Í Flóanum |
||
07.05.2012 07:30LágfótaHonum Þorsteini Loga í Egilsstaðakoti brá illa í brún nú einn morguninn þegar hann varð var við að það var tófa að læðupokast í lambfénu hjá honum nánast heima við fjárhús. Þorsteinn brást skjótt við og hringdi í Sigmar frænda sinn í Jaðarkoti og fékk hann til þess að koma í hvelli og freista þess að vinna á kvikindinu. Þorsteinn fylgdi rebba svo eftir á hlaupum þegar hann reyndi að forða sér og gat vísað Sigmari nokkurn veginn á hann þegar hann mætti á svæðið með þau tæki sem til þarf. Þar náði Sigmar honum svo í færi og mun þessi refur ekki aftur hrella bóndann í Egilsstaðakoti eða lömbin hans. Það eru ekki mörg ár síðan refur fór að vera á þessu svæði. Þegar ég flutti í Flóann fyrir bráðum hálfri öld síðan, og á meðan ég var að alst hér upp, þekktist ekki að hér væru refir. Þegar fyrst sást til rebba hér, að mig mynnir um 1980, þótti það ekki minna fréttnæmt en ef sést hefði til geimveru á svæðinu. Upp úr þessu var vitað um nokkur greni efst gamla Hraungerðishreppum sem fylgst var regulega með og þau unnin ef dýr komu í þau. Það er svo ekki fyrr en um aldarmótin síðustu að menn gera sér grein fyrir að lágfóta er kominn um allan Flóann allt niður í fjöru. Nú kippir enginn sér upp við það þó haupadýr sjáist hvenær ársins sem er, hingað og þangað um Flóann. Það þarf ekki að efa að tilkoma refsins á svæðinu hefur haft áhrif á allt annð lífríki. Það þarf t.d. ekki glögga menn til þess að taka eftir því hvað fuglalíf er mikið minna en áður var. Einnig fréttist af dýrbitnum lömbum orðið á hverju sumri. Nú er búið að skrá hátt í þrjátíu tófugreni í Flóahreppi og á hverjun ári bætast fleiri við. Þrátt fyrir minkandi skilning ríkisvaldsins (eða alls engann skilning) á nauðsyn þess að stemma stigu við fjölgun og útbreyðslu refsins hefur sveitarfélagið látið leita grenja á hverju ári undanfarið. Það er ástæða til þess að halda því áfram að mínu mati. ![]() Skrifað af as 29.04.2012 07:31SkipulagsmálÁrlega stendur Skipulagsstofnun fyrir samráðsfundi með sveitarfélögunum i landinu. Ég sat slíkan fund núna s.l. fimmtudag og föstudag austur á Hellu ásamt öðrum sveitarstjórnarfulltrúum og sveitarstjóra Flóahrepps. Skrifað af as 20.04.2012 07:24Gleðilegt sumarÍ tilefni þess að í gær var sumardagurinn fyrsti voru heyvinnutækin tekin til kostana seinnipartinn í gær. Ekki var það nú svo, þrátt fyrir að það vorar snemma, að hér væri kominn slægja á túninn. Hér var frekar um það að ræða að verið var að klára heyskapinn frá því í fyrra sumar. ![]() Hálmurinn á kornökrunum, sem aldrei var hægt að þurrka í haust, var nú orðinn brauðþurr og því tímabært að taka hann saman. Það mátti ekki seinna vera því nú er nauðsynlegt að fara að vinna akrana og sá til uppskeru á þessu ári. Annars var hér haldið upp á sumarkomuna með hefðbundnum hætti. Umf. Vaka stóð að vanda fyrir viðavangshlaupi á Þjórsárbökkum. Íbúar, bæði fyrrverandi og núverandi, úr gamla Villingholtshreppnum fjölmenntu eins og svo oft áður. Yngstu þátttakendur voru á fyrsta ári en sá elsti áttræður. Alls held ég að þátttakendur hafi verið