Í Flóanum

17.07.2019 23:26

Þegar ég sá hana Rósu bera


Ég get ekki látið það vera

að segja ykkur frá því

Þegar ég sá hana Rósu bera - !

 

Ég var dálítið á því

En við því var ekkert að gera.

 

Grasið var farið að spretta

og laufið að grænka á trjánum.

Sólin lét geislana detta

Á mig, þar sem ég læddist á tánum

og reikaði í hverju spori

á þessu himneska vori

 

Úti var dýrlegt að ganga

og finna jörðina anga

Af gróðri, í alls konar litum

og daunillri brennivínsstækju,

sem lagði frá mínum vitum. 

 

Ég hefði getað lagst með hvaða skækju

sem orðið hefði á mínum vegi

á slíkum góðvirðidegi.

 

Ég var í ofsalega góðu skapi

og söng eins og vitlaus maður -.

Ég átti ekki að láta eins og api,

því að þetta var launhelgur staður.

 

Ég fór að ganga hraðar og hraðar

og neytti krafta, sem drottinn gaf mér -.

En allt í einu nam ég staðar

og það rann hreinlega af mér,

því framundan, á grænu engi

sá ég það, sem ég minnist lengi:

 

Á bak við runna lá hún Rósa - -.

Það stirnaði svo fallega á húðina ljósa

og ég líktist mest hræddum héra

þegar ég sá hana bera - -.

 

Ég læddist varlega nær og nær

og man það, eins það hefði gerst í gær,

og þar, sem hún lá með útglennta fætur,

skalf ég eins og lauf í vindi

en hafði þó á henni stöðugar gætur.

 

Ég losaði bæði um flibba og bindi

og þurrkaði svitann af andliti mínu.

Er ég starði á Rósu í látleysi sínu - - -.

 

---------

 

Allt gekk nú í einum hvelli grænum

því að Rósa var besta kýrin á bænum.

Og kálfurinn sem hún þarna átti.

baulaði eins og hann framast mátti

Muuuuu, muuuuu  muuööööö  !!


(stolið af internetinu..höf. Kálhaus. )




26.06.2019 22:38

Páll Pálsson bókbindari.

Hafi einhverjum fundist frásögnin af æfi Páls Eiríkssonar og Guðbjargar Þorkelsdóttur Páll Eiríksson og Guðbjörg þorkelsdóttir () þjóðsagnakennd, þá virðast frásagnir af lífhlaupi Páls Pálssonar sonar þeirra vera enn þjóðsagnakenndara. Páll virðist vera sá eini af  6 börnum þeirra sem kemst til fullorðins ára. Ég hef nokkum sinnum áður minnst á hann hér á síðunni. En hér er samantekt á því sam ég hef lesið og heyrt af hans æfi. 


Eins og í frásögninni hér á undan um PE og GÞ foreldra Páls þá er stuðst við Íslendingabók.is varðandi ártöl og nöfn. Að öðru leiti er þetta samatekt af því sem ég man af því sem ég hef lesið og heyrt. Ekki er um neina vísindalega upplýsingaleit að ræða heldu kannski bara hending ein hvað ratað hefur fyrir mín eyru og augu. 


Páll fæddist 1818 í Bægisársókn. Hann flytur með foreldum sínum og eldri bróður Þorkatli að Hraunshöfða í Öxnadal 1822. Þegar Páll er 10 ára verða þeir atburðir að Þorkell bróðir hans hverfur og finnst ekki aftur. Grunur er um að hann hafi verið myrtur af húsbónda sínum Sigurði Sigurðsyni í Þverbrekku Öxnadal. Páll Eiríksson og Guðbjörg þorkelsdóttir ()


Þetta hafði djúpstæð áhrif á Pál og foreldra hans. Þau taka sig til vorið 1832 og flytja burt úr Öxnadalum og fara austur á Hérað. Páll er þá 14 ára gamall. Foreldrar hans eru í vinnumennsku í Vallanessókn eftir að þau koma austur. Árið 1835 er Páll sagður léttadrengur í Geitagerði í Valþjófsstaðasókn en 1840 er hann  vinnumaður á Ketilsstöðum í Vallanessókn. 


Á Ketilsstöðum er hann enn vinnumaður 1843 og er þar með foreldrum sínum. 1842 á hann barn með Þorbjörgu Þorsteinsdóttur ( f.1822 - d. 1887 ) sem var þá vinnukona einnig á Ketilsstöðum. Barnið var stúlka sem skírð var Jóhanna Pálína Pálsdóttir ( f.1842 - d.1904 )  


Árið er 1845 er honum kennt annað barn sem Páll reyndar synjar fyrir. Þá er talið að hann sé í Papey. Árið 1848 á hann barn með Kristínu Pálsdóttur (f. 1818 - d. 1892 ) og sama ár flytur hann í Vopnafjörð að Áslaugarstöðum.  Dóttir hans og Kristínar Pálsdóttur hét Matthildur Pálsdóttir.  (f. 1848 - d. 1939 ) 


Páll er þrítugur þegar hann kemur í Vopnafjörð. Hann er næstu ár í vinnumennsku á bæjum í  Vopnafirði og er hann m.a. tittlaður bókbindari á Þorvaldsstöðum árið 1850 og á Breiðumýri 1855. Árið 1852 kvænist hann Önnu Sæmundsdóttur  ( f.1833 - d.1852 ) frá Heiði á Langanesi en hún lést í nóv. sama ár af barnsförum.


Barnið sem var drengur lifði hinsvegar og var skýrður Stefán Pásson (f. 1852 - d ...?..)  Hann var alinn upp á Gunnarstöðum í Skeggjastaðasókn af Friðfinni Eiríkssyni (f. 1798 - d. 1873) og Ingibjörgu Ormsdóttur ( f. 1799 - d. 1865). Fyrst eftir lát Önnu er Páll í Vopnafirði en kemur svo einnig að Gunnarstöðum er vinnumaður þar.


Þegar Páll er orðin 39 ára gamall giftist hann svo seinni konu sinni Helgu Friðfinnsdóttur frá Gunnarstöðum, dóttir þeirra hjóna sem tóku Stefán son Páls í fóstur. Helga er þá aðeins 18 ára gömul.  Árið 1859 hefja þau svo sjálfstæðan búskap í Kverkártungu á Langanesströnd.


Helga og Páll eignast sitt fyrsta barn 1857 Hómfríði Pálsdóttur ( 1857 - d.1861 ). Árið 1860 eignast þau svo Guðríði Pálsdóttur ( f.1860 - d.1937 ) og 1861 Pál Pálsson ( f.1861 - d.1937 ). Það sama ár lést Hómfríður elsta barn þeirra.


Í Kverkártungu var tvíbýli. En á þorra veturinn 1861 flosnar bóndinn, sem bjó þar ásamt Páli og Helgu, upp og er tekinn þaðan með öllu eins og sagt var. Um svipað leiti veikist Hómfríður elsta barn Páls og Helgu og deyr. Helga er þá ófrísk að þriðja barni þeirra. Páll lætur þá konu sína og börn fara "bágra kringumstæða vegna". Helga mun hafa farið að Gunnarsstöðum til foreldra sinna.


Páll er því orðin einn í Kverkártungu. Á þorraþrælinn verður Páll svo fyrst var við drauginn "Tungubrest".  Draugagangur ()  Sagt var að sama dag hefði hann fengið bréf austan úr sveitum þar sem honum er tilkynnt lát föður síns. Páll Eiríksson faðir hans lést árið aður.


Tungubrestur lét öllum illum látum í Kverkártungu á meðan Páll bjó þar og reyndar lengur. Helga kom aftur að Kverkártungu um vorið. En reimleikarnir færðust bara í aukanna og hafði veruleg áhrif á þeirra búskap. Þegar Helga var á bænum virtust þeir mestir í kringum hana og þorði Páll nú varla að skilja hana eftir eina. Fór svo að lokum að Helga fór alfarin með börin að Gunnarstöðum en Páll varð eftir einn í Kverkártungu.


Það voru uppi nokkrar kennigar á sínum tíma um orsakir þessara reimleika og greindi menn á um það. Nokkrar þeirra eru í sambandi við þá atbuði sem gerðust í  Öxnadal rúmlega 30 árum fyrr  þegar bróðir Páll hverfur.  Páll Eiríksson og Guðbjörg þorkelsdóttir ()   Páll er sagður hafa verið þess full viss að þetta væri sending sér ætluð.


Ein kenningin var sú að þetta væri draugur Þorkels bróðir Páls sem fylgt hefði föður þeirra en þegar hann deyr hafi Páll tekið við. Aðrar kenningar eru um að tilkoma þessa draugs væri vegna heitstrenginga  sem Sigurður í Þverbrekku hafði gagnvart Páli þegar Páll reyndi að fá hann sakfelldann fyrir morðið á bróðir sínum.


Einnig mun Páll hafa lent í útistöðum við þann mann sem hann fékk til að sækja málið á hendur Sigurðar í Þverbrekku. Páli þóttu honum illa unnið að málinu og neitaði að borga honum. Sá mun einnig hafa opinberlaga haft í heitstrengingum við Pál. Aðrir héldu því fram að Páll sjálfur hafi vakið upp draug sem hafi átt að hjálpa honum við að ná fram hefndum á Sigurði í Þverbrekku. Sökum kunnáttuleysis hafi draugurinn hinsvegar snúist gegn Páli.


Fleiri kenningar vou uppi um tilvist "Tungubrests". M.a. að hann væri af völdum fyrri konu Páls Önnu sem hefði vitjað hans í draumi þegar komið var að þvi að skíra dóttir hans og Helgu. Anna vildi láta hana heita í höfuðið á sér og Páll lofað henni því í draumnum. Þessu hafi Helga algerlaga verið mótfallin og Páll látið hana ráða.


