Í Flóanum

31.12.2016 00:27

Áramótaheit

Við hverskonar tímamót er oft talið viðeigandi að gera upp á einhvern hátt fortíðina og taka nýja stefnu inn í framtíðina. Sérstaklega eru áramót talin henta til þess. Margir telja sig verða að strenja áramótaheit um eitthvað. Oft um bættan lífsstíl eða eitthvað þ.h. Það virðist reyndar ganga misjafnlega að halda öll þau fyrirheit.

Ég hef aldrei haft þörf fyrir að strengja áramótaheit. Ekki vegna þess að ég hafi ekki gjarnan þurft að bæta lífsstílinn á einn eða annan hátt. Ég hef bara aldrei haft þá trú á sjáfum mér að það takist eitthvað betur um áramót frekar en aðra daga.

Áramótaheit eru að vísu aldagömul hef' og tíðkuðust löngu áður en menn fóru að hafa áhyggur af lífsstíl sínum. Áður fyrr nagaði samviskan menn út af öðrum hlutum en reykingum og ofáti. Einhverstaðar las ég að fyrr á öldum var algengasta áramótaheitið að skila nú verkfærunum sem fengin voru að láni hjá nágrananum

Nú virðist mér fólk gjarnan ekki hafa hátt um sínar heitstrengingar. Það jafnvel heldur þeim alveg fyrir sig og þá veit heldur engin hvernig til telst. Hér áður fyrr stigu menn á stokk að strengu heit. Til er sagan af Jóhannesi Jósefssyni sem kendur var við Hótel Borg. Hann steig  á stokk á ungmennfélagsfundi hjá Ungmennafélagi Akureyrar þar sem hann var félagi og strengi þess heit að vinna konungsglímuna á Þingvöllum (árið 1907) eða verða minni maður ella.

Jóhannes hjólaði svo í einum spreng frá Reykjavík til Þingvalla sumarið eftir til að keppa í glímunni en tapaði.  Ég veit ekki hvort einhverjum í dag finnist hann minni maður fyrir vikið. En ég er nokkuð viss um að Jóhannesi sjálfum og ábyggilega fleirum fannst það þá.

Menn gátu farið á flug í heitstrenginum á ungmennfélagsfundum í byrjun tuttugustu aldar. Sumir slógu þó á léttari strengi og kannski með svolitlu háði. Einn slíkur steig á stokk og strengi þess heit "að verða hundrað ára eða liggja dauður ella"

Gleðilegt ár. !

emoticon




28.11.2016 21:15

Formæður mínar

Nú gerir sumt fólk það sér til dundus á facebook að fletta upp í íslendingabók og rekja ættir sínar í beinan kvennlegg rúmar tvær aldir aftur í tímann. Ég hef stundum leikið mér að því að fletta um í íslendingabók og reynt að skoða hvernig lífsbaráttan hjá forfeðrum og formæðrum mínum hefur verið.

Vilborg Ólafsdóttir formóðir mín var fædd í Hrunamannahrepp 1769. Árið 1801 er hún húsfreyja í Syðra-Seli þar í sveit gift Jóni Sigmundssyni bónda. Þau eignast 9 börn og a.m.k 7 þeirra komust á legg. Elst var Guðríður Jónsdóttir langalangalangamma mín en hún var fædd 1794.

Guðríður giftist 1818 manni úr Flóanum Jóhanni Einarssyni. Þau búa lengst af í Efra-Langholti í Hrunasókn og eignast 10 börn.

Til gamans ná geta þess að meðal barna þeirra var Einar Jóhannsson (f.1822) en dóttir hans var María Einarsdóttir fædd 1872 sem kemur í Forsæti 1921 ásamt manni sínum Kristjáni Jónssyni. Þau voru foreldrar þeirra systkina Einars í Vatnsholti, Sigurjóns í Forsæti, Oddnýju í Ferjunesi og Gests í Forsæti og eiga fjölda afkomenda hér í sveit.

Yngst barna Guðríðar og Jóhanns í Efra-Langholti var Sigríður Jóhannsdóttir fædd 1836 langalangamma mín. Hún giftist manni úr Tungunum Bjarna Þóroddsyni fæddur 1833 og búa þau á Helgastöðum. Þau eignast 7 börn. Næst yngst er langamma mín Valgerður Bjarnadóttir fædd 1877

Árið 1882 eða 3 bregða þau búi og flytja til Reykjavíkur. Yngsta barn þeirra er þá 4 eða 5 ára og það elsta 23 eða 24 ára. Sonur þeirra Guðjón Bjarnason fæddur 1863 flytur með þeim suður. Hann lærir trésmíði og vinnur við það. Árið 1981 giftist hann Guðbjörgu Brynjólfdóttur frá Kaldbak í Hrunamannahrepp.

Þau taka sig upp árið 1894 og flytja vestur á Vestfirði. Þar gerast þau einir af frumbýlingum á Geirseyri við Patreksfjörð. Þau byggja sér þar hús og eru þar til 1903. Þá færa þau sig yfir fjörðin og hefja búskap á Geitagili í Örlygshöfn þar sem þau búa í 22 ár,

Bjarni faðir Guðjóns er eitthvað hjá honum fyrir vestan á efri árum en hann deyr 1914. Valgerður systir Guðjóns og langamma mín hefur sjálfsagt einnig eitthvað verið fyrir vestan hjá honum. Allavega giftist hún rétt fyrir eða um aldarmótaárið 1900 sjómanni á Patreksfirði, Ingimundi Bjarnasyni langafa mínum fæddur 1877 í Kollsvík.

Þau búa á Patreksfirði. Árið 1908 er mikið örlaga ár hjá þeim. Þá fæðist þeim 7. barnið en það deyr kornabarn . Það gera líka 4 önnur börn þeirra eitt af öðru. Barnaveikin er skæð árið 1908 vestur á Patreksfirði. Það er aðeins tvær elstu systurnar sem lifa árið af börnum þeirra. Sú yngri var Bjarnveig Sigríður Ingimundardóttir amma mín fædd 1902

Árið 1909 fæðist þeim 8. barnið. Í apríl 1910 drukknar svo Ingimundur langafi minn í sjóslysi. Sjö mánuðum síðar fæðist þeim seinasta barnið en það lést einnig fárra mánaða. Er óhætt að segja það að mikið hefur verið lagt á hana langömmu mína þessi ár vestur á Patreksfirði. Hún fer nú til Reykjavíkur og nokkru seinna giftist hún aftur og eignast 4 börn með seinni manni sínum. En yngsta dóttir Valgerðar og Ingimundar lést á unglingsaldri.

