Í Flóanum

31.10.2013 22:31

Framkvæmdir

Í haust höfum við, með öðrum verkum,staðið í viðhaldsframkvæmdum í fjósinu. M.a.erum við búnir að saga upp hluta af gólfinu og skipt um steinbitana.



VIð byrjuðum á slíkri endurnýjun fyrir 3 árum og höfum tekið þetta í áföngum. Viðhaldið ()
Áður en kýr og geldneyti voru tekinn alveg inn í haust skiptum við um bitana við legabásana austan megin í fjósinu. 

Nú er meiningin að taka geldneytastíurnar sem eftir eru í næsta áfanga. emoticon

23.10.2013 14:54

Tamningar

Það fylgir því, þegar maður er að fá folöld, sem að sjáfsögðu eru hin efnilegustu frá fyrsta degi, að það verður að láta reyna á það þegar þau eru komin á tamningaaldur. 

Það eru liðin æði mörg ár frá því að hér á bæ hafa verið tryppi á tamninga aldri. En eftir að maður ánetjaðist hestamennskunni aftur eftir langt árabil hefur það nánast gerst eins og af sjálfu sér að hér hafa komið folöld á hverju ári. emoticon......Folald ()

Hér í högum eru þrjú þriggja vetra tryppi. Tvö eru í eigu fjölskyldunnar í Lyngholti og eitt sem ég á en það er hann Kraftur. Brúnn hestur sem fylgdi sem folald rauði meri sem ég keypti haustið 2010. Merin heitir Valka er minn aðal reiðhestur í dag.

Þessi tryppi vori tekinn nú um dagin og tekin í frumtamningu. Við Jón í Lyngholti nutum aðstoðar og aðstöðu hjá Reyni á Hurðarbaki við þetta verkefni.. Ég var nú aðallega í hlutverki gamla mannsins sem horfði á þegar ég gaf  mér tíma til að vera með þeim. 



Tryppin voru tekinn á hverju kvöldi í nokkur skipti í hringgerðinu á Hurðarbaki. Það var gaman að sjá hvað þau eru fljót að læra þegar unnið er markvist og við réttar aðstæður  með þau. 

Og sá brúni er ennþá gríðalega efnilegur eftir þennan skóla. emoticon
 

15.10.2013 07:48

Október

Verkefni októbermánaðar eru, auk hefðbundinna haustverka í sveitinni, að sitja fundi ýmiskonar og vinna að fjárhagsáætlunum. Má sega að á meðan maður er í starfi oddvita sveitarstjórnar sé þetta einn mesti annatími ársins.

Þegar maður er odddviti sveitarstjónar í sveitarfélagi, eins og Flóahreppur er, fylgir því ýmislegt. M.a. að sitja í stjórnun og nefndum ýmissa samstarfsverkefna og byggðasamlaga sem sveitarfélagið er aðili að. Það þarf að vinna fjárhagsáætlun fyrir öll þessi verkefni sem fjárhagsáætlun sveitarfélagsins tekur svo mið af.

Þetta er mjög mikilvæg vinna og leggur grunn að ábyrgri meðferð opinberra fjármuna.

Mánuðurinn byrjaði með árlegri fjármálaráðstefnu íslenskra sveitarfélaga sem fram fór í Reykjavík 3. og 4.okt. Þessa dagana er nú verið að undirbúa haustfund Héraðsnefndar sem fram fer 17. og 18. okt og Ársþing SASS sem verður 24. og 25. okt.  

Á Héraðsnefndarfundinum eru m.a. fjárhagsáætlanir  Almannavarna-, Brunavarna-, Hérasskjalasafns-, Byggðasafns Árnessýslu  og Listasafns Árnesinga afgreiddar. Á SASS þinginu er afgreiddar áætlanir fyrir samtök Sunnlenskra sveitarfélaga, Sorpstöðina, Heilbrigðiseftirlitsins og Skólaskrifstofuna. Reyndar stendur til að leggja Skólasrkrifstofuna niður um næstu áramót.