Einnig var sú kennig til að í Kverkártungu hjá Páli og Helgu hafi verið drengur smali sem látist hafi í vistinnu vegna illra meðferðar og hann gengið aftur.  


Hvað sem því líður þá er Páll í Kverkártungu til 1963 en hættir þá búskap og fer frá bænum. Hann er í vistun og húsmennsku á bæjum á Langanesströnd og Vopnafirði næstu árin. Helga er einnig í vinnumennsku á þessum slóðum. Hún er m.a. vinnukona á Þorvaldsstöðum í Vopnafirði og eignast tvö börn með Stefáni Jónassyni sem þar bjó kvæntur maður. Fyrst árið 1867 og aftur 1870.  Bæði þessi börn deyja u.þ. ársgömul.


Þó Páll og Helga hafi verið skilin var ekki um ósamlyndi að ræða á milli þeirra. Þau voru að vísu sögð mjög ólík. Helga var sögð hörku dugleg og ósérhlífin en óþrifin frekar. Páll var aftur á móti sagður hreinlátur mjög og þrifin. Hann var sagður gáfu- og merkismaður. En hann var drykkfeldur nokkuð.


Veturinn 1872 -1873 eru þau bæði í húsmennsku að Miðfjarðarnesseli á Langanesströnd. Helga verður þá þunguð af hans völdum. Um vorið ætlar Páll aftur til Vopnafjarðar. Hann kemur við í Miðfirði og hittir Matthildi húsmóðurina sem var yfirsetukona. Hann segir henni að brátt verði Helga léttari og biður hana að sitja yfir henni. Hann segir henni einnig að ef barnið verði strákur vilji hann að hann verði skírður Þorsteinn Eiríkur. Ef barnið verði stúlka skyldi Helga ráða nafninu. Fleira bað hann Matthildu um að gera, eins og hann byggist ekki við að koma aftur.


Páll fer nú til Vopnafjarðar og er þangað kemur fær hann gistingu á veitingahúsi í þorpinu. Hann er þar nokkra daga og drekkur stíft. Svo einn morguninn vill hann alls ekkert vín drekka. Hann ríður að Leiðarhöfn að hitta Andrés Nielsson  sem þar bjó. Páll biður Andrés um hvort hann megi ekki deyja þar.


Andrés bauð honum gistingu en taldi engar líkur á að hann mundi deyja starx. Páll sagist þegar vera orðin kaldur upp að hnjám. Þeir félagar sátu svo að spjalli fram á kvöld. Morguninn eftir var Páll látinn í rúmi sínu.   


Páll lést 2. júlí 1873. og var jarðaður að Hofi Í Vopnafirði. 12 dögum eftir lát Páls fæddist yngsta barn þeirra Helgu. Það var drengur sem skírður var Páll Eiríkur Pálsson. ( f.1873 - d. 1930 )


Árið 1878 á Helga barn,  Helgu Kristjánsdóttur ( f.1873 - d.1933 ), með Kristjáni Sigfússyni sem var um skeið bóndi í Miðfjarðanesi. Helga kemur svo aftur að Kverártungu um 1880 ásamt Kristjáni sem þar er í húsmennsku. Hún á annað barn með Kristjáni 1884  Stefán Ólaf Kristjánsson. ( f. 1884 - d.1956 )


Kristján lést árið 1897 en Helga árið 1909 þá sögð hreppsómagi í Miðfjarðarnesseli


Páll Eiríkur Pálsson yngsta barn Páls og Helgu var langafi minn.

 

 

 


15.05.2019 00:22

Páll Eiríksson og Guðbjörg þorkelsdóttir

Páll Eiríksson var fæddur 1782 í Garði í Aðaldal S-Þing. Foreldrar hans voru Eiríkur Pálsson (nefndur Drykkju-Eríkur) og Ingibjörg Snorradóttir sem bæði voru Þingeyingar.  Eiríkur var fæddur í Bárðadal en Ingibjörg í Reykjadal. Þau voru mest af sinni æfi í vinnumennsku en virðast um stund hafa verið bændur í Aðaldal.

 

Þegar Páll er komin undir tvítugt er hann vinnumaður í Eyjafirði. Síðan kvænist hann Guðbjörgu Þorkelsdóttur,sem var fædd 1788 í Draflastaðasókn S-Þing og þau hefja búskap í Efstalandskoti í Öxnadal. Árið 1822 flytja þau á Hraunshöfða í sömu sveit og búa þar í ein 10 ár. Það orð fór af þeim báðum hjónum að þau væru skarpgáfuð. Eiríkur var sagður verkmaður góður og Guðbjörg  valmenni en alla tíð voru þau bláfátæk.

 

Páll var hestamaður mikill og gekk undir nafninu Reiðhesta-Páll. Einnig eru sögur um að hann hafi verið nokkuð ölkær og laus við líkt og faðir hans mun hafa verið.

 

Á sama tíma og Páll og Guðbjörg búa á Hraunshöfða býr í Þverbrekku í Öxnadal Sigurður Sigurðsson. Sigurður var stórættaður, sonur séra Sigurðar Sigurðssonar prests á Bægisá.  Séra Sigurður var vellátinn í sóknum sínum en nokkuð margbreytilegur í háttum. Sigurður sonur hans í Þverbrekku var dagsfarsgóður en bráðlyndur og sást hann lítið fyrir ef hann reiddist og ofsamenni við vín.


 Öxnadalur; Hraunshöfði er þarna efst á mynd (nyrðst) og Þverbrekka neðst (syðst)


Hraunshöfði var engin kostajörð. Þar var skriðuhætta talsverð og margar heimildir í gegnum aldirnar um tjón af völdum aurskriðna. Þverbrekka var aftur á móti talin kostajörð. Báðar þessar jarðir eru reyndar í dag komnar í eyði.

 

Samkvæmt "Íslendingabók" þá eignuðust Páll og Guðbjörg í Hraunshöfða alls 6 börn. Tvö þeirra dóu á fyrsta ári og um önnur tvö veit ég ekkert um. En  þegar þau eru á Hraunshöfða eru tveir synir þeirra þar með þeim. Sá eldri hét Þorkell fæddur 1812 og sá yngri Páll fæddur 1818

 

Sumarið 1828 fær Sigurður í Þverbrekku syni hjónanna á Hraunshöfða léða sem smala. Áttu þeir m.a. að sitja yfir kvíaám á nóttinni. Áttu þeir að skiptast á sína vikuna hver. Sigurði í Þverbrekku hafði illa haldist á smölum og leist Guðbjörgu illa á þetta. Sagt var líka að Þorkatli hafi líkað þetta mjög illa og beðið móður sína að taka sig úr vistinni en sökum fátæktar þeirra Hraunshöfðahjóna var því ekki við komið.

 

Svo var það eitt sunnudagskvöld að Þorkell var að bíða eftir því að bróðir sinn leysi sig af í hjásetunni. En ekki kemur Páll og verður hann þá mjög vonsvikinn og ósáttur við hlutskipti sitt.  Hann gleymir sér í hjásetunni og missir féð í nes þar sem átti að friða fyrir beit og nota til heyskapar.

 

Nokkru eftir háttamál kemur vinnumaður sem var í Þverbrekku heim. Hann hét Stefán Jónsson, kallaður Stefán sveri. Stefán þessi var óreglumaður og þótti heldur spillandi á heimili með víni. Hann hafði verið á bæjarrangli í Öxnadalum og var drukkin þegar hann kom heim og vekur fólkið á bænum. Hann hefur strax orð á því að ekki sé smalinn að standa sig. Féð sé allt komið niður í Þverbrekkunesið í besta engið.

 

Í fyrstu ætlaði Sigurður ekkert að gera í málinu og tók heldur til varnar fyrir piltinn. Valgerður kona Sigurðar skammast þá út í þessi viðbrögð hjá bónda sínum. Hafði hún um það mörg orð. Taldi hann allt mæla eftir eftir strákfjandanum, þannig að besta engið bíst og verður ósláandi.

 

Þau Stefán ólu á þessu við Sigurð þangað til hann reiddist og rauk af stað. Hann greip með sér sleðameið, gamlan og riðgaðan, sem lá þar upp við vegg og hljóp sem leið lá niður í Þverbrekkunes. Fljótlega sendir Valgerður svo Stefán vinnumann á eftir honum. Nokkru seinna koma þeir Sigurður og Stefán aftur heim og segja að Þorkell sé tíndur. Hann finnist hvergi hvernig sem þeir leita.

 

Morguninn eftir ríður Stefán sveri að Hraunshöfða til að segja frá hvarfi Þorkells. Páll ríður þegar af stað, og fær með sér fjölda manns, að Þverbrekku og leita þeir án árangu allan daginn. Sigurður er heima fámáll og tekur lítinn þátt í leitinni.   

 

Fljótlega fóru að berast sögusagnir af því að Sigurður ættu sök á hvarfi Þorkels. Þessar sögusagnir fóru lágt í byrjun og ekki varð gerð nein opinber rannsókn á þessu, Páll á Hraunshöfða skipulagðu margar og fjölmennar leitir. En þar sem drengurinn fannst aldrei hvorki lífs né liðinn varð ekkert úr neinum málareksri.

 

Hvarf Þorkells lagðist þungt á foreldra hans og yngri bróður. Páll Eríksson á Hraunshöfða gerði ítarlega tilraumir til þess að finna hann. Ekki var langt liðið frá þessum atburðum að altalað er að Sigurður hafi drepið Þorkel. En þrátt fyrir það var aldrei neitt í hendi til að ákæra Sigurð. Hann býr bara áfram á sinni jörð og er skipaður hrepppstjóri í dalnum eftir þetta.

