Í Flóanum

20.03.2014 08:11

Í tilefni gærdagsins

Set hér inn mynd af húsfreyjunni í tilefni þess að hún átti afmæli í gær. Myndin er að vísu ekki alveg ný en var tekinn fyrir nokkrum árum þegar frúin var á sunnudagsrúntinum í Flóanum einn góðan veðurdag.


Bíllinn sem hún ekur er ekki og hefur aldrei verið í minni eigu. Mér finnst trúlegt að hún hafi fengið hann lánaðan hjá syni okkar. Ég álykta það út frá útlitinu á bílnum. emoticon

Annars er vorjafndægur í dag og sól og blíða í Flóanum. Það er óhætt að fara að hlakka til vorsins. emoticon

12.03.2014 08:12

Skólastarf.

Við Margrét sveitarstjóri fórum í heimsókn í skólana á mánudagsmorguninn. Við ræddum við skólastjórana bæði í Flóaskóla og leikskólanum Krakkaborg. Við fórum um allt skólahúsnæðið og hittum starfsfólk og nemendur á báðum skólastigum. 

Svona heimsóknir höfum við gjarnan farið í reglulega og mér finnst það alltaf jafn skemmtilegt. Það er gaman að hitta bæði nememdur, kennara og annað starfsfólk skólanna í sinni vinnu. Fyrst og fremst verður maður var við jákvæðni og vinnugleði ásamt metnaði fyrir öflugu skólastarfi.

Það er fátt mikilvægara hverju samfélagi en að hafa góðar skólastofnanir. Ég er þeirra skoðunnar að svo sé hér í sveit. Það er fyrst og fremst starfsfólk skólanna undir öflugri forustu skólastjóranna sem tryggja að svo sé. En það þarf samt fleira til. Ef við ætlum að viðhalda hér góðu og öflugu skólastarfi þarf samfélagið allt að vera vakandi yfir því.

Við erum öll ábyrg fyrir verkefninu. Það þarf að ríkja traust og virðing fyrir hlutverkum og stöðu hvers og eins, hvort sem verið er að tala um nemendur, kennara, skólastjórnendur, foreldra, sveitarstjórnarmenn, fræðslunefndarfulltrúa eða almenna íbúa sveitarfélagsins. Allir þessir aðila ( má vafalaust telja sérstaklega upp fleiri ) vilja hafa hér góðan og öflugan skóla og allir hafa ákveðnu hlutverki á að skipa svo það geti orðið.

Það þarf að ríkja skilningur á sjónarmiðum og hlutverkum hvers og eins. Þannig náum við að vinna saman sem eitt teymi og getum náð árangri. Það næst enginn árangur ef tortryggni ríkir milli aðila og ásaknir ganga vixl um að þessi eigi að gera betur og/eða þessi eða hinn sé ekki að standa sig. 

Það er farsælla að menn líti sér nær.  emoticon

28.02.2014 23:03

Daginn lengir

Í morgun kom sólin upp yfir Mýrdalsjökli, héðan að sjá, um kl hálf níu. Þegar ég kom inn úr morgunmjöltun um áttaleitið var samt orðið albjart og morgunroðinn lýsti upp austurhimininn.



Þó það sé enn mið góa og talsvert eftir af þessum vetri, er samt ýmislegt sem minnir á að vorið mun koma að honum loknum eins og öllum öðrum vetrum. Það er hægt að treyst því orðið held ég alveg.

Í gærkvöldi heyrði ég í álftinni en hún er sá farfugl sem maður verður fyrst var við hér þegar vetri tekur að halla. Þó ég og álftin séum nú engir sérstakir mátar  ( Byggið, þurkurinn, rigningin og loftárásir () og Svanasöngur..... ()) var það ekki efst í mínum huga þegar ég heyrði í henni í gærkvöldi. Það sem mér datt í hug var að nú fari senn að vora. emoticon  

23.02.2014 08:11

Meira smjör!

Þegar ég var að alast upp var uppgangur í búskap í landinu. Það var í hverri sveit verið að puða við að stækka tún. Það var verið að byggja fjós og fjárhús vítt og breytt um landið. Lífsbaráttan gekk út á að framleiða meiri mjólk og meira kjöt. Það var sú einfalda leið til að auka tekjur og afkomu búanna.