hátt 60 sem fóru þennan rúma kílómetra saman í vorblíðunni í gær. Ég tók að sjálfsögðu þátt í hlaupinu. Það gerðu einnig flest mín barnabörn og slógst ég í för með þeim yngsta, honum Hrafnkatli í Jaðarkoti. Hann var gaf ekkert eftir í sínu fyrsta hlaupi á sumardagin fyrsta og ég hef trú á að þetta hafi ekki verið það síðasta hjá honum. Sigurverarar í víðavangshlaupinu voru þau frændsystkini frá vesturbænum í Kolsholti. Í kvennaflokki Sólveig Larsen og í karlaflokki Þorgils Kári Sigurðsson. Glæsilegur árangur hjá þessu unga íþróttafólki og óska ég þeim til hamingju með það. ![]() Skrifað af as 15.04.2012 07:23KvenfélagiðÞað er kunnara en frá þurfi að segja að í hverju samfélagi er öflugt og lifandi kvenfélag bráð nauðsynlegt. Þetta er staðreynd sem við hér í Flóahreppi erum vel meðvituð um. Hér eru starfandi hvorki meira en minna þrjú öflug kvenfélög. Kvenfélag Villingaholtshrepps er eitt þessarra kvenfélaga. Það hefur staðið fyrir öflugri starfsemi hér sveit um áratugi. Félagskonur eru á öllum aldri. Þó að þetta sé kannski ekki fjölment félag er um lifandi félag að ræða þar sem tekist er á við hin fjölbreyttustu verkefni. Á aðalfundi Búnaðarfélags Villingaholtshrepps sem haldin var í Þjórárveri á föstudagskvöldið s.l. var afreksbikar félagsins veittur. Þessi bikar var gefinn búnaðarfélaginu af Búnaðarsambandi Suðurlands á 100 ára afmæli félagsins. Hann er veittur, hverju sinni, þeim aðilum í Villingaholtshreppnum hinu forna sem á einn eða annan hátt telst hafa skarað fram úr að einhverju leiti. Um getur verið að ræða atriði á sviði félagsmála, ræktunnar, íþrótta, lista eða annarra menningarmála. Það var Kvenfélag Villingaholtshrepps sem hlaut bikarinn að þessu sinni er vel að honum komið. Ég óska félaginu til hamingu með það og ekki síður öflugt starf. ![]() Skrifað af as 12.04.2012 07:17ÚtreiðartúrÞað atvikaðist svo að ég komst í ágætan útreiðatúr á föstudaginn langa en þá var riðið út með Selfyssingum í Árborgarhreppi. Tilefnið var, að þá var með formlegum hætti, tekinn í notkunn brú á reiðleiðinni úr Tjarnarbyggð niður á Eyrabakka. Hestamenn í Flóanum riðu að brúnni beggja megin frá til þes að vera viðstaddir athöfnina. Það er reiðveganefnd hestamannfélagsins Sleipnis sem á veg og vanda að þessari brúargerð. Nefndin, með Einar í Egilsstaðakoti í broddi fylkingar, hefur unnið ötullega að því að opna reiðleiðir og leggja reiðvegi vítt og breitt um allan Flóann. Verkefnið er risastórt en reiðveganefndin, m.a. með styrk frá sveitarfélögunum, er þegar komin af stað með ýmis verkefni sem m.a. miða að því að koma eitthvað af hestaumferðinni frá akvegunum. Þar sem Jón í Lyngholti hafði í vetur aðstoðað Einar í því að koma áður nefndri brú fyrir þótti tilheyra að hann mætti við vígluna. Við setum reiðhrossin á kerru og keyrðum með þau að "Stóra-Aðalbóli" í Tjarnarbyggðinni. Þaðan riðum við með með öðrum hestamönnum af svæðinu að brúnni. Þessi brú, sem er gömul trébrú frá vegagerðinni, var sett á stóra áveituskurðinn sem grafin var á sínum tíma á mörkum Sandvíkurshrepps hinum forna og Eyrabakkahrepp hinum forna. Mikill fjöldi var samankominn við brúna bæði af hestum og mönnum. Að ræðuhöldum og borðaklippingum loknum var riðið til baka. Allur hópurinn stoppaði síðan hjá þeim Maddý og Jónasi í Tjarnarbyggðinni og þáðar veitingar. Að þvi loknu riðum við Jón áfram með þeim sem komu frá Selfossi þangað upp eftir. Ekki töldum við viturlegt að halda mikið lengra áfram þar sem við vorum báðir einhesta og u.