Þegar Ingimundur langafi minn deyr taka Pétur A Ólafsson útgerðar- og verslunnarmaður á Patreksfirði og María kona hans Bjarnveigu ömmu mína, þá 8 ára, í fóstur og var hún hjá þeim til fullorðinsára. Pétur kom til Patreksfjarðar vorið 1898 sem faktor á Geirseyri fyrir aðalverslun og útgerðarstöð nýstofnaðs félags "Islands Handels og Fiskeri Co" (IHF).  Hann kaupir svo bækistöðina 1906 og rekur hana til árins 1931.

Sjálfur flytur hann til Reykjavíkur árið 1916 og Bjarnveig amma mín þá einnig. Um tvítugt fer Bjarnveig til Danmerkur og dvaldi þar einhvern tíma. Hún giftist svo afa mínum Aðalsteini Eiríkssyni fæddur 1901 í Þistilfirði  Vestur í Djúp () 



31.10.2016 23:44

Á bak og burt




Á bak

Mér
virðist sem vekringi mínum
verði brátt riðið á slig:
Það er eins og einhver sitji
aftan við mig.

Ríddu drengur, ríddu,
reyndu ei aftur að gá.
Ef þú heldur á taumunum taki
þá tollirðu á.

En brátt munt þú detta af baki:
Búðu þig undir það:
- Eg er löngu farinn að leita
að lendingarstað.


...og burt

Á gæðingi hélt eg heiman
og hafði í töskunni von.
Svo mætti eg á miðjum vegi
meistara Parkinson.

Hann reið á brokki á bleikum
og bauðst mér að fylgja um sinn.
Brátt tyllti hann sínum í taglið
svo tölti ei klárinn minn.

Leið er mér löngu orðin
lamandi samfylgd hans.
Nú förum við báðir fetið:
- Eg er félagi þessa manns.



                                                                        höf: Erlingur Sigurðarson frá Grænavatni
                                                                              Úr ljóðabókinni Haustgríma  (2015)




30.09.2016 08:48

Pólitík.... skrítin tík

Ég er þeirrra skoðunnar að það sé gæfa að búa í lýðræðisríki og það séu verðmæti sem standa verði vörð um. Í því sambandi er sjáfstæði þjóðarinnar og fullveldi mikilvægt. Við sem búum á Íslandi í dag, fengum það í arf frá forfeðrum og formæðum okkar. Okkar skylda er að skila því þannig til afkomenda okkar og/eða þeirra sem hér munu búa í framtíðinni.

Mér finnst stundum ekki mæjanlega mikil virðing borin fyrir lýðræðinu og það sé reynt að toga það og teyja í ýmsar áttir. Í aðdraganda kosninga finnst mér það oft berlega koma í ljós. Þá sérstaklega vegna þess að málefnaleg umræða finnst mér vera í algeru lágmarki. Þess í stað ber meira á allskonar lýðskrumi, samsæriskenningum, slúðursögum, framapoti og sérhagsmunagæslu.

Það færi betur að fjölmiðlarnir, sem gjarnan kalla sig fjórða valdið í hinu þrískipta valdi lýðræðisins, myndu axla sína ábyrð betur. Vissulega er boðið upp á heilmikið af vönduðu og góðu efni um stjórnmál. En á sama tíma er einnig kynt undir allslags dylgjum og samsæriskenningum án þess að um nokkra rannsókn um málefnið sé að ræða.

Mér finnst stundum gengið svo langt að heilu fölmiðlarnir sé gefnir út með tómum slúðursögum. Hver miðilinn af öðrum vitna svo hver í annan. Fjölmiðlafólk tekur viðtal hvert við annað og getur í eyður og fellir dóma um fólk og málefni. Sum mál eru tekin fyrir aftur og aftur. Það eru sagðar nánast sömu fréttirnar af því dögum saman. Á önnur mál er svo ekki minnst á einu hljóði.

Einsleit umræða er um sum málefni jafnvel dögum saman. Stundum er sjónarhornið mjög þröngt og andsvör eða heildaryfirsýn fá aldrei eða lítið að komast að. Að mínu mati háir þetta allri málefnalegri umfjöllun hér á landi. Umræðan verður meira í upphrópunum og sleggjudómum. Bæði um fólk og málefni. Mér leiðist það frekar.

Og eitt leiðir af öðru. Þegar umræðan fer að snúast fyrst og fremst um persónur en ekki málefni verða stjórnmálin fljótt að einskonar "showbusiness". Fólk sem fyrst og fremst hefur áhuga á athygli og eigin frama verður meira og meira áberandi. Þeir einir komast eitthvað áfram í pólitík sem klókir eru í að koma sér á framfæri. Það fer að skipta mestu máli að geta kjaftað sig út úr vandræðum og/eða geta komið höggi á aðra frambjóðendur.

Auðvita snúast kosningar samt um fólk. Þær snúast um að velja það fólk til ábyrðastarfa sem við, hvert fyrir sig, treystum best. Eðlilega skiptir máli í því sambandi hvernig stjórnmálamenn haga sér og hvort okkur finnst þeir traustsins verðir. Það er vont þegar vantraust er orðið það mikið að farið er að alhæfa um alla sem að stjórnmálum koma.

Í því sambandi finnst mér að stjórnmálaflokkar þurfi að axla sína ábyrð. Stjórnmálaflokkar eiga ekki að vera til fyrir stjórnmálamenn. Stjórnmálmenn vinna fyrir málstað flokkanna en ekki öfugt. Enginn stjórnmálamaður getur verið stærri en flokkurinn sjálfur. Enginn stjórnmálamaður getur átt, hvorki flokkinn, flokksmenn eða kjósendur hans.

Enginn stjórnmálamaður er sá yfirburðastjórnmálamaður að hann geti gert hvað sem er í annan tíma. Ef hann tapar trausti, þó það sé ekki nema hluta af kjósendum sínum er það ekki vegna þess að kjósendur eða fyrrum stuðningmenn séu að svíkja hann. Stjórnmálamaðurinn þarf einfaldlega að líta sér nær. Telji hann ómaklega að sér vegið þarf hann með einhverjum öðrum hætti að byggja upp traust eða hreynsa sig af ásökunum en að taka stjórnmálaflokkinn sinn í gíslingu.

Eins og allt annað í lýðræði er það aðeins fólkið sjálft sem getur breytt þessu. Það eru lesendur, áhorfendur og/eða hlustendur fjölmiðlanna sem ráð því hvaða útbreyðlsu hver fjölmiðill fær. Það eru flokksmenn stjórnmálaflokkanna sem bera ábyrð á flokknum og því sem þar fer fram. Og það eru kjósendur sem bera ábyrð á stjórnvöldum hverju sinni.