Að vísu gekk það ekki alltaf eftir. Tíðafarið hafði afgerandi áhrif og miklu meira en nú er með nútíma tækni og afurðamagnið sveiflaðist til og frá. Afurðir voru aldrei greiddar fullu verði fyrr en eftir á þegar afkoma afurðastöðvanna lá fyrir og hvort s.k. útflutningsuppbætur væru í samræmi við veruleikan sem þær áttu að takast á við.  Það lá, ef ég man rétt, ekki fyrir fyrr en í apríl hvert endanlegt afurðaverð var fyrir næst liðið ár.

Samt sem áður var bjartsýni ráðandi. Ef illa gekk eitt árið hertu menn bara enn róðurinn og reyndu að auka framleiðsluna til að takast á við áföll úr fortíð og í framtíð. Fyrir mig ungan manninn, á þeim árum, virkaði þetta áhugavert og ögrandi verkefni. 

En það var svo um það leiti sem ég hóf formlega þátttöku í búskapnum hér á bæ að menn áttuðu sig á því að í óefni var komið. Það var einfaldlega ekki hægt að tryggja afurðaverð fyrir afurðir sem ekki var markaður fyrir. Það hlóðust upp kjötfjöll og smjörfjöll sem enginn vildi bera kostnað af.

Þá var farið í ýmsar aðgerðir til að minnka framleiðslu. Það voru settar stærðartakmarkanir á þau útihús sem "Stofnlánadeildin" (sáluga) mátti lána út á og í kjölfarið var einnig farið að verðtryggja öll lán. Síðan voru teknar upp framleiðslutakmarkanir með ýmsum hætti og til urði hugtök eins og kvóti, búmark, ærgildi, kúgildi, greiðslumark og e.t.v. einhver fleiri sem ég man ekki nú

Þessar takmarkanir voru með ýmsu móti og misgáfulegar. Þeim fylgdu allskonar reglur og regluverk til draga úr göllum þeirra og þær náðu markmiðum sínum mis vel. Þetta hefur samt verið hluti af veruleikanum allt fram til þessa nú tæplega fjörutíu árum síðar.

Nú bregður svo við, aftur á móti, að framleiðslutakmarkanir eiga ekki lengur við. Það vantar meiri mjólk fyrir innanlandsmarkaðinn og skortur á smjöri hefur þegar valdið kúabændum tjóni. Þetta er alveg nýr veruleiki fyrir flesta en getur verið áhugavert tækifæri.  

Ég vil nú ekki spá til um það hvað langt verður í það að takmarka verður framleiðsluna aftur en þykist vita að íslenskir kúabændur geta vel framleitt það magn sem innanalandsmarkaðurinn þarf á að halda. Það er reyndar stærra verkefni en svo, að auka framleiðsluna eins og þörf er nú, að það verði gert á nokkrum vikum.   emoticon



15.02.2014 16:35

Tannfé..... framh..

Þessi mynd átti að fylgja með síðasta bloggi en þegar ég ætlaði að skanna hana inn virkuðu ekki græurnar. Þar sem ég er nú enginn tölvuséní varð ég frá að hverfa í það skiptið.  



Á myndinni er Erla Björg, móðir hennar Steinunnar Lilju; vorið 1988 þegar hún tók á móti sínu tannfé.emoticon

14.02.2014 08:14

Tannfé

Hún Steinunn Lilja dótturdóttir mín kom hér í gær. Hún átti erindi við afa sinn og ömmu út í fjárhúsi. Það var tímabært að innheimta tannfé þar sem nú er kominn tönn.



Það tilheyrir fjárbúskapnum hér á bæ að allir sem að honum standa fá sína fyrstu gimbur þegar fyrsta tönnin lítur dagsins ljós. Þannig eignaðist ég mína fyrstu kind og síðan einnig börnin mín öll og svo nú barnabörnin. 

Steinunni leiddist nú ekki að koma í fjáhúsið og á ég von á því að hún eigi nú eftir að taka þar til hendinni í framtíðinni. emoticon

31.01.2014 21:17

Hóflegar verðhækkanir..... eða þannig.

Nú sem aldrei fyrr er mikilvægt að reyna að stemma stigu við verðbólgunni. Flestir átta sig á því að ef einhver árangur á að nást í að auka almennan kaupmátt í landinu er það lykilatriði að verðlag fari ekki úr böndum.