 

Páll Pálsson yngri bróði Þorkels bar þungan hug til Sigurðar í Þverbrekku. Foreldrar hans átta sig á því þessir atburðir hafa ekki aðeins orðið þeim sjálfum áfall. Þetta nuni hafa haft djúptæð áhrif í yngri bróðurinn líka og óttast þau um hans geð.

 

Árið 1832 taka þau sig því upp og flytja burt úr héraðinu með son sinn Pál og fara austur á Hérað. Þau eru þar í vinnumennsku á bæjum í Vallarnessókn.  Þau eru m.a. í Sauðhaga, Hvammi og Ketilsstöðum.

 

Það er ekki fyrr en 16 árum frá hvarfi Þorkells að þetta mál kemst í þingbækur sýslunnar. Sigurður, sem allveg frá hvarfi Þorkels var grunaður af almannarómi um morð á piltinum, kærir til sýslumanns seinnipart vetrar árið 1844 íllmæli um sig og ber þá Egill Tómasson og Stefán Jónssson (svera) fyrir þeim  

 

Þá er Stefán sveri orðinn vinnumaður á Bakka hjá Agli Tómassyni. Egill á Bakka og Sigurður í Þverbrekku áttu í illdeilum. Egill fær Stefán til að segja frá hvað gerðist þarna í Þverbrekkunesi þessa örlagaríku nótt þegar Þorkell hverfur.

 

Stéfán lýsir þessu nokkuð nákvæmlega. Þegar Sigurður kom að Þorkatli ráfandi um féð missir hann alveg stjórn á skapi sínu og slær til piltsins með sleðameinum sem hann bar með sér. Höggið var mjög fast og hafði þær afleiðingar að drengurinn sem bar hönd fyrir höfuð sér bæði handleggsbrotnar og kjálkabrotnar.

 

Sagt er að við þetta bregði Sigurði nokkuð við og fer að sturma yfir piltinum. Kemur þá Stefán að þeim og segir að nær sé að vinna á drengnum að fullu því hér sé ekki hægt um að binda. Þeir vinna nú á honum og fela líkið í torfbunka sem þar var.

 

Þegar leitin að Þorkeli stóð sem hæðst marg fluttu þeir líkið til að það finnist ekki. Eru ýmsir staðir nefdir í því samhengi m.a. undir kirkjugólfinu á Bægisá en prestur þar var faðir Sigurðar í Þverbrekku. Einnig er sagt að einstaka leitarmenn hafi jagfnvel fundið líkið einhvers staðar falið en ekki haft skap til að segja til þess að ótta við stórættaðan bóndan á Þverbrekku.

 

Við þinghaldið leggur Egill fram skrifaða skýrslu um frásögn Stefáns af atburðarásinni þessa nótt. Stefán hafi að vísu verið fullur þegar hann sagði frá en með öllu ódrukkinn daginn eftir. Við yfirheyrslur hjá sýslumanni segir Stefán svo ekkert muna eftir þessu drykkjurausi sínu. Málinu líkur svo með réttarsátt þar sem Stefán biður Sigurð fyrigefningar á ölllu sínu slúðri sem hann í ölæði sínu hafi talað.

 

En þó Sigurði hafi tekist að hrekja þessar sögusagnir fyrir dómi þá breyttist ekki almannarómur í þessu máli. Um vorið 1844  eða nokkum mánuðum eftir þinghaldið flytur Sigurður burt úr Öxnadalnum.

 

Páll Eríksson og Guðbjörg Þorkelsdóttir eru í Vallarnessókn til dauðadags. Páll lést í ársbyrjun 1860 þá 78 ára gamall. Hann er þá að Höfða á Völllum. Guðbjörg er eftir það sögð tökukerling að Höfða og lést þar rúmum tveimur árun seinna þá 74 ára.

 

Sjálfur er ég afkomandi Páls Eríkssonar og Guðbjargar Þorkelsdóttur í fimmta lið.

 

 

 

 

 

 

29.04.2019 09:39

Afi minn

Ég er skírður eftir afa mínum sem hét fullu nafni Aðalsteinn Jóhann Eiríksson. Hann var fæddur árið 1901 en lést snemma árs 1990. Afi var mikill hugsjónamaður og allt sem hann tók sér fyrir hendur var unnið af metnaði. Hans æfistarf var tengt skólamálum, sem kennari skólastjóri, mámsstjóri og fulltrúi í menntamálaráðuneyti. Hann var brautryðjandi í skóalmálum  á Íslandi og setti mark sitt á uppbyggingu skólamála hér á landi.


Hann var fæddur í Krossavík í Þistilfirði. Faðir hans var Páll Eiríkur Pálsson (f.1873 - d.1930) og móðir hans Kristín Jónsdóttir (f. 1869 - d, 1921). Þegar þau Eiríkur og Kristín giftast er hún ekkja með 4 börn. Þau byrja sinn búskap í Krossavík árið sem afi fæðist en 1905 flytja þau til Þórshafna.


Þegar afi er orðin 12 ára gamall eru heimilsaðstæður hjá foreldrum hans orðnar afar bágbornar.  Eíríkur sem m.a hafði stundað sjómennsku er orðin heilsulítinn og systkina hópurinn stór. Afi er þá tekinn í fóstur að Holti í Þistilfirði þar sem er hans heimili til fullorðinsára.


Um æfi og störf afa má lesa betur í eftirfarandi afmælisgrein  sem birtist um hann sjötugann:

http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=256468&pageId=3571755&lang=is&q=Aðalsteinn


Ég kynntist afa mest eftir að hann er kominn á eftirlaun. Hann sat ekki auðum höndum þegar hann hætti að vinna. Hann breytti stórri lóð sinni í listigarð með umfangsmikilli trjárækt, Hann smíðaði mikið, bæði hús og húsbúnað. Hann var ólatur við að leggja fram vinnu sína þegar einhverir af afkomendum hans voru í framkvæmdum.


Afi kom hér oft austur í Kolsholt. Ekki veit ég hvenær hann eignaðist fyrst bíl en hann keyrði mikið. Hann átti marga bíla um æfina, en þeir entust ekki allir vel. Enda kannski ekki gerðir fyrir þann hraða sem afi fór oftast á malavegum þess tíma. Það var ekki fyrr en hann fékk sér Volvo Amason, árg. 1966 held ég, að hann komst á bíl sem entist honum eitthvað. Amasoninn notaði hann í yfir 20 ár.


Volvo Amason


Það var einhvern tímann á áttunda áratug síðustu aldar að klakastíflur mynduðust í Hróarsholtslæknum hér í Flóanum. Lækurinn fór upp og flæddi yfir vegi bæði við Vola og Bár. Talsvert vatn var á veginum og klakastykki. Skólabílinn komst ekki með börnin í sveitinni i skólann, mjólkurbíllin komst ekki til að sækja mjólkina og sveitin varð vegasambandslaus.


Þá gerist það undir hádegi að afi rennur í hlað í Kolsholti á Amasoninum. Við rekum öll upp stór augu og spyrjum hann hvort vegurinn hafi ekki verið ófær?. Nei ekki var hann afi var við það. Og við spyrjum hvaða leið hann hafi komið?.  Nú bara þessa venulegu leið sagði afi og skyldi ekki hverju sætti allar þessar spurninga.


Var ekki vatn á veginum við Vola?  Jú það var svolítið vatn þar og jakar en ég komst bara fram hjá þeim sagði afi og fannst ekki mikið til koma. Afa var gerð grein fyrir því að þetta hefði nú getað farið ver en hann svaraði bara:


"Ég fór nú varlega, ég hægði á alveg niðurí sextíu"






31.03.2019 08:37

Opelinn

Eg hef nú ekki átt svo marga bíla um æfina, allavega ekki  í samanburði við suma. Það eru nú samt að verða 45 ár síðan ég keypti fyrsta bílinn minn. Ég var þá aðeins15 ára gamall. Þórarinn bróðir minn var að verða 17 ára og bílprófið hans innan seilingar. 

Við fórum því að huga að bílakaupum og keyptum saman 9 ára gamlan Opel Rekord. árg. 1965



Ég man ekki eftir að eiga mynd af þessum bíl en hann leit út allveg eins og bílinn á þessarri mynd. 

Þessi Opel var svo á mæstu árum aðal samgöngutækið hér á bæ og reyndist bísna vel. Hann var reyndar nokkuð lár á malarvegum þess tíma. Mátti passa síg á því í lausamöl að vera ekki að hefla vegina með  honum.

Við fórum reyndar í það fljótlega að reyna að hækkan hann að framan með því að setja gúmí undir gormana. Það var veruleg bót þaf því.

Þær voru ófár ferðirnar sem þessi bíll fór. Hann var notaður í allslags útréttingar fyrir heimilið og búreksturinn hér á bæ. Það voru líka margar ferðirnar sem hann fór í fullur af unglingum héðan úr sveitinni á íþróttaæfingar, íþróttamót, böll og fleiri  

Örlög þessa bíls voru svo þau að keyrt var ínn í hliðina á honum á vegamótunum þegar beygt var inn á Villingaholtsveginn af Flóaveginum. Bíllinn var fullur af fólki en við vorum að koma heim af balli. Ég var farðþegi og sat í aftursætinu, að mig minnir næst hliðinni sem keyrt var á. 

Enginn slasaðist í þessum árekstri en Opelinn skemmdist það mikið að ekki var reynt að gera við hann. Ég notaði hann reyndar lengi hérna heima eftir þetta í allslags slark. 




25.02.2019 23:14

Fyrsta ferðin

Mér finnst gaman að ferðast. Það er áhugavert að koma á staði þar sem maður hefur ekki komið áður og jafnvel þó maður hafi komið þar áður er alltaf eitthvað í umhverfinu sem maður hefur ekki tekið eftir. Það er líka alltaf gaman að hitta fólk þar sem maður fer um og/eða ferðast með einhverjum sem er kunnugur staðháttum.