Auk þessa er Flóahreppur í samstarfi við önnur sveitarfélög um ýmis önnur verkefni s.s. eins og Þjónustusvæði um málefni fatlaðra, Velferðaþjónustu Árnesþings og Skipulagsembætti uppsveita Árnessýslu. 

Hjá ollum þessum aðilum er verið að vinna fjárhagsáætlun og skipuleggja starfsemi næsta árs þessa dagana. Stefnt er svo að því að leggja fram til fyrri umræðu fjárhagsáætlun Flópahrepps á næsta reglulega fundi sveitarstjórnar sem verður 6. nóv. n.k. 



 

30.09.2013 23:37

Mygla

Með velferð og heilsu barna að leiðarljósi var sú ákvörðun tekin að loka húsnæði leikskólans Krakkaborgar hér í sveit og finna honum annan stað á meðan endurbótum á húsnæðinu stendur. Þessi ákvörðun var tekin þegar niðurstöður úr rannsóknum lágu fyrir.  Þær staðfestu að mygla var víða í húsnæðinu.

Það er meiriháttar mál flytja heilan leikskóla í snatri. Starfsfólk leikskólans hefur unnið þrekvirki í þessum aðstæðum. Til bráðabirgða, til þess að forða því að þurfa að loka skólanum allveg hefur verið tekið á móti leikskólabörnunum í félagsheimilinu Félagslundi undanfarna daga. 

Það er ljóst að það húsnæði hentar ekki og nú er unnið að því að finna "varanlega bráðbirgðalausn" þar sem hægt verður að reka leikskólann á meðan á endurbótum og stækkun á húsnæði skólans í Þingborg stendur yfir. Sú vinna mun vænanlega taka a.m.k. ár.


20.09.2013 21:34

Svanasöngur.....

Í búskap getur ýmislegt komið upp á og verkefnin eru mörg sem þarf að glíma við. Ekki er alltaf á vísan að róa með ágóðan og allavega betra að ráðstafa honum ekki fyrirfram.

Við þekkjum þetta vel í kornræktinni. Þetta sumar verður varla minnst sem gott kornræktarsumar hér í Flóanum. Akrarnir fóru þó ágætlega af stað í vor þannig að maður leyfði sér að vera nokkuð bjrtsýnn í upphafi sumars. Nú voru það allavega ekki þurrkar sem stóðu bygginu fyrir þrifum eins og nokkur undanfarin ár.

En það er ekki nóg að rigni. Við þurfum líka sól og hita til þess allt fari nú á besta veg.en á  það hefur stórlega skort þetta sumarið. Spretta hefur því verið hæg og byggið þroskast seint. Samt sem áður getur orðið um einhverja uppskera að ræða nú ef færi gefst til þerska fyrir vætu næstu daga.

En þá tekur við önnur ógæfan. Sá alfriðaði fugl, Álftin, mætir hér á hverju ári í stórum flokkum um miðjan september. Ef ekki er búið að þreskja byggið  þá er hún fljót að hesthúsa og troða niður nokkra hektara.





Þessa dagana stendur yfir  hér á bæ stanslaus barátta við að reka álftina úr ökrunum. Notaðar eru allar þær aðferðir sem kunna að geta orðið að gagni. Þrátt fyrir það er tjón orðið talsvert. emoticon

15.09.2013 21:47

Með barnadætrum mínum á útreiðum

Það hefur ekki alltaf viðrað vel til útreiða á þessu rigningasumri. Við látum það nú ekki alltaf stoppa okkur. Stundum er það bara spurning um góðan regngalla og kannski aðeins styttri útreiðatúra en annars hefði orðið.