Herferð er í gangi þar sem fyrirtæki, ríki og sveitarfélög eru hvött til að halda aftur af sér í verðlagshækkunum. Ýmsir hafa lýst því yfir að þeir ætli ekki að hækka verð á sinni vöru eða þjónustu.eða allavega minna en þeir voru búnir að hugsa sér að gera.

RARIK sem er opinbert hlutafélag í eigu ríkisins hækkaði gjaldskrá sína um síðustu áramót. Eins og fram kom í fréttatilkynningu fyrirtækisins nam hækkunin rúmun 2% að meðaltali. Þetta þykir nú kannski vera hófleg hækkun og innan "verðbógumarkmiða seðlabankans". emoticon

En ef að maður skoðar málið aðeins betur kemur í ljós að það eru ekki allir viðskipitavinir fyrirtækisins sem þurfa að greiða þessa hækkun. Stór hluti viðskiptamanna greiða alls enga hækkun. Þess í stað eru það eingöngu þeir sem í dreyfbýli búa sem taka á sig alla þess hækkun. Þeir þurfa því að taka á sig 4,5% hækkun sem er rúmlega tvöfaöld meiri hækkun er umrædd "verðbógumarkmið". emoticon

Ég hef nú stundum hér á síðunni bísnast yfir því hvernig þessum dreyfingakostnaði raforku er hér fyrirkomið. Raforkuverðið () og Varmadælur og rafmagnsreikningurinn ()

Þessi gríðalegi munir á raforkuverði á milli svæða í landinu stendur orðið allri búsetuþróun og atvinnuuppbyggingu í dreyfbýli fyrir þrifum. 


24.01.2014 23:12

Kolsgarður

Sögur herma að Kolur sem bjó í Kolsholti á landnámsöld hafi gert sér tíðförult til Ragnheiðar sem á Ragnheiðarstöðum bjó. U.þ.b 9 km eru á milli bæjanna í beina línu en þar er yfir heilmiklar mýrar að fara. Kolur lét því hlaða garð mikinn á milli bæjanna því ekki þótti honum sæma að hitta Ragnheiði aurugur og blautur.

Garður þessi er við Kol kendur og heitir Kolsgarður. Víða sér móta fyrir honum ennþá. Út frá honnum ganga afleggjarar á nokkrum stöðum.

Kolsgarður liggur hér beina línu í gegnum "Engjavöllin" suður í Saurbæjarland með stefnu á Hamar. Hann er nokkuð ógreinilegur og erfitt að sjá hann ef maður er staddur niður í engjum. Hann sést aftur á móti oft greinilega í fjarlægð. Standi maður upp á "Hrafnabjörgum" ,sem eru klettar í brekkunni rétt austan við núverandi hús í Jaðarkoti, og horfir niður að Hamri sér maður beint eftir honum. 

Jarðfræðingar hafa kannað þennan garð hér og telja að hann hafi verið byggður upp um árið 1000 og svo endur hlaðinn um árið 1600. Ekki þekki ég hvaða heimildir eru til um vegagerð hér á landi. Velti samt fyrir mér hvort " Kolsgarður" sé bara ekki upphaf vegagerðar á Íslandi. emoticon

15.01.2014 07:51

Sveitarstjórnarkosningar

Það verður kosið til sveitarstjórna hér  á landi í vor. Nánar tiltekið laugardaginn 31. maí n.k. Það er því eðlilegt að almenningur þessa lands velti nú fyrir sér rekstri síns sveitarfélags og hvaða áherslur fólk vill sjá í meðferð skatttekna á næsta kjörtímabili. 

Síðast liðin átta ár hef ég verið oddviti sveitarstjórnar Flóahrepps. Þessi tími hefur verið í senn áhugaverður, lærdómsríkur, krefjandi og í aðalatriðum skemmtilegur. Það var ekki mikill aðdragandi að því í upphafi að ég gaf kost á mér í þetta. Fyrirfram hafði ég engan ásetnig að feta þessa slóð en í dag sé ég ekki eftir einni mínútu sem í þetta starf hefur farið frá vorinu 2006

Ég hef nú fyrir nokkrum vikum síðan upplýst félaga mína sem stóðu að framboði R listans vorið 2010 að ég ætli ekki að gefa kost á mér til endurkjörs í vor. Fyrir því eru nokkrar ástæður sem ég hugsanlega geri hér grein fyrir síðar. 