þ.b. 20 km eftir til að komast heim. Hrossin voru því sett á kerru aftur og keyrð heim. Þetta var hin skemmtilegasti túr í fallegu veðri og góðra vina hópi. Skrifað af as 06.04.2012 07:39"Vertu til, því vorið kallar á þig".Nú bregður svo við, eftir leiðinda tíð síðasta hálfa árið, að það brestur á með vorblíðu á Einmánuði. Gróður er allur að lifna og jörð er þur og klakalaus sem á sumardegi sé. Ég er nú samt orðin eldri en það, að ég geri mér ekki grein fyrir, að það eru meiri líkur en minni að það eigi eftir að gera kuldakast áður en sumar kemur. Það breytir því ekki að það er alltaf kærkomð þegar byrjar að vora snemma. ![]() Allvega er upplagt að nota færið og koma því í verk sem ekki var hægt að gera í haust vegna ótíðar og bleytu. Þar á ég við að klára að kýfa og jafna til í skurðarstykkjum sem við ætlum til ræktunnar á komandi sumri. Það er einnig rétt reyna að þurka eitthvað af þeim hálmi sem ekki var hægt að ná í haust áður en farið verður að plægja akrana. Það er líka ekkert því til fyrirstöðu að hefja jarðvinnslu að fullu, Ég ráðstafaði hluta úr gærdeginum í að tæta nýtt land sem við höfum áhuga á að sá í í vor. Nú er einnig hægt að komast um öll tún og erum við þegar byrjaðir á að koma skítum á túnin. Skrifað af as 30.03.2012 07:20Björt framtíðÉg hef áður sagt frá því hér á síðunni að fátt finnst mér meira gefandi en fylgjast með unga fólkinu hér í sveit standa sig vel. Það er nefnilega bráð nausynlegt fyrir geðheilsuna að hafa trú á framtíðinni. Að hafa trú á framtíðinni gefur þessu lífi fyrst og fremst gildi. Nemendur 1. til 7. bekkjar Flóaskóla héldu árshátíð sína á miðvikudaginn. Eins og fyrri daginn var ekki ráðist á garðin þar sem hann er lægstur. Söngleikurinn Ávaxtakarfan var tekinn til sýningar. Útkoman var stórglæsileg. Allir nemendur skólans í þessum bekkjum tóku þátt í verkefninu. Það er magnað að koma á hverju ári á þessar skólaskemmtanir og sjá þau leika og syngja heilu söngleikina. Skrifað af as 26.03.2012 21:51Lýðræðishalli...?Landsþing Sambands Íslenskra sveitarfélaga var haldið í Reykjavík á föstudaginn var. Þar var til umræðu það sem efst er á baugi hjá sveitarfélögunum um þessar mundir. M.a. var sérstaklega tekið til umfjöllunar hvernig sveitarstjórnir geta unnið betur með íbúum í sveitarfélaginu og hvernig hægt væri að efla sveitarstjórnarstigið frá því sem nú er. Ýmislegt í þessari umræðu finnst mér þversagnakennt. Margt af því sem nefnt er í þessu sambandi vill nefnilega bíta illilega í skottið á sér. Lýðræðið er nefnilega engan vegin einfalt í framkvæmd. Það er stefna sveitarfélaganna og ríkisvaldsins almennt að efla sveitarstjórnarstigið með flutningi verkefna frá ríki til sveitarfélaga. Með