Við Aldís Tanja í Jaðarkoti vorum búin að ákveða snemma í sumar að fara saman í ungmennfélagsreiðtúrinn. Þegar kom svo að þeim degi 1. sept. s.l. rigndi hér í Flóanum sem aldrei fyrr. 

Við létum það ekki stoppa okkur frekar en aðrir Flóamenn. Þátttakendur voru 20 velbúnir knapar á öllum aldri með 38 hross. Það er nú reyndar skemmtilegra að ríða út í góðu veðri og við Aldís eigum ábyggiulega eftir að gera það líka saman seinna.

Núna á föstudaginn var riðum við Kolbrún Katla í Lyngholti saman héðan úr Flóanum upp í réttir. (Reykjaréttir á Skeiðum). Reyndar fórum við lengra því við riðum upp á Sandlækjarholt þar sem við mættum vesturleitarsafninu og fylgdum því svo niður í réttir. . 

Þar hitti Kolbrún m.a. pabba sinn (hann Jón í Lyngholti) sem var að koma af fjalli. Jón fór  í norðurleit. Hann lagði af stað á sunnudagsmorguninn fyrir rúmri viku síðan og var því búinn að vera 6 daga á fjalli.

.


10.09.2013 21:06

Brúðkaup

Þau Sigmar  og Sandra í Jaðarkoti gengu í heilagt hjónaband s.l. laugardag. Þessi dagsetning var fyrir löngu ákveðin hjá þeim m.a. vegna þess að þau höfðu húmor fyrir því að um var að ræða 7. dag september 2013 ( 7. 9. 13 ).


Moskinn var dubbaður upp í tilefni dagsins. Fékk m.a. ný númer við hæfi.

Að lokinni athöfn í Villingaholtkirkju, sem var þéttsetin á meðan, var boðið til veislu í veislusalnum í Vatnsholti hér í Flóanum. Á annað hundrað manns mætti og fagnaði þessum tímamótum með þeim brúðhjónum. 

Þau buðu upp á glæsilega matarveislu þar sem allur pakkinn var tekinn með fordrykk, forrétti. aðalrétti og eftirrétti. Á meðan á veislunnni stóð stigu nokkrir gestana á stokk og héldu ræður, Systur Sigmar þær Hallfríður og Erla sungu frumsamdan brag til brúðhjónanna. Allt þetta fór fram við góðar undirtektir annarra gesta og brúðhjónanna.





Að lokum spilaði svo hljómsveit fyrir dansi fram eftir nóttu og skemmtu menn sér vel fram undir morgun. 

Gestir voru víða af landinu og nýttu margir sér það að gista í Vatnsholti. Ég var ekki var við annað en fólki hafi líkað vel þessi heimsókn í Flóann og allir hafi haft gaman af. emoticon

31.08.2013 07:21

Og það rignir og rignir....

Það er ekki ofsögu sagt að veðrið er áhrifavaldur í daglegu lífi flestra. Það er þó misjaft eftir starfsstéttum hversu mikið veðrið hefur áhrif á afkomu einstaklinga.  Bændur þekkja þetta samhengi vel enda hefur veðurfarið bein áhrif á þeirra rekstur og vinnubrögð frá degi til dags.

Víða um norðurland hafa menn keppst við að smala afréttarlönd í liðinni viku vegna vondrar veðurspár. Skemmst er að minnast norðanáhlaups í byrjun september í fyrra sem olli gífurlegum fjárskaða. Nú taka menn enga áhættu.

Það er nú örugglega meira en að segja það að fara í göngur svona með engum fyrirvara mörgum dögum eða jafnvel vikum áður en ráðgert var. En það þýðir nú lítið að fást um það. Menn eru fyrir löngu búnir að læra það að hyggilegast  er að haga sér eftir veðri og veðurútliti. Veðrið mun ekki haga sér eftir því hvað hentar eða hentar ekki. 