Nú er mikilvægt, eins og alltaf þegar kosningar eru, að íbúar í sveitarfélaginu íhugi vel hvaða menn og málefni eigi að leggja áherslu á aðdraganda kosninganna. Mér finnst nauðsynlegt að fram komi einhver framboð með skýra stefnu og samhent lið til að takast á við verkefnið næsta kjörtímabil. 




01.01.2014 07:47

Nýársnótt

Gleðilegt ár öll sömul. emoticon

Ég vona að þið hafið átt gleðileg áramót og nýársnóttin hafi verið ykkur slysalaus og ánæguleg í alla staði. Sjálfur átti ég frábært kvöld með öllu mínu fólki í gærkvöldi. Strax eftir að kvöldverkum var lokið í fjósinu var komið saman á Bjallanum við árlega áramótabrennu hér í Kolsholtshverfinu.



Eftir að hafa horft á brennuna og  ýmsar gerðir af flugeldum í góðra vina hópi í góða stund var farið heim í Jaðarkot þar sem Sandra og Sigmar buðu til veislu. Þar voru samankomin auk okkar Kolbrúnu öll okkar börn, tengdabörn, og barnabörn ásamt móður minni alls 16 manns



Þótt ýmilegt geti gengið á á nýársnótt samkvæmt þjóðtrúnni var ég ekki var við það. Sagt er m.a. að á nýársnótt fari selir úr hömum sínum og gangi á land, kirkjugarðar rísa, álfar flytja búferlum og kýr tali mannamál. Ég var sofnaður fljótlega eftir miðnætti og svaf fram að því að tímbært var orðið að fara í fyrstu morgunmjaltir á þessu ári núna fyrr í morgun. 

Þær voru rólegar kýrnar áðan eins og þeim lætur best og ekki að sjá á þeim að þær hafi staðið í stórræðum í nótt. Ég útiloka samt ekki að þær hafi talað mannamál í nótt. Ég hef það fyrir satt að geri þær það, vilji þær hafa næði á meðan. Það er ekki minn stíll að trufla þá sem í næði vilja vera. emoticon




25.12.2013 11:12

Gleðileg jól

Á þessum fallega en kalda jóladegi sendi ég lesendum síðunar mínar bestu jólakveðjur. Ég vil þakka öll góð og skemmtileg samskipti á árinu. 



Í tilefnni þess að jólin eru hátíð barnanna set ég hér inn mynd af öllum barnabörnunum okkar Kolbrúnar. Þau hafa undanfarna daga og vikur beðið með mikilli eftirvæntingu að þessi jól fari nú loks að láta sjá sig. Nú er biðin á enda og hægt að fara að hlakka til einhvers annars.

Ég hlakka til vorsins. emoticon

18.12.2013 22:17

Snjór

Undanfarna daga hefur verið snjór yfir öllu hér í Flóanum. Það þarf nú ekki endilega að koma á óvart á þessum árstíma og það vissulega hjálpar í baráttunni við myrkrið í skammdeginu að hafa hvíta jörð. 



Við fórum um síðustu helgi og rákum tryppin úr stóðini. Þau eru nú í ágætu standi en okkur fannst rétt að fara að gefa þeim sérstaklega. 





Nú er orðið tímabært að fara að huga að tilhleypingum í fjárhúsinu. Ég hef reyndar verið að grípa í að endurýja gólfið undir gemlingunum og þarf að ljúka því áður en ég sleppi hrútinum í ærnar. Það hefst nú vonandi innan tíðar. emoticon 


11.12.2013 21:54

Hangikjöt.

Ég hef undanfarin haust staðið í því að reykja kjöt. Nú orðið finnst mér minna varið í hangikjöt nema hafa reykt það sjálfur. Þetta er að sjálfsögðu bara fyrirhöfn og vesen. En ég er haldinn þeirri áráttu að finnast tilveran áhugaverari ef maður hefur hæfilega mikið fyrir hlutunum.


Aðstaðan er nokkuð frumstæð en kannski lætur maður það eftir sér einhvern tímann að koma sér upp almennilegum reykkofa. Þangað til verður þessi reykofn sem ég útbjó úr gamalli haugsugu að duga. emoticon

27.11.2013 23:36

Grænn opal

Ekki veit ég hvort þeir sem viðstaddir voru útför föður míns, Sveins Þórarinssonar, í Selfosskirkju í gær veittu því eftirtekt að á meðal blóma lá á kistunni einn pakki af grænum opal. Opalpakkin lá þarna allan tíman sem athöfnin fór fram og var borinn með kistunni út úr kirkjunni að athöfn lokinni.


