Í Flóanum

16.08.2011 07:06

Sumri hallar...

Í norðanáttinni sem nú er hér er ekki alveg laust við það að manni finnist haustið nálgast. Ég vil nú samt halda mig við það að það sé sumar enn. Samt er það nú svo að ýmislegt bendir til þess að það sé nokkuð liðið á það.

Töluvert vantar upp á að byggið, sem hér var sáð til í vor, hafi náð næganlegum þroska. Hinsvegar lítur út fyrir að það geti orðið  töluvert að magni ef það fær tækifæri til. Til þess að svo megi verða þarf einhverjar vikur af hlýindum enn. Síðasta vika var góð með rekju á nóttinni og sólskini og hita á daginn.

Ég notaði tækifærið á laugardagsmorguninn og smalaði fénu samann og bólusetti öll lömb og gemlinga. Þó þannig hafi nú staðið á þennan morgun að allt mitt heimafólk var ekki heima bætti ég það upp með því að nota gesti sem hér í sárasakleysi  litu við. Var því um nógan mannskap að ræða og  gekk verkið hratt og vel fyrir sig. emoticon

Nú er þjóðfélagið aðeins farið að snúast af stað aftur eftir sumarfríin. Samt er það svo að víða er  fólk enn í fríum. Leikskólinn hér í sveit er nú byrjaður aftur og kennarar grunnskólans eru mættir til vinnu. Það styttist í að nemendur mæti í skólann eftir sumarfrí.

Á vettvangi sveitarstjórnar hefur þetta sumar, til þess að gera, verið rólegt. Mikill munur er að ekki hefur verið um sömu vandræði að ræða með neysluvatn í sveitarfélaginu og síðustu sumur. Þar kemur til ný stofnlögn sem tekin var í notkunn í sumar sem hefur gert það að verkum að hægt hefur verið að tryggja vatnsnotendum í sveitarfélaginu nóg af góðu vatni.

Lokafrágangur á skólabyggingunni stendur nú yfir. Nú þegar skólastarf í Flóaskóla hefst verður í fyrsta skipti um heilstæðann grunnskóla að ræða með öllum 10 bekkjunum.

Mörg stór verkefni bíða svo sveitarstjórnar að takast á við á næstu misserum.  Má þar t.d. nefna að nú þarf að fara að hefja vinnu við endurskoðun á aðalskipulagi sveitarinnar og samræma í eitt heilstætt aðalskipulag. Einnig þarf að að fara að taka ákvörðun um með hvaða hætti húsnæði Leikskólans verður stækkað.  Ýmislegt fleira væri hægt að telja upp og ég á ekki von á að um neinn verkefnaskort verði að ræða.



07.08.2011 07:23

Á fjöllum

Ég hef gaman af því að ferðast um landið og alltaf áhugavert að koma á staði sem maður hefur ekki komið á áður. Sem betur fer hef ég haft tækifæri til þess í gegnum tíðina og hef ég komið í flestar sveitir á Íslandi. Þó er það svo að víða eru staðir þar sem maður á eftir að koma og sumir ekki svo langt frá Flóanum. emoticon

Ég skrapp inn á Hrunamannaafrétt seinnipartinn í gær en þangað hef ég ekki komið áður. Fór með hest fyrir Jón í Lyngholti í Svínárnes og sótti annan sem heltist hjá honum. Jón er þarna í nokkra daga hestaferðalagi í góðra vina hópi.

Það var skemmtilegt að keyra þarna inneftir í glaða sólskini og góðri fjallasýn. Það var glatt yfir ferðamönnunum enda varla annað hægt á hestbaki í rjómablíðu á fjöllum. emoticon 
 
Nú er bara spurning hvort maður lætur verða af því að skella sér á fjall í haust. emoticon  


31.07.2011 09:27

Vegagerð

Nú erum við að vinna að vegagerð hér. Það er hann Kristinn tengdasonur minn stendur fyrir þessum framkvæmdum. Verkið hófst á föstudaginn og ætti að fara langt í að klárast í dag.

Erla og Kristinn hafa í hyggja að byggja sér íbúðarhús hér. Vegna þess þá létum vinna deiliskipulag hér á jörðinni s.l. vetur. Þar er gert er ráð fyrir nýrri íbúðarhúsalóð hér austur á Bæjarholtinu. 