Samt er það svo að reyndar getur maður aðeins breytt sjálfum sér. Hugsanlega hefur það einhvar áhrif á aðra hvað maður segir og gerir en hver einstaklingur ber algerlega og aðeins ábyrð á sjálfum sér í þessu samhengi. 

Góða stundir......


22.08.2016 20:23

Mosfellssveit

Nú hafa örlögin hagað því svo til að þessar vikurnar dvel ég að mestu á Reykjalundi. Það er því kannski við hæfi að rifja upp að hér í þessari sókn er ég fæddur. Það hét nú reyndar í þá daga Mosfellssveit en ekki Mosfellsbær.

Árið 1944 nýtti sveitarfélagið Mosfellssveit sér forkaupsrétt á jarðeignum Thors Jenssonar að Varmá og Lágafelli þegar hann hugðist selja Reykjavíkurborg þassar jarðir. Reykjavík keypti aftur á móti jarðirna Lambhaga og Korpúlfsstaði af Thor en þær voru þá einnig í Mosfellssveit. Í framhaldi af því var lögsagnarumdæmi Reykjavíkur stækkað og fært upp að Úlfarsá.

Mosfellssveit ákvað að skipta þessu landi sem það keypti upp og stofna 8 nýbýli sem voru leigð út til ábúenda með erfðafestu. Afi minn og amma í móðurætt fengu eitt þessarra nýbýla og skýrðu Hlaðhamra. Afi minn og amma í föðurætt fengu annað og skýrðu Láguhlíð. Safn heimilda um æfi og störf Þórarins Auðunssonar

Foreldrar mínir hefja sinn búskap svo í Láguhlíð í ársbyrjun 1957 og nánast réttum tveimur árum síðar fæðist ég svo þar. Ég elst þar upp til 10 ára aldurs en þá flytjum við í Flóann. Ástæða þess að við flytjum austur var að þéttbýlið var farið verulega að þrengja að búskapnum að mati föður míns.

Í í Láguhlíð var byggt á árunum 1945-1948. Þessar myndir af framkvæmdunum eru frá þeim tíma.







1953 var svo bygggt lítið fjárhús sem er hér á mynd ásamt pabbi á Farmalnum.



Svona er umhorfs á bænum þegar ég fer að muna eftir mér.



Í dag er þetta nokkuð breytt. Þessar byggingar standa reyndar allar enn. Þær sjást reyndar ekki fyrir trjágróðri frá þessu sjónarhorni og byggðin í Mosfellsbæ er komin hér alveg að.



Þessi mynd tók ég í dag og það sést aðeins í hænsnahúsið sem er austast með grænu þaki.. Hin húsin eru á bak við trágróðurinn fyrir miðri mynd.

 

24.07.2016 11:36

Ættarmót og ferðalög

Í síðasta mánuði ferðuðumst við austur á land. Við fórum 7 saman saman á tveimur bílum. Það voru ég og Kolbrún, systurnar í Lyngholti þær Kolbrún Katla og Ásta Björg, bræðurnir í Jaðarkoti þeir, Arnór Leví og Hrafnkell Hilmar  og svo hún móðir mín.

Ferðinni var heitið á ættarmót afkomenda afa míns og ömmu, (Aðalsteinn Eríksson f.31.01.1901 - d. 27.01.1990 og Bjarnveig Ingimundardóttir f. 31.10.1902 - d. 27.04.1992). sem haldið var á bænum Hafursá rétt við Hallormstaðaskóg.

Þetta var fjörmikil ferð eins og gefur að skilja þegar ferðst er með tápmiklu og hressu ungu fólki. Við lögðum af stað á fimmtudegi og gistum á Höfn, Eftir að hafa farið í sund á föstudagsmorgun á Höfn var ferðinni haldið áfram. Komið var að Hafursá einhvern tíman seinnipartinn. Vorum þar á ættarmótini fram á sunnudag. Þá var aftur keyrt á Höfn og gistum þar. Komum svo heim á mánudag.


Hluti af ferðafélögunum: bræður frá Jaðarkoti og systur frá Lyngholti.


Þessi ættarmót hafa nú síðustu áratugina verið haldin á þriggja ára fresti. Síðast vorum við í Reykjanesi við Ísafjarðardjúp sumarið 2013. Vestur í Djúp ()  Þessi ætt hefur þá tengingu nú við austurland að þangað flutti fyrir 50 árum frænka mín og hennar maður þá með eitt lítið barn. Nú í dag er þetta orðin fjölmenn fjölskylda sem telur þrjá ættliði.

Það voru eimitt þau sem skipulögðu ættarmótið að þessu sinni og tóku á móti okkur með miklum glæsibrag. Eins og alltaf á þessum samkomum skemmtu menn sér vel bæði börn og gamalmenni og allir sem eru þar á milli.



Að Hafursá


Það voru nú reyndar rifjuð upp önnur tenging þessarra ættar við austur land á ættarmótinu. En það var sagan af langalangalangafa mínum Páli Eiríkssyni (1783-1860) Lífsbarátta á 19. öld () og Draugagangur ()  Páll varð fyrir þeirri hræðilegu lífsreynslu að sonur hans hvarf á unglingsaldri og fannst aldrei. Páll, sem þá bjó í Öxnadal, taldi sig vita að nágranni sinn og vinnuveitandi piltsins hafi myrt hann.

Það fékkst nú aldrei sannað og að endingu fannst Páli Eiríksyni sér ekki lengur vært í Öxnadalum. Hann flutti þá með sina fjölskyldu austur á Hérað þar sem hann bjó til æfiloka.

Um síðustu helgi var svo aftur haldið á annað fjörugt og skemmtilegt ættarmót. En það var á svo kallað "Júllaramót" sem er ættarmót afkomenda tengdaforeldra minna.(Júlíus Sigmar Stefánsson f. 12.06.1912 - d. 7.10 1989 og Guðfinna Björg Þorsteinsdóttir f. 27.07. 1916 - d. 29. 05. 1984). Júllarar. ()  Þessi mót eru einnig haldin reglulega en að þessu sinni sérstaklega í ár til að minnast þess að nú í næstu vlku eru 100 ár frá fæðingu tengdamömmu.

Júllaramótið nú var í Stykkishólmi. Við mættum öll, allt mitt fólk úr Flóanum. Tókum á leigu stóran bústað í Helgafellsveitinni og dvöldum þar frá föstudegi til sunnudags. Við erum alls 17 og áttum góða helgi saman og með öðru frændfólki á frábæru Júllaramóti.