Þó ég hafi svolítið gert af því að stunda ferðalög, bæði utanlands og ekki síður innalands, hefur mér alltaf fundist gott að koma heim aftur. Ég á langt í land með að vera komin á þann stað að ferðast svo mikið að ég eigi orðið hvergi heima eins og segir í Brekkukotsannál um Garðar Hólm. Gamla konan í Brekkukoti taldi hann hvergi orðið eiga heima." Hann lenti í ferðalögum " sagði hún. " það er ólánið sem veldur því að menn  fara í ferðalög "

Ég var reyndar ekki gamall þegar ég fór í mitt fyrsta ferðalag á eigin spýtur. Ég var svo ungur að ég man ekki einu sinni eftir því. En hún móðir mín man það vel og gleymir því sennilega aldrei. Hún hefur lýst þeim degi sem versu martröð og skelfilegri lífreynslu.

Ég hef nú ekki trú á því að ég hafi ætlað að gera henni neinn grikk með þessu ferðlagi mínu. Það hefur örugglega verið eitthvað annað sem dróg mig af stað í þess ferð. Þetta mun hafa verið haustið 1961 og ég tvegga ára gamall og komin átta mánuðum til viðbótar á þriðja árið. Við áttum þá heima í Mosfellssveit. Þetta var í september í blíðskapar haust blíðu. Þennan dag var réttað í Kollafjarðarrétt. Pabbi hafði farið þangað og haft Þórarinn eldri bróðir minn með sér.

Ég mun hafa verið úti að leika mér með ElluVeigu systir minni sem er ári yngri. Móðir okkar fylgdist með okkur út um gluggann. Allt í einu tekur hún eftir því að ég er ekki lengur með systur minni. Hún fer því að svipast um hvað hefur orðið af mér en finnur mig hvergi. Hún æðir um allt að leita en á reyndar ekki gott með það þar sem hún er ein heima með tvö önnur börn líka, systur mínar tvær, önnur nokkra mánaða og hin rúmlega eins og hálfsárs.

Nú kemur pabbi heim og það fjölgar fólki sem tekur þátt í leitinni. Leitin verður sífellt umfangsmeiri og örvætingarfylllri. Það er haft samband við lögregluna og óskað er eftir aðstoð hjálparsveita með leitarhunda. Sólin er tekin að lækka á lofti og heldur fer nú að kólna. 

Þá er það sem nágranni okkar á Hulduhólum, hann Viggó, finnst hann heyra barnsgrát einhverstaðar í fjarska og gengur á hljóðið. Hann gengur út í flag sem hann var búinn að plæga og lá í plógstrengunum. Þar í einu plógfarinu finnur hann mig nývaknaðan og skælandi. Viggó tekur mig nú upp og ber mig á höndum sér heim til foreldra minna. 

Hvað það var sem dróg mig af stað í þetta ferðalag veit ég ekki. Sennilega bara fróðleiksfísn og  löngun til að skoða betur það sem maður sá í fjarska. Hugsanlega hefur mér líka fundist einhvert frjálsræði í því að Þórarinn eldri bróðir minn var ekki heima til að hafa vit fyrir mér. 

Allavega tókst mér einhvern vegin að koma mér í gegnum girðinguna sem lá rétt við húsið heima. Þetta var rammgerð lambheld girðing sem var á landamerkum Hulduhóla. Þegar ég var komin þar í gegn hef ég gengið þetta 300 til 400 metra og var þá komin í þennan akur sem var þarna í plógstrengum. Nú hefur ferðaþreytan verið farin að segja til sín í góða veðrinu og ég einfaldlega lagt mig þarna í sólskininu.

Það segir sig sjálft að þægilegast var að leggja sig ofan í plógfarinu þar sem það var aðgengilegt. Þá var skjól fyrir hafgolunni en sólin skein glatt á mann. Ég hef svo sofið þarna grunlaus í góðan tíma á meðan fjöldi fólks gerði dauðaleit að mér.

Svo þegar ég vakna loks er sólin að ganga til viðar og mér orðið hrollkalt. Þá hef ég einfaldlega gripðið til þess ráðs sem best hafði dugað hingað til ef manni leið illa og farið að  gráta. Og það brást ekki það bar árangur. Nú var það reyndar hvorki faðir minn eða móðir sem komu til bjargar heldur hann Viggó á Hulduhólum. . 

Ég var ekki lengi að jafna mig eftir þetta ferðalag og hlaut engan skaða af. Ég er ekki viss um að foreldrar mínir hafi verið eins fljót að jafna sig og þetta ferðalag mitt var meiri lífsreynsla fyrir þau en mig. 







 

08.01.2019 23:27

Pistill í Áveituna

Áveitan er fréttabréf sem Ungmennafélagið Þjótandi í Flóahreppi gefur út í hverjum mánuði. Áveitan fer inn á öll heimili í sveitarfélaginu og einnig til annarra sem þess óska. Ég fékk áskorun um að skrifa pistil í Áveituna. Ég sendi inn eftirfarandi pistil sem birtist nú í fyrsta tölubl. þess árs. 


Gleðilegt ár ágætu sveitungar og allir aðrir sem þetta lesa.

Nú eftir nokkrar vikur eru liðin 50 ár frá því að ég kom hingað í Flóann í fyrsta skipti. Það var, ef ég man rétt, á Öskudaginn 1969 að ég kom hingað í Kolsholt með föður mínum ásamt fleirum að skoða aðstæður. Í framhaldi af þeirri heimsókn var jörðin keypt  og við fluttum alkomin í austurbæinn í Kolsholti 15. maí 1969.

Síðan þá hef ég búið hér. Ýmislegt hefur breyst á þessu 50 árum og nú er ég að verða kominn á þann aldur, að ég hef áráttu fyrir því að rifja upp gamla tíma. Sumarið 1969 var bæði kalt og  votviðrasamt. Heyskapur gekk illa og heyfengur lélegur. Með þess tíma verkfærum og vélum var reynt að ná heyjum langt fram á haust.

Um haustið byrjaði ég svo í Villingaholtsskóla. Skólastjórinn og eini kennarinn var hann Teddi (Theodór Kristjánsson). Teddi sá einnig um skólaaksturinn að hluta á  móti Kristjáni í Forsæti (Kristján Gestsson). Það var bara ein skólastofa í skólanum og nemendur voru rúmlega 20. Þá voru 6 árgangar í skólanum sem skiptust í eldri og yngri deild.

Ég og Þórarinn bróðir minn vorum í eldri deild. Við vorum í skólanum á mánudögum, miðvikudögum og föstudögum. Systur okkar þær EllaVeiga og Alda voru í yngri deild á þriðjudögum og fimmtudögum.

Skólaskyldan var á þessum árum 8 ár. Nýbyrjað var að keyra elstu árgangana í Gangfræðaskólann á Selfossi til að ljúka sinni skólaskyldu. Í framhaldi af því var þá einnig möguleiki á að bæta við sig tveimur árum í skólanum og taka það sem þá hét gagnfræðapróf eða einu ári og taka s.k. landspóf og komast þá beint í Menntaskóla. En það gerðu nú bara þeir allra gáfuðustu sem ætluðu svo að taka stúdentspróf.

Síðan þá hefur ýmislegt breyst. Heyskapinn er hægt að taka á örfáum dögum, jafnvel í óþurrka sumrum eins og síðasta sumar var. Nemendur í skólanum eru nú á annað hundrað og allur grunnskólinn er í sveitinni, alls 10 árgangar.

Ég hef verið svo heppin að hafa getað fylst með hvernig þetta samfélag hefur hægt og bítandi þróast. Ég upplifi þetta sem viðstöðulausa þróun án mikilla umskipta eða kollsteypna. Þjóðfélagið allt hefur tekið miklum breytingum á þessari hálfu öld með aukinni tækni og velsæld. Íbúar í Flóanum hafa að mínu mati verið nokkuð virkir í mótun samfélagins hér.

Eins og um marga sveitunga mína var ég virkur félagi í Ungmennafélaginu starx á unglingsaldri. Ungmennfélögin hér í sveit hafa til langs tíma verið mjög virk og verið áhrifavaldar í samfélaginu. Það sama má reyndar segja um flest félög sem hér starfa s.s. kvenfélög, búnaðarfélg, og fl. félög.

Mér persónulega finnst það hafa verið forréttindi að fá koma að þessu. Mér finnst ég hafa verið þáttakandi í þessu ferli nánast alla tíð. Fyrst sem félagsmaður og svo stjórnarmaður í ungmennafélaginu og síðan einnig búnaðarfélaginu. Einnig sem almennur íbúi og svo sem sveitastjórnarmaður um tíma.

Þetta samfélag hér í sveit er gott og mestu verðmæti þess eru virkt mannlíf sem hefur haft áhuga á samfélaginu og þróun þess. Ég bind vonir við að svo verði áfram um ókomna tíð. Til þess að svo verði þurfum við að halda áfram að nenna að taka virkan þátt í þessu með einum eða öðrum þætti.

Nú er árið 2018 runnið sitt skeið og árið 2019 tekið við. Ég óska sveitungum mínum öllum gæfu og gengis á þessu nýja ári og þakka allt samstarf og alla samferð liðinna ára. Ég veit að hjá okkur öllum skiptast á skin og skúrir á lífsins leið. Það er svipað og veðurfarið er hér í Flóanum.

Á undanförnum misserum finnst mér eins og óvenjulega mikið af alvarlegum veikindum hafi komið upp hér í sveit. Nokkrar fjölskyldur hafa skyndilega þurft að horfast í augu við gerbreyttan veruleika og að takast á við krefjandi verkefni vegna mjög alvarlegra veikinda sem upp hafa komið.

Þessum sveitungum mínum sendi ég sérstakar nýárskveðjur. Bæði þeim sem glíma við veikindin og fjölskydum þeirra. Ég á enga ósk heitari en öllu þessu fólki vegni vel á nýju ári.

