherbergi í NY þessa nótt svo vinkona okkar kom aftur og svaf á gólfi flugstöðvarinnar það sem eftir var nætur. emoticon

Á öðrum tímanum um nóttina verðum við vör við að það er farið að myndast biðraðir við innritunnarborðin. Okkur fannst því ráðlegast að taka okkur þar stöðu með farangurinn. Í þessari biðröð stóðum við svo í hátt í þrjá klukkutíma. Það vantaði ekki starfsfólk á svæðið. Allan tíman var verið að reyna að afgreiða fólk. 

Það virtist samt vera að illa gengi að uppfylla þarfir fólks. Biðröðin var sennilega full af strandaglópum eins og okkur. Ferðaáætlanir höfðu raskast hjá mörgum vegna veðursins. JetBlue var ekki að höndla það að greiða götur fólks vegna þessa.

Þegar röðin kom loks að okkur gekk vel að innrita farangurinn þar sem við vorum með þennan "hoppmiða" á flug kl 6. Nú var farið aftur í gegnum vopnaleitina og því næst að finna um hvaða hlið maður færi um borð. En.......þá kom í ljós að  það var einnig búið að fella þetta flug niður og reyndar einnig næsta flug til Fort Myers sem átti að fara í loftið kl 9:00.

Enn á ný tekur Kolbrún sér stöðu við afgreiðsluborð. Nú reyndar höðum við tekið eftir að á upplýsingatöflum í flugstöðinni er búið að bæta við flugum til Fort Myers bæði kl 15:00 og 17:00. þennan dag. Við gerðum okkur því vonir um að nú hlytum við að fá fast sæti með annað hvorri þessara véla.

En svo fór nú reyndar ekki svo. Öll þessi flugsæti voru seld og höfðu selst upp á augabragði um leið og þau voru sett á netið. Ég gruna JetBlue um að hafa haft meiri áhuga á að selja þessi flugsæti til annarra viðskipavina heldur en að greiða götu þeirra sem þegar höðu borgar flug til Flórída. emoticon

Það eina sem við gátum fengið var "hoppmiði" með næsta flugi sam átti að vera kl 1:00. Það' var reyndar flugið sem vinkona okkar frá því kvöldinu áður hafði fengið far með. Við hittum hana nú aftur þar sem hún kom furðu hress eftir nætursvefn á gólfi flugstöðvarinnar. Hún var með miða upp á fast sæti í vélinni svo hún komst óhikað um borð. 

Við hinsvegar biðum milli vonar og  ótta um að einhvar myndi nú forfallst eða sofa yfir sig og missa af vélini, svo við kæmust með. Þegar vélinn er svo að verða full verðum við vör við það að það er þarna hópur fólks í sömu stöðu og við. 

Þó það stæði stórum stöfum á okkar miða að við ættum að hafa forgang á að komast með ef pláss væri stóð einnig það sama á miðum þessa fólks. Þegar allir sem höfðu miða með sætisnúmerum voru komnir um borð var farið að pikka úr þessum hópi í vélina. Það voru einir átta eða tíu úr þessum hóp sem voru kallaðir um borð en við ásamt nokkrum fleirum voru skilinn eftir.  

Enn á ný er okkur boðið "hoppmiði" á næsta flug kl 15:00. Við förum nú að velta fyrir okkur hvort hægt sé að komst á leiðarenda eftir öðrum leiðum. Við fórum að kanna hvaða flugvellir væru næstir Fort Myers og íhuga hvort hægt væri að fá flug þangað og keyra svo til Fort Myers. 

Ákveðum samt að reyna einu sinnni enn og gefum okkur fram strax og starfsmaður mætir við landganginn til að undirbúa að hleypa inn í vélina sem átti að fara í loftið kl 15:00. Hún aftekur það með öllu að það verði pláss fyrir okkur í þessu flugi. Það sé allveg tilgangslaust að bíða eftir því. emoticon

Nú förum við enn á ný að velta fyrir okkur hvað til bragst ætti nú að taka. Kolbrún hittir þá starfsstúlku þarna í flugstöðunni sem áður hafði reynt að finna flug fyrir okkur. "Eruð þið enn hérna" varð henni að orði þegar hún sá okkur væflast þarna um. Hún fer með Kolbrúnu og skömmu síðar kemur Kolbrún aftur sigri hrósandi til baka. 