Þar sem þannig stóð á að við gátum fengið lánaða beltagröfu yfir helgina og ekki voru neinar aðrar áhugaverðari fyrirætlanir að ræða var drifið í því að leggja veg inn að fyrirhuguðum byggingareit. Er um að ræða ca. 200m heimreið frá veginum að Jaðarkoti.
 


Eftir að Kristinn var búin að ráðfæra sig við Vegagerðina var hafist handa. Ætlunin er að ljúka þessari vegagerð núna þannig það sé búið þegar byggingaframkvæmdir svo hefjast.



27.07.2011 22:41

Kirkjugarðurinn

Fallegur og vel hirtur kirkjugarður er sómi hverra sveitar. Kirkjugarðurinn við Villingaholtskirkju hefur verið í þeirra hópi. Allt frá því að Svavar í Villingaholti hafði forgöngu um að taka hann til gagngerra endurbóta og stækkunar einhvern tímann á síðustu öld hafa menn hér haft metnað til þess að sinna honum vel.

Það er heilmikil vinna að hugsa vel um svona kirkjugarð og sinna þeim gróðri sem þar vex, bæði trjógróðri og grasi. Stígar, girðingar, hlið og önnur mannvirki þurfa einnig sitt viðhald.

Nú standa yfir framkvæmdir í garðinum en unnið er að því að jarðvegskipta undir öllun stígum innan garðsins og til stendur að helluleggja þá. Leitað var til Búnaðarfélagsins (þ.e. Bnf. Villingaholtshrepps) að leggja þessu verki lið. Verkefnið sem félagið tók að sér var að keyra sandi frá Mjósyndi og koma honum á sinn stað undir öllum stígum. Búið var að moka moldini upp úr en nú þurfti að fylla skurðina aftur af sandi.

Félagsmenn mættu kl.10 í morgun. Mættir voru menn á minst 10 traktorum með 8 sturtuvagna og eina beltavél til þess að moka á. Verkið gekk hratt og vel fyrir sig og var lokið um miðjan dag.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem íbúar hér í sveit taka sig saman og vinna svona verk. Mér er í fersku minni þegar ungmennfélagið stóð að byggingu á íþróttavellinum við Þjórsárver. Þá leitaði félagið til sveitunganna og það voru ófáar stundirnar sem menn lögðu fram í vélavinnu við að koma sandi í völlinn og við að þökuleggja hann. emoticon

25.07.2011 07:21

Gróðraveður

Hún var kærkomin rigningin á gær. Eins og sveitungi minn sagði þá er það orðið eins og að hitta gamlan vin eftir langan tíma loks þegar gerir almennilegt sunnlenskt slagveður. emoticon
Ég notaði daginn til þess að skreppa skottúr vestur á Snæfellsnes. Ferðafélagarnir voru þeir feðgar í Lyngholti Jón og Hjalti Geir ásamt Baldri bróðir Jóns. Við áttum erindi á bæ vestur í Breiðuvík.

Það hætti mikið til að rigna þegar við vorum komnir upp í Hvalfjörð. Þurt var á meðan við keyrðu vestur Borgarfjörð og Mýrarnar og allt þar til við komun Eyja-og Miklaholtshreppinn. Þar tók við alvöru gróðraveður með þéttri súld og þoku allt vestur í Breiðuvík.

Þegar við vorum komnir þetta langt vestur á Nesið fannst okkur tilvalið að halda áfram
fyrir Jökulinn og til Grundarfjarðar þar sem við stoppuðum í kaffi hjá Ragnari og Guðfinnu á Kverná. Að því loknu var keyrt aftur heim í Flóann. emoticon

Gróður hér tók vel við sér í rigningunni í gær. Kornið er nú loks að skríða og háin að spretta. Rígresisakrarnir eru reyndar ansi ræfilslegir og á ég varla von á mikilli uppskeru þar í sumar.

19.07.2011 07:39

Umf. Vaka

Ungmennafélagið Vaka er 75 ára í dag. emoticon

Félagið er og hefur alltaf verið mjög virkt og verið ein ef helstu máttarstoðum í félags- og menningarlífi í fyrrum Villingaholtshreppnum í þessi 75 ár sem það hefur starfað. 