Öll saman komin í Helgafellssveitinni

Flestir héldu svo heim á leið á sunnudag en við Kolbrún og Aldís Tanja í Jaðarkoti bættum aðeins við ferðalagið. Við keyrðum norður í Skagafjörð og tókum okkur ýmislegt fyrir hendur og skoðuðum margt. Heimsóttum m.a. og dvöldum hjá frændfólki mínu í föðurætt sem þar býr.  Við skoðuðum einnig bílasafn og búmynjasafn. Við heimsóttum loðdýrabónda og fengum að sjá í minkahúsin hjá honum. Við fórum víða og sáum margt eins og tilheyrir á ferðalögum.


Við Aldís Tanja á heimleið vestur á Mýrum við Akraós

Ágætt var svo að koma heim aftur á miðvikudagskvöld. emoticon



12.06.2016 14:09

Flóahreppur 10 ára

Í dag er Flóahrepppur 10 ára. Þennan dag 12. júní 2006 fékk, þá nýkjörin sveitarstjórn í nýju sameinuðu sveitarfélagi hér í Flóanum, umboð sitt. Hún kom saman til fyrsta fundar þennan dag fyrir 10 árum. Meðal verkefna þess fundar var að ákveða nafn á þessu nýja sveitarfélagi og kjósa oddvita sveitarstjórnar. Einng samþykkti þessi fundur m.a.að auglýsa til umsóknar stöðu sveitarstjóra hjá sveitarfélaginu.

Samþykkt var samhljóða að sveitarfélagið ætti að heita Flóahreppur. Samhliða sveitarstjórnar kosningunum, hálfum mánuði fyrr, fór fram skoðannakönnun meðal íbúa í sveitinni um nafn á þetta nýja sveitarfélag. Nokkur meirihluti, þeirra sem þátttóku, völdu nafnið Flóahreppur.

Á þessum fyrsta fundi var ég kosinn oddviti sveitarstjórnar Flóahrepps. Það hafði eins og gefur að skilja nokkrar breytingar á mínum daglegu störfum. Ég ákvað með litlum fyrirvara fyrir kosningarnar að gefa kost á mér í þetta. 

Ég var að vísu búinn að starfa með hópi fólks í sveitinni í nokkrar vikur að undirbúa framboð til sveitarstjórnar. Þessi hópur hafði það fyrst og fremst að leiðarljósi og virkja fólk almennt í sveitinni til þátttöku  í stjórnun og rekstur nýs sveitarfélags. Þetta var hópur sem fannst það ekki vænlegur kostur að aðeins einn framboðslisti  væri í kjöri sem yrði þá sjálfkjörinn.

Vitað var að fráfarandi sveitarstjórnir gömlu sveitarfélaganna hyggðust leggja fram sameiginlegan lista. Það fylgdi einnig sögunni að í þeim hópi var það talið vænlegast að sameinast um einn lista fyrir kosningar til að forðast einhverja flokkadrætti og sundrung í nýju sveitarfélagi áður en það yrði í raun til.

Þessu voru ekki allir sammála og því var farið í þá vinnu að kanna og undirbúa annað framboð. Kjósendur hefðu þá allavega einhvert val í kosningunum. Þau sem komu fyrst að máli við mig um að taka þátt í þessum undirbúningi voru þau hjón á Læk, Guðbjörg og Gauti heitinn. Þau komu hér til mín einn morguninn til að ræða þetta.

Í framhaldi af því fór ég að taka þátt í þessari vinnu sem aðalega gekk út á að skilgreina stefnu og markmið væntanlegs framboðs. Þetta varð fljótlega nokkuð álitlega stór hópur af áhugasömu fólki um málefni sveitarfélagsins. Ekki vorum við mjög upptekin af því framanaf, hvaða einstaklingar myndu skipa þennan lista.

Svo þegar fór að nálgast þann dag að skila þyrfti inn framboði til kjörstjórnar var ekki hjá því komist að fara að velta því fyrir sér. Búið var að vinna vel í málefnagrundvelli og mér fannst allt þetta fólk finna sameiginlegan grundvöll fyrir framboðinu. Ágætlega gekk að fá fólk til þess að taka sæti á framboðslistanum. 

Aðeins átti nú eftir að taka ákvörðun um hver myndi leiða listann og vera tilbúinn til þess að taka að sér stöðu oddvita ef listinn fengi meirihluta atkvæða. Þegar þarna var komið sögu var ég búinn að gefa kost á mér í eitthvað af efstu sætunum og taka þá sæti í nýrri sveitarstjórn ef listinn fengi fylgi. Á þeirri stundu hvarlaði ekki að mér að ég yrði oddvitaefni listans.

En það reyndist aðeins snúnara en ég reiknaði með að taka ákvörðun um hver ætti að leiða listann. Þegar á reyndi sýndist sitt hverjum í því efni og niðurstaða ekki augljós. Enginn í hópnum gerði tilkall til þess en vafalítið hefðu einhverjir fleiri en ég fengist til þess ef eftir því hefði verið leitað og samstað verið um.

Mér fannst ég hinsvegar nú verða þess áskynja að margir í hópnum höfðu af þessu aðeins áhyggur.  Nú var farið að nefna mitt nafn í þessu samhengi og eftir að hafa metið stöðuna svolítið í hópnum fór ég að taka alvarlega að skoða það. Mér fannst þessi vinna sem búin var að fara fram frábær og nú yrðu menn að axla ábyrð sína til að koma þessu í framkvæmd þ.e. leggja fram framboðslista.

Ég ræddi því þessa stöðu við mitt fólk hér heima. Ekki kom til greina að gefa kost á sér í þetta nema hafa fjölskylduna alla með sér. Þar skipti máli bæði búrreksturinn sem við stöndum saman að og svo bara fjölskyldan sjálf. Það var einnig alveg skýrt að minni hálfu að gera fyrirfram ráð fyrir þeim möguleika að framboðið gæti fengi meirihlutafylgi 

Ekki þurfti ég að ræða þetta lengi við mitt fólk. Öll sem eitt kvöttu þau mig til þess að gefa kost á mér í þetta ef ég hefði áhuga á og treysti mér til þess. Það varð því úr að ég gaf færi á því að ég tæki forystu sætið á listanum. Strax og ég hafði svarað þessu varð ég ekki var við annað í hópnum en einhugur væri um þá niðurstöðu.

Þegar kosningaúrslit lágu svo fyrir að kvöldi kjördags kom í ljós þetta framboð fékk 4 fulltrúa af 7 í sveitarstjórn en framboð  gömlu sveitarstjórnanna fékk 3 fulltrúa kjörna. Þessi 7 manna sveitarstjórn starfaði svo næstu 4 árin. 

Það er mitt mat að þetta var farsæl sveitarstjórn sem var nokkuð samheldin og samstíga í mörgum málum. Hún var málefnaleg í allri sinni vinnu og þó hún hafi þurft að fást við erfið og krefjandi verkefni og alls ekki alltaf sammála var ávalt unnið af heilindum af öllum sveitarstjórnarmönnum.