Að lokum vil ég skora á núverandi húsfreyjuna í Gamla bænum í Kolsholti að skrifa næsta pistil. Bænum sem ég flutti í fyrir 50 árum. En það er hún dóttir mín Erla Björg Aðalsteinsdóttir.

 

 


20.12.2018 21:12

Að vera í góðu formi

Ég hef þá sannfæringu að það besta sem ég get gert varðandi sjálfan mig er að halda mér í góðu formi. Eftir að ég greindist með Parkinsonveiki fyrir nú að verða fjórum árum hefur maður verið að velta fyrir sér hvernig maður tekst á við slíkt verkefni. 

Í dag er Parkinsonveiki ólæknandi sjúkdómur sem í flestum tilfellum herðir tökin smátt og smátt eftir því sem maður eldist. Það er því ekki um það að ræða núna, hvað sem síðar kann að verða, að ráðast til atlögu við sjúkdóminn og ætla sér að ná fullum bata. Verkefnið er halda sem mestum lífsgæðum sem lengst með Parkinson. Það er líka mikilvægt að vera vel á sig kominn ef/þegar lækning finnst. emoticon

Haustið 2016 var ég á Reykjalundi í sérstöku prógrammi fyrir fólk með Parkinsonveiki. Þá var ég búinn að vera á Parkinson lyfjum í rúmlega eitt ár og var orðinn nokkuð laus við verkina sem hráðu mig áður. Ég gat hreyft mig orðið skammlaust fannst mér en mér fannst ég samt ekki maður til nokkurra verka, bæði klaufskur og seinn.

Á Reykjalundi fór maður í nokkuð stíft prógram í umsjón hjá sjúkraþjálfurum og iðjuþjálfum, talmeinafræðingum, hjúkrunarfræðingum, sálfræðingum og læknum. Ég var ekki búinn að vera  í þessu í marga daga þegar ég fann hverrsu áragursríkt þetta var. 

Strax í annarri vikunni var ég farinn að hlaupa upp stigana sem ég þorði varla að fara, hvorki upp né niður, án þess að styðja mig við handriðið. Mér finnst þessi dvöl mín á Reykjalundi vera frelsun sem sannaði fyrir mér hvað mikilvægt það er að stunda markvissa líkamsrækt.  

Ég lít nú á það sem aðalatriðið í meðferðinni við Parkinson að stunda líkamsrækt. Lyfin sem ég tek eru nauðynleg til að geta hreyft sig en ein og sér eru þau enganvegin fullnægandi.

Svo er annað mál hvernig manni gengur að stunda þessa hreyfingu og æfingar sem gera þarf. Þar reynir á staðfestu og einbeitingu hjá manni. Verð að viðurkenna að þetta getur nú gengið misjafnlega en það er allveg ljóst að þetta gerist ekki að sjálfu sér. Maður þarf að gefa sér tíma í þetta og eins og í mínu tilfelli að setja það í forgang fram yfir flest annað.

Ég kynntist því á Reykjalundi að fara í vatnsleikfimi og fann srax að það henntaði mér vel. Nú eru komin tvö ár síðan ég byrjaði í slíkri leikfimi hér á Selfossi og það gagnast mér mjög vel. Sérstaklega á veturnar þegar kalt er, en kuldinn getur sundum verið mér erfiður. En ég get þá alltaf hreyft mig í volgu vatninu í sundlauginni. Það er líka frábært að fara í saunu og/eða heitupottana bæði fyrir og á eftir.

Nú um daginn settist ég inn í saunuklefan eftir tíma í vatnsleikfiinni. Það voru nokkuð margir í klefanum í þetta skipti. Við þessar aðstæður kemst maður ekki hjá því að heyra tal manna í kringum mann. Jafnvel þó um tvegga manna tal sé að ræða.

Inni í klefanum voru m.a. tveir menn sem tóku til við að ræða saman: 

Maður 1: Jæja ertu búinn að kaupa jólagjöf handa konunni.

Maður 2: Neeei, ég er nú ekki búinn að því.

Maður 1: Hvað er þetta maður, þú verður að fara að drífa í því.

Maður 2: Jaaá finnst þér það.
 
Maður 1: Já að sjálfsögðu, þú verður að gefa konunnni einhverja jólagjöf.

Maður 2: Já það er líklega bara rétt hjá þér.  Kannski ætti ég bara að gera það

Maður 1: Ekki spurning maður þú verður að drífa í því að kaupa gjöf handa henni. Það eru ekki nema örfáir dagar til jóla.

Nú var þögn smá stund í saunaklefanum, en þá heyrist:

Maður 2: Heyrðu! ég þekki konuna þína bara svo lítið, en veistu nokkuð hvað hana langar í..... í jólagjöf?  emoticon  

Bestu jóla og nýárskveðjur úr Flóanum.
 

27.11.2018 15:15

Allur er varinn góður.

Hann Hrafnkell Hilmar sonarsonur minn er nokkuð sjáfstæður í skoðunum. Það vefst alls ekki fyrir honum að rökstyðja sínar skoðanir, ef eftir því er leitað. Hann á það til að draga bísna skynsamlegar álitkanir af því sem hann er að brjóta heilann um hverju sinni. 

Fyrir nokkrum árum sagði frá því hér á síðunni þegar hann taldi sig vera u.þ.b.að ráða gátuna um jólasveininn. Gleðileg jól () Nú er hann orðinn eldri og veltir fyrir sér stærri viðfangsefnum og lífsgátum.  

Hann er nú nýfarinn að æfa fótbolta eins og eldri bróðir sinn. S.l. sunnudag var hann að mæta á sitt fyrsta fótboltamót og í forföllum foreldra hans fékk ég þann heiður að fylgja honum á mótið. Við lögðum af stað kl 8:00 um morguninn og ferðinni var heitið út í Hveragerði þar sem mótið fór fram. 

Við vorum að spjalla saman á leiðinni. Það var náttúrulega ennþá myrkur enda sammdegið að ná hámarki í þessum heimshluta núna. Það var þá bót í máli að tunglsljós var og stjörnubjart og hið besta veður. Við virtum fyrir okkur stjörnubjartan himininn.

Hrafnkell spurði mig hvort ég héldi að stjörnurnar á himnum væru litlar sólir. Ég taldi það gæti alllveg verið að stjörnurnar væru sólir og kannski ekki endilega litlar þær væru bara svo langt í burtu. Þess vegna virtust þær svona litlar. 
" Nei " sagði hann " það eru ekki allar stjörnur sólir".
" Nú" sagði ég " Hvaða stjörnur eru ekki sólir " 
" Ekki Júpíter ". Maður kom ekki að tómum kofanum hjá honum
 
Þá fór Hrafnkell að segja mér það að hann hafi séð stjörnuhrap um daginn. Og þetta var ekki í fyrsta sinn sem hann sá stjörnuhrap. Hann hafi séð það áður. Hann sagði mér líka að ég skyldi ekki trúa því að maður gæti óskað sér þegar maður sæi stjörnuhrap. 
" Nú " sagði ég " Er það þá bara vitleysa og hvernig veist þú það"
"Jú sko " sagði hann. " Það hafa  nánast allir séð stjörnuhrap að minnsta kosti einu sinni og sumir oft.  Ef það væri hægt að óska sér í hvert sinn þá ættu allir allt og gætu gert allt sem þá langar til. Það er ekki þannig. Þess vegna er það bara að skrökva þegar maður segir að það sé hægt að óska sér ".

Mér fannst þetta nú ekki óskynsamleg ályktun hjá honum svo ég sagði: 
"Þetta er nú sennilega bara rétta hjá þér Hranfkell minn. Það er líklega best að vera ekki að treysta um of á það að geta óskað sér".

Eins og allir góðir vísindamenn veit Hrafkell að enginn sannleikur er svo sannur að ekki geti verið að einhvern tíman seinna megi með nýjum upplýsingum afsanna það sem áður var talið sannað. Hann er alltaf tilbúinn að endurskoða eigin álitkannir ef honum finnst rök standa til þess

Eftir dálítil þögn í smástund hjá okkur í bílnum bætir hann við: 
" Ég óskaði mér bara til öryggis" 



20.10.2018 22:49

Að byggja upp eina jörð. (....eða tvær)

Afi minn (Þórarinn Auðunsson f.15 maí 1892 - d.24 júní 1957) afrekaði það á sinni lífsleið að byggja upp allan húsakost á tveimur jörðum um sína æfi. Fyrst þegar hann og amma mín (Elín G. Sveinsdóttir  f. 7 júlí 1898 - d.29 des 1993)  byrja sinn búskap saman árið 1921. Þá kaupa þau jörðina Fagurhlíð í Landbroti af eldri bróður afa. Afi er þá 29 ára gamall en amma 23 ára. 

Þau hefjast þegar handa við að endur nýja allan húsakost á jörðinni og byggja þar upp af miklum metnaði. Staðsetning og hönnun bygginganna taka m.a. mið af því að bæjarlæknum var veitt undir íbúðarhúsið og í kjallaranum var túrbína og rafstöð sem sá bænum fyrir rafmagni. Þetta er löngu áður en allment var farið að raflýsa sveitabæi á Íslandi og aðeins örfáir bæir þá sem höfðu rafstöð.

Eftir að hafa búið í Fagurhlíð í 18 ár taka þau svo þá ákvörðun að selja og flytja suður. Þessi ákvörðun var m.a. tekin vegna vanheilsu afa míns en hann var allt frá unglingsárum mjög magaveikur. Það hafði komið fyrir að hann var á sjúkrahúsi með blæðandi magasár vikum saman.