Margt fallegt og gott er hægt að minnast á og segja frá um hann pabba. Það var gert í gær bæði í  minnarorðum prestsins sem og í samtölum við fjölmarga að athöfn lokinni og í minnargreinum sem ritaðar voru. Ekkert fannst mér ofaukið af því sem sagt var. Allt þetta fannst okkur, nánustu ættingum, vel viðeigandi enda var verið að kveðja mann með stórt hjarta sem kunni á sinn hátt að láta sér finnast vænt um fólk.


Eitt af persónueinkennum  pabba var hvað hann hafði mikið dálæti af börnum og lét sér velferð og hamingju þeirra sig varða. Þetta höfum við afkomendur hans fengið að njóta mann fram af manni í hverri kynslóð.


Nú hin seinni ár hafa það aðallega verið barnabarnabörnin hans sem þess hafa notið. Þau eru í dag orðin 14 talsins. Hann lagði sig fram um það að kynnast þeim hverju og einu og myndaði sérstök persónuleg tengst við hvert og eitt þeirra á þeim forsendum sem hentaði hverju fyrir sig.


Systkinin í Jaðarkoti hafa notið þess í ríku mæli þar sem þau búa í nálægð við langafa sinn og langömmu. Þau hafa gjarna skokkað yfir túnið og heimsótt "langa og löngu" . Yfirleitt fer þó aðeins eitt í einu og það passaði "langa" best. Þá gat hann  einbeitt sér að gestinum. Og það var ekki slegið slöku við. Það var smíðað, lesið, spilað, spjallað saman eða hvað eina sem fundið var upp á. Og "langi" var óþrjótandi í því að finna verkefni sem voru til þess fallinn að styrkja tengslin og þroska barnið.


Þegar svona náinn einstakingur fellur svo frá er skarð fyrir skildi. Börnin sakna langafa sins og það eru margar spurningar sem þarf að svara. Við sem fullorðin eru reynum að vera þeim innan handa við að leysa úr flóknum spurningum og hughreysta þau og styrkja. En stundum snýst svo dæmið við og það eru börnin sem koma með einföldu lausnirnar og eru okkur ekki síður stoð og stytta.


Hann Arnór Leví sex ára  sonarsonur minn í Jaðarkoti átti eins og öll hin barnabarnabörnin hans "langa" alveg sérstakt samband við langafa sinn. Þeir eru ófáir dagarnir sem þeir hafa brallað saman og báðir hafa haft af því ómælda ánægju. Þó það hafi ekki verið stíll "langa " að kaupa börnin með sælgæti þá átti hann oft í fórum sínum opalpakka sem hann fór sparlega með. Þessir opalpakkar voru m.a. geymdir þar sem útifötin voru geymd eða út í mjólkurhúsi og hugsanlega víðar.


Það var svo oftar en ekki þegar þeir félagar kvöddust, kannski eftir að hafa verið tveir saman að smíða eða gera eitthvað annað í einhverja klukkutíma, að opalpakkin var tekinn fram og  Arnór fékk sér einn opalmola áður en hann fór heim.


Foreldrar langafa barnanna hans pabba fannst ekki rétt að leggja á þau að vera við alla útförina hans. Þess í stað komu þau í kirkjuna áður en útförin fór fram. Presturinn talaði við börnin og þau komu að kistunni og kvöddu langafa sinn í hinsta sinn.


Þegar fjölskyldan í Jaðarkoti var á leiðinni í kirkjuna í gærmorgun bað  Arnór skyndilega um að það yrði stoppað í sjoppu. Það þyrfti nauðsynlega að kaupa einn pakka af opal. Það var gert og síðan var farið í kirkjuna. Þar voru samankomin flest (ekki þau allra yngstu) barnabarnbörnin hans pabba ásamt foreldrum sínum og prestinum.


Þarna kvöddu þau langafa sinn hvert með sínum hætti áður en útförin sjálf fór fram. Arnór var allveg með á hreinu hvernig hann ætlaði að bera sig að . Hann hlustaði á allt sem sagt var en þegar hann gekk svo að kistunni setti hann hljóður opalpakkan ofan á eitt hornið á kistunni.