Það hefur verið gæfa félagsins að hafa alltaf verið vettvangur unga fólksins á félagssvæðinu á hverjum tíma. Það er ekki endilega alltaf þannig með félög að eðlileg kynslóðaskipti gangi vel fyrir sig. Það hefur hinsvegar ekki verið vandamál hjá Umf. Vöku í gegnum tíðina.

Ég hef verið félagi í félaginu í u.þ.b. 40 ár og tekið þátt í störfum þess með einum eða öðrum hætti á þeim tíma. Sem unglingur sat maður í nefndum bæði sem óbreyttur nefndarmaður og sem formaður nefndar. Þannig tók maður á þessum árum þátt í störfum bæði skemmtinefndar og íþróttanefndar félagsins og einnig sem fulltrúi félagsins í húsnefnd félagsheimilisins Þjórsárvers.

Síðar sat ég stjórn félagsins fyrst sem gjaldkeri í nokkur ár og svo sem formaður. Í framhaldi af því tók ég einnig þátt í störfum Héraðssambansins Skarphéðins og var þar einning í stjórn í nokkur ár.

Þegar mín börn voru svo farin að láta til sín taka í störfum og stjórnum félagsins dró maður sig smátt og smátt í hlé. Mitt hlutverk í dag er fyrst og fremst að hafa gaman af því að fylgjast með þróttmiklu starfi félagsins og hvetja unga fólkið til þátttöku í störfum þess. emoticon

Ég hef haft ómælda ánægju af þessu starfi öllu og þar hef ég fengið mína menntun sem ég fullyrði að er engu síðri en önnur menntun sem maður fær í skólum. Verkefnin hafa verið margvísleg og sum hver nokkuð krefjandi. Það er þannig með þessa starfsemi að hún hefur skilað miklu fyrir samfélagið og ekki síður þá félagsmenn hverju sinni sem að verkefnum félagsins standa.

Ég óska félaginu til hamingju með afmælið og félagsmönnum þess til hamingu með öfluga starfsemi. Um leið og ég þakka fyrir allt sem þetta félag hefur gert fyrir mig vil ég láta þá ósk fylgja að hér í sveit verði áfram um ókomna tíð öflugur félagsvettvangur fyrir ungt fólk.  

15.07.2011 07:33

Vatnsveitan

Þetta sumar virðist ekki vera frábrugðið síðustu sumrum að því leiti að vegna þurrka er jarðvatnsstaða hér mjög lág. Einhvern tíman hefði það nú þótt lýgilegt að ekki væri nóg vatn í Flóanum og sumar eftir sumar einkennist af skorti á ringingu.

Vatnslindir þær sem þjónuðu vatnsveitum í Flóanum í hátt í hálfa öld með nokkuð öruggum hætti hafa nú nánast þornað upp fimmta árið í röð. Nú í sumar er samt orðið sú breyting á að búið er að koma upp öflugri tengingu við vatnsveituna á Selfossi þannig að nú er hægt að tryggja vatnsnotendum í Flóahrepp nóg af úrvals vatni.

Það er gríðaleg breyting frá því undanfarin sumur sem einkennst hafa að miklum erfiðleikum við að tryggja öllum notendum veitunnar nægt og ómengað vatn. Frá því í fyrra vor hafa staðið yfir umfangmikla framkvæmdir sem miða að þvi að efla og styrkja vatnsveiturnar í tveimur sveitarfélögum þ.e. í Flóahrepp og í sveitarfélaginu Árborg.

Framkvæmdir þessar eru gerðar í samræmi við sérstakann samning sem þessi sveitarfélög gerðu sín á milli í fyrra. Þær ganga út á það efla vatnsöflun við Ingólfsfjall, svera upp stofnlagnir að Selfossi og austur úr þorpinu og nýrri stofnlögn frá Selfossi að miðlunargeyminum í Ruddakrók í Flóahreppi.

Samningur sveitarfélaganna tryggir Vatnsveitu Flóahrepps vatn frá Árborg þegar þörf er á og í því magni sem á þarf að halda allt að 25 lítum/sek.

Þessum framkvæmdum öllum er ekki nærri lokið en búið er að legga stofnlögnina frá Selfossi að Ruddakrók og standsetja dælur á hana og er hún nú komin í fulla notkunn. Hún hefur reynst vel og skipt sköpum fyrir vatnsnotendur í Flóahrepp síðustu vikur.  