Einnig getur hafa spilað inn í að börn þeirra voru nú komin á unglingsár og áhugi var hjá þeim að komast til menntunnar. Upphaflega var hugmyndin að komast yfir einhvert jarðnæði á Laugarvatni og byggja þar. Afi er þar starfandi rafmagnseftirlitsmaður veturinn 1939-1940 en amma er fyrir austan . Ekki gengur það eftir að þau geti byggt yfir sig á Laugarvatni. Þau fara þá frá Fagurhlíð og flytja suður í Mosfellssveit þar sem þeim býðst jörðin Skeggjastaðir til leigu.

Í Mosfellssveit kemur upp sú umræða, á þessum árum, að stofna nokkur nýbýli á jarðeignum Thors Jenssonar þegar sveitarfélagð fær forkaupsrétt að þessu landi. Afi og amma sækja nú um ábúð á einu þessarra nýbýla og það er árið 1945 sem þau fá svo þetta land til ábúðar og stofna nýbýlið "Lágahlíð" Afi er þá orðinn 53 ára en amma 47 ára . Nú er tekið til við að byggja allt frá grunni. 

Faðir minn Sveinn Þórarinsson f. 6. sept. 1931 d. 11. nóv 2013 (langi) () hafði mikinn áhuga á að halda minningu afa míns á lofti og tók saman heimikla greinagerð um æfi og störf afa og ömmu. Þessa greinagerð er hægt að lesa hér á síðunni  Safn heimilda um æfi og störf Þórarins Auðunssonar 

En hann pabbi gerði meira. Hann smíðaði líkan að allri húsaskipan á báðum þessum jörðum sem afi byggði upp. Þessi líkön voru að mestu smíðuð veturinn 2011-2012 og voru til sýnist á ættarmóti afkomenda afa og ömmu hér í Flóanum vorið 2012. Skemmtilegt ættarmót (). Þetta eru ótúlega vel gerð og nákvæm líkön þar sem öll hús eru í nákvæmlega réttum hlutföllum og allt innra skipulag, herbergjaskipan og innréttingar í útihúsum koma fram. 

Síðan þá hafa þau verið hér i geymslu. Nú hef ég komið upp aðstöðu hér á hesthúsloftinu til þess að geyma þau á aðgengilegum stað þannig að hægt er að skoða þau. Ef einhver hefur áhuga á því get ég sýnt fólki sem kemur hingað þau. Hér eru líka myndir ef þeim sem ég tók áðan.
















25.09.2018 08:46

Bæjarnöfn og götuheiti

" Landslag yrði lítilsvirði ef það héti ekki neitt " segir í kvæði sem ég lærði í barnaskóla. Það eru reyndar ekki allir í dag, sem gera sér grein fyrir gagnsemi þeirra árátta að vera gefa öllum kennileitum, stórum sem smáum nafn hér áður fyrr. Ég hef reyndar áður minnst á þetta hér á þessari vefsíðu. Örnefni () 

Það átta sig nú samt flestir á gagnsemi þess að heimilsföng séu með einhverju móti skilgreind. Þannig hefur það alltaf verið og því hafa bæir allaf haft einhver nöfn. Sum bæjarnöfn á Íslandi eru bísna algeng og getur það valdið misskilningi og ruglingi. Ábyggilega meira í dag en hér áður fyrr þegar samgangur var minni milli sveita og fyrir sameiningu hreppa.

Þegar Flóahreppur varð til vorið 2006 með sameiningu þriggja sveitarfélaga í Flóanum í eitt sveitarfélag kom upp sú staða að þrír bæir í hinu nýja sveitarfélagi bera sama nafn. Bæjarnafnið Krókur var nefnilega til í öllum gömlu hreppunum.

Ég fór um Vestfirði í sumar og eins og alltaf þegar ég fer þar um vekur það eftirtekt hvað sömu bæjarnöfin kom þar fyrir oft. Mér finnst eins og bærinn Botn sé þar í botni festra fjarðra og bærinn Eyri sé svo þar einhverstaðar líka. Kirkjuból er í flestum dölum þar vestra lika.

Bæjarnafni Kolsholt er ekki svo algengt og veit ég ekki til þess að það hafi nokkurstaðar verið til nema hér í Flóanum. Hitt vissi ég ekki heldur, en rakst á nú fyrir tilviljun, að Kolsholt var til sem götuheiti í Reykjavík á tímabili.

Í byrjun ágúst 1943 birtust fréttir í dagblöðum um nýsamþykkt götuheiti í Rauðarárholti, Norðurmýri og Langholt i Reykjavík. Götur í Rauðarárholti voru kenndar við -holt en -hlíð í Norðurmýri. Þarna fengu götur eins og Skipholt og Brautarholt nafn. Einnig var tilkynnt um götuheiti sem ég held að séu ekki til í dag eins og Hörgsholt,Vallholt, Stúfholt og Kolsholt. 

Þessi úrklippa af korti af skipulagi í Reykjavík frá 1947 sýnir hvar gatan Kolsholt var fyrirhuguð.(frekar óskírt)


Ef ég skil þetta kort rétt þá hefur gatan Kolsholt á að koma rétt vestan við núverandi gatnamót Kringumýrarbrautar og Suðurlandbrautar/Laugarvegar, u. þ. b. þar sem gata Bolholt er nú. 

Samkvæmt dagblöðunum frá 1943 átti gatan Stúfholti að liggja á milli Suðurlandsbrautar (Laugarvegar) og Skipholts. Kolsholt átti svo að koma hornrétt frá Stúfholti til austur.

Samkvæmt þessu korti sem er með ártalið 1947 nær Skipholtið ekki enn svo langt austur. (Íþrótttasvæði) Stúfholt og Kolsholt eru aftur á móti þarna á kortinu. Gatan Kolsholt liggur frá Stúfholti yfir Kringumýrarveg eins og hann er á kortinu og að ómerktum vegi (brotalína) sem liggur
á sama stað og núvrandi Kringumýrarbraut. 

Ég hef ekki hugmynd um það hvort þessar götur voru einhvern tíman byggðar eða verið til nema á skipulagi. Allavega eru þær ekki til í dag og nú flokkast þetta bara sem einskins nýtur fróðleikur.





30.08.2018 21:30

Parkinson og heilbrigðiskerfið.

Talið er að hér á landi séu á milli 700 og 800 einstaklingar sem eru með Parkinsonveiki. Parkinsonveiki er annar algengasti taugasjúkdómurinn og kemur næst á eftir Alzheimer. Parkinson telst vera, eins og aðrir taugasjúkdómar, ólæknandi, en þrátt fyrir það er ýmislegt hægt að gera til þess að bæta líðan og auka lífsgæði og vikni þeirra sem glíma við sjúkdóminn. Parkinsonveiki lýsir sér með mjög fjölbreittum hætti hjá einstaklingum og þróast misjafnlega áfram hjá hverjum og einum. Í flestum tilfellum herðir þó sjúkdómurinn hægt og bítandi tökin eftir því sem einstklingurinn eldist.

 

Aðalega er notast við lyfjameðferð til að vinna gegn einkennum sjúkdómsins. Það er um mikla jafnvægiskúnst að ræða til að finna út réttan lyfjaskammt hjá hverjum og einum. Síflellt þarf að stilla af lyfjaskammta af mikilli nákvæmni til að ná árangi. Flestir eru sammála um að með lyfjameðferðinni er nausynlegt að stunda bæði hreyfingu og þjálfun ýmiskonar. Þar á ég við t.d. iðjuþjálfun, talþjálfun, styrktarþjálfun, þolþjálfun, jafnvægisþjálfun og þálfun hugans svo eitthvað sé nefnt.  Parkinsonveiki getur haft áhrif á alla líkamsstrafsemi og því þarf að huga vel að málum eins og mataræði., svefni, og andlegri líðan. Þetta getur því verið ansi flókið verkefni að glíma við og nauðsynlegt fyrir þá sem sjúkdóminn bera að vera í góðum samskiptum við fagfólk á þessu sviði og að læknir hafi yfirsýn með sjúklingum um hvernig sjúkdómurinn þróast hjá hverjum og einum.

 

Það verður að segjast eins og er að þessi glíma gengur misjafnlega hjá fólki. Mörgum parkinsonssjúklingum hefur gengið erfiðlega að fá þá sérfræðiaðstoð sem til þarf.  Í fyrsta lagi að greina sjúkdóminn sem fyrst og síðan til þess að leiða sig áfram í baráttu við sjúkdóminn. Hætt er við og ég er nokkuð viss um að vegna þessa tapi margir sem þennan sjúkdóm bera bæði færni og vikni í samfélaginu fyrr en ella og sitji uppi með veruleg skert lífsgæði sem ekki hefði þuft að vera.

 

Um langt árabil hefur verið hér landi skortur á sérfræðilæknum í taugasjúkdómum. Erfiðlega hefur gengið að fá tíma hjá taugalæknum og alls staðar hefur verið um langa biðlista að ræða. Þegar minn heimilslæknir fyrir rúmum 4 árum vildi senda mig til sérfræðings í taugasjúkdómum varaði hann mig við að það væri engan veginn víst að það tækist að finna slíkan sérfræðing fyrir mig. Sex mánuðum seinna gat ég fengið bókaðan tíma eftir 4 mánuði. Alls voru þetta því 10 mánuðir sem ég beið eftir því að komast að.