Fyrsta sveitarstjórnar Flóahrepps 2006-2010 . F.v. Björgvin Njáll Ingólfsson, Einar Helgi Haraldsson Guðmundur Stefánsson, Margrét Sigurðardóttir sveitarstjóri, Aðalsteinn Sveinsson, Jóhannes Hreiðar Símonarson, Guðbjörg Jónsdóttir og Valdimar Guðjónsson.



05.06.2016 21:37

Íris Harpa

Það var hátíð í Gamla bænum í austurbænum í Kolsholti  í gær. Séra Sveinn Valgeirsson var hér mættur til að skíra litlu dótturdóttur mína. Allt hennar nánasta fólk var viðstatt þessa athöfn og allir í hátíðarskapi. Skýrnarvottar voru, Kolbrún amma litlu stúlkunnar og Jón Valgeir í Lyngholti. 

Íris Harpa Kristinsdóttir er hennar fallega nafn.



Þetta er nú reyndar ekki í fyrst skipti sem séra Sveinn kemur hér í þessum embættisverkum. Hann hefur nú skírt fimm barnabörn mín á rúmlega fimm árum. Rakel Ýr () Steinunn Lilja () Ásta Björg og Hrafnkell Hilmar ()



Þau settust öll örskots stund niður með prestinum í gær þegar búið var að skíra og ræddu málin eins og fólk gerir í góðum veislum.

30.05.2016 19:35

Ásavegur

Á föstudagskvöldið s.l. gekk ég, ásamt nokkrum fjölda fólks , hluta af hinum forna Ásavegi hér í Flóanum. Efnt var til þessara göngu sem huti af hátíðinni "Fjör í Flóa" sem fram fór um helgina. Bent var m.a. á þessa göngu sem kjörið verkefni í "Hreyfiviku UMFÍ." 

Ég hef nú nokkrum sinnum farið þessa leið áður en hafði engu minna gaman af nú en áður. Farastjórar voru þau hjón á Hurðarbaki Ólafur og Kristín. Þau lýstu staðháttum og rifjuðu upp söguna en gengið var um söguslóðir Flóamanna sögu. Þetta gerðu þau á lifandi og skemmtilegan hátt sem ég held að allir sem þátt tóku hafi kunnað að meta. 



Gengið var frá Orustudal við Hurðarbaksveginn sem leiðin liggur í gegnum lönd Breiðholts, Dalsmynnis, Hurðarbaks, Hnaus og Neistastaða og endað þar sem Ásavegurinn fer um Gilvað á Bitrulæknum rétt við þar sem afleggjarinn heim að Hnausi er af Flóaveginum. Myndin er tekin þegar áð var við Skotmannshól. 

Ásavegurinn var þjóðleiðin niður að Eyrabakka og á hann söfnuðust flestir er þangað áttu leið. Þeir sem komu niður Skeið úr uppsveitum Árnessýslu, Einnig Rangæingar og Skaftfellingar sem komu yfir Þjórsá hvort sem var á ferju við Krók eða Egilsstaði eða komu yfir á Nautavaði á Þjórsá. Flóamenn notuðu þennan veg einning m.a við að koma fé á afrétt og heim aftur úr réttum á hausti.

Mér skilst að hann hafi legið frá Orustudal áfram suður norðan við bæinn Önundarholt og fram Suluholtsmúla. Þaðan um Rútstaða- og/eða Seljatunguland og Gegnishóla hverfi og niður á Hólavöll sem var skilgreindur löggiltur áningastaður. Þaðan hefur væntanlega verið farið ströndina að Eyrabakka 


20.04.2016 20:49

Og enn fjölgar í hópnum

Nú get ég (sbr.: Nýr afkomandi ()6. barnabarnið ()Fleiri barnabörn ()Hópurinn minn stækkar () ) enn og aftur flutt lesendum þessara síðu þær ánæjulegu fréttir að í gær fæddist lítil stúlka. Þessi stúlka er níunda barnabarn okkar Kolbrúnar og er dóttir Erlu og Kristins í Gamla bænum hér í austurbænum í Kolsholti.



Við kíktum til þeirra í morgun og þá tók ég þessa mynd. Þá voru þær á sjúkrahúsinu á Selfossi en nú eru þær mæðgur  komnar heim í Kolsholt.  Mér finnst það alltaf jafn ánægjulegt og spennandi að eignast fleir afkomendur. Ég er nokkuð viss um að þessi litla snót á eftir að kynnst honum afa sínum betur og við eigum eftir að bralla ýmislegt saman í framtíðinni.  emoticon

23.03.2016 20:37

Að þreyja Þorran og Góuna

Það hefur löngum verið talin áfangi að hafa þreyjað bæði Þorran og Góuna. Nú er Einmánuður sem er síðasti mánuður vetrar tekinn við. Það er ekki laust við að maður er farinn að hlakka til vorins.

Síðustu dagarnir í Góu hafa verið hlýir og nú hefur bæði snjó og klaka sem hér hefur verið í allan vetur tekið upp. Ég sakna þess ekki að vera laus við klakann. Þegar klaka og svell gerir svona snemma vetrar eins núna er alltaf hætta á kali. Núna er að  vísu jörð nánast klakalaus undir og virðinst koma nokkuð vel undan. emoticon

En svellin eru líka bara hættuleg, sérstakalega gömlu og styrðu fólki eins og mér. Um áramótin síðustu var ég nokkuð bjartsýnn á að ég myndi komast nokkuð létt í gegnum þennan vetur. Mér fannst ég liprari og frískari en oft áður og var jafnvel farin að láta mér detta í hug og fara á hestbak. En á hestbak hef ég varla komið síðan ég var greindur með "Mr. Parkinson"   Parkinsonveiki ()

En það fór nú reyndar þannig að kvöldi afmælisdagsins míns 10. jan og ég var að rölta hér á milli húsa að ég stein lá á svelli. Ég var að vísu með broddstaf og gat komið honum undir mig hægra meginn. En það var þá til þess að ég skall fastar á vinstri hliðini og rifbraut mig. Það vita þeir sem reynt hafa að rifbrot eru ekki þægileg og taka langan tíma að gróa. Mér hefur fundist þessi vetur nokkuð legni að líða. emoticon 

En nú í góðaveðrinu sem hér hefur verið í vikunni gleymir maður því auðvita. Það er nefnilega þannig að um leið og vorið fer að nálgast fyllist maður bjartsýni og þrótti. Helst vill maður auðvita fara að gera eitthvað og það á reyndar við um fleiri

Barnabörnin mín, bæði í Lyngholti og Jaðarkoti, kunna vel að meta þetta góða veður. Um leið og klakinn var horfin og farið að þorna um, voru reiðhjólin á báðum bæjum tekin fram. Það er búið að hjóla mikið síðustu daga. 