29.06.2011 23:21

Heyskapur

Þessa dagana er verið að fást við heyskap hér á bæ. Sláttur hófst s.l. laugardag. Mér finnst ekki verra að hefja slátt á þeim vikudegi (ef það passar ekki illa) eingöngu til þess að viðhalda ákveðinni sérvisku. Það er ákveðið menningarlegt skemmtarverk að útrýma allri sérvisku og hjátrú.

Sigmar rauk til og endurnýjaði rúllusamstæðuna í gær. Hann taldi réttast að nýta sér viðskiptatækifærið sem gafst og skiptu um vél. Hann þarf að hafa trausta vél. Þar sem hann er að rúlla víða en hér á bæ getur verið mikið álag á vélinni þessa daga sem heyskapur stendur sem hæðst.



Ég var að koma inn frá því að raka saman. Síðustu fjörutíu sumur hef ég stundað heyskap af líf og sál. Ýmislegt hefur breyst í tækni og verklagi á þessum árum. Mitt aðalstarf í heyskapnum fyrstu árin var aðallega að raka saman. Dráttarvélin sem þá var notuð í það verk var Massi Ferguson 35X árgerð 1963. Aftan í hann var hengd Banford múgavél. Fyrstu árin sem ég var þátttakandi í heyskapnum var yfirleitt flekknum rakað saman inn að miðju og ýtt jafnóðum saman og gert upp í sæti.

Síðan hefur ýmislegt breyst. Í mörg ár var hér allt bundið í bagga. Eftir að hlaðan var byggð 1977 var farið að heyja u.þ.b. helminginn af heyskapnum í flatgryfjur. Þegar heydreifikerfið kom svo var hætt að binda í bagga og allt þurhey heyjað laust í súgþurkun. Síðan um aldarmót hefur svo eingöngu verið heyjað í rúllur.



Eitt hefur að vísu ekki endilega breyst og fékk ég að reyna það núna áðan. Það er ennþá hægt að raka saman á gamla Massanum sem ég notaði sem mest hér á árum áður. Þó rakstarvélarna hafi stækkað og afköstin aukist margfalt stendur gamli Massinn alltaf fyrir sínu.


24.06.2011 11:03

Jónsmessa

Í dag er Jónsmessa í hin magnaða Jónsmessunótt var s.l.nótt. Nú er bjartasti tími ársins og líkar mér það vel. Þó eru tilfinningarnar aðeins blendnar því nú tekur daginn aftur að stytta og fyrr en varir er komið haust aftur. Samt sem áður er ekki ástæða til þess að láta það trufla sig við að njóta sumarsins og birtunnar.  emoticon

Á Vísindavefnum segir þetta um Jónsmessunótt:
 "Jónsmessunóttin er ein þeirra fjögurra nátta í íslenskri þjóðtrú sem taldar eru hvað magnaðastar og þá geta alls kyns dularfullir hlutir gerst. Hinar næturnar eru allar í skammdeginu: Jólanótt, nýársnótt og þrettándanótt. Sagt er að á Jónsmessunótt fljóti upp ýmiss konar náttúrusteinar sem geta komið að góðu gagni. Þá má einnig finna ýmis nýtileg grös.Það er algengur hugsunarháttur í þjóðtrú að sé farið út fyrir það sem myndar einhverja heild skapist hættuástand; alls kyns öfl, bæði góð og ill, leysist úr læðingi eða hlutir öðlist sérstaka eiginleika. Þetta á til dæmis við þegar einu ferli lýkur og annað tekur við. Þegar einum degi lýkur og annar hefst, klukkan tólf á miðnætti, fara hin myrku öfl á stjá; hið sama gerist þegar árinu lýkur, á nýársnótt og þegar sólin nær hápunkti á hringferli sínum á Jónsmessunni. Eitt af því sem magnast upp og öðlast sérstakan lækningamátt á Jónsmessunóttinni er döggin. Þess vegna er það gömul trú að mjög heilnæmt sé að velta sér nakinn upp úr dögginni þessa nótt. Geri menn það batna þeim allir sjúkdómar og þeim verður ekki misdægurt næsta árið á eftir"

Ég lét það nú alveg vera að velta mér upp úr dögginni í nótt. Mér fannst tíma mínum betur varið í annað enda nóg að gera í sveitinni á þessum tíma. Þó heyskapur sé ekki byrjaður hér á bæ er ekki um neinn verkefaskort að ræða. Sumir dagar fara reyndar líka í fundahöld ýmiskonar.