Hér í Flóanum höfum við nú sloppið við fjárskaðaveður að undanförnnu. Hér rignir bara og rignir. Ýmist er rigniing og rok eða rigning og ekki rok. .Víða er háarheyskapur eftir. Jörð er orðin gegnsósa og allstaðar þar sem komast þarf um veðst allt út í drullu. emoticon

Hér áður fyrr í rigningasumrum var talað um að helst væri von til þess að það breytti um Höfuðdag. Höfuðdagur var nú fimmtudaginn og síðan hefur  bara ringt.... emoticon

25.08.2013 13:36

Steinunn Lilja

Hér var mikil hátíð haldinn í gær þegar Steinunn Lilja Kristinsdóttir var skýrð. Séra Sveinn Valgeirsson kom hingað og skýrði ungu dömuna. Viðstaddur var nokkur fjöldi ættingja og vina. Við vorum skýrnarvottar ég og föður amma barnsins Sigríður Guðmundsdóttir



Að hætti hússins var slegið upp veislu í tilefni dagsins eins og þeim mæðgum er einum lagið. 


Hér eru þær saman á mynd dætradætur mína, elsta og yngsta barnabarnið, Kolbrún Katla og Steinunn Lilja í veislunni í gær og það fer vel á með þeim.


Hér eru svo Steinunn Lilja með foreldrum sínum Erlu og Kristni. Myndin á veggnum í bakgrunninum er af Erlu eins og hún var fyrir örfáum árum.  emoticon


13.08.2013 21:59

Íbúaþróun

Í Flóahreppi eru nú 640 íbúar. Það er svipaður fjöldi og hér var búsettur árið 1975. Sá munur er samt á að nú fer íbúum fjölgandi ár frá ári en alla síðustu öld fór þeim fækkandi.

Um aldarmótin 1900 voru íbúar á þessu svæði sem nú heitir Flóahreppur um 1200 talsins. Þeim fór svo fækkandi alla öldina, eins og allsstaðar í dreyfbýli, á sama tíma og heildaríbúafjöldi á landinu öllu rúmlega þrefaldaðist. Fæstir voru íbúar hér í sveit svo aldarmótaárið 2000 en þá voru hér búsettir 469 manns.

Síðan þá hefur hér verið fjölgun. Mest var hún á árunum 2001 - 2002 og 2007-2009 og svo aftur nú á síðasta ári. Þessi fjölgun hefur hér orðið án þess að hér hafi myndast eiginlegt þéttbýli. 

Það er mun skemmtilegra verkefni fyrir sveitarstjórnarmenn að glima við þegar íbúum fer fjölgandi heldur en að horfa á stöðuga fækkun. En það er krefjandi verkefni að bregst við fjölgun íbúa. Byggja þarf upp þjónustu sveitarfélagsins á öllum sviðum. 

Þó skólamálin séu þar lang fyrirferðamest þá hefur íbúaþróunin áhrif á alla málaflokka. 



05.08.2013 21:27

Smaladagur

Í dag var smaladagur hér í Kolsholti 1. Ákveðið var að nota daginn í að reka saman féð og bólusetja öll lömb og gefa ormalyf. Þetta láta menn nú ekki fram hjá sér fara og var allt mitt fólk mætt á svæðið. Verkið gekk fljótt og vel fyrir sig enda mannskapur mikill og góður.



Þessi unga dama Kristinsdóttir var að mæta í sínu fyrstu smalamensku til afa og ömmu.



Þessi tvö frændsystkini og jafnaldra, Hrafnkell Hilmar í Jaðarkoti og Ásta Björg í Lyngholti eru nú orðin öllu vanari og voru ekki í vafa hvernig á að bera sig að í smalamensku.



Þeim fannst rétt að halda heimalingunum selskap ásmt Arnóri Leví og Aldísi Tönju í Jaðarkoti og Hjata Geir í Lyngholti á meðan beðið var eftir því að þeir sem fóru ríðandi um hagana kæmu með féð heim að bæ.