 

Á tímabili var þróunin sú að taugasjúkdómalæknum fór fækkandi sem hér á landi starfa og meðalaldur þeirra jókst þar sem engir nýir og yngri komu til starfa. Á sama tíma hefur m.a. með auknum aldri þjóðarinnar parkinsonsjúklingum farið fjölgandi. Það hefur komið fram hjá sumum starfandi taugalæknum á undanförnum misserum að álag sé alltaf mikið og komi beinlýnist í veg fyrir að þeir geti sinnt sínum sjúklingum með afgerandi hætti. Það hefur einnig komið fram að m.a. vegna þess hvað starfandi sérfræðilæknar eru fáir hér á landi hefur ekki verið hægt að bjóða upp á t.d. meðferðir við Parkinson eins og meðferð með DBS og Duodopa

 

Sú skýring sem helst hefur verið uppi á þessu ástandi er að ekki fáist fólk til starfa hér á landi á þessu sviði. Það hefði því ef til vill verið fyllilega ástæða til þess fyrir íslensk heilbrigðisyfirvöld og reyna að gera eitthvað til þess að lagða hingað til lands hæft fólk á þessu svið. Nú bregður hinsvegar svo við allt í einu að hingað til lands vilja koma taugasjúkdómalæknar til að starfa. Fleiri en einn og fleiri en tveir. Þetta er fólk með mikla menntun og einnig reynslu m.a. á sviði parkinsonveiki.

 

Þá eru það undarleg viðbrögð og lýsir ótrúlega miklu skilningsleysi á aðstöðu þeirra sem eru að fást við daglegt líf með parkinsonveiki þegar stjórnvöld reyna að koma í veg fyrir að allir landsmenn hafi tækifæri á að njóta starfskrafta þessa lækna. Loksins þegar það virðist eitthvað vera að lagast ástandið og nýjir taugalæknar vilja koma og starfa hér er þeim meinaður aðgangur að rammsamningi sérfræðilækna við Sjúkratryggingar Íslands. Sem þíðir að þeir sjúklingar sem til þeirra leita,  njóta engra niðurgreiðslna á kostnaði við þá læknisþjónustu sem þeir fá hjá viðkomandi lækni.

 

Nú hefur Héraðdómur Reykjavíkur komist að þeirri niðurstöðu að sú ákvörðun heilbrigðisráðherra að neita einstökum sérfræðilæknum um aðkomu að samningi við  Sjúkratryggingar Íslands sé ólögmæt. Þetta er reyndar ástand sem varað hefur í mörg ár og í embættistíð þriggja ráðherra. Það er ótrúlaga mikið ráðaleysi hjá stjórnvöldum að þurfa að brjóta á rétti sjúklinga með ólögmætum hætti þegar taka á til heilbrigiskerfinu.


21.07.2018 23:22

Draugurinn í endhúsinu

Ég hef aldrei verið neitt sérstaklega trúaður á tilvist drauga og aldrei nokkurn tíman verið draughræddur. Ég hef samt heldur aldrei fullyrt að draugar væru ekki til og mér dettur ekki í hug allar sögur um reimleika ýmiskonar væru tóm lygi. Það er margt í veröldinni sem ég get ekki skýrt og ég er að sjálfu sér ekkert ósáttur við það.

Ég hef lesið frásagnir um allslags drauga og draugagang ýmiskonar en aldrei orðið var við neitt slíkt sjálfur. En nú um daginn gerðust þeir atburðir hér í eldhúsinu að mér varð verulega brugðið. Ég var staddur einn í eldhúsinu. Ég var nýbúinn að gefa tveimur barnabörnum mínum að drekka en þau koma hér oft með mér inn á daginn.

Börnin voru farin út aftur og ég var nýbúínn að taka af borðinu. Ég stend við eldavélini og er að hlusta á fjögurfréttir í útvarpinu. Þá allt í einu tekst barnastóllinn sem stóð við endan á eldhúsborðinu á loft. Þetta er svona gamall barnastóll úr plasti, ég held að þeir hafi gengið undir nafninu "hókuspókus" stólar.

Stóllinn lyftist svona fet frá gólfinu og skellur niður aftur með miklum hávaða. Síðan slæst hann til, bæði hægri og vinstri og tekur síðan á rás út úr eldhúsinu fram í þvottarhús. Lemur dyrastafina í dyragættinni með tilheyrandi hávaða. Hann heldur áfram í loftköstum og stoppar ekki fyrr en fram við bakdyrnar á húsinu.

Mér varð verulega brugðið. Þessu fylgi heilmikill hávaði og læti og ég átti mér einskis ills von. Ég fór samt í humátt á eftir stólnum til athuga hvernig þessu myndi lykta. Ég neita því ekki að hjatslátturinn hafði heldur aukist og ég vissi varla orðið á hverju ég ætti von á næst.

Nú  rifjuðust upp í huga mér frásagnir af reimleikum, þar sem húsgögn og borðbúnaður veltast um og flúga í loftköstum, jafnvel millli herberga. Ég fór því nokkuð hikandi á eftir stólnum. Ég vissi engan vegin hvernig maður tekst á við svona fyribæri.

Þegar ég kom í þvottarhúsdyrnar sá ég reyndar hvernig í öllum þessum ósköpum lá. Fram við bakdyraútganginn lá stóllinn á hliðinni og við hliðina á honum lá tíkin okkar hún Spenna með hausinn fastann í gati á hliðinni á stólnum.

Sú regla gildir hér innahúss að Spenna fær að vera í þvottarhúsinu. Þar er hennar bæli og þar er henni gefið. Lengra ínn í íbúðarhúsin fær hún ekki að fara og það veit hún vel. Þegar við erum inni þá er yfirleitt haft opið fram úr eldhúsinu inn í þvóttarhúsið. Tíkin fer ekki inn fyrir en liggur gjarnan við þröskuldinn og fylgist með þegar verið er í eldhúsinu.

Svo gerist það stundum, sérstaklega þegar yngstu afkomemdur mínir eru hér, að það dettur einn og einn biti af borðinu niður á gólfið. Þá getur verið nokkuð freistandi fyrir Spennu að læðast inn og ná sér í aukabita. Hún veit sem er að ég er ekki neitt sérstaklega athugull að fylgjast með henni og að ég heyri illa.

Hún myndi aldrei láta sér detta það í hug að reyna slíkt ef Kolbrún væri inni, en nú vissi hún að ég var einn í húsinu. Hún hafði komið auga á kökubita undir barnastólnum. Stóllinn var akkúrat í beinni sjónlínu á milli mín, þar sem ég stóð og var að hlusta á útvarpið og Spennu þar sem hún lá við þröskuldinn. Við sáum því ekki hvort annað þar sem barnstóllinn var á milli.

Þetta var nú einum of freistandi og því stóð hún hljóðlega upp og læddist að barnastólnum, smeygði hausnum inn um gatið á hliðina á stólum og náði sér í kökubitann. En þegar hún ætlaði að fara með hausunn til baka stóð hann fastur í stólnum. Í örvæntingu spyrnti hún við fótum og ætlaði að rykkja sig lausa með því að sökkva aftur á bak, en stólinn kom bara með, með fyrrgreindum afleiðingum.  

Okkur var því báðum illa brugðið. Þar sem hún lá við bakdyrnar enn með hausinn í stólnum var hún búinn að átta sig á að hún gat ekki logið sig frá þessu. Hún beið bara róleg á meðan ég losaði hana. Það gekk bara vel. 

Við erum bæði búin að jafna okkur eftir þessa lífsreynslu..  emoticon  

29.06.2018 20:26

Fótboltasumar/rigningasumar

Ég hef aldrei haft mikinn áhuga á að horfa á fótboltaleiki í sjónvarpinu. Ég reyndar horfi yfirleitt ekki á íþróttir í sjónvarpi og hef aldrei gert. Ég er samt áhugamaður um íþróttir og er sannfærður um gildi þeirra. Ég fer heldur ekki á fótboltaleiki og ég á mér ekkert uppáhaldslið, hvorki hér á landi eða annarsstaðar í heiminum.

Arnór Leví sonarsonur minn er hinsvegar mikill áhugamaður um fótbolta. Hann æfir og spilar fótbolta með félögunum sínum á Selfossi. Hann getur spilað fótbolta einn með sjálfum sér  tímunum saman. Hann heldur með einhverjum liðum í flestum sterkustu deildum heims. Og hann þekkir með nafni fjölda leikmanna viðsvegar um heiminn.

Nú í sumar fara saman miklar rigningar hér sunnanlands og mikil umfjöllum um fótbolta. Þar kemur til þátttaka Íslenska landsliðsins á HM í Rússlandi. Og nú bregur svo við að ég er farinn að horfa á fótboltaleiki í sjónvarpinu. Ég hef meira að segja farið á völlinn að horfa á landsleik og nú er fyrirhugað að mæta á fjölmennt fótboltamót sem reyndar er haldið á Akureyri en ekki Rússlandi og stendur í fjóra daga.

Ástæður þessa sinnaskipta hjá mér eru ekki bara að ég nenni ekki út í rigninguna og horfi því bara á sjónvarpið alla daga. Atburðarásin var hinsvegar þessi.

Í vor gerðu Parinsonssamtökin þar sem ég er í stjórn og Knattspyrnusamband Íslands með sér samstarfssamning. Parkinsonsamtökunum gefst þar tækifæri að nýta sér þá miklu athygli sem Íslensk knattspyrna fær með þáttöku í lokakeppni HM. Samtökin nota þetta tækifæri til þess að vekja athygli á sjúkdómnum og eðli hans og einnig til þess að safna fé sem nýta á til þess að koma á laggirnar sérstöku Parkinsonsetri hér á landi.

Í upphafi síðasta landsleik karlalandsliðsins hér á landi, áður en liðið hélt til Rússlands á HM, var tækifærið notað til að vekja athygli á þessu. Ég var því mættur þarna á minn fyrsta landsleik og ég tók að sjálfsögðu Arnór sonarson minn með mér sem perónulegan sérfræðing í fótbolta. Þetta var reyndar hans fyrsti landsleikur líka en hann var ekki í nokkrum vafa hvernig menn haga sér á samkomum sem þessum. Við skemmtum okkur prýðilega báðum, þó leikurinn hafi reyndar tapast.

Þegar HM hófst svo í Rússlandi fylgdumst við báðir grant með. Arnór var óþreytandi að upplýsa mig um hinar ýmsu fótboltastjörnur og þeir voru ófáir leikirnir sem við horfðum á, að hluta til að minnsta kosti.