Í gær byrjaði ég daginn að loknum morgunmjöltum á skipulagsnefndarfundi upp á Laugarvatni kl 9:00. Ég varð að fara þaðan um hálf ellefu því ég þurfti að mæta í Reykjavík kl. 12:30. Þaðan fór ég beint austur aftur og var mættu á fund á Hellu með þjónusturáði um málefni fatlaðra á Suðurlandi kl. 13:00. Var komin heim aftur seinnipart dags og að loknum kvöldmjöltum var ágætt að taka nokkra tíma í girðingavinnu í kvöldblíðunni. emoticon

Á Suðurlandi er ýmislegt um að vera þessa björtustu helgi ársins og full ástæða til að hvetja fólk til þess að taka þátt og njóta þess sem upp á er boðið. Hér í kring má nefna að í Hveragerði er blóma- og garðykjusýningin "Blóm í bæ" með dagskrá sem stendur yfir alla helgina. Á Eyrabakka er Jónsmessuhátið á morgun. Á Selfossi er landsmót fornbílaklúbbsins um helgina og bíladelludagurinn er á sunnudaginn.

Sjálfum fínnst mér viturlegast ef tækifæri gefst, að leggja á gæðingana og taka góðan útreiðatúr í bjartri sumarnóttinni. emoticon

16.06.2011 07:22

Heimsóknir

Þó ekki hafi verið skrifað hér mikið síðustu vikur er það ekki merki um það að hér á bæ sé ekkert um að vera. Eins og jafnan áður er verið að fást við hin ýmsu verkefni og ótal áhugaverð atvik koma upp á hverjum degi. Ekki síst á þessum árstíma.

Leikskólinn kom hér í heimsókn í skógræktina í síðustu viku. Börnin léku sér í skóginum og í hellinum. Jeff grillaði fyrir mannskapinn. Þó ég hafi ekki verið heima og hitt gestina, þá finnst mér þetta skemmtilegar heimsókir. Kolbrún var á svæðinu og tók þessar myndir.





Fimmtudaginn 9. júní buðu sveitarstjórnarmenn í Bláskógabyggð sveitarstjórnarmönnum í uppsveitum Árnessýslu og Flóahrepps ásamt mökum til sín. Farið var með okkur um sveitarfélagið í rútu og ýmsir staðir og starfsemi skoðuð. Öllum var svo boðið í mat í Aratungu í lok dagsins. Mikil og góð samvinna er meðal þessarra sveitarfélaga um um ýmis verkefni. Dagurinn var bæði góður og skemmtilegur. emoticon

Um Hvítasunnuhelgina tókum við Kolbrún okkur frí og dvöldum á noðurlandi frá föstudegi til mánudags. Heimsóttum m.a.bændur í Mývatnssveit, þau Jóhann og Ingigerði á Gautlöndum. Einnig heimsóttum við nafna minn og verkalýðsleiðtoga á Húsavík Aðalstein Á Baldusson og Elfu konu hans. Þeir Aðalsteinn og Jóhann voru báðir með okkur á Hvanneyri á sínum tíma. Áttum við góð ferð þarna norður og stund með norðlendingum.

Það er alltaf áhugavert og skemmtilegt að hitta fólk og spjalla saman. Ég held að maður geri aldrei of mikið af því og kannski of lítið nú á tímum. Ég þakka þeim sem hér hafa komið fyrir komuna og þá sem við heimsóttum fyrir móttökurnar. emoticon

02.06.2011 23:00

Slett úr klaufunum

Hér á bæ er það til siðs að þegar kýrna fara fyrst út á vorin er viðhaft allsherjar útkall. Þá eru kallaðir til allir sem vettlingi geta valdið til þess að standa við girðingarnar næst fjósinu. Hættu getur verið á að í takmarkalausri gleði og kátínu hjá kúnum yfir því að komast nú loks út í guðsgræna náttúruna hlaupi þær á girðinguna í ógáti. emoticon

Það duga því engir venjulegir skóladagar til svona verka. Megnið af mannskapnum sem hér lifir og hrærist er nefnilega þá upptekin við nám í leikskólanum. Það þótti því tilvalið að taka daginn í dag til þess þar sem allt skólahald lá miðri vegna Uppstigningardags. Enda fyrir löngu orðið tímabært að fara að hleypa kúnum út í vorið.