Hann skeytti því engu hvað aðrir voru að gera eða hvernig þeir höguðu sér í þessari stuttu athöfn. Þetta var á milli hans og "langa".  Hann skyldi vel að hann gat ekki talað við langafa sinn því hann var dáinn. En þetta var hans aðferð til að sýna hvað allar stundirnar sem þeir voru búnir að eiga saman voru dýrmætar og þetta var hans aðferð til þakka fyrir sig og kveðja langafa sinn.


Þess vegna var það ekki minna viðeigandi, en allt sem sagt var og hugsað, blómin, hátíðleikin, tónlistin og hvað eina í þessari útför, þessi græni opalpakki sem á kistunni lá

26.11.2013 01:00

Sveinn Þórarinsson f. 6. sept. 1931 d. 11. nóv 2013 (langi)


 
   Sveinn Þórarinsson fæddist í Fagurhlíð í Landbroti V-Skaft. 6. sept.1931. Hann lést á Heilbrigðisstofnun Suðurlands 11. nóv. 2013.

    Foreldrar hans voru Elín Guðbjörg Sveinsdóttir frá Reyni í Mýrdal f. 7. júlí 1898, d. 29. des. 1993 og Þórarinn Auðunsson frá Eystri-Dalbæ Landbroti f. 15. maí 1892, d. 24. júní 1957.

    Systur Sveins  voru: Valgerður Þórarinsdóttir húsmóðir  f. 18. júlí 1922, d. 7. júlí 2006. Guðlaug Guðný Þórarinsdóttir sérleyfishafi  f. 7. des. 1925. og Ólöf Þórarinsdóttir handavinnu-og íþróttakennari  f. 18 sept. 1928, d. 2 okt. 2013.

    Sveinn kvæntist 20. okt 1956 Höllu Aðalsteinsdóttur grunnskólakennara f. 25 nóv 1935. í Reykjanesi við Ísafjarðardjúp.  Börn þeirra eru:

 

    1. Þórarinn f. 3. ágúst 1957 prófessor við Háskóla Ísland, maki Kristjana Gunnarsdóttir f. 1959 deildarstjóri hjá Velferðarsviði Reykjavikurborgar. Börn þeirra eru:

    a) Sveinn f. 1979 sérfræðingur hjá Landsbankanum, maki Dagný Franklínsdóttir f. 1977 viðskiptastjóri hjá  Creditinfo  Þeirra börn eru Jökull f. 2005  og Þóranna f. 2008.

    b) Edda Sólveig f.1994 nemi í Flensborgarskóla


 

    2. Aðalsteinn f. 10. janúar 1959 bóndi í Kolsholti 1 Flóahreppi,  maki Kolbrún J. Júlíusdóttir  f. 1961 bóndi. Börn þeirra eru:

    a) Hallfríður Ósk. f. 1980 aðstoðarleikskólastjóri í Flóahrepp, maki Jón Valgeir Geirsson f. 1975 verktaki. Þeirra börn eru: Kolbrún Katla f. 2001, Hjalti Geir f. 2006 og Ásta Björg  f. 2010.

    b) Sigmar Örn f. 1983 verktaki og bóndi í Jaðarkoti Flóahrepp, maki Sandra Dís Sigurðardóttir f. 1986 bóndi og matráður. Þeirra börn eru: Aldís Tanja f.2005, Arnór Leví f. 2007 og Hrafnkell Hilmar f. 2010. 

    c) Erla Björg f. 1987 umhverfisskipulagsfræðingur. maki Kristinn Matthías Símonarson f. 1984 sem rekur  véla- og bíla- og sprautuverkstæði í Kolsholti. Barn þeirra er : Steinunn Lilja f. 2013


    3. Elín Bjarnveig f. 3. janúar 1960 bóndi í Egilsstaðakoti Flóahrepppi, maki Einar Hermundsson  f. 1955 bóndi. Börn þeirra eru:

    a) Guðbjörg Hulda f. 1981 hjúkrunarfræðingur hjá Kópavogsbæ, maki  Kári Ólafsson f. 1981  lögfræðingur hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Þeirra barn er  Ólafur Veigar. f. 2008.

    b) Þorsteinn Logi  f. 1982 bóndi í Egilsstaðakoti í Flóahrepp, maki. Cathy Krentel f.1990 bóndi og nemi við Háskólann á Akureyri.Barn Þorsteins er Luca Elías f 2012 búsettur í Þýskalandi.

    c) Halla f. 1983 verkfræðingur hjá Umhverfisstofnun, maki Ragnar T. Ragnarsson f 1985 nemi í hagnýtri ritstjórn við Háskóla Íslands.

    d) Laufey f. 1989 hjúkrunarfræðinemi við Háskóla Íslands.

    d) Sveinn Orri f. 1996 nemi í Fjölbrautarskóla Suðurlands.