Nú í byrjun Júli er svo N1 mótið á Akureyri þar sem Arnór sjálfur ætlar að keppa. Pabbi hans ætlaði að fylgja honum þangað en vegna óþurrkanna í sumar er heyskapur ekki langt kominn hér á bæ. Í venjulegu árferði væri honum löngu lokið. Nú stefnir allt í að þessa daga sem mótið á Akureyri fer fram geti viðrað til heyskapar hér sunnanlands.

Það hefur því orðið að samkomulagi, til að þessir heyskapardagar nýtist nú vel, að ég fylgi sonarsyninum á fótboltamótið til Akureyrar en pabbi hans taki vaktina heima og reyni að ná sem mestum heyjum ef færi gefst.

Þannig að þetta rigningarsumar er sannkallað fótboltasumar hjá okkur Arnóri. VIð ætlum að skemmta okkur vel á Akureyri og njóta þess að eiga þessar stundir saman.  emoticon


22.04.2018 21:31

Vestfjaðraferð

Nú í sumar eru 20 ár síðan Búnaðarfélag Villingaholtshrepps gekst fyrir kynnis - og skemmtilferð um Vestfirði. Um fjögurra daga ferðlag var að ræða dagana 18, 19, 20 og 21 júní. 1998. 32 þátttekendur voru í þessari ferð og var held ég flestum ógeymanleg.

Á þessum tíma vorum við saman í stjórn búnaðafélagsins Óli á Hurðarbaki sem var formaður, Guðsteinn á Egilssstöum og ég. Aðdragandi og undirbúningur var nokkuð langur en upphafið má rekja til aðalfundar í apríl 1996. Þar var samþykkt að stefna að ferð um Vestfirði sumarið 1997.

Þegar við í stjórninu fórum svo að vinna að undirbúningi kom í ljós að þetta sumar hentaði ekki. Það voru einhverjir aðrir viðburðir þarna sumarið 1997 sem við töldum myndi draga úr þátttöku og því var ákveðið á aðalfundi um vorið að fresta þssari ferð um eitt ár. 

Við skiplagningu ferðarinnar var haft að leiðarljósi að nýta tíman vel. Markmið var að sjá sem mest,  og hitta heimafólk og heyra sem mest um sögu og lífsbaráttu fólks á svæðinu. Án þess þó að þurfa að spana um. Miklvægt væri líka að gefa sér tíma og njóta.

Í morgunsólinni í Stykkishólmi. Bílaferjan Baldur í höfninni 

Lagt var af stað í rútu héðan úr Flóanum kl 5:00 að morgni. Stefnan var tekin í Stykkishólm. Við áttum pantað far með morgunferð Baldurs yfir Breiðafjörð. Um borð í Baldur vorum við komin með rútuna kl 9:00 og sigldum yfir spegilsléttan Breiðafjörðin í glaða sólskíni. Það var létt yfir mannskapnum um borð og eftir 3 tíma vorum við komin að Brjánslæk.

Um borð í Baldri á leið yfir Breiðafjörð

Þar kom í rútuna til okkar Ragnar á Brjánslæk ( Ragnar Guðmundsson  f.1935  d.2014 ) og var hann með okkur sem fararstjóri það sem eftir var dags og fram á næsta. Ragnar var skemmtilegur og sagði okkur frá öllu því sem fyrir augu okkar bar. Hann sagði okkur líka sögur af fólkinu sem þarna býr eða hefur búið í aldana rás.

Í kvöldsólinni á Látrabjargi

Við keyrðum um Barðastönd, komum m.a. á Rauðasand, stoppuðum á Hnjóti, komum í Breiðuvík og fórum út á Látrabjarg. Um nóttina var svo gist í Breiðuvík. Morguninn eftir var ferðinni haldið áfram. Komið var á Patreksfjörð, Tálknafjörð og Bíldudal og svo áfram vestur. Þegar komið var upp á Dynjandisheiði kvaddi Ragnar á Brjánslæk okkur og Bergur Torfason, sem þá bjó orðið á Þingeyri, kom í rútuna og tók við sem fararstjóri. Bergur var áður bóndi á Felli í Dýrafirði. Hann fylgdi okkur til Ísafjarðar.

Áð í Arnarfirði.

Stoppað var m.a.við fossin Dynjandi og á Hrafseyri. Þegar komið var í Dýrafjörð var farið að Núpi og stoppað þar. Þar bauð Búnaðarsamband Vestfjarðra hópnum í kaffi. Forsvarmenn Búnaðarsambandsins mættu þar ásamt nokkrum bændum úr Dýrafirði og spjölluðu við okkur. Einnig hittum við þar bráðfjöruga harmonikkuleikara sem voru með landsmót þar á staðum.


Kominn vestur að Núpi. Garðurinn Skrúður

Síðan var ferðinni haldið áfram og m.a. komið á Flateyri og svo Ísafjörð. Á Ísafirði var svo gist næstu nótt. En áður en lagst var til svefns gerðu menn sér glaðan dag í söng með Vestfirðingum.

Í Ósvör 

Morguninn eftir var byrjað á að fara út til Bolungarvíkur og m.a.stoppað í Ósvör. Þar vorum við uppfrædd um útgerð fyrri ára og alda.


Á leið út í Vigur með Hrefnu-Konna

Þá var ekið til Súðavíkur og þar farið um borð hjá Hrefnu-Konna sem sigldi svo með okkur út í Vigur. Þar var stoppa góða stund og gengið um eyna. Krían var aðgangshörð en Æðarfuglinn var hin rólegasti og lét lítið trufla sig.


Vigur í Ísafjarðadjúpi

Eftir góða stund í Vigur var siglt í land styðstu leið að Ögri þar sem rútan okkar beið. Geir í Breiðholti tók nú við farastjórn og keyrt var inn Ísafjarðardjúp.

Búnaðarfélgasformaðurinn, organistinn og búnaðarfélagsritarinn velta fyrir sér hvernig best sé að standa að skógrækt í vestfirskum skógi.

Stoppað var m.a. við skógræktarreit í Mjóafirði þar sem við tókum okkur til og plöntuðum út skógarplöntum. Reikna ég með að þetta geti verið orðið nokkur skógur nú 20 árum seinna. Svo var stoppað í Skálavík þar sem Hjördís og Geir fyrrum ábúendur þar, en í þessari ferð bændur í Breiðholti í Flóa, buðu upp á veitingar.

Í sundlauginni í Reykjanesi

Þennan dag var svo endað í Reykjanesi þar sem gist var næstu nótt. Að sjálfsögðu nýttu menn sér sundlaugina í Reykjanesi áður en farið var að sofa.

Allur hópurinn ásamt bílstjóra í Reykjanesi áður en lagt var af stað heim á leið. Aftasta röð frá vinstri: Bjarki Reynisson Mjósyndi, Geir Baldursson Breiðholti, Hermundur  Þorsteinsson Egilsstaðakoti, Laufey Guðmundsdóttir Egilsstaðakoti og Sigurbjörg Hermundsdóttir Selfossi. Önnur röð frá vinstri: Sigurður Guðmundon Súluholti, Alda Hermansdóttir Hróarsholti, Tryggvi Gestsson Hróarsholti, Einar Hermundsson Egillsstaðakoti, Guðjón Gestsson Selfossi, Baldur I Sveinsson Litla-Ármóti, Ólafur Sigurjónsson Forsæti, Bergþóra Guðbergsdóttir Forsæti og Árni Guðmundsson Selfossi. Þriðja röð frá vintri: Guðrún Jónsdóttir Hraungerði, Guðmundur Stefánsson Hraungerði (fyrir aftan), Þórunn Kristjánsdóttir Vatnsenda, Kristín Stefánsdóttir Hurðarbaki, Ólafur Einrsson Hurðarbaki, Lena Eriksson Orustudal (seinna), Kolbrún Júlíusdóttir Kolsholti, Hjördís Þórðardóttir Breiðholti, Aðalsteinn Sveinsson Kolsholti og Rannveig Einardóttir Selfossi, Fremsta röð frá vinstri: Jóhann Guðmundsson Kolsholtshelli, Gyða Oddsdóttir kolsholtshelli (fyrir aftan), Elín Bj. Sveinsdóttir Egilsstaðakoti, Ingi Heiðmar Jónsson Selfossi, Valgerður Gestsdóttir Mjósyndi, Halla Magnúsdóttir Syðri-Gróf, Páll Axel Halldórsson Syðri-Gróf, Vigfús Garðarsson bílstjóri, Guðsteinn Hermundsson Egilsstöðum og Hafsteinn Stefánsson Túni, 

Næsta dag var svo ekið heim. Ekið var um Þorskafjarðarheiði og Dali. Stoppað var í Bjarkarlundi þar sem borðað var saman. Þegar komið var í Borgarfjörð var farið um Lundarreykjadal og Uxahryggi á Þingvöll og þaðan heim.

Að mínu áliti var þetta einstaklega vel heppnuð ferð í alla staði og mér fannst fólk sammála um það. Þar skipi máli að allt voru þetta skemmtilegir ferðafélagar. Skipulag ferðarinnar var gott og allt gekk upp sem áætlað var. Allstaðar sem við komum var tekið vel á móti okkur og veður var einstaklega gott alla dagana. 


 

 



Flettingar í dag: 362
Gestir í dag: 18
Flettingar í gær: 609
Gestir í gær: 42
Samtals flettingar: 144794
Samtals gestir: 25708
Tölur uppfærðar: 18.5.2024 08:10:09
clockhere

Í Flóanum

Nafn:

Aðalsteinn Sveinsson

Farsími:

8607714

Heimilisfang:

Kolsholti I

Staðsetning:

Flóahreppur

Heimasími:

4863304

Tenglar