Þá er nú betra að standa klár í sinni fyrirstöðu svo féð renni óhikað í réttina. Það er Kolbrún Katla í Lyngholti sem hér fer á eftir fénu ríðandi á honum Undra.



Þegar allt féð er komið inn í réttina og búið að loka réttarhliðinu tryggilega er ágætt að skreppa í smá útreiðartúr sér til skemmtunnar.  emoticon


30.07.2013 07:42

Leikskóli fyrir kálfa

Á hverju hausti heyrir maður ýmsar ævintýrasögur um smölun á nautgripum. Það er nefnilega þannig að nautgripir geta verið allra erfiðustu húsdýr í smölun. Þó það gangi, alla jafna, vel á felstum bæjum að koma mjólkurkúnum í mjaltir kvölds og morgna þá er ekki sömu sögu að segja stundum þegar á að smala geldneytum saman.

Hjarðhegðun nautgripa er engu minni en hjá mannfólkinu. Einn styggur kvígukálfur getur gert heila naugripahjörð að óstöðvandi fylkingu sem rennur stjórnlaust á og í gegnum nánast hvað sem er. Þá dugar lítið öll þau farartæki eða hundar sem tiltæk eru til þess að reyna að stýra slíkri hjörð.

Menn hafa þó reynt ýmsar aðfarir og beitt bæði traktorum, jeppum  og/eða  fjórhjólum í slíkri baráttu. Hugsunin hefur þá verið sú að ef maður geti verið nógu fljótur að komast fyrir gripi sem ekki rekst í rétta átt þá sé björninn unnin. Ekki er víst að allar slíkar aðfarir hafi einfaldað málið eða haft róandi áhrif á gripina. emoticon

Eitt sinn fyrir mörgum árum þegar verið var að ræða þetta á nautgriparæktarfundi hér í sveit sagði einn sveitungi minn að nauðsynlegt væri að vera með leikskóla fyrir kálfana til þess að fyrirbyggja svona vandamál.





Ég er fyrir löngu hættur að sleppa gripum í haga án þess að venja þá vel við að reka út og inn í fjósið áður. Þær kvígur sem settar voru á í vetur eru nú í tamningu. Það er óvenju stór hópur að þessu sinni en eins og  löngum hefur verið er misjaft hvað fæðist af kvígukálfum frá ári til árs. 






23.07.2013 11:35

Rigningasumar

Þetta sumar verður að teljast rigningasumar. Allavega það sem af er komið. Ég er nú eldri en það að ég kippi mér mikið upp við það enda búinn að lifa mörg rigningasumur. 

Nú í dag er varla hægt að væla mikið yfir því þó það komi einstöku sinnum rigningasumur. Hér áður fyrr var um umtalsvert tjón að ræða í svona sumrum. Þó afkoman í búrekstrinnum byggi enn á heygæðum er hægt með nútímatækni að ná þokkalegum heyjum í svona sumrum.

Það breytir því þó ekki að allt gengur bæði hægar og erfilegra en í þurrkatíð. Hér hafa tekið sig upp gamlar uppsprettur og dý í túnum sem hafa verið skraufaþurr undanfarin áraug. Það er betra að festa ekki heyvinnutækin í túnunum. emoticon   

Þetta  rigningasumar, eins mörg önnur hafa verið, er líka frekar kalt. Kosturinn við það er að grasið sprettur seinna úr sér þó heyskapur gangi hægar en æskilegt er. Ókosturinn er að að há sprettur ekki og óvíst hvað hægt verður að treysta á hana til heyskapar. Undanfarið hefur háarheyskapur verið stór hluti af heyforðanum hér í Flóanum.