Hér er hluti af mannskapnum mættur og tilbúinn til þess að takast á við verkefnið. Það vill nú svo til að ég er afi þeirra allra sem á myndinni eru, en auk þess var Agnes frænka mín mætt með sína fjölskyldu svo hér var komið mikið lið.



Kýrnar voru kátar yfir þessu og slettu vel úr klaufunum. Veðrið var ákjósanlegt í morgun. Blíðu veður en lítið sólskin.



Eins stundum vill verða þegar mannskapur kemur saman til einhverra verka eins og t.d. hér áður fyrr á góðum steypudögum eða á réttardaginn myndast góð stemming. Að loknu verkinu er haldið áfram að skemmta sér saman. Það varð raunin hér í morgun og skellti mannskapurinn sér í útreiðartúr þegar búið var að líta eftir kúnum. emoticon

29.05.2011 07:35

Nú er.... Fjör í Flóanum

Nú um helgina stendur yfir fjölskyldu- og menningarhátíðin Fjör í Flóa hér í sveit. Boðið er upp á fjölbreytta dagskrá um allt sveitarfélagið. Fjöldi fólks, bæðið innansveitar og aðrir gestir, hafa verið á ferðinni um sveitina og á ég von á að svo verði einnig í dag. Veðrið er frábært og allir eru í hátíðarskapi.

Hátíðin er skipulögð af rekstrarstjórn félagsheimilanna hér í Flóahreppi. Hátíðin hefur verið árviss viðburður síðan 2005. Hún byrjaði sem samstarfsverkefni þriggja félagsheimila í þremur sveitarfélögum og var einn af mörgum undanförum að sameiningu sveitarfélaganna hér.

Dagskrá hátíðarinnar má sjá á heimasíðu Flóahrepps www.floahreppur.is. Hún er bæði fjölbreytt og metnaðarfull. Ástæða er til að þakka rekstrarastjórninni fyrir glæsilega hátíð og hvetja fólk til þess að líta á það sem boðið er upp á. emoticon

26.05.2011 07:32

Vorhátíð

Okkur hjónum var boðið á vorhátíð í gær. Það voru barnabörnin okkar sem eru í leikskólanum "Krakkaborg" hér í sveit sem buðu okkur á Vorhátíð Krakkaborgar.  Sérstaklega bauð hún Aldís í Jaðarkoti okkur, en á hátiðinni útskrifaðist hún úr leikskólanum. Hún er sem kunnugt er að fara að hefja nám við Flóaskóla næsta haust og sannarlega um stóran áfanga hjá henni að ræða.



Dagskrá hátíðarinnar var bæði metnaðarfull og krefjandi. Hjalti Geir í Lyngholti og Aldís sungu með kór skólans "Regnbogakórnum" og léku undir á trommur. Arnór í Jaðarkoti lék í leikritinu "Lúlli fær heimsókn" ásamt börnunum sem eru með honum á deild í leikskólanum. Kolbrún Katla í Lyngholti sem er nú fyrir löngu síðan hætt í leikskóla tók einnig þátt í dagskránni. Nokkrir fyrrverandi nemedur leikskólans og núverandi nemendur í Tónlistaskólanum spiluðu á hljóðfæri í upphafi hátiðarinnar.

Ég er sannfærður um að í leikskólanum er verið að vinna mjög gott starf. Þar er öflugt starfsfólk sem hefur metnað fyrir því sem það er að gera.

21.05.2011 07:35

Vorhret

Það andar köldu þessa dagana. Gróðri fer ekkert fram og sumarið lætur bíða eftir sér. Víða um land eru bændur að fást við allt lambfé enn á húsi. Það er slydda eða jafnvel snjókoma sumstaðar og færð spillist.