    
    4. Alda Agnes f. 3. maí 1961 leikskólastjóri í Hafnafirði. Hennar börn   

    a) Stefán Ágúst. f. 1981 læknir hjá Landspítala/Háskólasjúkrahúsi, maki. Ragnheiður Halldórsdóttir f. 1986 hjúkrunarfræðingur.

    b) Agnes f. 1985 meistaranemi í félagsráðgjöf við Háskóla Íslands, maki Böðvar Stefánsson f. 1981 smiður. Börn þeirra: Embla María f. 2005 og Nökkvi Marel. f. 2008.

    c) Aðalsteinn f. 1990 blaðamaður hjá DV, maki Erna Hrund Hermannsdóttir f. 1989 förðunarfræðingur  Barn þeirra er Tinni Snær. f. 2012.


Langi ásamt bræðrunum í Jaðarkoti og Söndru í víðavangshlaupi Umf. Vöku sumardaginn fyrsta s.l.

    Sveinn elst upp í Fagurhlíð til ársins 1940. Þá flytur hann með foreldrum sínum að Skeggjastöðum í Mosfellssveit og að Úlfarsá í sömusveit 1944. Árið 1945 flytja þau svo að nýbýlinu Láguhlíð í Mosfellssveit sem foreldra hans byggðu upp. Sveinn gekk 3 vetur í Barnaskólann að Brúarlandi Mosfellssveit og var síðan í hópi 18 nemenda sem hófu nám við Unglingaskóla Mosfellsskólahverfis veturnar 1947-1948 og 1948-1949.


    Sveinn starfaði við bú foreldra sinna frá barnæsku. Hann var tímabundið við störf hjá Ræktunasambandi Kjalarnesþings á árunum 1948-1950. Var með rekstur á vörubíl, mjólkurbíl eða hópfeðabíl á árunum1950-1956. Hann starfaði í íhlaupum hjá Bifreiðarverkstæðinu Lágafelli 1953-1956 og hjá Kaupfélagi Kjalarnesþings á árunum 1965-1967.  Í ársbyrjun 1957 tekur hann við búi foreldra sinna í Láguhlíð. Sveinn og Halla  kaupa svo jörðina Kolsholt 1 og eyðibýlið Jaðarkot í Flóanum árið 1969 og hafa búið þar síðan.

    
    Sveinn starfaði að ýmsum félagsmálum í gegnum tíðina. Hann tók virkan þátt í starfi UMF Aftureldingar, var þar í stjórn á árunum 1949-1957 og í stjórn UMSK árið 1953. Hann var einn af stofnendum Framsóknarfélags Kjalarnesþins 1949 og í stjórn þar um tíma. Hann var  einnig í hópi stofnenda Kaupfélags Kjalarnesþings árið 1950 og í stjórn þess árin 1963-1969.  Hann var formaður Búnaðarfélags Mosfellssveitar 1964 -1969 og í stjórn Búnaðfélag Villingaholtshrepps 1971-1986.  Sveinn var fulltrúi í fulltrúaráði MBF árin 1976-1996 og sat í hreppsnefnd Villingaholtshrepps árin1978-1994.

    Útför Sveins fer fram frá Selfosskirkju í dag, 26. nóvember og hefst athöfin kl 13:00

Flettingar í dag: 349
Gestir í dag: 12
Flettingar í gær: 609
Gestir í gær: 42
Samtals flettingar: 144781
Samtals gestir: 25702
Tölur uppfærðar: 18.5.2024 06:20:01
clockhere

Í Flóanum

Nafn:

Aðalsteinn Sveinsson

Farsími:

8607714

Heimilisfang:

Kolsholti I

Staðsetning:

Flóahreppur

Heimasími:

4863304

Tenglar