Kornið sprettur líka seint og illa. Þó akranir hafi grænkað snemma í vor og kornið farið vel af stað er staðan núna að það er varla skriðið og komið langt fram í júlí. emoticon

Nú gæti maður kannski látið sér detta í hug að fyrst að rignir alltaf og ekki hægt að vera í heyskap alla daga þá hafi maður meiri tíma til þess t.d. að riða út og gera annað skemmtilegt. Það er nú samt ekki allveg þannig, Í rigningatíð taka öll verk meiri tíma og minni tími fer þá í annað.

Ég fór samt í góðan útreiðartúr í gær. Fjölskyldan í Lyngholti ásamt fjölskyldunum í Skyggnisholti og Hurðarbaki lögðu upp í hestaferð upp í Hrunamannahrepp í gær. Ég fylgdi þeim af stað héðan úr Flóanum í gær og riðum við upp að Hrepphólum.


Áð við bæinn Hnaus í Flóahrepppi


Helgi á Hurðarbaki kominn á bak og tilbúinn að ríða af stað


Ásta Björg gerir sig líklega til þess að taka hlaðsprettinn með aðstoð foreldra sinna 

Veður var mjög gott og sennilega besti dagur sumarsins fram að þessu. Þegar komið var yfir Stóru-Laxá bættust fleiri knapar í hóppinn. Ásta Björg í Lyngholti og Helgi á Hurðarbaki deildu hest og hnakk með feðrum sínum og riðu með síðasta spölinn heim að Hrepphólum.


12.07.2013 07:19

Fleiri barnabörn

Þessa fallegu mynd tók Kolbrún í gærmorgun stuttu eftir að litla stúlkan á myndinni fæddist. Hún er sjöunda barnabarn okkar og er fyrsta barn Erlu og Kristns.

 
Kristnn sendi mér SMS, fyrr um morguninn þegar ég var að byrja að mjólka, um að þau væru kominn upp á fæðingadeild. Kolbrún, sem var á leiðinni til Reykjavíkur stuttu seinna, ákvað að líta við hjá þeim áður en hún færi suður. Þá var sú lítla bara kominn í heiminn.

Það fylgir því eintóm hamingja að eignast fleri barnabörn. Ég hef trú á að að við eigum eftir að brasa eitthvað saman eins og ég hef haft tækifæri til að gera með öllum mínum barnabörnum. emoticon



10.07.2013 07:24

Starfsíþróttir

Á Landsmótum UMFÍ er keppt í starfsíþróttum. og finnst mér það ein af allra skemmtilegri íþróttagreinum. Á Landsmótinu á Selfossi um síðustu helgi var keppt í 8 greinum starfsíþrótta þ.e. dráttarvélaakstri, gróðursetningu, hestadómum, jurtagreiningu, lagt á borð, pönnukökubakstri, stafsetningu og starfshlaupi

Í fjölmennu liði HSK í starfsíþróttum voru m.a. Kolbrún í Kolsholti, Sigmar í Jaðarkoti og Jón í Lyngholti. Kolbrún keppti í jurtagreiningu og varð í 7 sæti. Þeir félagar og mágar Sigmar og Jón kepptu hinsvegar í dráttarvélaakstri og komust báðir á verðlaunapall. Jón sigraði keppnina og Sigmar varð í þriðja sæti. emoticon

Það var misjaft hvað héraðsamböndin virtust leggja mikla vinnu og áherslu að senda lið í starfsíþróttakeppnina á Landsmótið. Ég vil hvetja ungmennafélögin í landinu til þess að sinna þessari aldargömlu hefð. Ég held að það geti aldrei verið annað en skemmtilegt. emoticon
Flettingar í dag: 18
Gestir í dag: 10
Flettingar í gær: 609
Gestir í gær: 42
Samtals flettingar: 144450
Samtals gestir: 25700
Tölur uppfærðar: 18.5.2024 03:38:18
clockhere

Í Flóanum

Nafn:

Aðalsteinn Sveinsson

Farsími:

8607714

Heimilisfang:

Kolsholti I

Staðsetning:

Flóahreppur

Heimasími:

4863304

Tenglar