því móti er verið að færa ákvarðanatöku nær fólkinu. En til þess að sveitarfélögin hafi bolmagn til þess að taka við þessum verkefnum eru þau flest of lítil þannig að það þarf helst að byrja á því að sameina þau. Og þarna virðast ekki duga neinar litlar sameiningar eins og gert var hér í Flóanum. Það er jafnvel verið að tala um að sveitarfélög þurfi helst að vera ekki minni en 10- 20 þús. íbúar til þess að geta ein og sér ráðið við öll verkefni sem talað er um. Mér sýnist það nú því vera þannig fyrir flest sveitarfélög að í raun er verið að færa ákvarðatökur fjær fólkinu en ekki nær ef þessi vegferð verður farin. Annað er það sem líka fylgir þegar verkefni eru færð til sveitarfélaga er að til að tryggja jafnræði í landinu, setur ríkisvaldið reglur og kröfur um þá þjónustu sem sveitarfélögin eiga að veita. Í raun eru flestar ákvarðanir varðandi málefnin því teknar á vettvangi ríkisins. Síðan þarf ríkisvaldið að hafa eftirlit með því að sveitarfélögin standi sig og að íbúar hafi kost á þeirri þjónustu sem lög mæla fyrir um. Það kostar líkast til eitthvað. Nú er það ekki svo að ég sé því mótfallin að sveitarfélög taki við fleiri verkefnum frá ríkinu. Það hefur sýnt sig í mörgum tilfellum að betur er farið með opinbert fé í rekstri málaflokka hjá sveitarfélögum en ríkinu. Sveitarfélög hafa leyst ágætlega úr mörgum verkefnum sem þau hafa á sinni könnu m.a. með samvinnu sín á milli t.d. í byggðasamlögum, samstarfssamningum eða á vettvangi héraðsnefndar eða landshlutasamtaka. Þessi samvinna veldur sumum spekingnum áhyggjum. Það er talað um lýðræðishalla því þessum samstarfsverkefnum er ekki beint stjórnað af fólki sem kosið er í almennri kosningu. Ég velti því fyrir mér hvort er lýðræðislegra fyrir íbúa hér í sveit að vera hluti af 10 til 20 þús. manna sveitarfélagi sem geti tekið að sér hin flóknustu verkefni eða búa áfram í 600+ íbúa sveitarfélagi sem leysir hluta af verkefnunum í samstarfi við önnur sveitarfélög. Á Landsþinginu á föstudaginn var einnig í þessu sambandi rætt um íbúakosningar og persónukjör. Mikilvægt er að menn átti sig á þeim göllum sem geta verið við framkvæmd slíkra kosninga og spurning hvort þetta er í raun til þess fallið að auka lýðræðið. Vandasamt getur verið að taka út einstakar ákvarðanir og efna til kosninga um. Gæta verður þess að slíta ekki hlutina úr samhengi og að íbúakosning setji ekki málin bara í pattstöðu. Hugsanlega eru mál þannig að hægt er að fella í íbúakosningu allar færar leiðir og samfélagið sitji uppi með versta kostinn að ekkert er hægt að aðhafast í málinu. Persónukjör er ekki svo óþekkt fyrirbrigði í mörgum smærri sveitarfélögum enda virka þær best við slíkar aðstæður. Mér finnst þó hæpið að telja óbundnar kosningar lýðræðislegri en listakosningar þar sem einfaldur meirihluti kjósenda getur í raun ráðið öllum sætum sem kosið er í. Talsvert hefur verið rætt um það að koma á kosningafyrirkomulagi sem er sambland af listakosningum og perónukjöri. Ýmsar leiðir eru færar í því sambandi og eru við lýði víða um heim. Hér á landi hefur mönnum ekki tekist að koma sér saman um