Þessari ágætu konu tókst að finna flugsæti fyrir okkur til Fort Myers um kvöldið. Það var reyndar frá Boston en ekki JFK í New York. En við gátum fengið flug til Boston nú kl 17:00 og ættum því að ná vélinni þaðan til Fort Myers. Okkur létti nú mjög og gengum kát inn í vélina á settum tíma sem átti að flytja okkur til Boston. Ég get ekki sagt að ég saknaði þess nú að yfirgefa "terminal5" á JFK flugvellinum í NY.

Eitthvað gekk treglega að komast í loftið. Flugstjórinn upplýsti okkur um að smávægleg vélarbilun væri um að ræða og það væri nú verið að ljúka við viðgerð. Svo leið hálftími og ekki fór vélinn í loftið. Aftur var okkur tilkynnt um að það yrði einhverjar mínutur enn í töf og okkur þökkuð þolumæðin. 

Við fórum nú að efst um að við næðum vélinni til Fort Myers. Ég lagði nú til að við færum samt með vélinni til Boston, Ég gat varla hugsað mér að vera aðra nótt á JFK í NY. En þessi ferð endaði svo á því að okkur var tilkynnt að ekki tækist að gera við bilunina og flugið því fellt niður og við beðin að ganga aftur frá borði.

Og enn og aftur var Kolbrún kominn í röð við afgreiðsluborð að reyna að finna út hvað hægt væri að gera í stðunni. emoticon

Nú höfðu losnað tvö sæti til Fort Myers með vél sem fara átti kl 19:00 næsta dag. Við tókum þau og fórum svo út úr flugstöðinni og fórum í að finna okkur hótelherbergi í New York. Það gekk fljótt og vel. Þar sváfum við svo næstu 12 tímana enda nú nánst búnn að vaka samfleitt í 40 klst. emoticon

Mættum aftur í terminal5 á JFK flugvellinum í New York rétt fyrir hádegi daginn eftir og fórum eina ferðina enn í gegnum vopnaleitina. Við vissum að það átti að fljúga til Fort Myers bæði um kl 15:00 og kl.17:00. og ætluðum ekki að gefa það eftir ef sæti losnuðu. Í fyrra fluginu var eitt laust sæti. Þar sem við höðum nú gengið í gegnum þetta allt saman hingað til og áttum örugg sæti í flugvél um kvöldið slepptum við því.

Það var svo með flugvélinni sem fór í loftið um kl 17:00 sem við fengum loks sæti og vorum kominn til Fort Myers rúmum tveimur tímum síðar. Þar beið farangurinn okkar eftir okkur en hann hafði komið deginum áður. Við komum til Flórída tæpum 2 sólahringum síðar en upphafleg ferðaáætlun okkar gerði ráð fyrir.  emoticon

Við létum nú þessa lífsreynslu ekki spilla dvöl okkar í Flórida. Við framlengdum meira segja dvölinni þar um 3 daga til þess að vega upp þann tíma sem tapaðist í NY. Dvöldum þar í góðu yfirlæti í sumarveðri og sólskyni í tæpar 3 vikur. 

Ferðn heim gekk svo ljómandi vel þrátt fyrir viðkomu á JFK og að hafa flogið aftur með JetBlue. Ég get nú samt ekki sagt að mér langi til þess að millilenda oftar á JFK í NY. Ég get ekki heldur sagt að mig langi til þess að eiga í viðskipum við JetBlue meira. 

Hvað verður svo í framtíðinni kemur bara í ljós. Ég vona samt að við Kolbrún eigum eftir að ferðast meira saman. Það er alltaf skemmtilegt og uppbyggjandi að ferðast um og sjá eitthvað nýtt með góðum ferðafélaga. emoticon



Flettingar í dag: 374
Gestir í dag: 22
Flettingar í gær: 609
Gestir í gær: 42
Samtals flettingar: 144806
Samtals gestir: 25712
Tölur uppfærðar: 18.5.2024 09:46:14
clockhere

Í Flóanum

Nafn:

Aðalsteinn Sveinsson

Farsími:

8607714

Heimilisfang:

Kolsholti I

Staðsetning:

Flóahreppur

Heimasími:

4863304

Tenglar