Hér í Flóanum er þetta reyndar ekki svona slæmt. Vissulega er kalt og gróður er í engri framför. Það væsir samt ekkert um lamféð úti og grasið var orðið það mikið að nóg er að bíta. Það er reyndar bölvað rok en þó Flóinn sé flatur má víða finna einhvert skjól fyrir noðangarranum. emoticon

Það sem ég held að helst valdi tjóni hér er þurkurinn. Hann fer ekki vel með flög sem eru í vinnslu og ekki búið að sá í og valtra. Rakinn í yfirborðinu sem er fræunum nauðsynlegum til þess að spíra tapast allveg. Ef vorið og sumarið verður eins þurrt og síðustu sumur getur það skipt sköpum að sá í rakann og nýunnin jarðveginn.

Það þarf ekki að koma á óvart að það geri einhvert vorhret. Þetta er ekki fyrsta skipti sem það kemur fyrir. Ég held nú reyndar að það sé frekar algengara en hitt. Það er bara misjafnt hvað það er mikið og stendur lengi yfir. Alltaf gengur það yfir og það kemur sumar aftur.emoticon

Það er ólán þegar vorhretið hrekkur ofaní kok á manni með tilheyrandi hálsbólgu og kvefi. Það gekk nú svo til með mig að þessu sinni. Það svo að á tímabili missti ég allveg röddina. Ekki held ég að það hafi neitt verið til skaða og engan vegin víst að ég hefði sagt neitt að vita á meðan á því stóð.

Jón í Lyngholti reyndi að halda uppi samræðum við mig á miðvikudagskvöldið en varð frá að hverfa. Nú er röddin að koma aftur og ég hef trú á að við Jón eigum eftir að spjalla saman í framtíðinni. emoticon     

13.05.2011 23:13

Þúsund tonn af skít.

Verð á áburði hefur margfaldast nú á nokkrum árum. Við sem byggum afkomu okkar á heyskap og öðrum jarðargróða förum ekki varhluta af þeirri staðreynd. emoticon

Þetta hefur leitt til þess að nú leita menn allra leiða til þess að nýta þau áburðarefni sem eru í skítnum betur. Það er reyndar ekki svo að það kosti ekki neitt að bera skít á tún og í akra en með hækkandi áburðarverði borgar það sig að leggja meira í þann þátt ef það er til þess að ná betri nýtingu og spara kaup innfluttum áburði.

Ekki dugar að ætla sér að fá uppskeru af jörðinni án þess að sjá henni fyrir þeim næringarefnum sem hún þarf. Annað kemur manni strax í koll og í verstafalli myndi flokkast sem rányrkja.

Vandamálin við ná góðri nýtingu á kúskít á túnin hefur helst verið að oft er annmörkum háð að koma honum út á þeim tíma sem best hentar. Sum vor hefur það einfaldlega alls ekki verið hægt. Það er tímafrek vinna að keyra fleiri hundruð tonn af mykju út og dagarnir til þess á vorin ekki alltaf margir.

Annað atriði sem einnig hefur verið til vandræða er að ef ekki rignir strax eða allavega fljótlega á nýáborinn skítinn þornar hann á túnunum og skrælnar. Hann gengur ekki niður í jarðveginn heldur fer saman við heyin þegar heyjað er. Slíkt hey er ekki lystugt og étst ekki.

Búnaðarfélögin hér í Flóanum eru aðilar að Skarna ehf sem er hlutafélag sem á og rekur stóran haugtank með niðurfellingarútbúnaði. Í veiðleitni okkar að ná meiri verðmætum úr fjóshaugnum höfum við fengið þetta verkfæri í vinnu til okkar nokkrum sinnum. 



Hann Davíð var mættur hérna um miðjan dag í gær og tók til við að keyra úr haughúsinu. Þegar verkinu var lokið nú í dag var búið að taka úr haughúsinum rúmlega 1000 tonn af skít og fella niður í u.þ.b 55 ha af túnum.

Flettingar í dag: 353
Gestir í dag: 13
Flettingar í gær: 609
Gestir í gær: 42
Samtals flettingar: 144785
Samtals gestir: 25703
Tölur uppfærðar: 18.5.2024 06:59:42
clockhere

Í Flóanum

Nafn:

Aðalsteinn Sveinsson

Farsími:

8607714

Heimilisfang:

Kolsholti I

Staðsetning:

Flóahreppur

Heimasími:

4863304

Tenglar