neitt slíkt ennþá. Umræða um þetta rís þó alltaf upp rétt fyrir kosningar en aldrei tekist að gera neinar breytingar. Það sem mér finnst þó mikilvægast í þessum málum er að það eigi sér einhverjar samræður í hverju samfélagi um sem flest málefni og að kjörnir fulltrúar gefi því bæði tíma og gaum hvað íbúar hafa að segja. Það stendur þá líka svolítið upp á íbúana að taka þátt í þessari umræðu og koma sínun sjónarmiðum á framfæri. Þetta þíðir samt ekki að engar ákvarðanir megi taka nema alllir hafi samþykkt hana. Kjörnir fulltrúar verða síðan að hafa kjark til þess að taka sínar ákvarðanir út frá heildarhagsmunum fram yfir sérhagsmuni og langtímahagsmunum fram yfir skammtímahagsmuni. Þeir standa svo eða falla með sínun ákvörðunum í næstu kosningum. Skrifað af as 19.03.2012 07:08P 443Fyrir réttu ári síðan rifjaði ég upp gamla ferðasögu hér á síðunni. Gömul saga () Tilefnið var að kona mín til margra ára, hún Kolbrún, átti stórafmæli og rifjaðist þá upp fyrir mér þessi saga frá fyrstu mánuðum í okkar sambandi. Nú er það svo að þegar maður hefur búið með sömu konunni í áratugi fer ekki hjá því að við erum farin að þekkja hvort annað bísna vel. Ég get fullyrt það að það er ekki algengt að hún Kolbrún láti koma sér á óvart eða það að henni verði svarafátt. Þeim tókst það nú samt, Sigmari og Kristni, að koma henni í opna skjöldu í gær þegar fjölskyldan kom saman í tilefni þess að enn á ný var komið að afmælisdegi hjá móður og tengdamóður þeirra. Og ég náði því meira að segja á mynd. Síðustu vikur hafa þeir, með mikilli leynd, gert upp gamlan Moskvítch. Þetta er samskonar bíll og sagt er frá í ferðasögunni sem ég nefndi hér fyrst. Þennan bíl, nær full uppgerðan og gljáfægðan, færðu þeir henni svo í afmælisgjöf í gær. Afmælisdagurinn er reyndar í dag en þar sem fjölskyldan er mannmörg og upptekin í ýmsu, á virkum dögum frekar, var komið saman í gær í tilefni hans.
Sennilega var Kolbrún farin að reikna með því að aldrei yrði af þessu og þvi kom það henni gjörsamlega á óvart að þeir skyldu vera búnir að þessu og það án þess að hún vissi af því. Nú þarf bara að koma bílum á skrá svo hægt sé að fara að ferðast á Moskanum aftur. Til þess að eiga nú einhvern þátt í þessu gamani þá ákvað ég að gefa henni Kolbrúnu númeraplötur á bílinn og hafa þær nú verð pantaðar. Það kom að sjálfsögu ekkert annað til greina en að setja á gripinn gamla númerið sem var á Moskanum sem hún eignaðist fyrir 33 árum: P 443
Skrifað af as 11.03.2012 07:21ÁrsuppgjörÞað er lögð á það áhersla hér hjá Flóahrepp að bókhald sveitarfélagsins nýtist sem best við fjármálastjórn sveitarfélagsins. Til þess að svo megi vera er nauðsynlegt að upplýsingar úr því hverju sinni gefi rétta mynd af stöðunni. Einnig er mikilvægt að ársuppjör liggi fyrir sem allra fyrst og endurskoðun sé markviss og trúverðug. Í síðustu viku voru ársreikningar Flóahrepps fyrir árið 2011 lagðir fram á sveitarstjórnarfundi til fyrri umræðu ásamt endurskoðunnarskýrslu frá KPMG. Mér finnst rétt að halda því til haga að ég veit ekki um neitt annað sveitarfélag sem lokið hefur við gerð ársreiknings