Í fyrra sumar þegar Flóaskóli var í sumarfríi var hún Aldís Tanja í Jaðarkoti hér í vinnu. Sumarstörf ()  Ég hafði það verkefni að finna verkefni og leiðbeina henni meðan hún var að störfum í þessari sumarvinnu sinni. Við höfðum bæði gaman af. Ég gaf Arnóri Leví bróðir hennar það loforð að þegar hann væri orðinn 10 ára eins og systir sín fengi hann líka vinnu eins og hún í sumarfríinu. 

Arnór Yngsti bóndinn () hefur alltaf verið bæði íbyggin og áhugasamur um umhverfi sitt. Hann er nú orðinn 8 ára gamall og stundar fótbolta af ástríðu.Ég var staddur niður í fjósi um daginn og fylgdist með honum út um fjósgluggann. 

Hann hjólaði hvern hringinn af öðrum eftir veginum og heim að fjósi. Svo stansaði hann og virti fyrir sér niðurslitnar girðingarnar eftir snjóinn í vetur, Hann kannaði holklakann á blettinum fyrir framan fjósið og gerði tilraunir með að veita pollinum sem þar var rétt hjá niður í jörðina. Hann var búinn að taka af sér hjólahjálminn og stóð nú berhöfðaður út á túni og virtist nokkuð hugsi smá tíma.

Svo leggur hann af stað heim að fjósinu og kemur inn til mín og segir:  "Aaafi........ hérna þú manst vinnuna"......" sem ég ætla að koma i til þin"........ "þegar ég verð tíu ára"............"og það er ekki skóli".........." af því að það er sumar"?

Já ég kannst við það

"Hérna".........  heldur hann áfram............" getum við byrjað núna"?  







18.02.2016 13:58

Hvanndalir

Hvanndalir voru um aldir eitt afskektasta byggða ból á Íslandi. Það rifjaðist upp fyrir mér fyrr í vetur, þegar ég las frétt um að Siglfirðingar hefðu sótt þangað kindur, að ég hafði heyrt af því, að tengdaforeldrar mínir hefðu einhverju sinni verið þar við heyskap.

Hvanndalir eru á milli Héðinsfjarðar og Ólafsfjarðar handan Víkurbyrðu í Héðinsfirði sem er 890 m hátt fjall. Til að komast í Hvanndali úr Héðinsfirði þarf annað hvort að fara yfir "Byrðuna" eða um Hvanndalaskriður. Frá Ólafsfirði Í Hvanndali er gengið fyrst í Fossdal og áfram upp úr Fossdalsbotni yfir í Hvanndali. 

Í Hvanndölum er talað um þrjá dali, Yst er Hvanndalur og sunnan úr honum er lítið dalhvolf er heitir Selskál. Syðst er Sýrdalur sem er grynnstur og aðeins slakki á bak Hvanndalabjörgum. Hvanndalabjörg (755m) ganga í sjófram sunnan við Hvanndali og norðan vjð Fossdal.

Ég tek það fram að ég haf aldrei komið þarna eða farið þessar leiðir. Þetta eru aðeins leiðir og staðhættir sem ég hef lesið mér til um á netinu. En gaman væri nú að fara þetta einhvern tímann ef/og þegar maður hefur heilsu til.

Mér skilst að byggð í Hvanndölum hafi í gegnum aldir verið stopul vegna einangrunnar. Landkostir voru þar samt taldir miklir að ýmsu leiti og grösugt. Ódáinsakur er í Hvanndölum og stóð þar bær. Þar uxu lífgrös og sá er þeirra neytti gat ekki dáið. Fór svo að þessi bær lagðist í auðn vegna þesss að enginn taldi sig geta búið við slík örlög.

Síðast var búið í Hvanndölum 1896. Þá keypi sveitarfélaið jörðina gagngert til þess að setja hana í eyði. U.þ.b.10 árum seinna var jörðin seld bónda í Ólafsfirði og muni Ólafsfirðingar hafa haft hana eitthvað til heyskapar á fyrri hluta síðustu aldar.



Tengdaforeldrar mínir, Júlíus Sigmar Stefánsson (f.1912, d 1989) Tengdapabbi () og Guðfinna Björg Þorsteinsdóttir (f.1916, d. 1984) hófu sinn búskap á Kleifum í Ólafsfirði um miðjan fjórða ártug síðustu aldar. Óli mágur minn  ( Ólafur Júlíusson f. 1936 ) sagði mér frá því að hann mundi eftir því að eitt sumarið fór hann með foreldrum sínum í Hvanndali til heyskapar. Hann var þá sennilega 6 eða 7 ára ganall.

Þau fóru gangandi frá Kleifunum. Július bar á bakinu koffort með vistum og öðru sem til þurfti til viku dvalar. Guðfinna bar tjald og annan viðlegubúnað og leiddi strákinn. Auk þess báru þau með sér heyvinnuamboðin, kaðla og allt annað sem þurfti til heyskapar. 

Þau voru svo í Hvanndölum í viku tíma og unnu alla daga að heyskapnum. Óli hefur sjálfsagt verin látinn hjálpa til eins og hann hafði getu til. Hann sagði mér þó að honum væri minnistæðast þegar hann lék sér með svartbaksungunum þennan tíma í Hvanndölum. Þau voru heppin með veður allan tíman þetta sumar

Að viku liðinni kom svo bátur frá Ólafsfirði og lagðist út frá ströndinni. Heyið var allt bundið í bagga og nú var böggunum velt fyrir klettabjörgin niður í fjöru. Það var komið á árabát frá bátnum frá Ólafsfirði. Böggunum var síðan komið út í árbátinn og róið með þá út í bátinn fyrir utan. Þegar búið var að koma öllu heyinum með þessum hætti út í bátinn, sigldi hann með það, fyrir þau, til Ólafsfjarðar.

Ungu hjónin með elsta son sinn tóku nú saman föggur sínar og héldu heim á leið.





08.02.2016 20:43

Kvótakerfi

Undan farnar vikur hefur verið unnið að nýjum búvörusamningum. Í viðræðum milli fulltrúa bænda og fulltrúa landbúaðarráðuneytisins (f.h. ríkisins) hefur verið stefnt að taksverðum breytingum, þegar næsti samningur tekur gildi um næstu áramót. Þetta á allavega við um starfskilyrði mjólkurframleiðslunnar.