og lagt hann fram til umræðu í sveitarstjórn. ![]() Afkoma Flóahrepps á síðasta ári var jákvæð um tæpar 25 milljónir. Það er nokkuð betri afkoma en reiknað var með og munar þar mestu að framlög jöfnunnarsjóðs drógust minna saman frá fyrra ári en reiknað var með. Útsvarstekjur voru aftur á móti heldur minni en fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir en aðrar tekjur meiri. Sá gjaldaliður sem mest fór fram úr áætlun var vegna snjómoksturs en menn eru allveg hættir að reikna með að það geti snjóað. Reyndin varð síðan allt önnur síðustu vikur ársins. Fjárveiting til snjómoksturs á þessu ári kláraðist einnig á fyrstu vikum ársins. Nú er bara að vona að ekki snjói meira fyrr en árið 2013. ![]() Skrifað af as 06.03.2012 22:23Af himnum ofanÍ vetur þegar snjóinn tók að taka upp og maður fór að sjá aftur í kringum sig héðan af bæjarhlaðinu virtist flest vera með kunnuglegum hætti. Eitt var þó sem fljótlega vakti athygli mína en það var að hér rétt norðan við bæinn var komin forláta gjafagrind sem ég kannaðist ekkert við. Skrifað af as 02.03.2012 22:23ÚrvalsmjólkÞað er gaman að segja frá því að nú í dag var sjö mjólkurframleiðendum héðan úr Flóanum veittar viðurkenningar fyrir að leggja inn úrvalsmjólk allt síðast liðið ár. Mér finnst skemmtilegt að við hér í Félagsbúinu í Kolsholti I skulum nú vera í þessum hópi. Það er metnaður allra mjólkurframleiðenda að viðhalda miklum gæðum í íslenskri mjólkurframleiðslu. Það eru gerða mjög strangar gæðakröfur til allra mjólkur sem er lögð inn og vel er fylgst með að svo er. Það eru tekinn sýni úr allri mjólk sem sótt er til okkar. Kannað er hvort um lyfjaleyfar geti verið að ræða og vikulega eru mældir hinir ýmsu þættir s.s.gerlamagn, frumutala og fítusýrur sem ákvarðar síðan hvort hún stenst gæðakröfur. Ef mjólkin stenst ekki gæðakröfur er hún verðfeld og/eða sett er á sölubann frá viðkomandi búi. Það stendur enginn framleiðandi í slíkri framleiðslu enda gengur það alls ekki upp. Þeir sem aftur á móti koma allra best út í þessum mælingum fá greitt sérstakt álag á mjólkurverðið eftir hvern mánuð fyrir úrvalsmjók. Á hverju ári eru það alltaf nokkrir sem ná því að vera með úrvalsmjólk alla mánuðu ársins. Á aðalfundi Flóa og Ölfusdeildar Auðhumlu (samvinnufélag mjólkurframleiðenda) sem haldinn var í dag kom fram að á síðasta ári voru 42 mjólkurframleiðendur á svæði deildarinna. Af þeim voru 7 innleggendur sem lögðu inn úrvalsmjólk allt síðasta ár og hafa þeir aldrei verið svo margir áður. Skrifað af as 25.02.2012 07:26SólarferðMér var boðið á frumsýningu í gærkvöldi. Leikfélag Selfoss frumsýndi í Litla Leikhúsinu á Selfossi leikverkið "Sólarferð" eftir Guðmund Steinsson. Þetta var frábær sýning og hreint út sagt magnaður leikur hjá leikurunum. Ég hvet alla til þess að fara og sjá þessa sýningu hjá leikfélaginu. ![]() Sól er nú farin að hækka á lofti hér í Flóanum og daginn tekin að lengja. Það hefur lítið farið fyrir útreiðum hjá mér á þessum vetri fram til þessa. Tíðafarið hefur nú ekki verið til þess að hvetja mann í slíkt auk þess sem margt annað hefur verið að gera. En með hækkandi sól er nú ekki hægt að neita sér um það lengur. Reiðhestarnir hafa nú verið teknir inn og járnaðir. Ég skrapp rétt sem snöggvast á bak í blíðuni í gær og mun að öllum líkindum finna mér einhvern tíma til þess á næstu dögu, vikum og mánuðum. Þeir voru í sólskinsskapi félagarnir úr Hólminum og Helgafellssveitinni sem hér litu við í kaffi í gær. Þeim vantaði víst traktor og brugðu sér því í verslunarleiðangur hingað í Flóann. Þeir gerðu gríðaleg góð kaup og héldu alsælir aftur vestur á Snæfellsnes. Skrifað af as 19.02.2012 22:38Gæðingsefni og ÞorrablótVið skruppum vestur á Snæfellsnes um helgina. Erindið var að fara á þorrablót að Skildi í Helgafellssveit með þeim Ástu og Guðjóni á Borgarlandi. Þau voru reyndar stödd á folaldasýningu í Söðulsholti í gærdag þegar við vorum á leiðinni vestur. Það þótti því tilvalið að koma þar við og líta á gæðingsefnin. Það er glæslegur húsakosturinn í Söðulsholti. Þarna var samankomin hópur af gæðingsefnum og ljóst, að ef allar þær væntingar sem þarna voru, ganga eftir verða menn vel ríðandi á Snæfellsnesinu eftir nokkur ár. Eins og víða á svona sýningunum skildist mér líka að folöldin sem ekki komu væru engu síðri en þau sem komu þannig að menn verða aldeilis ekki hestlausir á Nesinu í framtíðinni. Þorrablótið var hin besta skemmtun eins og við var að búast. Eins og tilheyrir voru skemmtiatriðin helst á kostnað sveitunganna og eru Helgfellingar engir eftirbátar annarra í því að gera grín að sjálfum sér. Jón Gamli og Björk mágkona mín voru að sjálfsögðu mætt á svæðið og létu ekkert fram hjá sér fara. Jón hafði reyndar þann starfa að taka skemmtunina upp á myndband fyrir komandi kynslóðir. Ekki tók ég eftir því hvað hljómsveitin heitir sem spilaði þarna en hún var verkinu vel vaxin. Þeir spiluðu af krafti fjöruga dansmúsik og héldu uppi miklu stuði. Ég hef ekki hitt Didda söngvara hljómsveitarinnar í þessu hlutverki áður en hann er greinilega öflugur sögvari og gaf ekkert eftir. Við keyrðum síðan heim í Flóann aftur í dag. Áður áttum við góða stund í spjalli með þeim Ástu og Guðjóni í morgun. Renndum síðan sem snöggvast út að Kverná. Heimilisfólkið var ekki heima en þar hittum við Sólrúnu sem þar gætti búsins um helgina. Skrifað af as 14.02.2012 20:50FlóagulliðHún Gyða sem starfar á skrifstofum Flóahrepps og sér um bókhaldið færði sveitarfélaginu að gjöf innrammaða og stækkaða ljósmynd eftir sig nú á mánudagsmorguninn. Gyða sem er áhugaljósmyndari sagðist vilja sýna sveitarfélaginu þakklætisvott fyrir að veita sér vinnu og gott starfsumhverfi. Myndin, sem hún nefnir " Flóagull ", er tekin við Þingborg og sýnir trjágróðurinn þar í haustsólarljósi. Skrifað af as Flettingar í dag: 56 Gestir í dag: 10 Flettingar í gær: 836 Gestir í gær: 166 Samtals flettingar: 190368 Samtals gestir: 33806 Tölur uppfærðar: 2.4.2025 07:02:42 |
clockhere Eldra efni
Í Flóanum Nafn: Aðalsteinn SveinssonFarsími: 8607714Tölvupóstfang: kolsholt@islandia.isHeimilisfang: Kolsholti IStaðsetning: FlóahreppurHeimasími: 4863304Tenglar |
© 2025 123.is | Nýskrá 123.is síðu | Stjórnkerfi 123.is