Þegar þessar samningaviðræður hófust í haust láu fyrir ályktanir frá fundum kúabænda og sú afstaða forystumanna kúabænda að rétt gæti verið að fikra sig frá núverandi kvótakerfi. Það lá einnig fyrir að landbúnaðarráðherrra vildi afleggja þetta kvótakerfi. Helstu rökin sem nefnd voru að kvótakerfið væri greininni dýrt. Með framsalsrétti á kvótanum væri verið að sjúga úr greinni fjármagn sem nýttist þá ekki til þess að geta boðið lægra vöruverð.

Ég held að þetta sé alveg rétt. Ég hafði á sínum tíma miklar efasemdir um að verið væri að fara rétta leið þegar kvótasala varð leyfð. Í því sambandi  er gaman að rifja upp tillögu sem ég flutti á aðalfundi Félags kúabænda á Suðurlandi fyrir tæpum 20 árum Gömul tillaga () 

Mér fannst athyglisvert á sínum tíma að stjórnarmenn félagsins voru alfarið á móti þeim hluta tillögunnar sem fjallaði um mjólkurkvótann og framsal hans. Tillagan var samt sem áður samþykkt á fundinum með einhverjum meirihluta.

Þegar viðskipti voru gefin frjáls á sínum tíma með mjókurkvótann var verið að bregast við algerri stöðnun í greininni. Ég hafði fullan skilning á því á sínum tíma að það var nauðsynlegt að gera það með einhverjum hætti. Mér fannst hinsvegar varhugavert að líta allveg framhjá þeim göllum sem blasa við að taka upp verslun með framleiðslurétt. Á þetta var að vísu bent af ýmsum á sínum tíma en fékkst lítið rætt.

Nú í dag liggur það fyrir að kvótakaup er stór stofnkostnaðarliður á flestum búum. Kvótinn í mjólkurframleiðslunni er ekki bara fyrirfram hlutfallsleg skipting á markaðinum sem fyrir hendi er hverju sinni. Hann er einnig notaður til þess að deila út stuðningi ríkisins við mjókurframleiðsluna. Þessi stuðningur á að sjálfsögðu að vera fyrir neytendur og á að koma þeim til góða í lægra vöruverði.  

Eftir að verslun var gefin frjáls með þennan framleiðslurétt hefur stórhluti stuðning ríkisins farið í að fjárnagna þessi kvótakaup. Þannig liggur það fyrir að þeir fjálmunir sem eiga að fara í tryggja neytendum hagstætt verð á mjólk og mjólkurafurðum fer og hefur farið í staðin að stórum hluta mörg undanfarin ár í að viðhalda þessu kvótakerfi. Þessi staða veikir einnig samkeppnisstöðu íslenskra kúabænda við innfluttar mjólkurafurðir.

Það eru orðið nokkuð til í því að engin er að njóta góðs þessu og kerfið sjálft étur megnið af peningunum sem kemur frá ríkinu. Að vísu hefur verið bent á það að þetta kerfi tryggi bændum einhvert verð fyrir eignir sínar þegar þeir hætta búskap. 

Mér finnst samt mun vænlegra fyrir greinina í heild til lengri tíma að kúabúskapur hafi frekar bolmagn til þess að geta fjárfest í þeim atvinnutækjum sem til þarf til þess að stunda þennan búskap. þá á ég við jörð,ræktun byggingar og tæki. Eins og staðan er í dag hefur engin efni á því að kaupa jörð til kúabúskapar því fjármagnið fer fyrst og fremst í kvótakaup hjá þeim sem vilja hefja kúabúskap,

Það er eftir sem áður nauðsynlegt við þessa framleiðslu að taka upp einhverja aðra stýringu eða hafa einhver ráð til að stemma stigu við miklum framleiðslusveiflum sem orsaka miklar verðsveiflur. Mjólkuirframleiðslan þolir það ekki þar sem það tekur ekki nema hálfan dag að draga úr framleiðslu (slátra kúnum) en mörg ár að auka hana aftur.

Mér finnst því nauðsunlegt að standa við það markmið sem unnið hefur verið að, að vinna sig frá þessu kerfi. Það verður auðvita ekki gert á einni nóttu. En ég vona að bændur hafi það víðsýni og trú á framtíðinni að þeir hafi kjark í slíkar breytingar. Með því er verið að taka heildarhagsmuni og langtímahagsmuni greinarinnar fram yfir sérhagsmuni. 

Ég vona að það sé það sem bændur vilja hafa að leiðarljósi og staðan sé ekki orðin þannig að þeir telji sig fyrst og fremst vera kvótaeigendur og þurfi að verja þá stöðu. 



 

 


28.01.2016 11:08

Að fara í búskap... eða ekki

Ég ákvað nokkuð ungur fara í búskap. Það hafa sjálfsagt verið margar ástæður fyrir því afhverju ég vildi vera bóndi. Sumir á mínum aldri og eldri hafa talað um að það hafi kannski aldrei verið neitt val. Þeir hafi einfaldlega orðið að sinna búskapnum  heima hjá sér og ekki kunnað neitt annað eða lært. neitt annað.

Mér fannst ég alltaf hafa val og velti þessu heilmikið fyrir mér þegar ég var unglingur. Ég held ég hafi átt ágætt með að læra og gengið ágætlega í skóla þegar ég var í barna- og gagnfræðaskóla. Mér leið hinsvegar aldrei mjög vel í skólanum og var oft heltekin af einhvejum skólaleiða. Það var aðalástæða þess að ég ákvað að fara í landspróf (sem þá hét) strax og ég hafði afplánað skólaskylduna. 

Með því að taka landsprófið, sem á þeim tíma gat gefið möguleika á inngöngu í alla menntaskóla landsins sem og aðra frammhaldskóla (þetta var fyrir tíð fjölbrautaskólanna), fannst mér ég geta með góðri samvisku tekið mér frí frá námi og farið að vinna. 

Mér fannst að með landsprófið ég hafa alla möguleika á að fara í hvaða nám sem væri, þegar ég vildi og væri orðin viss um hvað ég ætlaði að verða. Mér gekk vel í landsprófinu og var, ef ég man rétt, meðal 5 efstu af u.m.þ 30 einstaklingum sem voru í bekknum og þreittu prófið þetta vor á Selfossi. 

Ég var alinn upp við það að vinna heima hjá mér allt frá barnæsku. Sumarið eftir að ég tók landsprófið vann ég eins og ég var vanur heima við heyskap og önnur bústörf. Þetta sumar velti ég mikið fyrir mér hvað  ég ætti að svo að taka mér fyrir hendur næsta vetur. Þetta sumar er ég 16 ára gamall.

Mig minnir eins og að foreldrar mínir hefðu aðeins áhyggur af þessu og reyndu heldur að þrýsta á mig að halda áfram námi. Ég man líka að afi minn (Aðalsteinn Eiríksson sem ég er skýður í höfuðið á og var mikill skólamaður; kennari, skólastjóri, námsstjóri og síðast embættismaður í mentamálaráðuneytinu) tók mig á eintal og ræddi við mig um nauðsyn þess að halda áfram skólagöngu.  

Mér hins vegar langaði ekki í skóla. Mér leið vel við bústörfin. Ég fékk einhverja útrás í líkamlegri vinnu sem var alger andstæða við skólaleiðan sem hafði háð mér mest alla mína skólagömgu fram að þessu. Þetta sumar fór ég að hafa meiri áhuga á hvernig ætti að standa að búrekstrinum og ég gerði mér grein fyrir að verkefnin gátu verið óþrjótandi á bænum.


Á þessari mynd er ég bæði ungur og efnilegur. Kvígurnar á myndinni voru það vafalaust líka.  Ég man ekkert hvað varð úr þeim.  emoticon

Ég reyndar velti ýmsu öðru fyrir mér þetta sumar. Ég m.a. velti fyrir mér að prófa að fara á sjóinn og leitaði fyrir mér um möguleika á því. Ég hafði reyndar enga reynslu af sjómennsku og þekkti akkúrat ekkert til hennar. Mér fannst það samt geta verið áhugavert að prófa það. 

Um haustið fóru svo systkini mín öll í skóla en ég hélt áfram að vinna við búið hér heima. Eftir því sem ég vann meira við búskapinn jókst áhuginn á honum. Nú tók gegningavinnan að mestu við eftir því sem lengra leið á haustið og fram á vetur. Það var svo þarna einhvern tíman um veturinn sem haft var samband við mig og mér bent á að hugsanlega gæti ég fengið pláss á einhverjum bát.

Það var einmitt þá sem mér fannst ég verða að taka einhverja ákvörðun. Þegar til átti að taka tímdi ég ekki að fara frá búskapnum og á sjóinn. Mér fannst ekki í lengur í boði að stökkva frá einu í annað. Ég fór því að ræða betur við föður minn framtíð mína í þessum búrekstri án þess að minnast einu orði á að hugsnlega hefði ég möguleika á að fara á sjó.

Í framhaldi af því var sú ákvörðun tekinn að þau laun sem ég átti orðin inni í búrekstrinum voru eignfærð í búrekstrinum. Ég beinbeitti mér að þátttöku í búrekstrinum og að eingast stærri hlut í honum. Ég hætti allveg að spá í annað. Við fórum að velta fyrir okkur að byggja bæði fjós og hlöðu. Nokkrum árum seinna fór ég svo á Hvanneyri í búfræðinám.





25.12.2015 22:22

Gleðileg jól

Ég óska öllum gleðilegra jóla. Það er vonandi að fólk njóti hátíðarinnar í samræmi við væntingar sínar. Barnabörnin mín öll hafa beðið þess með óþreyju síðustu vikur að jólin fari að koma og nú loks hefur ræst úr því.

Eins og svo oft áður hafa síðustu vikur fyrir jól verið annasamar. Yngsta sonardóttir mín, hún Rakel Ýr í Jaðarkoti,  þurfti um miðjan desember að dvelja á sjúkrahúsi í nokkra daga og var móðir hennar þá þar með henni. Það var vitaskuld nú heldur til þess að auka álag á heimilinu þessar síðustu vikur fyrir jól.

Ég gerði það tvo morgna að fara niðureftir í Jaðrakot og vera hjá börnunum þar á meðan pabbi þeirra var í morgunmjöltun því mamma þeirra var fyrir sunnan með Rakel litlu. Ég kom þangað um hálf sex og börnin í fasta svefni. Ég lagði mig bara í stofusófan og var þar þangað til búið var að mjólka. Ég var svo farin aftur áður en börnin vöknuðu

Það sem ég vissi ekki þá, en kom í ljós seinna um morguninn þegar Hrafnkell Hilmar 5 ára sonarsonur minn sagði systkinum sínum frá, var að hann hafði vaknað á meðan ég lá þarna í sófanum. Ég hef sennilega sofnað. Kvöldið áður hafði Hrafnkell farið að dæmi eldri systkina sinna og sett skóinn  sinn út í glugga. 

Hann mundi það frá síðustu jólum að það gat verið vænlegt til árangurs. Það var nefnilega von á fyrsta jólasveininum um nóttina. Nú vaknar hann þarna í morgunsárið. Hann er nú víst nokkuð vanur því að vakna snemma og fara á fætur á undan öðrum á heimilinu. 

Nú var hann ekki alveg viss hvað klukkan var orðin. Það var smá beygur í honum því hann mundi að von gat verið á honum Stekkjastaur um nóttina. Hann læddist því varlega fram án þess að kveikja ljósið og skymaði í allar áttir í myrkrinu. 

Þegar hann kom fram í stofu sá hann að etthvað var í sófanum. Hann áttaði sig strax á því að það gat ekki verið jólasveininn. Í fyrsta lagi gat það ekki staðist að jólasveininn lægi upp í sófa á þessum anna tíma. Í öðru lagi sá hann það, þó skuggsýnt væri, að þessi vera í sófanum var ekki í rauðum fötum. 

Hann lagði því saman tvo og tvo og komst að þeirri skynsamlegu ályktun að þetta hlyti að vera hreindýrið sem var þarna í sófanum. Einhvers staðar varð það að vera á meðan jólasveinninn var að setja í alla skóna á bænum. Það var líka einboðið að hreindýrið varð að nota hverja stund sem gafst til þess að hvíla sig og því rökrétt að fleyja sér í sófan þegar færi gafst.

Hrafnkell vildi nú alls ekki verða fyrir því óláni að vera valdur þess að hreindýr jólasveinsins myndi fælast. Hann læddist því varlega til baka inn í rúmið sitt og lagðist þar. Hann var pínu ánægður með sig að hafa upplýst leyndarmálið um jólasveininn. Hann sofnaði fljótlega aftur vongóður að það biði hans eitthvað í skónum þegar hann myndi vakna aftur.

Og það klikkaði ekki. emoticon





Flettingar í dag: 362
Gestir í dag: 18
Flettingar í gær: 609
Gestir í gær: 42
Samtals flettingar: 144794
Samtals gestir: 25708
Tölur uppfærðar: 18.5.2024 08:10:09
clockhere

Í Flóanum

Nafn:

Aðalsteinn Sveinsson

Farsími:

8607714

Heimilisfang:

Kolsholti I

Staðsetning:

Flóahreppur

Heimasími:

4863304

Tenglar